Meistarar ljóss og skugga

Meistarar ljóss og skugga 

 (mynd)

(Mynd: "Guð lífs og endurnýjunar" eða "Hið alsjáandi auga Guðs". Framhluti hökuls i S:t Jakobskirkjunni í Stokkhólmi, gerður 1968 af Libraria fyrirtækinu. Mynd af höklinum i heild sinni hef ég sett fram áður í blogginu mínu. Gerð hökulsins reiknaðist sem ársverk fyrir 2 manneskjur. Táknfræðin á höklinum í heild er samstæð og afskaplega talandi fyrir bland nútímaguðfræði og upplýsingarguðfræði).

Í kvöld sit ég og hugsa listina og lífið. Ég er búinn að vera á fyrirlestri í Ríkislistasafninu í Stokkhólmi (Nationalmuseum). Fyrirlesturinn var nátengdur yfirstandandi sýningu sem kallast "Að blekkja augað" eða Trompe l'œil..

Reyndar hafði ég þegar séð sýninguna og varð það ef til vill til þess að hugur minn hvarflaði til þeirra listamanna sem ég hef verið hvað mest í tengslum við í kirkjunni, en mikið hefur verið um listsýningar þar umliðin 2 ár. Samskipti við fjöldann allan af listamönnum og listnemum hefur fengið mig að skoða stöðu þessara samferðamanna okkar í gegnum lífið. Margir þessara listamanna sem ég hef haft næstum því dagleg samskipti við, eru illa staddir, mikið ævintýrafólk sem lifir fyrir einhver óraunveruleg listamannalífsídeöl sem lítið hafa með það öryggi og náðugheit sem ég kýs. Þetta fólk hefur þó sömu lífssýn og ég. Þetta fólk, listafólkið deilir með okkur sömu samfélagssýn, fjárhagslegum veruleika, gildismati og virðingu fyrir lífinu, lífi okkar rétti til skoðunarmyndunar. Þessir listamenn og listanemar, verða kannski einhverjir frækilegir meistarar ljóss og skugga, hver veit. Að kaupa listaverk þeirra er líklega eins og að kaupa hlutabréf. Maður gerir sér það til gamans, ekki vegna þess að maður veit að þau verða mikils virði fljótlega.  Sama gildir um listamennina.  Það skondna var að um daginn var einn kunningi minn úr þessu listamannagengi spurð hvað henni fyndist um efnahagsástandið og minnkun kaupmáttar. Hún svaraði "Ég hef lifað á barmi fátæktar allt mitt líf. Nú gleðst ég yfir því að loksins hafi ríkisvaldið og allir hinir fengið að kynnast, af eigin raun, hversu báglegt ég hef haft það."

En í hverju liggur gildismat okkar.  Bindum við huga okkar við möguleikana sem við höfum, til dæmis að geta ferðast eða endurnýjað eldhúsið á 10 ára fresti eða bílinn á 4 ára fresti?  Að geta leyft sér að fara út og borðað með vinum og vandamönnum oft og verslað í Hagkaup í stað Bónus?  Eða liggur frelsið í einhverju sem ekki verður bundið í peningum og handfjatlað, neytt, ekið á um notað til daglegs brúks?  

Í ávarpi sem h.h. Benedikt XVI páfi hélt fyrir nokkru, áminnti hann þjóðir heims um hin æðri gildi. Það var eins og einhver ónotakennd breiddist um heimsbyggðina og fólk sameinaðist um orð hins annars umdeilda Benedikts páfa.  Hann hafði sagt það sem allir hugsuðu þegar þeir leituðu skjóls frá endalausa veraldarkapphlaupinu.  Hver er ekki hinn innsti draumur alltra?  Hver er ekki hinn innsti draumur þeirra sem sækja heim sálfræðinga, borða pillur mót streitu, pillur og næringarefni til að halda út einn tíma lengur og eta síða pillur og bætiefni til að bæta fyrir burttapaðan svefn?  Hversu margir líða ekki af magasári, andþyngslum, ónotum fyrir hjarta, svima, síþreytu, líkamlegum verkjum - bara vegna álag og krafa samfélagsins og þeirra fyrirmynda sem fólki er beint á beint/óbeint að fylgja?  Sem prestur og lífsferðalangur hef ég séð of mikið svona lagað.  Ég játa það fúslega að mér þykir vænt um heiminn.  Mér þykir vænt um allt þetta góða og fallega sem heimurinn hefur skapað og kallað fram.  Það er ekkert að því.   En samtímis má manneskjan ekki gleym hinum æðri gildum - gildunum sem Benedikt XVI talar um.   Hér talar hann ekki um að við þurfum að "sætta okkur við neina meðalmennsku". Nei. Hann talar um hin æðri gildi.  Hann talar um forgangsröðun.

Hver eru hin æðri gildi sem við eigum að kappkosta að vernda og forgangsraða?  Hin æðri gildi eru þau sem gera okkur að manneskjum, það eru þau gildi sem gera okkur að góðum manneskjum. Gildin snúast um kærleikann til lífsins, kærleika og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.  Að höndla viskuna að gefa og kunna njóta óskilorðsbundins kærleika.  Lifa heilbrigðu lífi í samhljóðan við getu okkar (og annara) og náttúrunnar. 

Það er ekkert að því að vera rík(ur). En áður en þú verður rík(ur) þarftu að gæta að því að allir sem starfa fyrir þig hafi mannsæmandi líf. Þetta á við um alla sem starfa hjá þér, bæði grunnframleiðsluna í Ghana og Úganda sem og sölumennina á Siglufirði og í Kaupmannahöfn.  Að vera ríkur er bundið meiri ábyrgð en fólk grunar.

Sama gildir um ríkidóm andans.  Hann setur okkur skyldur en gefur svo óumræðanlega gleði.  Hin stærri gildi lífsins snúast um að leita þess sem rétt er.  Það er að setja sig númer eitt. Ef við elskum ekki okkur sjálf, getum við ekki elskað aðra. Við slítum okkur út og þá er ekkert að gefa. Byggjum því hvort annað upp, gerum samfélagið að hvatningarmiðstöð. Setjum brosið, liðveisluna, gleðina, einlægnina og trúmennskuna framar öðru í einn mánuð og sjáum hvort okkur líði ekki betur?  Er þetta svo fjarstæðukennt?  Vinna minna, tala við fólk, fara í heimsóknir, skíta í sjónvarpið, hringja í gamla vini, leita að fólki sem vantar hjástoð af einhverju tagi. Og sjá:  Þér líður vel og þú ert komin(n) í forsal hinna æðri gilda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Þakka þér fyrir þennan pistil. Ætli margur listamaðurinn þjáist ekki af ófyrirsynju vegna rómantískra hugmynda um hinn þjakaða listamann?

Einn prófessoranna minna rétti að mér bók og sagði að ég yrði að lesa hana. Sendi mig svo með hana að láni. Bókin er eftir James Elkins og heitir On the strange place of religion in contemporary art. Hér er hún á Amazon. Kannastu við hana eða eitthvað annað eftir Elkins?

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 24.10.2008 kl. 02:44

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

...aÐ ófyrirsynju....

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 24.10.2008 kl. 02:45

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Nei ég kannast ekki við James Elkins, er hann áhugaverður fyrir okkur lífslistarfólkið?  Vissulega er heiti bókarinnar spennandi. Ég er alltaf að hugsa hversu fátækt fólk er í dag sem ekki skapar sér tækifæri til að kynnast list, njóta lista og gera listina að hluta lífs síns.

Blogga soldið meira um þetta í dag...  sjá þar!  

Baldur Gautur Baldursson, 25.10.2008 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband