Tilvísunarheimur nútímans og "þrívegurinn"

Burtséð frá því að ég telji að fólk líð af andlegri fátækt í dag, held ég að enn fleirum sé illa komið hvað varðar menningarsögulega fátækt. Þetta varð ég áskynja í safnaleiðangri mínum núna í fyrri viku. 

Það er nú svo með mig að ég fer allnokkuð á listsýningar. Í vikunni fór ég á tvær mjög ólíkar sýningar, aðra í Nationalmuseum og hina á Moderna Museet hér í Stokkhólmi. Á báðum þessara sýninga var mikill fjöldi fólks. Stóð fólk nokkuð þétt í sýningarsölunum, svo þétt að ég heyrði hvað fólkið sagði sín á milli. Það var að spjalla um listaverkin, skýra út fyrir fylgdarfólki sínu, skiptast á skoðunum og áliti. Þetta var fróðleg ferð á vit hins nútímatengda samfélags, sem þó er svo þekkingarlega eftir á að manni blöskrar.

Ég vil taka það fram að tel mig ekki vera neinn "besservisser" í menningarsögu. Ég hef fengið góða almenna menntun og síðast en ekki síst leiðsögn af mínum nánustu. Tónlist, góðum kveðskap og ritverkum hefur verið haldið að mér frá barnæsku. Málverkalist, byggingalist og sögulegt samhengi þessa tveggja hefur verið hluti af lífi mínu. Fróðleiksfýsn og gleðin yfir því að hitta nýtt púsl í heildarmyndina, myndina sem gerir okkur að þeim við erum, menningarverum - hefur einatt verið mér samstíga í lífinu. Mér hefur verið innrætt að það menningarsamfélag sem við lifum í í dag, sé arfur fyrri tíma og kynslóða.  Að þekki maður ekki til þess sem áður hefur verið, erum við innantóm í þekkingu okkar og fátæk.  Fátæk í þeim skilningi að okkur vantar forþekkingu, forsendurnar eru ekki fyrir hendi og við því fátæk að því sem er mikilvægt. Tilvísunarheimur nútímans hefur skroppið saman. Orðið "tilvísunarheimur" er íslenskun mín á orðunum "reference world" (en.) eða "referens värld" (se.).

Þegar ég stóð þarna á þessum tveimur söfnum í vikunni, er ég nefndi hér að framan, heyrði ég fólk tala um listina.  Mög listaverkanna höfðu skírar tilvitnanir eða skírskotanir til grískrar goðafræði, stjórnmálasögu, Biblíunnar, trúarkenninga, helgisagna, þekkra ljóða fornaldar, grasafræði, byggingalistar hinna ýmsu tíma og margt margt fleira. 

Ég hugsaði með mér hvort fólkið sem hefur fengið góða grunnmenntun í menningasögu njóti ekki betur heimsóknar á listsýningar?   Það er því að mér finnst núna í dag, vera kominn tími til að grunnskólar og framhaldsskólar leggi áherslu á að þekkingarmyndun á öðru plani en hingað til hefur verið gert. 

Ég vil nefna þessa þekkingarmyndun "þríveginn":

Menningarsögu: Samfélagsfræði, saga, kristin fræði, siðfræði, landafræði, list o.fl...

Tungumál: Íslenska og erlend tungumál, framsögn og samskipti, ritun o.fl...

Raungreinar: Stærðfræði, eðlis- og efnafræði, jarðfærði, náttúrufræði, tölvufræði o.fl...  

Þetta myndi, að mínu mati gera einstaklinga betur undir það búna að takast á við lífið og njóta þess alls sem það hefur upp á að bjóða. Ennfremur tel ég að nemendur í grunnskólum og gagnfræðaskólum ættu léttara með að finna sína að menntunartakmarki sínu. Þetta gæfi sömuleiðis góðan grunn fyrir þá sem hyggðu ekki á langskólanám eða kysu að fara aðra leið í starfsmenntunarferli sínu.

Spurning hvort ekki sé kominn tími til að skoða fátæklega og flókna aðalnámskrá grunn- og gagnfræðaskólanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Auðuns

Baldur minn, Aðalnámskrá grunn-og gagnfræðaskóla er uppfærð á hverju ári og að mínu mati er aðalnámskráin mjög góð hér á íslandi og betri en í mörgum löndum.... t.d. erum framar en frændur okkar Danir í þessum efnum. Ég hef sótt marga fundi og fyrrilestra varðandi skólamál á ísl. og fundi þar sem t.d. pisa sem er alþjóðlegt verkefnið hefur verið til umfjöllunar.

Svo ísland er ekki alslæmt Baldur minn.

Kærleiksknús til þín

Vibba

Vilborg Auðuns, 25.10.2008 kl. 17:04

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Eins og þú hefur líklega lagt merki til þá var ég að tala um menntun almennt. Hér í Svíþjóð er oft talað um að fólk sé "allmänt bildat", það er að segja að það sé vel að sé á ólíkum sviðum. Hvort sem skólaganga búi þar að baki eður ei. Það sem ég sé að "námskrám" þeirra landa sem ég þekki til nú í, virðist mér fálmkennt vera unnið að því að vekja samfélagsvitund og þekkingu á menningu.  Menning er það sem gerir okkur samstæðari og meðvitaðri um siðfræði og leikreglur samfélagsins. Vitum við ekki af hverju við gerum hitt eða þetta, getum við vart gert kröfu til að fólk fari rétt að lögum og reglum. Fólk verður að skilja samhengið. Af hverju má ég til dæmis ekki kaupa mér dollu af rauðri málningu og mála Stjórnarráðshúsið? Jú, jafnvel þótt mér myndi þykja það ef til vill gaman, er eitthvað sem segir mér, annað en að mér verði refsað fyrir það, að þetta sé eitthvað sem maður gerir ekki. Þessi tilfinning er eitthvað sem ég veit að handan búi sterk rök. Hugtök spretta fram svo sem virðing eignarrétts, Íslandssaga, fagurfræði, hefð, gagnkvæmni (að húsvörðurinn í Stjórnarráðshúsinu komi ekki næstu nótt og máli húsið mitt fjólublátt)...  svo mætti lengi telja. Það er eitthvað sem við vitum, og við vitum það vegna þess að við höfum LÆRT það, í skólanum eða í nærumhverfi okkar. Það er mitt mat í dag að skólakerfinu hafi verið sett aukin ábyrgð á börnunum okkar. Því miður tel ég að núverandi námsskrá sé illa til þess fallin að forma umgjörð um starfsskyldur skólanna og sé fálmkennd og leiði því miður ekki til þess (sem hún á að gera) að skapa dugandi og ábyrgðarfulla þjóðfélagsþegna.

Baldur Gautur Baldursson, 26.10.2008 kl. 06:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband