Klukkan færð einn tíma til baka - vetrartími

Ég sit hérna í kirkjunni og bíð þess að hjólin fari að snúast hérna í samfélaginu í Stokkhólmi. Ég kom aðeins fyrr í dag því ég þurfti að stöðva turnklukkuna í einn tíma. Þetta er gömul maskína sem kann því illa að vera færð aftur á bak, svo best er bara að stöðva klukkuna og bíða einn tíma.

Það er eins og tíminn standi í stað. Manni finnst stundum sem dögunum fleygi fram og maður tapi gersamlega tölu þeirra, en svo gerist það að allt situr fast. Ekkert gerist og dagarnir festast í flöskuhálsi tímans. Þannig líður mér í dag. Allt situr fast. Ekkert gerist og mér finnst ég vera eyða tíma í bið. Þetta er það ömurlega við haustin, þessi yfirgangstími frá birtu, yl og lífi, til dimmu, kulda og eyðingar.

Það hefur lengi verið vitað að afhelgun samtímans myndi skila sér inn á boð kirknanna á norðurlöndum, rétt eins og meðal annara lúterskra kirkna í heiminum. Afhelgun sem kirkjan hefur bara beðið eftir að bærist upp að kirkjuskipinu, er komin. Þetta er eins og sena úr hryllingskvikmynd. Óhræsið umlykur kirkjuskipið á alla vegu.  Fólkið hrætt og reynir að ýta grænbrúna slíminu frá skipinu með árunum. En að skammri stund liðinni byrjar slímið að renna inn í gegnum glufur og lista. Það verður ekki ráðið við neitt. Allt er tapað og fólkið í skipinu finnst það ofurefli ofurselt, gefst upp og hættir að reyna byrgja leið óhræsisins í skipið, reyna gera slímið hættulaust.  Þannig hefur kirkjan starfað lengi og sofnað á verðinum. Afhelgunarferlið er komið svo langt að aðeins neyðarráðstafanir koma nú að hjálpum ef bjarga á meðlimum frá glötun.

Kirkjan í Svíþjóð skildi við ríkið árið 2000.  Þetta hefur valdið andlegri vakningu hjá mörgum, en enn fleiri hafa kosið að spara kirkjuskattinn svo kallaða og segja sig úr kirkjunni. Ólíkt því sem gerist á Íslandi, greiða ekki allir kirkjuskatt. Á Íslandi greiða allir kirkjuskatt, en þeir sem eru ekki safnaðarbundnir greiða til Háskóla Íslands. Hinir greiða til þeirra safnaða sem þeir tilheyra. Nú nú...  Í Svíþjóð greiðir maður til þess safnaðar sem maður tilheyrir. Sé fólk ekki meðlimir í neinu trúarsamfélagi þá greiðir það ekki neitt. 

Sænska kirkjan er alltaf að tapa meðlimum. Fólk skráir sig ekki í kirkjuna lengur, skírir ekki börnin sín og margir skrá sig úr kirkjunni á landsvísu. Kirkjuskattur var lögbundinn hér í Sviðþjóð fram til þess að kirkja og ríki skyldu. Þannig að ekki bara einstaklingar greiddu skatt til kirkjunnar heldur líka fyrirtæki.  Hér í dómkirkjusöfnuðinum í Stokkhólmi er því svo komið að miðborgin hefur afskaplega fáa íbúa. Bankar, fyrirtæki önnur og stofnanir hafa keypt upp allt húsnæði og því er söfnuðurinn fámennur. Til dómkirkjusafnaðarins teljast þrjár kirkjur. Sankti Nikolaikirkjan (dómkirkjan) sem er að stofni til frá því fyrir 13. öld, Sankta Klarakirkjan sem byggð var rétt fyrir aldamótin 1600 og svo Sankti Jakobskirkjan sem var vígð 1643.  í Dómkirkjusöfnuðinum eru ca 5000 meðlimir. Reikningsdæmið er ekki erfitt. Byggingarnar sem ég nefndi eru þung skylda fyrir kirkjuna. Nær allar tekjur safnaðarins renna í viðhald þessara kirkna. Þær eru allar friðaðar og viðhald allt krefst nákvæmra rannsókna, leyfisveitinga, samstarfs við opinberar stofnanir og þjónustuaðila sem viðurkenndir eru af hinu opinbera. Þetta er þungur baggi að bera þótt söfnuðurinn sé stoltur af sínum fallegu byggingum og hinna merkilegu sögu sem þær hafa að segja. Starfslið er sömuleiðis erfiður fjárhagsliður. Launagreiðslur og opinber gjöld eru að sliga söfnuðinn. Sjálfboðaliðar eru að taka yfir flest störf í kirkjunni. Þrif, kirkjuvarðastörf, meðhjálparar - jafnvel ólaunaðir prestar koma og halda guðsþjónustur þegar svo ber undir. Allt til að spara í hinum ytri kostnaði. Upphitun húsanna, rafmagn og kaup á nauðsynjavörum er í algjöru lágmarki. Slökkt er eins lengi á ljósum í kirkjunum og mögulegt er - reynt er að leigja kirkjurnar út eftir mætti og aðrar byggingar sem söfnuðurinn hefur yfir að ráða.  Framtíðarsýnin er að eiginlega allt sem mögulegt sé að gera með sjálfboðaliðum verði helgað trúnaðarsjálfboðaliðum sem komi helst úr söfnuðinum, en þó ekki endilega. Gott fólk hvaðanæva sé velkomið.  Kirkjan er fátæk af peningum og því er þetta úrræði sem verður að nýta.  Nú er það lífróður. Nú þegar allir peningarnir eru búnir og ekki meira til að spila með, hefur svolítið nýtt og spennandi gerst:  Það kvikna hér og þar neistar, neistar trúar.  Fólk á skyndilega samleið með kirkjunni.  Fólk sem líður og kirkja sem líður...  Þessi tvö skilja hvort annað!

Þetta er eitthvað sem Íslenska kirkjan þekkir ekki. Kirkjur á Íslandi eru svo ríkar að þær geta hitað upp og lýst upp sín hús, án þess að spá í hvort peningur verði eftir í prestslaun, eða hvort hægt verði að kaupa sunnudagaskólaefni. Þetta hefur gert að íslenska kirkjan hefur sofnað á verðinum. Báturinn er að fyllast af vatni, en enginn ausir, enginn reynir að koma fyrir lekann. Stórhátíðakirkjan heldur bara áfram að fagna og halda hátíðir, en hefur gleymt hvernig verði þegar hversdagurinn tekur við. Þá er það upplýkst fyrir fólkinu að það er andlegheit og trúarsvörun það er úti eftir en ekki bara hátíðarguðsþjónustur og fjáraustur í steinsteypu og minnisvarða yfir nöfn arkitekta sem fengu að leika sér með fjármuni safnaðanna.

Kominn tími til að hugsa til framtíðar. Nú eru góð ár búin að skreyta dagatalið alllengi. Nú fara erfið ár í hönd. Er kirkjan tilbúin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband