Kristur í kreppusamfélaginu

Viðbrögð við grein ritaðri af átta guðfræðingum Önnu Sigríði Pálsdóttir, Arnfríði Guðmundsdóttir, Baldri Kristjánssyni, Hjalta Hugasyni, Pétri Péturssyni, Sólveigu Önnu Bóasdóttur, Sigrúnu Óskarsdóttir og Sigurði Árna Þórðarsyni sem birtist í Mbl. síðasliðinn sunnudag. 

_______________

Takk fyrir greinina góðu. Athyglivert að sjá hvernig kirkjan setur fram sýn og þátttöku sína núna á tímum lítillar vonar, lítillar gleði og almennt bágs ástands. Þetta var fallegur texti og hlýr eins og búast mátti við frá góðu fólki.

I.

Ég á tvö sjónarhorn til. Um leið og ég þakka aftur fyrir góða grein, vil ég benda á fyrirbærið "líf með Kristi".  Fyrra sjónarmið mitt er: Hvað tapaðist með efnahagshruninu? Lífskjör?  Fjárhagslegt öryggi? Við erum jú öll lifandi. Í hverju fólst þetta fjárhagslega öryggi?  Að lífssparnaður margra lá í hlutabréfum - var það "öryggi"?  Versnuðu lífskjör okkar?  Fá börnin okkar ekki eftir sem áður að læra að lesa, við fáum aðhlynningu þegar við verðum sjúk eða slösumst. Við fáum þjónustu í öllum greinum atvinnulífs og þjónustu sem völ er á í heiminum. Hvað er það sem tekið var frá okkur sem skipti okkur mestu máli?

Var fjölskyldan tekin frá okkur? Var matur og heilsugæsla tekin frá okkur? Hefur skólum verið lokað og við svipt möguleikum til framhaldsmenntunar á hæsta stigi?   Nei. 

Ó jú, hlutabréfamarkaðurinn hrundi.  Fyrra sjónarmið mitt er semsagt: Hurfu okkar helstu gildi og það sem okkur er dýrmætast.  Höfum við ekki bara komið nær því sem Kristur vill að við skulum nálgast, hinum æðri gildum. Boðskapur Krists hvetur okkur að flokka það sem er mikilvægt og sinna því umfram allt: Það er kærleikurinn til Guðs og til náungans. Þetta má svo útfæra þannig að (a) við elskum Guð. Við elskum hvort annað (b) og þar hafa kannanir sýnt að flestir setja fjölskyldu og vini efst á listann. Lýðræði og réttur til málfrelsis, réttur til menntunar og aðgangur að læknisþjónustu, ferðafrelsi og jafnrétti. Jú fleira má telja til og listinn verður langur, en svona hefur það sýnt sig að manneskjan "forgangsraðar" og oftast raðast efnisatriðin sem nefnd hafa verið ofarlega en alltaf meðal 10 efstu og mikilvægustu "mannréttinda" okkar.  Í síðari flokknum verkar Kristur sem viðmiðun okkar.  Hann hefur gefið okkur kærleikann sem helsta áhrifsþáttinn, mannvirðing og réttur af sama meiði og spurningin stendur enn: Hvers höfum við glatað sem skiptir okkur MIKLU máli?

Í starfi mínu í kirkjunni hef ég starfað með fólki sem á enga von. Þetta fólk er borið inn sem lama maðurinn í guðspjallinu til kirkjunnar af vinum. Lama maðurinn er "apatískur" það er að segja ófær um að hreyfa sig eða tala. Hann er "sálrænt máttvana".  Oft eru þetta manneskjur sem glatað hafa von, öryggi, réttindum og eru í raun "persona non grata" (náðarlaust fólk). Ekki er það Kristur sem hefur svipt þessa einstaklinga náð, heldur samfélagið. Samfélagið, stjórnvöld hafa afskráð þetta fólk eða gert það "náðarlaust". Oft eru þetta innflytjendur (löglegir/ólöglegir) eða fólk sem komist hefur á kant við lögin og á erfitt með að samlagast samfélagsgerðinni aftur á ný. Bæði vegna eigin skoðana og samfélagsins. Náðarlausir einstaklingar eiga bara eina von, að vera "bornir til Krists". Enginn beygir kné við þeirra hlið, Samverjar samfélagsins eru fáir og ekki sjaldan kirkjunnar fólk verst i hræsni sinni og reyna að kalla til alla sem mögulegt er til að "sjá um einstaklinginn".  Sagan um miskunnsama Samverjan fær í hvert sinn nýtt líf þegar einn svona er borinn inn í kirkjuna.

II. 

Síðara atriðið: Kirkjan á ekki að vera safnhús fyrir dýrðlinga. Hún á að vera sjúkrahús fyrir syndara. Kristur er úti á Lækjartorgi, Kristur er í Smáralind, Kristur er í þér og í mér!  Okkar er bara hleypa honum að, gefa honum rödd og hendur, hlýjan faðm og vera náunga okkar, náungi.  Þar er ég kominn að síðara atriðinu; "lífi með Kristi". Lífið með Kristi vaknar í grasrótinni hið innra. Að leyfa sér að "helgast" að byrja nýtt líf, að taka ábyrgð fyrir sjálfum sér (þótt síðar á langri ævi) er að hleypa lífsgildum Krists inn í samfélagið og inn í okkur. 

Kristur er miðlægur frá fyrsta andadrætti. Maðurinn samanstendur af líkama, sál og anda. Líkaminn tilheyrir hinu jarðneska, andinn er Guðs gjöf og sálin er bland beggja. Hún er rödd okkar, hvernig við breytum og vilji okkar. Í henni eru draumar okkar, langanir og ótti. Sálin er eins og jurt. Jurt sem þarf ljós, yl og næringu. Sinnum við sálinni vel verðum við hamingjusöm. Umhverfisþættirnir eru þá minna mikilvægir, en það sem verður mikilvægt í stað þeirra eru fyrrnefnd lífsgildi - þættirnir sem við veljum í 10 efstu sætin í forgangsröðun okkar. 

Spurningar mínar eru: Getur bágt efnahagsástand orðið til góðs?  Forgangsröðum við á ný og heilbrigðari máta?  Komumst við nær "lífinu" í kreppu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góður pistill Baldur. 

Kreppan getur örugglega verið okkur til góðs, en til þess að svo megi verða, þurfum við að vera á tánum svo hlutirnir fari ekki sjálfkrafa í sama spillta farveginn.

Sigrún Jónsdóttir, 26.2.2009 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband