Fóstureyðingar

Það er skrýtið hvað við einatt reynum að gera okkar skoðanir að annara.  Lífsýn og veraldarsýn okkar er að því leyti þröngt afmörkuð að við leyfum ekki skoðunum annarra og þeirra sýn á hluti að fá maklega umfjöllun, heldur rífum niður og skömmumst.

Í téðu tilfelli ungu stúlkunnar í Brazilíu, sem níu ára gömul varð fyrir því að vera nauðgað, verða barnshafandi eftir það og síðan að hafna upp á kant við rómversk katólsku kirkjuna. Nú hafa læknarnir sem framkvæmdu fóstureyðingu að ósk fjölskyldu stúlkunnar (og hennar sjálfrar sjálfsagt) fengið yfir sig heiftúðuga kirkjuna.

Af hverju, getur maður spurt sig, gat ekki katólska kirkjan bara gert eins og þjóðkirkjan; staðið hjá aðgerðalaus og hlúð að sárum?  Sannarlega hefði það vera farsælast fyrir alla, en einföld eru bara ekki málin. Lífsvirðing rómversk katólsku kirkjunnar er "yfirgripsmeiri" en okkar. Til að forðast misskilning, virðum við ekki lífið minna en katólsk systkin okkar. Fréttin fjallar um lífssýn, og hvernig trú og lífssýn saman með beitingu trúarlegs valds getur lent í árekstri með því sem við í okkar afhelgaða heimi teljum rétt og algilt.

Þeir sem fylgja rómversk katólsku kirkjunni og trúarsetningum hennar, gangast undir vissan kirkjuaga og taka inn vissa sýn á lífsgildi. Vernd lífs er ein þeirra ásteytingarsteina sem við "lúteranar" og trúlausir kjósum ekki að velta svo mikið fyrir okkur.  Fóstureyðingar á Íslandi samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu eru skuggalega margar. Margar konur hafa farið í margar fóstureyðingar á lífsleiðinni. Hefur möguleikinn til fóstureyðingar verið misnotaður og hefur dregið úr ábyrgu kynlífi?  Er fóstureyðing notuð af mörgum sem síðbúin getnaðarvörn? Af því að dæma hve margar konur fara og láta eyða fóstri í þriðja, fjórða og fimmta sinn má styðja þá hugsun með einhverjum rökum.

Við tölum hálf niðrandi um faststefnu rómversk katólsku kirkjunnar í fóstureyðingarmálum. Að fara bil beggja væri kannski ekki svo óvitlaust. Auka virðingu fyrir lífi, því lífi sem er lifað (móðirin) og því lífi sem getur mögulega fengist lifað (barnið).  Þetta eru erfiðar ákvarðanir í mörgum tilfellum og íblöndun trúarhreyfinga og hópa ekki til að gera málið minna flókið.  En lífsgildin, siðfræðin, leikreglur lífs og lífsvirðingar eru margar afsprengi trúarinnar.  Kristin trú er lífstrú. Því ber að fara varlega og með mikill íhugun þegar svo djúpstæðar spurningar vakna s.s. um líf, varðveislu og viðgang lífs.  Enginn einn hefur rétt, enginn hefur rangt. Lífið er hið jákvæða í veröldinni, gneisti vonar og kærleika. Öllu lífi fylgir ábyrgð og sú ábyrgð er vandmeðfarin.


mbl.is Vatíkanið tekur undir fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Vitaskuld er umræðan um fóstureyðingar eldfim og vandmeðfarin. En þegar fjallað er um réttinn til lífs þá spyr maður sig stundum: hvaða lífs? Hvernig verður líf þessa barns? Hvernig verður líf foreldra þess? Og í því tilviki þar sem um 9 ára nauðgunarþolanda er að ræða - hvernig verður líf þessara 3 barna ef þungunin er látin ganga til enda? Þar er svo sem engin spurning um líf þar sem útilokað er að 9 ára gamalt stúlkubarn geti gengið fulla meðgöngu með tvíbura. Væri ekkert gripið þar inn í myndu öll börnin deyja - móðir og fóstur.

, 8.3.2009 kl. 22:50

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk fyrir þitt fína blogg um sama mál.  Þú með þína þekkingu, lærdóm og kærleika veist best og af mörgum dæmum hvernig líf stúlkna getur breyst í þrældóm í stað gleðinnar yfir því að eignast barn. Hefur starfað innan heilbrigðisgeirans og sennilega komið að mörgum erfiðum málum. 

Jú þetta er skrambi flókin umræða og ljóst að enginn getur sett sig í spor stelpunnar sem lenti í þessari stöðu. Að undangengnum þjáningum hennar sem margir virðast hafa gleymt - að hún valdi ekki að verða ófrísk.

Fyrst og fremst sýnist mér katólska kirkjan þarna í Brazilíu vera dofin fyrir hinu mannlega. Hvaða líf beið fátækrar stúlku á 9 ári með 2 börn? Hvaða þroska hafði hún sjálf til að takast á við líf fyrir sig og sín 2 börn sem líklega munu aldrei hafa neitt með "föður" sinn að gera, ef þá það er vitað hver hann er?  Líkamlega, hefði hún lifað af barnsburð?   Úff þetta eru erfiðar spurningar - en fyrir okkur sem eru ekki búin að tapa alveg jarðsambandinu, eins og katólsku prelátarnir, er svarið við spurningunni létt!

Blindni katólsku kirkjunnar er helst sú að vera í þessu dæmi "úr sambandi" við raunveruleikann og hvernig hann mun svo birtast stúlkunni í framtíðinni.  Kannski hefur sóknarprestur stúlkunnar fullan skilning - en vissulega er yfirstjórn katólsku kirkjunnar (eingöngu skipuð karlmönnum) gersamlega veruleikafirrt. Það er hrein skömm að kirkjan láti einusinni heyra svona frá sér. Hvað hefur katólska kirkjan verið að gera í tæp 1000 ár?   Hefur hún EKKERT lært á þessari löngu göngu?   Stundum heldur maður ekki.

Baldur Gautur Baldursson, 9.3.2009 kl. 08:49

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Dagný, það var möguleiki að taka börnin með keisararaskurði.

Útreikningshyggjan, sem ég vil svo kalla (calculationism) gengur aldrei upp sem neinn vísdómur. Margir, sem hafa virzt lítt lífvænlegir við fæðingu, hafa lifað langa ævi og góða. Margir, sem fæðzt hafa inn í örbirgðar-aðstæður, hafa náð afar langt í lífinu. Margir munaðarleysingjar hafa reynzt ómetanlegir einstaklingar í samfélögum manna. Þú getur aldrei spáð neinu um afdrif þeirra eða árangur fyrir fram. Frumatriði er að virða mannlegt líf og leyfa því að spreyta sig, að sanna gildi sitt; þú getur aldrei afsannað það gildi fyrir fram.

Baldur, séra Baldur! þú ert kominn út á hála braut að bregðast þessum siðferðis-frumreglum með getgátu-spurningum og loðnum spádómum, sem leiða þig til afsláttar- og afstæðishyggju varðandi mannleg lífsgildi. Pure guesswork! – ekki samboðin neinum sem stendur staðfastlega við grundvallargildi og reglur – sem eru, vel að merkja, ekki til að þvinga og meiða lífið, heldur styðja við það.

Orð þín vegna stefnu lúthersku kirkjunnar í þessum málum sýnast mér malplaceruð, því að sú íslenzka þýðist ekki í raun að vera hælt fyrir aðgerðarleysi í þessu máli (kirkjan sú HEFUR stutt við lífsrétt ófæddra í samþykktum sínum, og þú virðist varla vita það! – ekki frekar en margir aðrir þar!).

Og þú segir: "vissulega er yfirstjórn katólsku kirkjunnar (eingöngu skipuð karlmönnum) gersamlega veruleikafirrt." – Hvernig þá, Baldur? Veiztu ekki, að kirkjurétturinn gerir ráð fyrir bannfæringu allra, sem framkvæma fósturdeyðingu, sem og þeirra, sem á virkan hátt taka þátt í þeirri ákvörðun? Átti að búa til nýjar reglur í þessu máli? Hvaða reglur?

Þú veizt væntanlega, að stúlkan sjálf var ekki bannfærð, og þess vegna er það stórlega orðum aukið hjá þér að segja hana hafa "hafna[ð] upp á kant við rómversk katólsku kirkjuna". Stúlkan er áfram safnaðarbarn kirkjunnar og á að njóta fullrar umhyggju hennar og er EKKI vísað frá henni. Og þú getur ekkert gefið þér hérna uppi á Íslandi, að stúlkan sjálf hafi átt þátt í þessari ákvörðun.

Annars sendi ég þér bara beztu kveðju!

Jón Valur Jensson, 9.3.2009 kl. 12:58

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk fyrir góðar kveðjur Jón Valur! Þetta með að kirkjurétturinn (er það Gratíanus, frá tólftu öld?) geri ekki ráð fyrir öðru en að beinir þátttakendur að fóstueyðingu fái yfir sig bannfæringu segir nú allt sem segja þarf. Ef klerkdómur katólsku kirkjunnar sættir sig við óbreytt miðaldalög, vitandi að í röðum katólskra guðfræðinga eru stórmerkir hugsuðir í siðfræði, trúfræði og samfélagsfræðum - og síðast en ekki síst lögfræði (í veraldlegum- sem andlegum rétti) skuli bara sitja hjá þegar löggjöfin stríðir beinlínis mót almennri skynsemi. Ég veit að almenn skynsemi hefur í aldanna rás ekki oft verið upp á marga fiskana, en hin upplýsti maður 21. aldar hefur aukna möguleika til að leita sér upplýsinga og nýta sér vísindarök en 12. aldar manneskjan.

Sem prestur segi ég og get ekki annað að mér er óskiljanlegt hversvegna kirkjan, sú rómversk katólska stendur mót almennri skynsemi og leiðir fólk út í fullkomna örvæntingu og setur líf ungra kvenna í hættu, með því að hóta þeim vítisvistar ellegar. Kirkjuréttur katólsku kirkjunnar er ekki frá Guði kominn. Hann er skrifaður af mönnum, fyrir menn. Hann á að vera lifandi fyrir hverja tíma og uppfærður til að geta sinnt því hlutverki sem hann á að sinna, en ekki að verða trúarlegt helsi.

Þú nefnir oft í málfærslu þinni að ég sé prestur. Já, það er ég, og allt til dauða. Það breytir því ekki að kirkjuaginn kemur næstur á eftir kærleikanum. Við vígslu mína vígðist ég prestur til þjónustu fyrir fólkið, ekki sem eign kirkjunnar. Þjóðkirkjan er skýr í þeirri sýn sinni að á meðan prestur er á launaskrá, er hann undir kirkjuaga, en sé maður ekki á launaskrá er presturinn ekki viðfangsefni kirkjunnar. Í dag er ég ekki á launaskrá þjóðkirkjunnar. EN prestur er ég eftir sem áður og fyrir Guði og mönnum. Ég svara fyrir Guði og þarf enga meðalgangara. Það voru skilaboð endurreisnarsiðbótarmannsins Marteins Lúters.  Þaðan er komin mín fullvissa að kærleikurinn til manna er óbundinn regluverki mannanna. Það regluverk er kirkjunnar smíð, ekki Guðs. Okkur vissulega til liðveislu í að halda aga, en ekki til að setja líf einstaklinga í fjötra.

Baldur Gautur Baldursson, 9.3.2009 kl. 15:55

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi texti er ekki hinn upprunalegi í kirkjuréttinum; hefur slípazt frá fyrri tímum.

Það er ekki nóg að tala hér um "almenna skynsemi" og segja kirkjuna á móti henni; þú verður að skýra það með skynsemisrökum, röksönnun, að þetta sé krafa skynseminnar. (Meira á eftir.)

Jón Valur Jensson, 9.3.2009 kl. 16:36

6 Smámynd: Tómas

Tu talar almenilega og Gud blesi tig flot blogg eg fek mog mikla anspirnu a blogid mit

Tómas, 9.3.2009 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband