Sænska kirkjan: "Já" til hjónavígslu samkynhneigðra

Snemma í morgun samþykkti Kirkjuþing Sænsku kirkjunnar að samkynhneigðir eigi sama rétt og aðrir að koma til kirkju sinnar og "ganga í það heilaga".  Stór meirihluti þingmanna samþykkti "G 2009:2" sem leiðir til lykta þetta erfiða mál sem legið hefur á borði kirkjunnar í yfir 30 ár.

Erkibiskup Svía, Anders Wejryd sagði að frá og med 1. nóvember nk. ættu allir samkynhneigðir að geta farið til kirkju sinnar og beðið um blessun á sambandi sínu, rétt eins og gagnkynhneigðir. Þarna ætti ekki að vera neinn munur.  Þessi væri ákvörðun kirkjuþings!  Það sem kallað hefur verið "staðfest samvist" eða "partnersskap" hér í Svíþjóð hverfur þar með og einstaklingar "giftast" hér eftir.  Enginn munur skal gerður á fólki.

ÄrkebiskVic
Erkibiskup og Victoria krónprinsessa koma til Kirkjuþings Sænsku kirkjunnar

"Att vi haft kärleken som grund för vår tolkning har gjort att vi inte har slaveri i dag", segir Martin Lind, biskop í Linköping".

 

Nokkrir hlekkir:

http://www.svenskakyrkan.se/default.aspx?di=253352

http://www.svd.se/nyheter/inrikes/artikel_3689859.svd

http://www.dn.se/nyheter/sverige/kyrkomotet-oppnade-for-homovigslar-1.979744 

http://www.aftonbladet.se/nyheter/article5998450.ab


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fanney Dagmar Baldursdóttir

Dæmi til eftirbreytni fyrir stagneraða þjóðkirkju Íslands.

Fanney Dagmar Baldursdóttir, 22.10.2009 kl. 11:26

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og þú fagnar þessu, séra Baldur?! Hvernig heldur þú að fyrri kynslóðir presta á Íslandi hefðu brugðizt við fréttum sem þessum? Á sömu lund og þú? Eða hann Lúther, kennifaðir kirkju þinnar!

Þetta mál allt er til háborinnar skammar fyrir sænska kirkju og mun leiða til þess að fleiri kirkjusamfélög heims en það rússnesk-orþódoxa hafni samneyti við þessa afvegaleiddu þjóðkirkju Svía.

Svo máttu gjarnan upplýsa um það hér, hvernig atkvæði féllu nákvæmlega og hver viðbrögð andstöðuhluta kirkjunnar hafi verið. Er einhvers staðar búizt við úrsögnum úr kirkjunni? Ég spái því, að þúsundir muni nú yfirgefa sænsku þjóðkirkjuna og ganga í orþódoxa söfnuði eða kaþólska, svo framarlega sem það eitthvert umtalsvert trúar- og safnaðarlíf er eftir í kirkju þessari.

En ykkur, lútherskum mönnum, ber að halda ykkur við Ritninguna. Það er alls ekki gert með þessari ákvörðun, hún umturnar allri biblíulegri leiðsögn í þessum efnum. Hinu neita ég ekki, að niðurstaða þessi fer mjög að vilja róttækra aktívista með utankirkjuleg viðhorf, andkristna tízkuhyggju sem viðmið sitt og mælikvarða í stað þess, sem ætlast verður til af kristnum kennimönnum.

Ég spái því, að stór hluti virkra safnaða í sænsku þjóðkirkjunni eigi eftir að mótmæla þessu áhlaupi veraldarhyggjunnar harðlega.

Jón Valur Jensson, 22.10.2009 kl. 13:19

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar samband tveggja einstaklinga sem byggir á ást og kærleika óskar eftir staðfestingu síns trúarsafnaðar þá treysti ég mér ekki til að mótmæla vígðri sambúð. Kynvísi er talin meðfædd og maðurinn er sköpunarverk Guðs samkvæmt kenningu biblíunnar. Aldagömul rit með tilskipanir um bönn við tiltekinni meðfæddri kynhneigð hljóta að brjóta öll heilbrigð viðmið um umburðarlyndi. 

Árni Gunnarsson, 22.10.2009 kl. 14:11

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Árni, viðmiðið kristna í þessu hjónabandsefni er ekki umburðarlyndi, heldur það sem Guð vill til góðs fyrir sitt fólk. Umburðarlyndið geta menn haft gagnvart þeim, sem fyrir utan kirkjuna eru, en Kristur hefur gefið kirkjunni, lærisveinum sínum, leiðsögn um hjónabandið, og sú leiðsögn er EKKI í þessu fólgin. Kynferðislegt samneyti fólks af sama kyni er beinlínis bannað með mjög alvarlegum orðum í báðum meginhlutum Biblíunnar, og þú ert ekki að tjá hér afstöðu þeirrar meginforsendu fyrir kirkjulífi og athöfnum, þegar þú setur fram athugasemd þína hér á undan, enda gætir engrar virðingar í henni fyrir því stofnriti kristinnar trúar. Sú athugasemd getur þá ekki verið marktæk í augum þeirra, sem kristnir eru og vilja finna kristna lausn á þessu máli.

Reyndu að sjá þetta í nýju ljósi: Tilætlun veraldarhyggjumanna gagnvart kirkjunum er sambærileg við það, að Samfylking og Vinstri græn færu að krefjast þess, að þeirra pólitíska stefna yrði leidd í lög í Sjálfstæðisflokknum eða hvaða öðrum flokki sem er, sem ráðandi stefna í þeim flokkum.

Jón Valur Jensson, 22.10.2009 kl. 14:36

5 Smámynd: Arnar

JVJ: .. hún umturnar allri biblíulegri leiðsögn í þessum efnum

Biblíuleg leiðsögn.. einmitt það já, eigum við að skoða það aðeins betur.

Hvað leiðbeinir biblían manni að gera við börn sem bölva foreldrum sínum?

Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum.
Þriðja Mósebók 20:9

Hvað leiðbeinir biblían manni að gera við þá sem drýgja hór?

Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan.
Þriðja Mósebók 20:10

Og fyrst þú ert í spámannsgírnum, hvernig leiðbeinir biblían okkur varðandi það..

Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim."
Þriðja Mósebók 20:27

Það fer engin heilvita maður eftir þess konar 'leiðsögn' JVJ, ekki einu sinni þú (vona ég amk.), samt kýstu að fara eftir 'leiðsögn' biblíunar þar sem það kemur að samkynhneigð.  Hvernig greinirðu á milli þess sem er 'rétt' leiðsögn og ekki?

Vona að spárnar þínar rætist ekki, annars vænti ég þess að þú lemjir sjálfan þig grjóti.. samkvæmt leiðbeiningum.

Mér findist það reyndar óhæft að skylda kirkjur/presta til að gefa saman samkynhneigða ef er gegn skoðunum þeirra.  En sömu kirkjur/prestar hafa heldur ekkert með að banna samkynhneigðum að giftast yfir höfuð.

Arnar, 22.10.2009 kl. 16:08

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kristnir menn hafa Krist sem sína leiðsögn og það sem hann kenndi, m.a. til umbreytingar frá því sem tíðkaðist sem lög Ísraelsþjóðarinnar. Þú sérð þá umbreytingu t.d. í upphafi 8. kafla Jóhannesarguðspjalls, Arnar. Eftir þessu var farið lengi vel í kirkjusögunni (en Stóridómur hér á Íslandi var bakslag í þeim efnum). Siðaboðun Nýja testamentisins er það sem við KRISTNIR menn höfum fyrst og fremst að leiðarljósi.

Jón Valur Jensson, 22.10.2009 kl. 16:28

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Árni Gunnarsson mælir hér af skynsemi og umburðarlyndi. Ég tek undir skoðanir hans.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 22.10.2009 kl. 19:26

8 Smámynd: Páll Jónsson

Nú skil ég ekki alveg hvað þú ert að fara Jón Valur, ég held ég geti alveg lofað því að Jesú minnist hvergi á samkynhneigð.  

Vissulega segir hann að menn eigi að virða lögmál Móse, og þá væntanlega líka fordæmingu á samkynhneigð, en þá ættir þú rétt eins að virða þessar furðulegu reglur sem Arnar benti á.

Páll Jónsson, 23.10.2009 kl. 07:43

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Páll, Biblían ræðir ekki um "samkynhneigð", heldur kynmök samkynja manna.

Ítrekaðar viðvaranir við þeim mökum er að finna í Nýja testamentinu:

"Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum, frillulífismönnum, karlmönnum sem leggjast [þ.e. til samræðis] með karlmönnum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu. Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir." (I. Tím 1.8–11.)

"Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villizt ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né karlmönnum sem leggjast [þ.e. til samræðis] með karlmönnum, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs." (I. Kor. 6.9–11.)

"Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar. Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt ..." (Róm. 1.26–28.)

Þarna er nú ýmislegt, Páll. Nafni þinn, postulinn, var valinn af Kristi til að bera boðskap hans út meðal heiðingjanna. Kristin kirkja hefur talið Biblíuna innblásna af Guði og þar á meðal bréf Nýja testamentisins. Þessir textar eru þaðan. Taktu eftir því, að sá, sem í upphafi gaf þér nafnið þitt, segir þarna í 1. textanum: "Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir." Þetta er sem sé í samræmi við fagnaðarerindið, ekki andstætt því! Og textarnir sýna vel, að þarna er um alvarlegt mál að ræða. Lestu!

Þar að auki hefur Kristur ekki breytt þessari biblíulegu afstöðu, nema hvað við megum jafnan hafa hugfast, hvernig hann (án þess að lýsa hórdóm eitthvað annað en synd) sakfellir ekki hórseku konuna, heldur frelsar hana frá að verða grýtt (Jóh. 8).

Kristur varar við dæmi Sódómu. Það felur í sér viðvörun við syndum hennar.

Kristur endurtekur orð I. Mósebókar um hjónabandið og segir að maður skuli "yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni [ekki manni sínum!], og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður" (Mk. 10).

Það þarf mikla hæfni í útúrsnúningum til að rangfæra þetta svo, að þetta eigi líka við um "hjónavígslu" tveggja karlmanna eða tveggja kvenna. Vilji þau reyna slíkt, er í hæsta máta óeðlilegt að fara til sannkristinnar kirkju til að reyna að fá hana til að inna af hendi slíka þjónustu eða blessa slíka athöfn.

Jón Valur Jensson, 23.10.2009 kl. 16:25

10 Smámynd: Páll Jónsson

Svo niðurstaðan er að Jesú segir á einum stað að menn eigi að koma sér að heiman og ná sér í konu, en minnist ekki orði á menn sem stunda kynlíf með öðrum.

Hins vegar er ljóst að Páli postula er þetta nokkuð ofarlega í huga og hann er víst innblásinn af Drottni... fair enough. En af hverju að einblína á þetta einstaka atriði úr lögmálum Mósebóka? Breytti Jesú hinni biblíulegu afstöðu hvað varðar allar hinar furðulegu reglurnar?

Páll Jónsson, 24.10.2009 kl. 21:13

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég hef þegar bent ykkur á sitthvað um það í innlegginu í fyrradag kl. 16:28.

Jón Valur Jensson, 25.10.2009 kl. 00:20

12 Smámynd: Arnar

JVJ, hjálpaðu mér nú að rifja það upp; úr hvaða kafla biblíunnar eru boðorðin 10?  Eða eru þau kannski eitthvað sem kristnir hafa ekki að leiðarljósi?

Og, af hverju er ekki minnst á samkynhneigð í boðorðunum 10 ef hún er svona alvarlegur glæpur gegn trúnni.  Það er bannað að ljúga, stela, myrða.. en samt má gifta lygara, þjófa og/eða morðingja.

Arnar, 26.10.2009 kl. 15:15

13 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk fyrir spennandi lesningu og skemmitlegar umræður. Ég sjálfur er búinn að sitja yfir bók bókanna, handbókum presta, innsendum bréfum og óskum samkynhneigðra um bætt viðmót kirkjunnar og trúarsöfnuða. Markmiðið er að skapa ritúal, form sem allir geta sætt sig við; kirkja, samkynhneigðir og biblían. Á fundi með fulltrúa Júdíska safnaðarins, baptistakirkjunnar og nýreformertra hér í Stokkhólmi komumst við AÐ SAMKOMULAGI. Við munum öll gefa saman með svipuðu formi samkynhneigða. Nú er bara að pússa til ritúalið eins og það liggur fyrir eftir gærdaginn.

Baldur Gautur Baldursson, 28.10.2009 kl. 10:19

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það eru margar syndir, Arnar, sem ekki eru nefndar á nafn í boðorðunum tíu. Þau ná samt yfir meginflokka synda, eins og guðfræðingar hafa gert grein fyrir, en minnast ekki endilega á allar þær alvarlegustu. T.d. er einfalt skírlífisbrot ógiftra synd, en hórdómur langtum alvarlegri synd og er nefndur sem e.k. "fulltrúi" kynlífssynda í 6. boðorðinu, hafandi svika-eðlið (við makann) sem þyngjandi aukaeigind sína (í samanburði við einfalt skírlífisbrot). Þessar syndir eru margfalt algengari en kynmök fólks af sama kyni, og þau síðarnefndu geta því ekki talizt dæmigerð kynlífssynd og höfðu ekkert að gera inn á töflurnar hans Móse, en samt eru samkynja kynmök mun alvarlegri en kynlífssynd tveggja einstaklinga af gagnstæðu kyni, af því að hér er ennfremur um synd gegn náttúrunni að ræða, skv. Róm. 1.26–27, auk þess að vera synd sem felur í sér hættulegar afleiðingar sem sérstaklega eru nefndar í tilviki kynlífssynda, I. Mós. 18.24–28.

Syndir eru ekki allar jafnar; að einhver nauðgi konu er t.d. meiri synd en að hann drýgi einfaldlega hór með henni viljandi, og mök við dýr eru hrópleg synd gegn náttúrunni.

Talað er um yfir 600 boðorð í Gamla testamentinu. Þau komust ekki öll fyrir í boðorðunum tíu!

Baldur, það er stórfurðulegt, að Gyðingasöfnuðurinn í Stokkhólmi taki þátt í því að "gefa saman samkynhneigða," eins andstætt og það er trúarbók Gyðinga. Harla útvatnaður er sá Gyðingdómur, rétt eins og lausungarútgáfa ýmissa nútímapresta af kristindómnum.

Þetta á eftir að verða til þess að hrekja marga einlæga kristna menn frá þessum róttæku mótmælendakirkjum til hinna "íhaldssamari", og það sama mun gerast í Gyðingdómnum. Ykkar, róttæklinganna, er ábyrgðin – það eruð þið, sem eigið eftir að fjölga mönnum í söfnuðum orþódoxra og kaþólskra, sem og hjá hvítasunnukirkjum o.fl. heittrúarhópum.

Fátt er því svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.

Jón Valur Jensson, 29.10.2009 kl. 15:01

15 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Hugsa oft hvort ekki sé réttara að skrifa "katólskur" í stað "kaþólskur"?  Hvað segir þú um það Jón Valur?

Baldur Gautur Baldursson, 2.11.2009 kl. 11:29

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, ég vil rita kaþólskur.

Jón Valur Jensson, 2.11.2009 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband