Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Þytur í laufi

aivazovsky 

Í Fyrstu Mósebók [Genesis] er okkur sagt frá því þegar Guð hafði skapað Paradísargarðinn Eden. Adam og Eva höfðu þegar tekið til við að háma í sig aldin af lífsins tré og skömmuðust sín fyrir athæfið. Þau komust að því um leið að heimurinn hafði nýjar víddir sem þau höfðu ekki þekkt áður og skömmin varð til. Þau höfðu óhlýðnast boði Drottins og gert það sem þau ekki máttu.

Það er til svo skemmtileg lýsing af því þegar Guð nálgast þau þar sem þau fela sig fyrir honum í laufskrúði aldingarðsins. Það segir í textanum að þau hafi heyrt að Guð væri á leiðinni. Þetta fenómen er kallað þeofaní á grísku og útskýrist best með: að á undan Guði fór einskonar gustur eða þytur. Einmitt svona þyt heyrði ég fyrir suðurlandsskjálftann árið 2000.

Mér varð hugsað til þess sem stóð í fréttablöðunum í morgun og sagt var frá í morgunsjónvarpinu, að jarðskjálfti hefði verið um 20 kílómetra austur af Malmö. Rætt var við fjölda fólks sem lýsti óhugnarlegu og framandi hljóði. Hið óþekkta er oft óhugnanlegt. Það setur að okkur beyg og við verðum slegin ótta. 

Það er öllum hollt að vera minntir á fallvalltleika, að öllu er afmörkuð stund eins og segir í Prédikaranum og að ekkert sé nýtt undir sólinni. Allt hefur gerst áður og við sem öll erum fulltrúar núlifandi kynslóðað mannkyns erum einungis hlekkir í langri keðju - okkar er að vera ekki veikasti hlekkurinn, því þá getur keðjan slitnað.


mbl.is Byggingar skulfu í Málmey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji sunnudagur í aðventu - hugleiðing

 adventsljus3

 

Texti þriðja sunnudags í jólaföstu þetta árið er sóttur í Lúkasarguðspjall (Lúk. 1:67-80) inniheldur hinn kunna lofsöng Sakaría, föður Jóhannesar skírara. Hann og kona hans Elísabet voru komin nokkuð við aldur og líkur á því að þeim yrði barna auðið höfðu stórum minnkað. Þau höfðu gefið upp alla von um son, en þá gerist það að Elísabet verður barnshafandi. Hún fæðir svo síðar son. Að gyðinglegri hefð átti sonurinn að fá nafn föður síns, en Sakaría minnist fyrirheita þeirra er Drottinn hafði gefið honum og gaf syni sínum nafnið Jóhannes, sem merkir "Guð er náðugur".  Textinn er auðvitað fallegri í sjálfu guðspjallinu og gjöfulli í allri merkingu sinni.

Textinn minnir mig svolítið á lífið eins og það birtist mörgum í dag. Jólafasta er tími undirbúnings.  Við gerum fínt í kringum okkur, við reynum að safna aðföngum til hátíðarinnar og við undirbúum okkur andlega fyrir þessa hátíð sem nálgast með hverjum deginum. Ljósin á aðventustjakanum sem við svo mörg eigum eru tákngervingar þess ljósmagns sem eykst með hverjum deginum sem nær dregur jólum. Við erum eins og skip úti á hafi sem nálgast brennandi vita í fjarska, ljósmagnið eykst og við verðum eftirvæntingarfyllri, glaðari, smá stressaðri og spennan eykst.

Við eigum það líka til að spenna bogann lítið eitt of mikið, við eyðum of miklu, gerum of mikið af öllu, svo sjálfa gjöfin, Jesúbarnið hálf kæfist í jólaumbúðapappírnum. Það er hætta á að við göngum of langt.  Það getur enginn spennt bogann svo lengi án þess að taka vissum afleiðingum þess.  Annað hvort brotnar boginn á endanum eða hann missir fjaðurkraft sinn. 

Það er til lítil gömul dæmisaga um nauðsyn þess að hvíla, nauðsyn þess að slappa af:

Heilagur Antóníus var munkur í fjarlægu landi. Hann að nokkrir aðrir munkar sátu undir klausturmúrunum og létu fara vel um sig, sumir jafnvel dormuðu í sumarhitanum. Riddari koma þar að og sá munkana hvíla sig. Riddarinn spurði hvers vegna þeir slæptust og væru iðjulausir. Antóníus hafði orð fyrir munkunum og bað riddarann að sýna sér hvernig hann skyti af boganum sínum og riddarinn gerði það, tók ör, lagði við bogann og skaut. Antóníus biður hann að gera þetta aftur og riddarinn skýtur annarri ör. Svona gengur þetta aftur og aftur þar til riddarinn sagði: "Ágæti bróðir munkur, ef ég held svona áfram brotnar annað hvort boginn eða ég ég get ekki lengur haldið sama styrk í hendi og armi."  Þá svaraði Antóníus: "Ef við hvílum ekki af og til, göngum við svo hart fram að við munum bresta, rétt eins og boginn þinn".  Og munkurinn gekk til bræðranna og lagðist niður á ný.

Gleymum ekki að huga að okkur sjálfum þegar hátíðaundirbúningurinn stendur sem hæst, kröfurnar eru víða miklar og virðast vera fara með okkur í gröfina.  Hátíðin er okkar vegna, ekki vegna neins annars.  Guð kom í heiminn okkar vegna, vegna þess að við þurftum hans við ekki öfugt.  Guð þarfnast engrar hátíðar, ekki sín vegna. Hátíðin er svo að við náum að skapa okkur ró og til að við getum tekið frá tíma fyrir okkur og trú okkar.  Hátíðin gefur okkur ótöl tækifæra til að sýna okkar innri mann, bæði örðum en ekki síst okkur sjálfum.  Jólin eiga að vera spegill sálar okkar og gefa okkur tækifæri að hitta þann einstakling sem við sjaldnast hittum:  Okkur sjálfa. 


Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það

Ég var að lesa blogg Ólínu Þorvarðardóttur ttp://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/741256/ og fannst ég knúinn að leggja nokkur orð hér inn á mitt blogg. Ólína hefur á réttu að standa.  Það versta er að Íslendingar eru ekki vanir að segja frá þegar þeim misbýður. Ástæðan er hein og einföld:  Allir eru spilltir.  Sama hvert litið er, allir reyna að svíkja út peninga.  Bankarnir gera það löglega en siðlaust, einstaklingar ólöglega því þeir eiga ekki kost á öðru.   Þannig er Ísland.  Það er búið að eyðileggja sýn Íslendingsins á heiðarleika. Hvað herrarnir hafast að, hinir halda sér leyfist það!   Með fordæmi stjórnvalda hefur þjóðin séð að það er ekki til neins að vera heiðarleg. 

Sýndarsiðfræði stjórnmálamanna og háttarlag i fjölmiðlum þegar þeir hálfkæfðir í bindishnútunum sínum reyna að segja eitthvað "formlegt" annað hvort á slæmri kanselísku eða svo vitstolnu málfari að engum skilst orð eða meining af því sem þeir segja. Þessu fólk lærist aldrei að ljúga að þjóðinni. Lygin er svo gegnsæ og þjóðinni misbýður meir og meir þar til þeirri stund er náð að fólkinu, þjóðinni stendur hreinlega á sama.  Hjónin sem leikið hafa séð með kennitölur og verið í fyrirtækjaleik eru kannski holdgervingar þess samfélags sem stjórnmálamenn hafa unnið hvað ötulast að að skapa.

Ráðumst að grunni vandans ekki að afleiðingunum bara.  Slökkvum eldinn, en komum í veg fyrir frekari bruna!


mbl.is Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11 ár

Ótrúlegt hvað tíminn flýgur!  Elsku góða dóttir mín hún Magdalena á afmæli í dag. Hún fæddist á Heilbrigðsstofun Austurlands á Egilsstöðum þann 9. desember 1997, tæplega tveimur vikum eftir að ég hafði verið settur prestur í Valþjófsstaðarprestakalli. Við vorum nýflutt austur á Hérað og bjuggum í Fellabæ. Þetta voru tímar mikilla breytinga í lífi okkar hjóna. Flutningur, breyting á störfum okkar beggja, ég nývígður prestur, konan mín í fæðingarorlofi, fyrsta barn, fjölskyldur okkar hinum megin á landinu, bágur fjárhagur - jú þetta voru tímar mikilla sviptinga.  Stutt var í fyrstu jarðarförina mína og enn styttra í fyrstu skírnina.  Eldskírn fyrir mig og mína.

Í öllu þessu fæddist litla jólastjarnan okkar; Magdalena. Hún var óvær og var magaveik fyrstu mánuðina - en ljós á myrkum stuttum vetrardögum. Rúmum mánuði síðar skírði mamma hennar hana í Áskirkju í Fellum við guðsþjónustu hjá pabba sínum. 

Ég hringdi í hana Magdalenu mína núna í dag og óskaði frumburði mínum til hamingju með daginn.  Það er skrýtið að vera svo fjarri á stóru dögunum í lífi barnanna sinna, en svona er lífið. 

Til hamingju með daginn Magdalena mín!     @--,-`-------


Orð umheimsins um Ísland

Ég var að bíða eftir að fá bækur afhendar á bókasafni Stokkhólmsháskóla þegar fyrrum kennari minn hér, prófessor við listfræðideildina kemur til mín.

Hún heilsar upp á mig og kynnir manninn sinn sem er prófessor í alþjóðarétti við sama skóla. Við spjöllum stutt og síðan spyr hún mig hvernig þetta sé eiginlega með Ísland núna og hvort allt sé ekki að verða betra núna?  "Nei" svaraði ég, "allt er við sama þar. Bágt ástand og óskemmtilegt."  "Þetta er með ólíkindum" bætir hún við.  Þetta hlýtur að fara verða betra þar sem Ísland hefur fengið fyrirgreiðslu víða og síðan hefur nú líklega farið fram mikil uppstokkun?"  Ég gaf lítið út á það, en þá spyr hann (maðurinn hennar): "Viltu meina að það hafi ekki verið nein mannaskipti né heldur uppstokkun í yfirstjórn ríkis og efnahagslífs?"   "Nei" svara ég. "Engin. Yfirmennirnir vilja ekki fara."  "Vilja ekki fara" spurði hann, "hvað áttu við? 'Vilja ekki fara' ?" "Nei, sagði ég!"  "Þá er viðbúið að allt endurtaki sig þegar þeir eru búnir með fjármagnið sem þeir hafa fengið frá ríkjum og stofnunum!" sagði prófessorinn og hristi höfuðið.  "Já, það er viðbúið" svaraði ég "og í raun það sem fólkið bíður eftir".


Kirkja og vísindi - heiladauði

Samkvæmt gamalli kirkjulegri hefð hefur guðspjallamaðurinn Lúkas einatt verið umræddur sem læknirinn Lúkas. Eitthvað er sennilega til í þessu, því þessi söguhefð er fjarska gömul og lífseig. Lúkas er talinn vera höfundur/ritstjóri samnefnds guðspjalls, Lúkasarguðspjalls og Postulasögunnar. Margt styður þessa kenningu um höfund þessara rita og að Lúkas hafi verið kunnugur í lækningaaðferðum síns tíma.  Enginn myndi kalla hann lækni í dag, hefðum við tækifæri á að sjá hvernig hann gekk til verka. Margt hefur breyst síðan hann gekk á jarðarkringlunni - ekki minnst læknavísindin.

Ástæða þess að ég sest nú niður og skrifa þessi fátæklegu orð mín hér í dag er eftirminnilegt samtal sem ég átti fyrir nokkru um líknarmorð (euthanasia). Við sátum nokkur saman og spjölluðum vandamálin sem standa fyrir dyrum allra trúarhreyfinga, þeirra sem ekki lifa í fullkomni afneitun á heiminum og því sem hann gefur.  Við vorum fjögur sem sötruðum kaffi og borðuðum lussekatter (saffranssnúða). Tvö af okkur vorum voru mótmælendur af Lúterskum grunni, ein rómverskur katólikki og einn utan trúfélaga.

Vangaveltur okkar fjölluðu um virðinguna fyrir lífinu. Mannlega virðingu og viðhald lífs.  Umræðurnar voru heitar á köflum, en sameiginlegur vilji okkar til að finna lausn á vandamálinu án neinna kreddukasta var yfirsterkari tilfinningahitanum.

Umræðan fór frá líknardrápi til skilgreiningarinnar um "dauða" þ.e.a.s. hvað sé endanlegur dauði einnar manneskju. Við urðum öll sátt um að heiladauði, væri líklega hugtakið sem gæfi fyllilegasta stöðvun starfsemi líkamans sem lífheildar.  Öndun og hjartsláttur eru forsendur þess að líkaminn fái til sín næringu og súrefni. Þegar þessum þáttum er ekki að dreifa, deyja frumur og líkaminn tapar skjótt eiginleikum sínum og lífi.  Það hefur verið sýnt fram á að þótt engin mælanleg starfsemi sé til lengur í heila einstaklings, er hægt með öndunarvél að framlengja líf líffæra.

Með þessari aðferð, sem lengi hefur verið notuð, hefur gefist tækifæri til að sýna fram á að samspil heila og líkama er rofið. "Heiladauði" hefur verið mikið notað hugtak af læknastétt og oft í formi hálfgerðs "lausnarorðs". Hér á ég við að í vitund fólks er orðið "heiladauði" merkingarberandi fyrir "endalok lífs" eða "endalok NN eins og hún eða hann var "og við þekktum hann/hana öll". 

Heiladauði er ekki samheiti dauða. Heiladauði er ekki orð sem þýðir ekki dauði, eða er jafngildi dauða, heldur ERdauði.  Heiladauði er því ekki "kóma" eða eins og það nefnist á ensku coma - heldur fullkominn heiladauði. Fólk getur vaknað út kóma, enda þá er fyrir hendi hluti eða fullkomin heilastarfsemi sem af einhverjum orsökum hefur verið lömuð, en mælanleg/sýnileg. Kóma hefur í grófum dráttum verið skipt í tvö stig: PVS (Persistent Vegitative State) og MCS (Minimally Conscious State). 

Hér er ekki verið að búa til "enn eina dauðaskilgreiningu". Hér er bara verið að gefa hinu þekkta nafn. Fólk getur dáið af ýmsum orsökum. Fólk getur "skilið við" vegna sjúkdóms, hjartaáfalla, slysa og svo framvegis. Sumum er "bjargað til baka", öðrum ekki.   Sumir komast fljótt eða eftir lengri tíma úr sínu alvarlega veikindaástandi meðan aðrir deyja.  Hér gerist að fólk getur fengið það sem kallast heiladauði; lok starfsemi heila. Þetta er óafturkræft ástand. Líkamanum er hægt að halda gangandi, en hugsun og personuleiki. Þessi dauði einstaklingsins er endanlegur.

Gamlar kreddur sem við þekkjum frá tímum Nikolausar Kóperníkusar [1473 - 1543] og Galíleos Galílei [1564-1642] um að sólin hefði verið miðja sólkerfisins voru jafn fjarstæðukenndar á sínum tíma eins og álit og hugmyndir fólks í dag um að hjartsláttur og púls sé til sönnunar fyrir því að sálin sé enn til staðar í einstaklingum (jafnvel þótt engin heilastarfsemi sé fyrir hendi). Hversu margir hafa ekki í sögu Ísland (og heimsins) verið kviksettir þar sem engin púls var mælanlegur og hjartsláttur sömuleiðis?  Flest þekkjum við einhverjar sögur þar að lútandi.  Hjartað stýrist af heilanum og öndunin með. Því er það þegar heilinn deyr að sál og líkami skiljast að og líf fjarar út.

Ágústínus kirkjufaðir, sem sannarlega vildi ekki meina að hugur og sál væru tengd heilanum, sagði "að þegar starfsemi heilans, sem stýrir líkamanum lýkur, hverfur sálin frá líkamanum. Því þegar starfsemi heilans, sem er svo að segja í þjónustu sálarinnar, hættir vegna einhvers galla eða röskunar af einhverju tagi, er það eins og sálin sé ekki lengur til staðar og hefur farið burt. [De Gen. ad lit., LVII, kap. 19; PL 34, 365]. Orð Ágústínusar eru gömul en styðja frá fornu fari þessa hugsun um brotthvarf persónunnar. Hann hafði ekki sömu tæki og við í dag til að skera úr um hvort heilastarfsemi væri fyrir hendi, en samt gefur okkur hugmynd um hversu lengi þessar pælingar hafa verið í gangi - og eflaust svo lengi sem mannleg vitund hefur verið fyrir hendi.

Jæja, við sátum og ræddum þessi mál fram og til baka. Ég vissi að einhver hafði reynslu af því að náinn fjölskyldumeðlimur hafði dáið heiladauða. Síðar fengum við að vita að hafa verið í öndunarvél í 3 mánuði hafi þessi ættingi verið aftengdur og í kjölfarið hafi öll líkamleg starfsemi hætt. Það kom á óvart að það var einmitt sú manneskja sem var mest "pró" eða jákvæð fyrir "heiladauðaskilgreiningunni".

Við sem sátum þarna og drukkum ofmarga kaffibolla og borðuðum of margar piparkökur og lussekatter komum þennan dag úr ólíkum áttum, félagslega, trúarlega, hvað varðar fjölskyldustöðu og lífssýn. Síðan hafa leiðir okkar komið saman nokkur skipti. Öll úr mismundi áttum, leidd af sannleiksþrá og að geta talað ábyrgt og yfirvegað um spurningar lífsins. Öll ákváðum við að gefa rödd hvors annars rými og að vera tekin til álita. Ekkert af okkur ákvað að koma aftur eða að við mæltum okkur mót, en við höfum hist síðan dregin af virðingunni fyrir hvort öðrum, viljanum að læra eitthvað nýtt og að vera náungi náunga okkar.


Annar sunnudagur í aðventu - hugleiðing

adventsljus2

"Kom þú, kom, vor Immanúel!" 

Ótti er einn af streituvöldum mannkyns. Það er skrýtið hvað óttinn er oft ógrundaður. Óvissa getur valdið ótta. Óvissa um hvort við stöndum okkur í starfinu, hjónabandinu, félagsskapnum, vinahópnum, lífsgæðakapphlaupinu eða því öðru sem okkur er mikilvægt - veldur streitu. 

Einu sinni var lítil mús. Hún þjáðist af ofsahræðslu vegna katta almennt. Einn dag sat hún og bað til Guðs. "Kæri herra Guð, gerð mig að ketti svo ég þurfi aldrei að óttast þá meir!"   Og bæn músarinnar var svarað, hún var nú orðin að gulbröndóttum ketti.  Kötturinn var sjálfur logandi hræddur við hunda. Einn dag bað músin: "Kæri herra Guð, gerðu mig að stórum hundi, svo ég þurfi aldrei að óttast hunda" og þegar í stað breyttist kötturinn í stóran grimmúðlegan hund.  Hundurinn vappaði um glaður þar til hann hitti ljón.  Hann varð ofsahræddur og bað hátt og í hljóði til Guðs: "Guð, ger mig að stóru grimmu ljóni, svo ég aldrei þurfi að óttast annað ljón." Í sömu svipan breyttist hundurinn stóri í ljón, grimmúðlegt og hættulegt.   "Nú er ég laus við allar áhyggjur" hugsaði ljónið.  Á svipuðum slóðum var veiðimaður á ferð og hafði hann komið auga á ljónið og hafði riffil með sér. Þá er ljónið sá að hann hlóð riffilinn, bað það innilega til Guðs: "Guð, ger mig að manneskju, allir óttast þær. Þá mun ég loksins finnast ég trygg."  Á sömu stund breyttist ljónið í manneskju.   Manneskjan fór trygg í lun og full af sjálfsöryggi heim.  Þetta hefur verið stór dagur, líklega best að fara heim og hvíla sig, hugsaði manneskjan.  Rétt í því þegar manneskjan hafði opnað dyrnar að húsinu sínu og stigið inn í eldhúsið, skaust lítil mús yfir gólfið. Manneskjan æpti, hoppaði upp á stól í ofsahræðslu og hristist af skelfingu.

Trúðu á Guð, treystu þeim sem kemur. Brjóttu vítahringinn, brjóttu af þér upphugsaðar hindranir. Treystu Guði og þú hefur ekkert að óttast frekar.  Hann er, var og verður uppspretta sannleika, friðar, kærleika, jafnréttis, fyrirgefningar og umburðarlyndis. Fylktu þér að baki honum og þú munt aldrei óttast meir!


Nú er ég kjaftstopp!

Lesið þetta og veltið fyrir ykkur hvort allt sé í lagi?

 

http://visir.is/article/20081204/VIDSKIPTI06/230143719


Fyrirmyndar stjórnendur?

Og landsliðsþjálfarinn hrópar af hliðarlínunni:

         Strákar! Tala saman!


mbl.is Hitti Davíð ekki í tæpt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráð

I X. kafla almennra hegningarlaga (lög 40:1940) er fjallað um landráð.  Þetta er áhugaverð klausúla sem er gaman að skoða. Hegningarlögin eru afskaplega tætt af viðbótum, ákvæðum sem komið hafa síðar, milliríkjasamningum og ákvæðum þeirra og slíku. En meginstofn laganna er enn að með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða. Fer það nú eftir því hvernig maður les lagatextana hvernig þeir túlkas hverju sinni og eflaust hvar í stjórnmálaflokk sá er les er settur. 

Nú er ég óbundinn neinum stjórnmálaflokki. Ég er frjáls að mínum skoðunum og nýt þess að kosningar eru bæði lýðræðislegar og leynilegar.  Þannig getur hver og einn greitt atkvæði eftir samvisku sinni. Krossað við það stjórnmálaafl sem hann telur að best geti þjónað fólki og landi hin hefðbundnu fjögur árin. 

Lögin er því til þess fallin að hafa hemil á fólki, tryggja öryggi og velferð okkar. Þegar lögin eru brotin, er refsað eftir þeim.  Við þekkjum lögin, við þekkjum í hverju refsingarnar eru faldar - en umfram allt hvað samfélaginu er fyrir bestu. Því samfélagi sem við viljum tilheyra og eigum rætur okkar í.  Einmitt þetta er áhugavert!  Það er þetta samfélag sem við skiljum. Sjaldnast þurfum við að kíkja í lagasafn Alþingis til að vita hvort við megum þetta eða hitt. Þessi vitneskja er einfaldlega samgróin okkur og samfélagsmynd okkar.   Við vitum oftast hvað við megum ganga langt. 

Að þjóna landi og þjóð á ekki að vera skylda, heldur okkur ljúfara en skylt.  Því vaknar mín spurning um forgangsröðun og drengskap þegar ég sé fréttir um bankamál.  Hvernig má það vera að lög um bankamál og reglur þar að lútandi eru settar hagsmunum ríkisins ofar.  Ég rakst á þessa grein ofantilgreindra laga:

91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.

Mér varð hugsað til þeirra "bankaleyndar" sem oft hefur verið nefnd nú af frammámönnum landsins. Embættismönnum sem starfa fyrir ríki og þjóð.  Hver er sú bankaleynd sem er hagsmunum ríkisins æðri?  Má einfaldlega skýla sér bak við bankaleynd þegar þjóðarhagsmunir eru í tafli og vitneskja um eitthvað sem er mikilvægt á neyðartímum fyrir þjóðina að vita, er haldið aftur? 

Nema ....  allt sé náttúrlega bara hreinn uppspuni. 

Ég tel að það að kasta fram orðunum "bankaleynd", "leynisamningum" eða slíkum orðum, eru til þess fallin að "auka vægi" einstaklinga í hræðsluáróðursskyni; að þeir sem hafi uppi þessi orð verði stikkfríir vegna "þeirra upplýsinga" sem þeir búa yfir?   Ég hreinlega veit ekki.  Þetta er sú tilfinning sem vissulega kemur upp þegar við heyrum vikulega um þessa"leynd".


mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband