Enn um nýju biblíuþýðinguna

Mér lærðist einhverntíman að þegar maður væri reiður, ætti maður að bíða örlitla stund, hugsa málið og síðan tjá sig. Ég er búinn að hugsa málið, velta mér upp úr textum og sjálfum þýðingarfræðunum bak við helgirit eins og biblíuna okkar og viti menn - ég er ennþá reiður. Ég er bálillur réttara sagt.

Það sem fer í taugarnar á mér er fremst það að mín helga bók, biblían, Guðs orð til okkar manna, frásagnirnar af Drottni mínum Jesú Kristi hafa verið búnar í svo fátæklegan búning að ég get varla lesið þessa elskuðu texta ógrátandi.  Ég hreinlega skil ekki - já, mér er gersamlega frámunað að skilja hvernig íslenska biblíuþýðingarnefndin, svo menntuð og velmetin sem hún var, skuli hafa getað látið svona frá sér fara.

Með nýrri biblíuþýðingu hefur verið brotin íslenskt málhefð. Biblían íslenska hefur alltaf verið álitin háheilög bók. Hún hefur verið virt sem slík og hátíðlegt, kjarnyrt og ríkt málfar hennar hefur verið gimsteinn í íslenskri ritunarsögu. Um enga bók hefur verið farið mildari höndum en um einmitt heilaga ritningu. Þess vegna kemur þetta mér stórlega á óvart að ráðist sé með svo lágkúrulegum aðferðum og lítilmótlegum að þessu riti.

Skömm hafi þeir sem að unnu!  Biblía 21. aldar er EKKI helg bók lengur, heldur afskræming þeirrar bókar.  Það vakna spurningar sem þessar: Í íslensku eru þrjár tölur; eintala, tvítala og fleirtala. Hvers vegna í ósköpunum er fólk ekki frætt um íslenskt mál í stað þess að draga helga bók niður í fátækt Hallærisplansíslenskunnar?  Hvers vegna er ósamræmi látið gjósa upp þegar við tökum burt "vér" og "þér" ... og setjum í stað þess "við" og "okkur" á einum stað en höldum í þessi gamla fallega málform á öðrum.  Hvers vegna ekki að láta bókina vera sjálfa sér samkvæma. "Faðir vor" ætti eftir því að vera:

[Faðir okkar, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem himni. Gef okkur í dag okkar daglega brauð. Fyrirgef okkur skuldir okkar, svo sem við og fyrirgefum okkar skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa okkur frá illu, því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu]. 

Dæmi um annað sem vart getur talist túlkun eða heimfærsla, heldur hrein fölsun tek ég úr 7. kap Rómverjabréfsins. Það hófst í '81 útgáfunni: "Vitið þér ekki, bræður, - ég er hér að tala til þeirra, .." í nýju útgáfunni stendur þessi textafölsun: "Þið vitið, systkin - ég tala hér við menn sem ...." 

Hér sleppir öllum skynsemisrökum. Hryggð setur að mér. Hvernig í ósköpunum dyrfist fólk semja nýjan texta og breyta biblíunni?

Ég vil að lokum aðeins vitna til lokaorða Opinberunabókar Jóhannesar. Þar standa m.a. þessi orð: "Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók. 

Ég bið Hið íslenska Biblíufélag að taka þennan ómerka tillgjörning af bókamarkaðinum og endurprenta gömlu 1981 útgáfuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Hæhæ, ég hef verið að lesa hana eins og þú veist, og játa það að ég tók eftir rosalegu muni bara núna upp á síðkastið eins og færslan mín Hvíldardagurinn og Sola Scriptura sýnir fram á,  að sjá muninn á því hvernig enska þýðingin er tekin fyrir og Íslenska hinsvegar er maður orðlaus.  Ég hugsa að ég muni fara nota Biblegateway.com aftur, því þar er að finna 81 eintakið í tölvutæku.  Ef við lítum á björtu hliðina þá er hugsanlegt að þessi biblía verði sem flestum auðlesin, en, og það er stórt en, er takmarkinu þá náð?

Þakka þér kærlega fyrir innlitið til mín, ég met það mikils.

kv.

Linda, 5.6.2008 kl. 19:43

2 identicon

Stóra spurningin er hversu oft í gegnum tíðina það hefur komið útvötnuð og afskræmd þýðing eða umskrifun í gegnum tíðina?

Hversu mikið er eftir af upprunalegu bókinni? 

Jóhannes H. Proppé (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband