Ólafur Skúlason, biskup

Ólafur Skúlason

Biskup Íslands 1989-1997

Ólafur

Mig langaði bara með nokkrum orðum að minnast vígsluföður míns, herra Ólafs Skúlasonar biskups. Ég sat harla lengi við tölvuskjáinn minn þegar ég hafði meðtekið orðin á skjánum um fráfall herra Ólafs og ég leyfði hugsununum að streyma fram með framvindu hvíta tjaldsins. Síðan slökkti ég á tölvunni.

Í Stokkhólmi er blautt í dag, regnið lemur á rúðunum og það drynur í strætóunum sem aka framhjá. Það er farið að skyggja og það er eins og hljóð veðurs og umferðarinnar hérna fyrir utan kalli fram minningarbrot þess tíma þegar ég hafði svarað kalli herra Ólafs og sótt að fara sem sóknarprestur austur á land (1997). Fyrstu kvöldin þegar ég og kona mín höfðum eignast okkar fyrsta barn og ég var einn heima, nýkominn frá sjúkrahúsinu, með það verkefni að eiga standa í fyrstu jarðarför minni. Rigningarslyddan barði á gluggunum í Lagarfellinu, hljóð frá vélum stórra jeppa íbúanna buldu þegar stigið var á bensínið þegar upp var ekið hjallan framhjá mínu húsi og ég sat kvíðafullur og uppgefinn í stólnum mínum og var að myndast við að skrifa minningarorð og fara yfir atferli þess sem síðar varð fyrsta útfararathöfnin mín. Ég minntist þá orða herra Ólafs biskups, orða sem hann hóf samtal með mér rétt eftir að hann hafði vígt mig: "Séra Baldur! Mundu, að vera prestur er ekki starf; það er líf. Sumum reynist þetta þrautalítið, öðrum ekki. Köllunin helst í hendur við lífið; ef lífið er erfitt berst trúin fyrir lífið, þegar trúin á erfitt, berst lífið fyrir hana. Þetta helst einatt i hendur. Enginn á að gerast prestur bara til að messa á jólum". Bundin í bæn mína um styrk til komandi tíma höfðu þessi orð hans mikla þýðingu og knúðu mig áfram við erfiðar aðstæður.

Herra Ólafur var einatt hlýr við mig. Hann verkaði vera það sem ég skil sem "hirðir hirðanna". Þegar ég var að synda í Laugunum átti hann það til að koma til mín og spyrja hvernig gengi á akrinum. Hann hlustaði sem sá sem hafði reynsluna, sem þeim sem ekki var sama og sem þeim sem lét sér annt um prestana sína. Kirkja herra Ólafs var hin lifandi óstofnunarlega kirkja fólksins. Kannski var hún kirkja á tímamótum.  En herra Ólafur var alltaf hinn hlýi, ræktunarsami og vakandi biskup, hinn tryggi prestur prestanna og til hans var einatt hægt að leita eftir hvatningu eða leiðsögn.

Guð blessi minningu vígsluföðurs míns, herra Ólafs Skúlasonar, fyrrv. biskups Íslands. Votta frú Ebbu og fjölskyldu alla mína samúð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband