Kirkjan,fólkið og trúin

Ég fór í guðsþjónustu um daginn. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, enda finnst mér gott að fara í kirkju. Við vorum sennilega um 40 kirkjugestirnir í þessari stóru virðulegu kirkju. Presturinn hafði vandað til prédikunarvinnu sinnar og guðsþjónustan var hin fallegasta í alla staði. Eftir guðsþjónustuna ákvað ég að labba smá aukakrók umhverfis kirkjuna og um nálægar götur.

Ég fór að hugsa hvers vegna svo fáir kæmu til guðsþjónustunnar sunnudag eftir sunnudag. Einu stundirnar þá er fólk kemur til kirkju er þegar fólk stendur í hinum svokölluðu "stóru stundum": Jólum, páskum, skírnir, jarðarfarir, aðventukvöldum, minningarguðsþjónustum og þessháttar. Þesskonar kristni heitir stórhátíðakristindómur og þeir/þær sem mæta einungis í kirkju á slíkum stundum: Stórhátíðarkristnir.  Því miður skilur maður að fólkið komi ekki oftar til kirkju þar sem það er ekki í neinu lifandi samfélagi með kirkjunni og hefur ekki tengsl við hina framvindustýrðu boðun kirkjunnar (kirkjuárið og tengslín við stórhátíðirnar). 

Samfélagið er slitrótt í gerð sinni. Þar er vandamálið hið eiginlega siðrof, fjarlægðin milli einstaklinga og sérhyggjan sme tröllríður öllu. Hver er sinnar gæfu smiður og virðist sem sú hugsun hafi orðið til að byggja múra milli fólks. Yfir þennan rammgerða múr kemst knappast fuglinn fljúgandi. Kærleikurinn reynir að brjóta niður þessar múra. Boðun kristinnar kirkju er boðun hins óeigingjarna kærleika. Kærleika sem krefst ekki endurgjalds, heldur eflist við hvert kærleiksverk.  Kærleikurinn þarfnast þó stuðnings staðfestu og reglu samfélagsins sem á í helstu atriðum að spegla rétt og réttlæti.  Kirkjan er til sem stofnun til að standa vörð um réttlæti, kærleika og boðun þessa tveggja. Kirkja á að vera vökull vörður réttinda fólks, allra og gæta þess að fólk fái að lifa í kærleika og friði, að allir fái að njóta umburðarlyndis sem sýni ábyrgð í gerðum sínum, lífi og samfélagsþátttöku, að enginn verði dæmdur að ósekju, að kröfur ríkisyfirvalda og samfélagsins verði aldrei svo miklar á þegnanna að þeir standi ekki undir þeim. Réttlæti og friður skal haldast í hendur.

I nokkur ár hefur kirkjan fjarlægst þetta flókna og metnaðarfulla hlutverk sitt. Sett sig á sess sem hennar ekki er. Hér á ég við að hún hefur færst frá því að vera kærleikans musteri, sjúkrahús syndara og bænahús til að vera færibandavinnustaður, tómleikans hús. Eftir höfðinu dansa limirnir og hin andlega leiðbeining hefur verið víðs fjarri því að endurspegla það hlutverk að fylgja sporum Krists.  Kirkjan hefur tæmst af fólki. Hún hefur komið afvega og fest í því að vera stórhátíðakirkja fyrir stórhátíðasöfnuð sinn. Enginn dæmir bók bara eftir að lesa samantektina aftast í bókinni. Stóhátíðir gefa ekki fullnaðarmynd af kirkjunni sem samfélagi, heldur aðeins skjásýn - svo þröng sem hún getur verið. Kirkjan hefur komið langt afvega. En vegurinn sem genginn hefur verið afvega er ekki lengri en vegurinn heim, svo staðan er vinnanleg.

Smá pælingar á mánudegi. Vale pie lector!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Góðar pælingar eru hér á ferð, og skil ég þær vel. Því ég hef einnig spurt mig sömu spurninga, og hef enginn svör fengið. Það verður að nútímavæða messuformið og gera það meira aðlaðandi, það væri fyrsta skrefið. En takk fyrir góða grein Baldur.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 22.9.2008 kl. 15:15

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk fyrir það! Ég er mikið að pæla í því nú þegar vart verður við aukna eftirsókn í andlega strauma af líttþekktum toga að fólkinu fækkar í þjóðkirkjunni. Rómversk katólsku kirkjunni vex fiskur um hrygg með allri sinni mystík og ósveigjanleika.  Hvað er a gerast?

Varðandi messuformið sem alltaf virðist vera ásteytingarsteinn þeirra sem haldið hafa sér lengi fjarri kirkju og siðum hennar. Ég er þarna ósammála þér Guðsteinn. Messuformið er vissulega gamalt. Það stendur fyrir sínu þótt gamalt sé. Þeir sem eru fastir gestir á bekkjum kirkna kunna vel við messuformið, þeim líður vel í þessari formgerð hinnar helgu þjónustu, sem hefur verið óskaplega mörg ár í formun. Elstu hlutar þessarar fornu formgerðar guðsþjónustunnar hafa fylgt kirkjunni alla tíð. Það er þó ekki meginástæða þess að þeir séu ennþá á sínum stað. Heldur er ástæðan sú að í gegnum tíðina hafa þessir messuþættir lifað allar tilraunir fólks að pimpa til messuna ef svo má að orði komast. Þessir messuþættir þjóna tilgangi sínum einfaldlega best. Skrúði presta er að sama skapi svolítið út í hött, ef nota má orðfæri flestra sem tjá sig um kirkjuna - en hafa lítil samskipti haft við hana lengi - eða yfir höfuð.   Skrúðinn er einstakur arfur þar sem við tjáum hið einstaka samband þjóna orðs og sakramenta kirkjunnar og hins heilaga. Í kirkjunni erum við ekki að eltast við tísku.  Tískan er tímanleg, kirkjan ekki.  Ég persónulega vil ekki sjá presta í jakkafötum við messu. Af hverju að nota Trabantinn þegar Rollsinn stendur í bílskúrnum?

Baldur Gautur Baldursson, 22.9.2008 kl. 17:53

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Stórhátíðakirkja, orð að sönnu, Baldur Gautur! Þetta er sorglegt ástand sem við höfum horft upp á í áratugi, en ég er ekki viss um að það hafi versnað hér heima hin síðari ár (hefurðu ekki verið alllengi í Svíþjóð?). En pistillinn er mjög íhugunarverður og ætti að ræðast í safnaðarheimilum og kristnu starfi sem víðast ... og í útvarpsmessum, þá nær efnið kannski eyrum þeirra, sem ekki mæta í guðsþjónustuna!

En lokapunktur þinn er svo skemmtilega bjartsýnisvekjandi: "En vegurinn sem genginn hefur verið afvega er ekki lengri en vegurinn heim, svo staðan er vinnanleg." Verst, að þessi braut hefur trúlega hafizt ekki seinna en fyrir 100 árum.

Með kærri kveðju og þakklæti,

Jón Valur Jensson, 22.9.2008 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband