Þannig sköpuðu 10 tonn av umsteyptum fallbyssukopar frá 17. öld umgjörð fyrir helgihald nokkurra Íslendinga sem fögnuðu jólum í miðborg Stokkhólms

Svíar halda jól eins og flestar aðrar þær þjóðir sem byggja á hinum kristna grunni eftir hinni lútersku hefð. Aðfangadagur jóla er sá dagur sem fengið hefur mesta helgi í hugum landsmanna og sjálfa "julafton" er fyrirbæri sem á bræður meðal annarra hátíðisdaga dagatalsins.  Sjálfur jóladagur er bara hvíldardagur. Dagar sem fengið hafa viðskeytið "-afton" eru margir hverjir búnir að draga úr helgi þeirra daga sem koma í kjölfarið.  Hér má nefna julafton, påskafton, pingstafton, allhelgonaafton og midsommarafton - síðasti dagurinn er þó ekki kristin hátíð.  Dagarnir sem eru svo eiginlegir stórhelgidagar hafa horfið í þynnku og/eða svefn.  Aðfangadagarnir hafa sem sagt tekið til sín hið spennandi element, dýrðina sjálfa með þeim afleiðingum að fólk er svolítið "týnt" í hvaða dagur sé hinn eiginlegi hátíðisdagur og þar með hefur sjálfa hátíðin farið á flakk.

Á Íslandi höldum við í hina júdísku/gyðinglegu hefð að dagaskipti eru kl. 18:00 og því rétt að hefja hátíðina með "aftansöng".  Í minni fjölskyldu óskum við ekki gleðilegra jóla fyrr en hátíðin er gengin í garð með klukkanhljómi frá Reykjavíkurdómkirkju kl. 18:00. Þetta er nokkuð skírt. Hér í Svíþjóð hefur allur aðfangadagur fengið þessa helgi og þegar fólk vaknar tekur það að óska gleðilegra jóla. Þreytan gerir vart við sig og þegar loks sjálfum jóladegi er náð, hefur fólkið vaknað af jóla"ölvuninni" og fer að skoða auglýsingar hvort ekki sé rétt að fara niður í bæ að skima eftir jólaútsölunum "jul- REA".

Helgin hverfur því eftir aðfangadag jóla og það eina sem er eftir eru ljósaskreytingar og svo aðventuljósin sem mörg hver hverfa ekki út gluggunum fyrr en í lok febrúar.

Jólin mín voru hápunktur mjög annasams desembermánaðar. Samtímis sem ég hef verið í meistaranáminu í Uppsölum og síðan hobbýnáminu mínu í Falun, hef ég verið að vinna í kirkjunni hér í mið Stokkhólmi. Við eru vel búin í kirkjunni. Burtséð frá því að við eigum eitt besta tónlistarhús í borginni (hljómburður ku vera með þeim besta sem fæst) höfum við frábæran Kammarkór; S:t Jacobskirkjunnar Kammarkór og stórbrotið orgel á kirkjan (að stofni til frá 1770). Þetta gefur okkur kost á að veita aðgang að aðventu- og jólatónlist á heimsmælikvarða. Þannig hefur þetta verið í desember. Ég er búinn núna að vinna á 16 jólakonsertum, sjá um 3 messur í mánuðinum og vera í hlutverki sálusorgara "in loci" á dagtíma 3 daga í viku, 4 tíma í senn.

Ég var þreyttur á aðfangadagsmorgun þegar ég þrammaði niður í strætóbiðskýlið og beið eftir strætó nr 40. Ég átti að byrja að vinna kl. 11:00 en ég gat ekki sofið. Vaknaði hálf sjö!  Ég hugsaði að það væri alveg eins gott að opna bara kirkjuna og sýsla með hluti þar en að sitja heima. Svo ég var kominn tímalega og gat opnað kirkjuna rétt fyrir klukkan átta.  Þá var fólk á stangli í bænum. Eftir að ég hafði kveikt á ljósunum inni í kirkjunni og sett út lifandi ljós fór fólk að velta inn. Ljósberi og ljósborð sem við höfum fyrir lítil kerti var fullur klukkan 10:00.  Hvor um sig tekur 30-50 kerti.  Fólk sat lengur í kirkjunni en venjulega og margir komu og borðuðu kex og fengu kaffi hjá mér í suðvesturhorninu í kirkjunni.

Klukkan eitt kom eistneski presturinn Ingo Tiit Jagu í kirkjuna og tókum við sitthvorn bollann og spjölluðum lítillega.  Klukkutíma síðar var kirkjan full af fólki. Eistarnir greinilega fjölmenntu til jólaguðsþjónustu sinnar og þegar mest var var um 750 manns í kirkjunni. Þetta var hátíðleg stund og allir sungu svo að þakið ætlaði af kirkjunni  :)    Þremur tímum síðar kemur svo næsti hópur fólks og í þetta sinn er það góður kunningi, Nick Howe prestur anglíkönsku kirkjunnar í Stokkhólmi. Það var komið að guðsþjónustu enskumælandi í Stokkhólmi.  Guðsþjónustan var skemmtileg. Það var sungið næstum því eins og ef þátturinn "óskalög sjúklinga" væru í beinni.  Organistinn spilaði þá sálma sem fólkið bað um og aftur breiddust ljúfir tónar út á Jakobstorgið og nærliggjandi götur, en kirkjan var galopin í norður, vestur og suður. Forvitið fólk kom inn og þegar mest var vorum við um 250 í kirkjunni. Þetta var ljúf og góð stund.  Klukkan stundarfjórðung í sex var þjónustan búin. 

Það var ánægjulegt að hitta nokkra Íslendinga í Jakobskirkjunni þarna á aðfangadagskvöld.  Klukkan var rétt fyrir sex og ég heyrði af röddum þeirra að þetta væru landar mínir. Ég spjallaði stutt við þau og síðan eftir stutt spjall héldu þau áleiðis til hótelsins síns þar sem þau ætluðu að borða jólamatinn. Jólaboð nokkurra Íslendinga var svo í fullum gangi nokkrum götum frá kirkjunni og veisla var í danska sendiráðinu hinum megin við torgið. Dúnalogn í borginni, ekki hreyfið hárstrá, hitastig við -1°C og fallegur himinn.  Þetta var eins og ég hef alltaf ímyndað mé fyrstu jólin í Betlehem. Einstaka bíl heyrði ég í úti við Gústaf Adolfstorg en stillan var næstum því yfirþyrmandi. Jólin voru að ganga í garð.

Ég kvaddi Íslendinganna. Þau gengu út á Jakobstorgið og ég inn í kirkjuna. Hún var að tæmast af fólki. Ég gekk yfir að "ljós og hljóðborðinu" og ýtti á takka sem stóð á "Klocka I".  Eftir um 40 sekúndur kviknaði grænt ljós til vitnis um að turnlúgurnar höfðu allar opnast og í sömu mund tók stórklukkan að kasta hljómi sínum yfir mið-Stokkhólm, rétt eins og hún hefur gert hver jól í næstum þrjúhundruð ár. Englarnir höfðu sagt á Betlehemsvöllum við hirðingjana sem vöktuðu sitt fé: "Dýrð, dýrð, dýrð sé Guði í upphæðum....".    Eftir um hálfa mínútu lýstu allir hnappar í borðinu og klukkurnar hringdu; allar fjórar klukkurnar og kölluðu út í náttmyrkrið "Dýrð, dýrð, dýrð...." með sínum ýmist þungu og rámu - eða hvellu og háu köllum:  "Dýrð"    Þannig sköpuðu 10 tonn af umsteyptum fallbyssukopar frá 17. öld umgjörð fyrir helgihald nokkurra Íslendinga sem fögnuðu jólum í miðborg Stokkhólms.

Eftir að kirkjan var tóm og ljósin slökkt. Kvaddi ég kirkjuna, bauð henni góða nótt, læsti og hélt heim á leið.  Fáir voru á ferli í neðanjarðarlestinni. Þegar komið var á leiðarenda, mundi ég að auðvitað var "stórhátíðartímatafla" hjá strætó. Ég labbaði því í yndislegu veðrinu í 12 mínútur, heim á leið. 

Þegar heim var komið tók ég fram hangikjötið góða sem mamma og pabbi höfðu sent mér. Kartöflurnar voru þegar soðnar og tilbúnar.  Ég lagaði uppstúf og setti disk fyrir mig og glas á borðið og bestikk. Mér leið svo vel, þótt ég væri ósköp þreyttur. Ég tek upp nokkra pakka frá fjölskyldu og vinum.  Hringi til pabba og mömmu, barnanna minna í Reykjavík, Mikka og fæ síðan helling af sms-skeytum. Mér leið eins og ég væri umvafinn vinum og fjölskyldu þótt einn væri. Gaf síðan fiskunum mínum mat og settist og borðaði.  Eftir mat kveikti ég á kertum í litlu rauðu kertaskálinni sem ég fékk í jólagjöf frá Magdalenu og Nikulási fyrir 4 árum og setti við myndina af þeim.

DSCF0356

Hvílíkt yndislegt kvöld. 

Mitt er ekki að biðja um meira en ég hef. Mitt er að þakka fyrir það sem ég hef. Takk allir! 

Gott og gleðiríkt nýtt ár 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Yndisleg lesning.  Takk fyrir mig

Sigrún Jónsdóttir, 26.12.2008 kl. 22:43

2 Smámynd:

Það var gott að lesa þennan pistil. Mér líður vel eftir hann. Friður. Hátíðleiki. Einmitt það sem við viljum að einkenni jólin.

, 27.12.2008 kl. 00:05

3 Smámynd: Dóra

Fallegt blogg hjá þér vinur.. Eigðu góðan dag... kveðja frá Esbjerg Dóra

Dóra, 28.12.2008 kl. 07:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband