Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Grýla

... hjálpi mér hamingjan.  Er fólk alveg orðið snarvitlaust.  Ég segi það enn og afur: Grýla er herfileg og ljót - það er ekki í hennar valdi að "prýða" eitt eða neitt.   Getur fólk ekki reynt að koma betur fyrir sig orði?

Hverjum dettur svo í hug að hengja Grýlu á jólatréð?


mbl.is Grýla prýðir Óslóartréð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti sunnudagur í aðventu - hugleiðing

adventsljus1 

Í höfuðborg Austurríkis hinni fallegu Vínarborg, stendur fjarska látlaus en áhugaverð kirkja, Kapusínkirkjan.  Hún hefur svo að segja komist á ferðamannakortið vegna þess að í henni eru grafir keisara Habsborgaraættarinnar - allavega flestra þeirra sem féllu frá eftir 1618. Fyrir þá sem hafa ryðgað í mannkynssögunni sinni þá ríkti Habsborgaraættin yfir Heilaga Austrómverska keisaradæminu frá upphafi 13. aldar þar til 1918 eða þá er ríkið hafði skroppið saman í það sem rúmlega taldi Ungverjaland og Austurríki. Og af hverju vel ég nú að tala um grafhvelfingar keisara nú á nýársdegi kirkjunnar, fyrsta degi í jólaföstu? Ef til vill finnst einhverjum þetta vera hálf kaldranalegt þegar fólk á helst að vera glatt og fagna nýju kirkjuári. En við ársskipti er viðeigandi að vera áminnt um hvað það er sem RAUNVERULEGA skiptir máli. Það er beinlínis hollt að líta sér nær og hugsa um þau landamæri sem girða af jarðneskt líf okkar.  Það er okkur þá heillavænlegt að líta á "auðæfi" okkar, þau auðæfi sem þekkja engin landamæri, þau sönnu auðæfi sem við tökum með okkur þegar veröldin dregur sín landamæri. Þau auðæfi sem hvorki mölur eða ryð fá eytt.

Þegar einhver af keisurum (eða keisaraynjum) hinnar gömlu ættar Habsborgaranna lést fór fram sálumessa yfir/fyrir þeim látna i miðborg Vínarborgar. Eftir að henni lauk hófst gríðarleg líkfylgd frá þeirri kirkju þvert yfir borgina til Kapúsínkirkjunnar, þar sem viðkomandi átti að fá sinn hinsta jarðneska hvílustað. Þegar komið var að kirkjudyrunum með kistu keisarans var knúið þrisvar á kirkjudyrnar. Prestur svaraði bak luktra dyra: "Hver er þar?" "Það er hans postullega hátign, keisarinn" var svarað að bragði utan kirkjudyranna. Presturinn svaraði þá: "Ég þekki hann ekki."  Aftur var knúið dyra og presturinn spurði á sömu leið sem fyrr "hver er þar?"  "Það er keisarinn" var svarað þegar í stað. "Ég þekki hann ekki" svaraði presturinn.  Þriðja sinni var barið þrisvar sinnum á dyr Kapúsínkirkjunnar.  Það er svarað inni í frá kirkjunni "hver er þar?"  Eftir stutta stund er svarað: "Það er iðrandi syndari, bróðir þinn". Dyrunum var þá lokið upp og presturinn sagði: "Kom inn bróðir".

Þetta leikræna ritúal minnir okkur á að ferðin sú sem við öll verðum einn dag að leggja upp í, er ferðin frá hroka og yfirlæti til auðmýktar og látleysis. Ferðin frá auðæfasöfnun þessa heims til söfnun auðæfa eilífa lífsins.  Guð er áhugasamari um það sem við gerum, en um það sem við segjum. Orðin tóm og engin verk eru sem sláturfórn og brennifórn, rétt eins og segir í Davíðsálmi 51.  Hjartans bæn sem breytir okkur; hvernig við hugsum og hvernig við breytum - er bæn sem Guð hefur heyrt og svarað. Hvers virði er bæn án hjarta?  Hvers virði er hugsun án athafna?  Já, hugsunin verður áfram bara hugsun, hugmynd - en ekkert meira.

Hinir framliðnu af húsi austurísku keisarafjölskyldunnar var veitt aðgengi að grafarkirkjunni, EF þeir komu fram sem aumir syndarar og viðurkenndu syndir sínar. Jafnvel þótt sjálft ritúalið væri táknrænt , var gildi athafnarinnar gífurlegt fyrir tilkall ættarinnar til krúnunnar, því að baki orðum rítúalsins bjó djúp guðfræðileg merking: Ef einhver vill vera mestur meðal annarra, verður hann að verða hinn minnsti og allra þjónn (sbr. Mark. 9:35).

Dagarnir fyrir fyrsta sunnudag í jólaföstu/aðventu eru svolítið dimmir. Drungi þeirra getur verið þyngjandi fyrir okkur mannfólkið.  En nú þegar nýársdagur kirkjunnar, er nýtt kirkjuár hefst á fyrsta degi aðventu, er rétt að horfa bæði til baka og fram á við. Hér á ekki við að lifa í depurð yfir því sem ekki var gert og hvers við hefðum viljað koma í framkvæmd.  Margt verður ekki alltaf eins og við hefðum helst á kosið. Rétt er því á fyrsta degi nýs kirkjuárs að horfa fram á við, sjá hvaða tækifæri bíða eftir að við sýnum þeim athygli og áhuga.  Við höfum 365 daga fram fyrir okkur sem allir eru fylltir með áhugaverðum og spennandi viðfangsefnum, verkefnum sem bíða okkar sem kristinna einstaklinga.  Þetta er eins og ratleikur þar sem ein vísbending bendir á aðra og þekking okkar eykst og áhugi.  Þannig fá dagarnir líf og yndi okkar af þeim eykst til muna. 

Gleðilegt nýtt kirkjuár!


Minningarmörk i Hólavallagarði

Mér finnst rétt svona í tilefni þess að 170 ár eru síðan vökukona Hólavallagarðs Guðrún Oddsdóttir, amtmanns Stefáns Stefánssonar, var grafin í garðinum og hann þar með helgaður framtíðar hlutverki; sínu að veita Reykvíkingum hinsta jarðneska hvílustað - að minna á frábæra bók Björns Th. Björnssonar listfræðings Minningarmörk í HólavallagarðiBókin kom út hjá Máli og menningu árið 1988. Bókin er prýdd mörgum ljósmyndum og teikningum. 

Endilega kynnið ykkur þessa frábæru bók Björns Th.


mbl.is Kirkjugarðurinn við Suðurgötu 170 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óveður og óveður, ekki sami hluturinn

Seint á hverju hausti er sendur inn á öll heimili í Svíþjóð bæklingur frá sænsku vegagerðinni. Þetta er bæklingur með myndum og áhugaverðum fyrirsögnum, en innihaldið er einatt hið sama:  "Þetta hvíta sem kemur úr loftinu: það heitir snjór og árstíðin heitir vetur" ... síðan er á fjarska barnvænan hátt fjallað um að snjór geti skapað hálku og svo þegar snjór og frost fari saman sé voðinn vís - svo ekki sé talað um þegar svo fer að hlýna aftur og allt verður blautt og slabb út um allt. 

Jafnvel þótt farið sé gersamlega í undirstöðuatriði þessarar árstíðar þ.e.a.s. komandi vetrar virðist fólk alltaf jafn óviðbúið. Fólk asnast til að keyra um á verulega slitnum Yul Brynnerum (fyrir þá sem muna eftir honum) ekur hratt og af mikilli vankunnáttu. Svo lendir fólk í raðárekstrum og oft verða mannskæð slys og enginn skilur af hverju! 

Í morgun var svo hellingur af fólki sem stóð fyrir utan strætisvagnabiðskýlið framan við húsið mitt. Flestir voru grautfúlir og argir út í strætisvagnsbílstjórann fyrir að það hafði snjóað í nótt og skaflar út um allt!  Hvað er þetta með fólk?  Og aumingja bílstjórinn sem reyndi að aka varlega og ausa ekki snjó yfir fólk og farþegum heilum á áfangastað!

Hvað er það sem fólk skilur ekki?  

 


mbl.is Óveður í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsunnudagurinn

Það er létt að dæma.  En er jafn létt að dæma rétt?   Hvaða dóm óttumst við mest og hvernig er lífið eftir þann dóm, ef líf skal kalla?   Hvernig er að vera dæmdur að ósekju?   Dómshugsanir voru aðalþema texta guðsþjónustunnar í dag í kirkjunni. 

Hinn síðasti dómur, dómur allra dóma. Dómuinn sá hinn endanlegi var þema dagsins í dag.  Dómur Guðs yfir sköpuninni. Í dag er nefnilega skv. sænsku kirkjudagatali hinn svokallaði "dómsunnudagur" - síðasti dagur kirkjuársins. Næsta sunnudag er 1. i aðventu/jólaföstu og þar með nýársdagur kirkjunnar.  Þessi dagur hefur svo nöturlegt þema (dómurinn)  því okkur er gert að horfa um öxl og læra af því sem betur mátti fara, en síðan næsta sunnudag að halda fram í bjartari framtíð.  Um það ræddi ræðumaður dagsins sem talaði í guðsþjónustunni. Ég sá um sjálfa messugjörðina.

DSCF1660bb

Jæja, best að fara hvíla sig eftir langan dag!  Góða nótt hrelldi heimur!

 


Messa heilagrar Sesselju - 22. nóvember

st_caecilia_verona

Í kvöld ætla ég að venju að setjast niður stinga geisladiski í DVD-spilarann og hlusta á Messu heilagrar Sesselju eftir Joseph Haydn. Þetta hef ég gert nú í a.m.k. 8 ár. Heilög Sesselja er að gamalli kirkjuhefð verndardýrðlingur tónlistarinnar í kirkjunni. Minningardagur þessa dýrðlings er 22. nóvember er sömuleiðis afmælisdagur minn. Mér finnst þetta passa svo vel því kirkjutónlist er mér hugleikin og kær. 

Hef þetta stutt blogg í kvöld - því ég þarf að undirbúa messu fyrir morgundaginn.  :)  Góða nótt hrelldi heimur!


Hvaða lausn er í því að banna vændi?

Margar þjóðir hafa nú tekið til við að banna vændi með lögum, gera það refsivert að kaupa og þar með komið af stað enn verri vítahring. 

Með því að gera vændi saknæmt, er verið að skapa undirheimaveröld sem mun efla um allan mun ólöglega neðanjarðarstarfsemi og þrælastarfsemi undirheimaklíka og mafíuvelda.  Þetta mun þannig tengjast eiturefnaneyslu og sölu á fíkniefnum og hverfa frá hinum "þekkta" heimi hversdagsins. Öryggi þeirra sem selja líkama sinn, eða réttara sagt nota líkama sinn sem atvinnutæki, munu líða fyrir óöryggi og réttleysi gagnvart lögum og ekki njóta neinnar lagaverndar. 

Er ekki betra að þessi elsta starfsgrein heimsins fái að vera til á yfirborðinu, leyfa mannlega virðingu fyrir heiðvirt starf, gefa þessu fólki sem starfar á sviði vændis heilbrigðisþjónustu, tryggingar og öryggi.  Með því að fela vændið, hverfur það ekki. Það mun alltaf vera til. Það er mitt mat að mannréttindum og mannvirðingu sé betur skýlt og varið gegn því að fela þessa starfsgrein ekki.

 

 


mbl.is Vændið verði ólöglegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bleikur fíll í herberginu, en enginn sá neitt!

Já, það er bleikur fíll í litla herberginu okkar og það er enginn búinn að sjá hann!   Hvernig getur þöggunin orðið svo algjör nema fyrir tepruskap og áræðnilausa stjórn Íslands til margra ára. 

Dr. Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics segir stöðuna á Íslandi vera sjálfskaparvíti.  Bara það að láta sér detta í hug að ráða fyrrverandi forsætisráðherra í stjórn seðlabanka lands er fásinna.  Ég verð að taka undir orð Jóns. Þetta er fásinna sem aðeins Íslendingum dettur í hug að gera.  Það hefur lengi verið nefnilega svo að fyrrverandi þingmenn geta ekki hætt heiðarlega að vinna eða snúið rétt eins og aðrir til hefðbundinna starfa. Nei þeim verður að koma fyrir í háum stöðum og fyrir slíkar stöðuveitingar skal þjóðin gjalda. 

Hagsmunir stjórnmálaflokka ganga fyrir þjóðarhagsmunum.  Þetta verður að stöðva. 

Jón nefnir að mikilvægt sé að seðlabankastjórar séu hlutlausir og málefnalegir.  Hér á EKKI við neitt flokkapot. Hér eiga að ráða hin æðri gildi, ÞJÓÐIN, ÍSLAND.

Burt með spillingarliðið og þar fremstan Davíð Oddsson.


mbl.is Varnarræður fyrir neðan virðingu Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð sýnir sinn innri mann! ojj ojj ojj

Hægt væri að skilgreina háttarlag Davíðs Oddsonar sem sjúklega þráhyggju með ívafi haturs og grunnhyggni og taumlausu vantrausti til embættismanna ríkisins.  Auðvitað hefur sýslumaður verið búinn að kanna öll formsatriði.  Ég trúi ekki öðru.  Þannig á embættisfærslan að vera. Ég því miður vantreysti orðum Davíðs í öllum atriðum. Hann er ekki trúverðugur lengur og hefur ekki lengi og verður aldrei.


mbl.is Davíð sagður hafa gert aðför að forsetahjónunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á trúverðugleika

Ef erindrekar þingflokkanna sátu 6 fundi með bankastjórn Seðlabankans hví þá í ósköpunum gerði enginn neitt?  Er það greind sem þetta fólk skortir?   Var splaskið í laxveiðiánni of hávært til að þingflokksfólk heyrði hvað bankastjórnin sagði?  Var bankastjórnin ekki nægilega skýr í því sem hún sagði?

Hvar liggur vandamálið!  Þetta jaðrar við einfeldni trúa að 6 fundir hafi ekki skilað neinu! Trúðu ekki þingmenn sínum eyrum vegna "ótrúverðugleika" Davíðs Oddsonar?

 

ps. var einhverjum eða öllum greitt fyrir þessa fundasetur?


mbl.is 6 fundir með seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband