Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Masjävlar (2004)

Í kvöld hef ég horft á sænsku kvikmyndina Masjävlar. Kvikmyndin var sýna á SVT1 það er að segja RÚV þeirra Svía. Kvikmyndin var svo skemmtilega sammannleg og falleg með öllum tilbrigðum sínum við mannlega náttúru, litfengi og fegurð í ljótleika - þetta var eins og paletta hins sammannlega. Sögusviðið var í stuttu máli það að ung kona kemur heim frá stórborginni í sveitina til að samfagna föður sínum sjötugum. Hún, hún sem hið þögla vitni lífsins í sænsku Dölunum er skyndilega fangin í tilfinninganna ólgusjó - knappas sundfær sjálf vegna eigin tilfinningabyrðar.  Ofurseld tilfinningum dregst hún inn í stórdramatískt fjölskyldulífið sem sannarlega hefur ekki sýnt sitt rétta andlit lengi. Ausið hefur verið eldsneyti í gegnum árin á andlega köstinn sem við hátíðahöldin í sambandi við afmæli föður hennar.  Nú er kösturinn síðan fyrir margt löngu síðan gegnósa. Tundið frá tilfinningabombu hátíðarhalda tendrar bólið stóra og stuttlifaða. Niðurstaða myndarinnar er ein stór tilfinningasúpa hinna miklu fórna en síðan hinna stóru sátta.

Frábær kvikmynd með góðum leikurum sem hver á eftir öðrum gerir sitt besta og meira til. Þeir helstu: Sofia Helin, Barbro Enberg, Joakim Lindblad, Lars-Gunnar Aronsson.

 


Fánaborg hvað þá!

Fánaborg! 

fanaborg 

Þetta er nú bara einn fáni. Fánaborg er síðast þegar ég vissi þegar mörgum fánum er safnað saman í þéttri uppsetningu fánastanga - öðrum kosti að gerð sé svona "fánaborg" með því að hvirfla saman ca. 5 fána. 


mbl.is Íslensk fánaborg í Aþenu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álftir á Lappkerinu - vangaveltur um líf

svanir

Lífið er eins og spírall, spírall sem vefst eins og vera ber um sig sjálfan, gormur sem verður eins og tákn fyrir hið síendurtekna í lífinu og samtímis framvindu lífsins um leið.  Aftur og aftur er maður minntur á það sem liðið er, gott og slæmt.  Líf mitt kemur að vera svona – rétt eins og annara og við því er lítið að gera. Maður getur lært af endurteknum svipmyndum frá hinu liðna og hugsað fram í ókunna myrkrið sem bíður okkar allra að stíga inn í. Myrkrið er ekki endilega neikvætt. Heldur tákn fyrir hið ókunna, óvissu og hið hulda. Um helgina annaðist ég sem fulltrúi dómkirkjusafnaðarins hér í Stokkhólmi hjónavígslu í kirkjunni minni. Þarna var fallegt par á ferð sem á sér bjarta framtíð. Með fyrirbæn, handyfirlagningu og blessun Drottins sendum við þau út í lífið. Mér varð óneitanlega hugsað til þeirra hjónavígslna sem ég hef annast og svo til þess tíma þá er ég stóð í sömu fótsporum. Allt virtist vera svo bjart og framtíðin falleg og heillandi, sem hún var.  En svo skiptast veður og áttir og það sem ekki á að gerast gerist. Það sem ekki var til í myndinni í upphafi skýtur upp kollinum.  Mismunandi áherslur, langanir, líf – tveir ólíkir vegir skilja sundur hinn þegar venjulega veg.  Á sunnudag átti ég frí úr vinnunni. Ég var mest heima og hugsaði um lífið og tilveruna. Ég setti upp forrit í tölvunni minni sem ég þarf til að geta verið í fjarnáminu í Falun í Dölunum og pantaði mikilvægustu skólabókina sem ég svo fékk með pósti í gær.  Vangaveltur mínar fjölluðu þann daginn um „stríð og frið“.  Hér á ég ekki við hið fræga rit Leó greifa Tolstoy, en mínir þankar fjölluðu engu minna um líf, æsku, kærleika, ást, hrörnun, öldrun lífið og dauðann.  Lifandi gekk ég um litla skóginn umhverfis Stóra Skuggan, sunnan Lappkersins. Ungviði álftanna, móbrúnir ungar þeirra, ófleygir svömluðu milli foreldra sinna þarna úti á litla Lappkerinu. Fannhvítir foreldrarnir höfðu auga með að enginn kæmi of nærri ungunum. Þetta spennuspil á litla Lappkerinu er sannarlega sjónarspil.  Ungar andanna sem syntu allt umkring létu lítið á sér bera og voru í skjóli af foreldrum sínum. Svanirnir svo stórir sem þeir eru gátu hæglega bitið í sundur eða slegið ungana niður dauða með þungum vængjaslögum sínum.  Allir vissu sinn stað og sinn sess í samfélagi litla Lappkersins. Barátta lifsins mót dauða og ögrun umhverfisins.  Ég á líka litla unga sem synt hafa nú í 4 ár á sínu óaðgengilega vatni. Þeir vaxa og dafna og þekkja umhverfi sitt. Þeir eru ungar viljasterkra foreldra. Foreldra sem myndu gefa líf sitt væri það þeim til lífs steðjaði ógn að. Álftirnar á Lappkerinu virðast stundum vera farnar að æfa flugtök á vatninu eftir að þær hafa verið í sárum. Farið er að bera á nýjum flugfjöðrum, þær snurfusa sig og plokka í dúninn. Þær eru farnar að hugsa sér til brottfarar. Ungarnir læra sig eitthvað nýtt á hverjum degi.  Pabba- og mömmu-álftin synda sjaldan saman lengur á vatninu. Það verður að koma vetur og vor til að þau leggi hugi saman. Þannig er lífsins gangur. Þau hverfa á braut í haust og skilja ungviðið eftir í lífsins ólgusjó. 

Ungarnir velja oft að synda með einu foreldranna. Hvort þetta er gangur lífsins veit ég ekki, en svona er þetta – eða er þetta val foreldranna að svona sé þetta?  Enn ein spurningin sem ég kann ekki svar við. Því lengra ég geng í skóginum og nálgast „heim“ – veit ég meira hvað ég veit lítið.  Þetta er skrýtið líf.

Mann langar oft að segja svo mikið, segja frá lífinu. Segja frá þeim dimmu stöðum þar sem ég hef getað kveikt ljós og séð nýja heima, skilið myrkrið og varpað leyndardómi þess í ljóssins skyn. Af hverju, spyr ég mig, eigum við svo erfitt með að lifa með lífinu, lifa með lífinu í allri þeirri ljóssins og litanna dýrð sme þar er að finna?   Af hverju steytum við alltaf um smásteina og látum þá fella okkur?   Ég vona að gráum álftarungarnir sjái lífið eins og það er, ekki bara með augum þess sem þeir elta, enda myndu þeir aðeins verða fleygir, en ekki vita hvert þeir ættu að fljúga.  Guð gefi að þeir læri að fljúga og vita hvert þeir eiga að fljúga.  Ungarnir mínir, lærið að fljúga – leitið ljóssins og fegurðar lífsins víða og skapið tilgang með lífinu og lærið af reynslu annara.

Ég veit hvert peningarnir fóru sem nota átti í nætursjónauka

Lesið gjarnan bloggið hennar Ólínu Þorvarðardóttur:  

http://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/626408/   Það er skelfilegt að sjálfsupphafningin, siðleysi stjórnmálamanna þurfi að kosta okkur þjóðina svo mikið.  Hversu betur hefði ekki þessum greiðslum til stjórnmálamanna - til auglýsingaferða þeirra sjálfra - verið betur komið við kaup á nætursjónauka fyrir Landhelgisgæsluna?   Ég held að þótt við séum stolt af okkar silfupeningum frá Peking, þá held ég að þjóðin vilji frekar geta bjargað fólki heldur en að sjá Þorgerði Katrínu og hennar samstjórnarfólk á áhorfendapöllunum í Hreiðrinu í Peking.  Ég get ekkert fyrir útskýringar um að það hafði verið "rétt" að senda helling af stjórnmálamönnum, ráðuneytisstjórum og mökum þeirra  - mér stendur öryggi landsmanna og gesta okkar á Íslandi hjarta nær en að greiða undir rassinn á þessum stjórnmálamönnum sem hvort eð virðast vera okkur bara til óbærilegrar byrðar.


mbl.is Nætursjónaukar aðeins í einni þyrlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örebro og sænska sumarið!

Þá er maður búinn að fá smjörþefinn af Svensonsumarinu. Einn kunningja okkar Mikka, Henke hefur eitthvert fátal skipta komið og fengið að gista og notið af stórstaðsmenningunni hér í Stokkhólmi. Þetta hafa verið skemmtilegar heimsóknir. Alltaf gaman að sjá að fólk fer enn í heimsóknir til hvers annars. Jæja, við ákváðum nú í vikunni að endurgjalda heimsóknirnar og fórum með rútubíl (2,5 klst) til Örebro. Rútan var á ferð til Oslóar með viðkomu á nokkrum stöðum. Jæja, fólk var þar nestað og byrjaði þegar að maula á sitthverju ætu OG ÓÆTU...   Íslendingar geta nú vart státað að betur lyktandi mat en Svíarnir með sinn surströmning.  Nóg um það. Manni verður bara bumbult af hugsuninni.  Annars eru frændur okkar Svíar nú að gófla í sig humri sem það væri á færibandi. Humarinn þennan kalla þeir kräftor. Minna humarveislur þeirra helst á matorgíur auðugra Rómverja fyrr á tímum. Svona líta þessi monster út - og fólk leggur sér þetta til matar. Dýrkunin er komin á það stig að frímerki hefur verið gefið út með afmynd þessara óargadýra:

DSCF1428

Nóg um matsiðina. Þegar komið var til Örebro, var ferðaplönum breytt og ferðinni heitið til Fagersta tjaldsvæðisins eða réttara sagt tjaldvagnasvæðisins. Ekið var gegnum Lindesberg og síðan af þjóðveginum og á týpískan íslenskan sveitaveg með holum og allt!  Fínir dagar fóru í hönd og var grillað og spilað, farið í göngutúra og slíkt sem tilheyrir sumarferð út á landið.  Happy   Á einni svona gönguferð rákumst við á lítinn, kannski 15 - 20 cm langan snák. Hann var drjúgur með sig þrátt fyrir smæð sína, reisti sig upp og reyndi að höggva til okkar þegar við nálguðumst of mikið. Svo við bara létum snáksa vera í friði, en ég gaf honum nafnið Smákur;  hann var jú smár og snákur!  Smákur litli.   Mynd af honum neðst í umfjölluninni.  Góðir dagar sem voru nauðsynlegir rétt áður en skólarnir byrja. Námið við Högskolan í Falun byrjaði nú á mánudag. Þetta er að mestu leyti fjarnám, svo nærveru minnar var ekki krafist. Uppsala háskóli krefst hinsvegar nærveru núna á föstudag en þá hefst haustönnin þar, mín síðasta haustönn þar.  Joyful 

Í gærkvöldi var svo ekið til Örebro aftur úr sveitinni. Það rigndi en það skyggði ekkert á ánægjuna af því að hafa verið á smá flakki.  Vegna veðursins var ákveðið að leyfa mér að fá nasasjón af því sem kallast sænsk kvikmyndalist og nú tölum við ekki um hálfhljóðar svarthvítar 4 tíma filmur Ingmars Bergmann. Ónei, nú var það kvikmyndin Smala Sussie, ( http://www.moviezine.se/filmsidor/smala_sussie.shtml ). Myndin sem hefur alveg ótrúlega fyndin söguþráð, flæktan fram og tilbaka, svolítið Pulp Fiction-leg.  En fyrst og fremst er þetta grínmynd hjúpuð hinum vermlenska framburði sænskunnar (Värmland liggur mót landamærunum að Noregi, norður um stóru vötnin Vänern og Vättern).  Ferlega fín og skemmtileg kvikmynd og ég fékk illt í magann af hlátri!!!  Er það merki um að ég er farinn að "försvenskast"?

DSCF1403

Á myndinni að ofan getur að líta litlu höfnina við hjólhýsahverfið.  Bátarnir skvömpuðu þarna, margir með kräft-búrin tóm eftir velheppnaða veiði og enn betur heppnaða átveislur  :)   Jæja, best að slútta þessu núna í bili. Langaði bara að segja frá því hversu gaman þetta var og hvað mér leið vel.  Fannst gott að komast frá hversdeginum eftir helgina.  Hérna kemur svo Smákur litli:

DSCF1398 

 

 


Hvað kosta biðlaun borgarstjóranna Reykvíkinga á mánuði?

Ég reyni að fylgjast með því sem er að gerast heima á Íslandi og stundum er maður heppinn og fær umfjöllun í fjölmiðlum hér ytra. Síðustu dagana hefur Íslenska handboltaliðið gert að umfjöllunin hefur verið glaðleg, upplífgandi og full af spennandi orðum sem kætt hafa upp landann.  Áður en handboltaliðið krækti í ólympíusilfrið var þó allt annað upp á teningnum. Hér ytra var rætt um borgarstjóramálin í Reykjavík. Ég var spurður hvort hægt væri að senda einhvern framhaldsskólabekk í stafskynningu og leyfa þeim kannski að verma borgarstjórastólinn agnarögn. Ég sagði að sennilega, gegn lítilsháttar greiðslu, væri hægt að koma því við.  Þessi farsi hefur gengið allt of lengi fyrir tómu húsi.  Þetta háttarlag sem engan endi virðist ætla að taka, hefur birt borgarbúum þau sannindi að það er ekki þeirra vegna sem fólk velst til borgarráðssetu, eða setu sem borgarfulltrúa, ó nei. Hér er einkapotið, sjálfsupphafningin og hryggð mannlegs eðlis í sýningarglugganum. Framavonir einstaklinga eru settar öllu framar og borgarbúum er svarað með þótta og yfirlæti.  Að síðan allir svokallaðir borgarstjórar fái biðlaun, er auðvitað bilun. Hefur einhver tekið saman hvað þetta kostar borgina á mánuði? Þetta er skelfilegt! Sorglegt!

Eitt enn sem líta má á sem beina afleiðingu þessa borgarstjórnarfarsa er að starfsheiti borgarstjóra hefur skaðast. Óráðsía í meðferð embættisins hefur gert það næsta virðingarlaust. Fólk hlær að borgarstjórunum. Mál- og orðtæki fara sennilega að skapast sem verða minnisvarðar þessa niðurlægingartímabils í sögu borgarinnar. Þetta er farið, í alvöru, að minna á forsætisráðherratal Ítalíu, þar sem yfir 50 (ef ekki 60) forsætisráðherrar hafa setið síðan frá stríðsárunum, - enn er það svo að maður knappast man hver vermir stólinn þar í landi. Maður hreinlega hefur ekki áhuga lengur.

Takið ykkur á núna. Setjið einhvern aðila í stólinn og setjið galdralím á rassinn á honum/henni svo að honum/henni verði ekki vellt úr stólnum eða hann/hún komist ekki þaðan!


Orð dagsins í kjölfar ljúfsárs sigurs

 

"Við vorum best þeirra sem ekki sigruðu"    Joyful


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Frakkar! Til hamingju Íslendingar!

Jamm sit hérna og horfi á úrslitaleikinn. Sænsku íþróttafréttamennirnir eru á bandi Íslands, en geta því miður ekki orða bundist yfir getulausum leik Íslendinganna. Þeir reyna að lofa ekki um of Frakkarna, en ég get ekki orða bundist. Frakkarnir leika skemmtilega og viðburðaríkan handbolta.  Það sama verður ekki sagt um okkar menn.  En þeir eru sennilega bara sáttir við silfur. Það sem í raun vekur spurningar hjá mér er: Við höfum engu að tapa, silfur í höfn og allt annað væri fínt. Af hverju spilum við ekki að meira dyrfsku?   Bara leikum okkur og komum enn á ný á óvart?

Jæja, best að hætta þessu snakki.... 

Ísland, - til hamingju með silfrið. Frakkar, - til hamingju med sigurinn!


Bravó! Ísland 32 - Pólland 30

Það var ótrúlega skemmtilegt að sitja við sjónvarpið í morgun og horfa á leik Íslendinga og Pólverja. Reyndar varð ég að fara nokkrum sinnum frá tækinu til að stressa ekki of mikið. Ég kíkti fyrir horn þegar áhorfendur byrjuðu að æpa "Ísland, Ísland" ....".  Þetta var sannarlega lifandi leikur, harður eins og hann á að vera, hvergi lægt né gefið eftir og niðurstaðan: Íslendingar í undanúrslit á Ólympíuleikunum, var ekki til að gera sigurinn minna sætan. Lofsorðum sænska íþróttafréttamannanna ætlaði aldrei að ljúka. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari fékk frábæra dóma og landsliðið ausið með skjallandi orðaflaumi. Þetta vermdi hjarta mitt og mér fannst ég svo sem um örskotsstund vera kominn heim að sjónvarpinu á Íslandi.

Bravó Ísland!  Undanúrslit!  Hjálpi mér allir heilagir!


Svangir sendiráðsmenn

Nú þegar Kínverjar halda Ólympíuleikana svo glæsilega virðist utsent starfsfólk þeirra í annari heimsálfu varla hafa til hnífs eða skeiðar (eða réttara sagt prjóna sinna).  Í gljáfægðum sendiráðsbílum fara þeir austur í hreppa og sækja sér björg í bú. Líklega er bensínkostnaðurinn meiri en sparnaðurinn af því að kaupa grænmetið í búðum í Reykjavík.  Líklega eru það hin annars óvelkomnu smádýr, myglusveppir og slíkt annað próteinríkt gums sem fólkið er að sækja sér. Lyfin liggja í ódýru grænmetinu greinilega.  Þetta leiðir huga minn að því að ég átti samtal við einn ónefndan sendifulltrúa erlends lands hér í Stokkhólmi fyrir nokkru. Hann tjáði mér að þót flest lönd hefðu glæsilega risnu og gætu af og til sólundað stórum fjárhæðum í veisluhöld og kynningarstefnur væri svo þó ekki einatt fyrir komið.  Hefði hann verið á ferðalagi fyrir nokkru. Hefði honum hlotnast sá heiður að vera boðinn í "ambasadsveislu".  Nú ekkert vantaði á dýrðirnar og kræsingarnar. Þar fékk hann að heyra að sendiherra Eritreu væri alltaf boðinn í ALLAR veislur, þar eð hann hefði ekki fengið laun í 5 ár og því öllum veislum feginn. Þessu sýndu öll sendiráðin í borginni skilning og var honum einatt boðið í allar veislur og móttökur. 

Hugur minn leitar nú til hinna ágætu vina okkar Kinverjanna á Víðimelnum í Reykjavík. Skyldi vera svo komið að þeir hafi ofgert sér í Olympíuhugsjóninni og gert of vel í sambandi við leikanna og gleymt sínum eigin þegnum erlendis?   Auðvitað ætti að hvetja fólk að skjóta saman smá aurum eða jafnvel senda mat til þeirra þannig að þið heima á Íslandi þyrftuð ekki að sjá Kínverjarassa upp úr öllum ruslatunnum og standa næturvakt við grænmetisbeðin ykkar. 

Bestu kveðjur úr allsnægtum Stokkhólms, þar sem allir hafa eitthvað í sig og á!   :)


mbl.is Sendiráðsmenn hirða grænmetisúrgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband