Hvað er kirkja?

Kirkjan á afmæli á morgun, ekki íslenska þjóðkirkjan, heldur heimskristnin sjálf. Á morgun minnumst við þess að heilagur andi kom yfir lærisveina Krists og þeir töluðu tungum - atburður sem markar upphaf kirkjulegs starfs. Kirkjan byrjar, upp frá þessum atburði, að skipuleggja sig í starfseiningar og ólíkir söfnuður taka að starfa í mismunandi löndum. Hver söfnuður tekur sér það verkefni að hittast á helgidögum, útdeila sakramentunum, boða kristna trú innan sem utan safnaðar og vera boðberendur kærleika Guðs, í verki.

Þetta er stórtséð það sem við erum að fagna á morgun. ENn kirkjuskilningur nutímafólks er afskaplega einhæfur. Í fyrstu voru djáknar, prestar, biskupar kallaðir til þjónustu í söfnuðunum. Þeir voru jafningjar fólksins, en höfðu hlutverki að gegna innan safnaðarins, rétt eins og í stórum fyrirtækjum. Þessir voru virtir og upphafðir vegna þess að þeir/þær störfuðu í nafni kærleikans, í nafni Guðs. Hver og einn hafði ákveðið hlutverk; kærleiksþjónustu, prédikunar/trúboðsþjónustu og tilsjónarþjónustu. Allir voru þau jafnir fyrir Guði.

Sýnin á hvað var kirkja breyttist svo þegar fram leið og þrjár "kirkjur" urðu veruleiki í daglegu tali: 

1) Kirkjan sem samfélag skírðra, samfélag hinna heilögu Guðs, kirkja hinna lifandi steina. Guðfræðilegt hugtak um lifandi steina sem við byggjum kirkjuna sem hugmynd af. Hornsteinnin er Kristur, og hver og einn einstaklingur er steinn í kirkjubyggingunni, hver og einn kristinn einstaklingur.

2) Kirkjan sem hús af forgengilegu efni, kirkja sem hús, hús sem stendur mitt í bænum okkar, eða á góðum stað í sveitinni okkar. Húsið sem við sem heilagt samfélag förum til og eigum sameiginlegar stundir í trúnni.

3) Kirkjan sem stofnun. Kirkjan (1) hefur alltaf þurft á leiðbeiningu að halda. Kirkjan er lifandi, hreyfanleg og byggð upp af fólki. Hún er lifandi á öllum tímum og hið prédikaða orð er predikað af lifandi fólki á hverjum tíma, þannig að kirkjan er  og á að vera "up to date". Kirkjan sem stofunum er fyrirbæri sem oft hefur misbeitt valdi sínu og gerir víða enn í dag. Stjórnmálalega og mót einstaklingum. Kirkjunni er stýrt af fólki og þess vegna má oft búast við að hún geti farið af kúrs sínum og tapað stefnunni. Þetta hefur gerst oft í veraldarsögunni og gerist enn.

Orð sálmaskáldsins Friðriks Friðrikssonar eiga við í dag, aðfangadag hvítasunnu: "Þú, kirkja Guðs, í stofmi stödd,/ ó, stýrðu beint í lífsins höfn,/ og hræðslu' ei manna meinráð köld/ né mótbyr þann, er blæs um dröfn." (Ísl.sálmb. 290:1)

Koma menn og koma dagar, en allt er fallvaltleikanum háð um leið og Guðs orð stendur ævinlega. Það er hryggilegt að sjá, kirkjuna í dag. Heimskirkjurnar lifa í ósátt við hvora aðra. Deilur og ósætti ríkir innra með hverri og einni og víða hafa "kirkjur" feysknað svo að aðeins ytra byrðið stendur af sjálfu sér án stuðnings innviðanna.

Ég fékk hugmynd í fyrradag eftir að hafa verið í mikilvægu samtali með trúarleiðtoga einum í Svíþjóð. Hugmyndin er svona:  Að prestar kirkjunnar, starfsfólk allra kirkna og safnaðarfólk komi saman við sóknarkirkju sína og biðji. Biðji um kærleika, biðji um fyrirgefningu, biðji um mannréttindi, biðji um leiðréttingu á því sem miður hefur farið, biðji fyrir hvort öðru, biðji um umburðarlyndi. Þetta yrði sannleikans stund. Enginn verður dreginn fyrir dómstól, enginn smáður, enginn lítillækkaður. Hér verði Heilagur andi beðinn að stíga niður og umvefja allt í kærleika Guðs. Hér er stund fyrirgefningarinnar. Fyrirgefi maður einhverjum eitthvað, þá er honum fyrirgefið það.

Við þurfum að byrja upp á nýtt!  Kirkjan, söfnuðirnir, fólkið sem á einhvern hátt hefur orðið ósátt....  Fólkið sem lent hefur í skilningslausum presti, fólk sem hefur verið skilningslaust fyrir aðstæðum og orðum presta. Hér við svona stund sem ég nefndi, á við að koma saman undir merkjum kærleika og fyrirgefningar. Reiðin er til þess fallin að sleppa inn óhamingju og vanlíðan.  Treysti einhver sér til að fyrirgefa og taka það stóra skref, þá geri hann/hún það og njóti léttis og þeirrar andlegu hvíldar sem slíkt veitir. Þetta á við um alla, háa sem lága, gamla sem unga, í starfi eða án starfs, í embætti sem án embættis. Eftir þessa stund göngum við svo með hinum til messu og tökum á móti fyrirgefningu Guðs.

Jæja, hugleiðingar á laugardagsmorgni. Ég er bara búinn að upplifa svo andstyggilega hluti núna síðustu vikurnar, andstyggileg viðbrögð "aðila" sem ég hélt að tryði á líf og fyrirgefningu. Aðila sem leitast hefur ákveðið í krafti styrks síns og áhrifa að bregða fæti fyrir mig.  Ég fyrirgef, ég bið og ég bíð.   Veni, sancte spiritus!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband