Þriðji sunnudagur í aðventu - hugleiðing

 adventsljus3

 

Texti þriðja sunnudags í jólaföstu þetta árið er sóttur í Lúkasarguðspjall (Lúk. 1:67-80) inniheldur hinn kunna lofsöng Sakaría, föður Jóhannesar skírara. Hann og kona hans Elísabet voru komin nokkuð við aldur og líkur á því að þeim yrði barna auðið höfðu stórum minnkað. Þau höfðu gefið upp alla von um son, en þá gerist það að Elísabet verður barnshafandi. Hún fæðir svo síðar son. Að gyðinglegri hefð átti sonurinn að fá nafn föður síns, en Sakaría minnist fyrirheita þeirra er Drottinn hafði gefið honum og gaf syni sínum nafnið Jóhannes, sem merkir "Guð er náðugur".  Textinn er auðvitað fallegri í sjálfu guðspjallinu og gjöfulli í allri merkingu sinni.

Textinn minnir mig svolítið á lífið eins og það birtist mörgum í dag. Jólafasta er tími undirbúnings.  Við gerum fínt í kringum okkur, við reynum að safna aðföngum til hátíðarinnar og við undirbúum okkur andlega fyrir þessa hátíð sem nálgast með hverjum deginum. Ljósin á aðventustjakanum sem við svo mörg eigum eru tákngervingar þess ljósmagns sem eykst með hverjum deginum sem nær dregur jólum. Við erum eins og skip úti á hafi sem nálgast brennandi vita í fjarska, ljósmagnið eykst og við verðum eftirvæntingarfyllri, glaðari, smá stressaðri og spennan eykst.

Við eigum það líka til að spenna bogann lítið eitt of mikið, við eyðum of miklu, gerum of mikið af öllu, svo sjálfa gjöfin, Jesúbarnið hálf kæfist í jólaumbúðapappírnum. Það er hætta á að við göngum of langt.  Það getur enginn spennt bogann svo lengi án þess að taka vissum afleiðingum þess.  Annað hvort brotnar boginn á endanum eða hann missir fjaðurkraft sinn. 

Það er til lítil gömul dæmisaga um nauðsyn þess að hvíla, nauðsyn þess að slappa af:

Heilagur Antóníus var munkur í fjarlægu landi. Hann að nokkrir aðrir munkar sátu undir klausturmúrunum og létu fara vel um sig, sumir jafnvel dormuðu í sumarhitanum. Riddari koma þar að og sá munkana hvíla sig. Riddarinn spurði hvers vegna þeir slæptust og væru iðjulausir. Antóníus hafði orð fyrir munkunum og bað riddarann að sýna sér hvernig hann skyti af boganum sínum og riddarinn gerði það, tók ör, lagði við bogann og skaut. Antóníus biður hann að gera þetta aftur og riddarinn skýtur annarri ör. Svona gengur þetta aftur og aftur þar til riddarinn sagði: "Ágæti bróðir munkur, ef ég held svona áfram brotnar annað hvort boginn eða ég ég get ekki lengur haldið sama styrk í hendi og armi."  Þá svaraði Antóníus: "Ef við hvílum ekki af og til, göngum við svo hart fram að við munum bresta, rétt eins og boginn þinn".  Og munkurinn gekk til bræðranna og lagðist niður á ný.

Gleymum ekki að huga að okkur sjálfum þegar hátíðaundirbúningurinn stendur sem hæst, kröfurnar eru víða miklar og virðast vera fara með okkur í gröfina.  Hátíðin er okkar vegna, ekki vegna neins annars.  Guð kom í heiminn okkar vegna, vegna þess að við þurftum hans við ekki öfugt.  Guð þarfnast engrar hátíðar, ekki sín vegna. Hátíðin er svo að við náum að skapa okkur ró og til að við getum tekið frá tíma fyrir okkur og trú okkar.  Hátíðin gefur okkur ótöl tækifæra til að sýna okkar innri mann, bæði örðum en ekki síst okkur sjálfum.  Jólin eiga að vera spegill sálar okkar og gefa okkur tækifæri að hitta þann einstakling sem við sjaldnast hittum:  Okkur sjálfa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Takk. Góð hugvekja

, 13.12.2008 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband