Um hjónavígslurétt kirkjunnar

Biskop_Overselo

Stórmerkur tímamótafundur var haldinn á biskupafundi Sænsku kirkjunnar nú á dögunum. Duglegir guðfræðingar og réttsýnir hirðar sýndu að kirkjan í Svíþjóð sækir fram inn í 21. öldina full af lífi og áræðni, en umfram allt sem lifandi þátttakandi í lífi því sem henni var ætlaður staður í; í framvarðasveit hinna góðu verka.  Kirkjan viðurkenndi líka að henni eru sett ýmis mörk af ýmsum toga.

Allbeinskeyttar umræður höfðu átt sér stað á téðum biskupafundi þar sem allir 13 sitjandi biskupar Sænsku kirkjunnar sátu ásamt erkibiskupi.  Eftir fundinn ákváðu 9 af 13 biskupum kirkjunnar að óska eftir því við Riksdagen (sænska þingið) og við Kyrkomötet (Kirkjuþing Sænsku kirkjunnar) að gengið verði við því að hjónavígsluréttur sá sem kirkjan hafi verði frá henni tekinn. Þetta sé farsælast og til þess fallið að prestar þurfi ekki að "neyðast" til að gefa saman samkynhneigð pör - gegn sannfæringu sinni.  Þannig verði allir sænskir borgara og þeir sem vilja láta gefa sig saman í "hjónaband" eða "vígða sambúð" að fara fyrst til borgaralegra yfirvalda, skrá sig þar og síðan - ef vilji er fyrir hendi að finna sér kirkju og prest þar sem þau/þær/þeir geti svo "gengið í það heilaga" frammi fyrir augliti Guðs. 

Þetta er sögulegt því í þessari beiðni 9 biskupa kirkjunnar er farið fram á staðfestingu þess sem í raun er frá upphafi aðeins "júrdídísk gjörning" þ.e.a.s. lögformlegur gjörningur. Hjónabandið er ekki heilög stofnun nema í augum þeirra sem vilja fá blessun kirkjunnar. Þeir sem kjósa að "gifta sig" borgaralega þurfa það með ekki að taka þátt í þeirri hugmyndafræði sem kirkjuleg siðfræði og guðfræði umvefur sína athöfn.

Frumkvæði biskupanna níu og tillaga þeirra hefur gersamlega keyrt þvert á kirkjuþingið sænska og afvopnað það. Kirkjuþingið hefur með máttleysi og seinagangi sýnt að það hefur ekki burði til að bregðast við knýjandi málum líðandi stundar. Kirkjan tapar fólki í stórum stíl. Fólki finnst kirkjan vera máttlaus og ekki hafa skýra stefnu.  Að 9 biskupar á biskupafundinum tækju af skarið og segðu segir mikið um stöðu kirkjunnar og þjóðkirkna nágrannalandanna. Sinnuleysi, hægagangur, þekkingarleysi á hreyfingu samfélagsins og þörf fólks í æ afhelgaðra samfélagi er að gera út af við kirkjur norðurlanda.  Útspil biskupa Sænsku kirkjunnar var því viturlegt og tímabært. Viðbrögð kirkjunnar fólks og þeirra sem hafa sagt sig úr kirkjunni hafa verið almennt jákvæði.

Hjónabandið er EKKI kirkjuleg stofnum. Fjölskyldan er heldur ekki kirkjuleg stofnun. Kirkjan og trúin mælir með stofnun hjónabands og þess ramma sem hjónabandið setur sambandi tveggja einstaklinga og síðar í mörgum tilfellum ef börn fara að koma.  Það er æskilegt að börn njóti nærveru foreldra. Af þeim læra þau og eiga að njóta þess besta sem einstaklingar eiga og vilja gefa barni/börnum sínum.  Það er því eðlilegt að kirkjan vilji helga og biðja fyrir bandi tveggja einstaklinga. Þegar kirkjan getur ekki einast um allar fjölskyldugerðir er ljóst að kirkjan styður misrétti og sundrungu. Þá er best að halda að sér höndum og gefa frá sér sjálftekið vald. Kirkjan verður þar með ekki eins tengd ríkisvaldinu (sem sá aðili sem útfærir "embættisverk" fyrir ríkið). Aukið frelsi kirkjunnar er því til góðs fyrir alla viðkomandi. Líka þá sem ekki leita til hennar.

 

 

Eftir það sem nefnt hefur verið spunnust þar saman í meirihlutaákvörðun 9 biskupa Á stórmerkum tímamótafundi biskupa Sænsku kirkjunnar ákváðu 9 af 13 biskupum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er þetta ekki eins aumt og vitlaust og verða má, Baldur? Að "til þess fallið að prestar þurfi ekki að "neyðast" til að gefa saman samkynhneigð pör - gegn sannfæringu sinni" verði "allir sænskir borgara og þeir sem vilja láta gefa sig saman í "hjónaband" eða "vígða sambúð" að fara fyrst til borgaralegra yfirvalda, skrá sig þar og síðan - ef vilji er fyrir hendi að finna sér kirkju og prest þar sem þau/þær/þeir geti svo "gengið í það heilaga" frammi fyrir augliti Guðs"? Er þetta ekki hráskinnaleikur, ef presxtarnir ætla sér með þessari ódýru afsökun SAMT að "gefa saman samkynhneigð pör" – eða er ég eitthvað að misskilja þig?

Og segðu mér: (A) eru þessir níu biskupar yzt á líberalkantinum meðal sænskra biskupa? Og (B) voru þeir valdir og skipaðir af líberal/vinstrisinnuðu ríkisvaldinu? Og (C) hvað er þá að marka þessa menn, ef þetta er í raun pólitísk fjarstýring sænsku kirkjunnar? Eða er þetta kannski ekki svo, og er hún kannski skárri jafnvel en norska kirkjan í þessu efni?

Fræddu okkur, nýi bloggvinur í Sverige! 

Jón Valur Jensson, 14.2.2009 kl. 21:46

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Komdu sæll Jón Valur!  Alltaf gaman að heyra viðhorf þín. Líklega best að skella sér í að svara spurningum þínum.   (a-b) Biskuparnir níu sem stóðu að þessari ályktun teljast margir til þeirra sem hafa haft hvað mestan framgang í kirkjulegu starfi og unnið hafa flesta "nýkristna" til fylgis við kirkjuna.  Kirkjupólitíkin er jú þannig hér í Svíþjóð að erfitt er að segja nokkuð um hvort þessi eða hinn biskupinn sé meira "líberal" en sá næsti.  Kirkjustarf liggur mest í stjórn leikmanna og leikmannaráða.  Kirkjan í Svíþjóð hefur gefið frá sér nær allt vald til flokkapólitískt valdra sóknarnefnda. Þetta leikmannavald nær upp til hæstu staða. Því er þetta ekki biskuparnir einungis sem segja hvað þeim þykir, heldur tala þeir að sjálfsögðu máli þeirra sem kusu þá.  Ríkisvaldið setur trúarhópum lagaramma. Þar fellur kirkjan inn sem trúarhópur í Svíþjóð. Ég tel að biskuparnir hafi viljað með þessu gera líkt og Benedikt páfi XVI; að eining kirkjunnar sé mikilvæg, svo mikilvæg að fórna þurfi minni hagsmunum fyrir meiri. (c) Jú sú spurning kann að skjóta upp kollinum að hér sé aðeins um pólitísk handbendi stjórnmálamanna sem litla eða enga þekkingu hafa á Ritningunni og kirkjulegri hefð. Við aðskilnað ríkis og kirkju í Svíþjóð árið 2000 átti að fara fram "algjör aðskilnaður".   Svo virðist reyndin ekki hafa verið. Hér er það ríkisvaldið sem ekki hefur viljað sleppa takinu.  Flokkapólitísk kirkjuráð hafa eyðilagt meira en fólk gerir sér grein fyrir.  Kirkjurnar á Norðurlöndum hafa orðið fórnarlömb ríkisvalds og of náins sambands við ríkisvald sem kosið er jú flokkapólitískri kosningu. Því hefur þetta verið eltingarleikur við að framfæra óskir kirkjuráðanna en jafnframt að reyna minnka áhrif afleiðinganna.

Það eru margir sem telja að kirkjuþingin eigi einvörðungu að vera skipuð kirkjunnar fólki, þ.e.a.s. vígðum þjónum kirkjunnar.  En það telst ólýðræðislegt af þeim sem þá myndu missa stólanna sína og skemmtilegu fundarsetuna sína með "öllum þessum vígðu mönnum sem segja skemmtilegar sögur og eru margir hverjir svo sérstakir karakterar" eins og ein eldri kona sagði við mig núna í vikunni.  

Framkvæmd biskupanna níu var því neyðarúrræði til að halda einingu kirkjunnar og samtímis og sköpuð var málamiðlun.  Ekki datt hinum pólitískt völdu kirkjuráðum þetta í hug, heldur tóku góðir biskupar af skarið og reyndu að bæta og sætta eins og mögulegt er.

Baldur Gautur Baldursson, 15.2.2009 kl. 08:46

3 Smámynd:

Ég tel það rétt hjá þér Baldur að hvorki hjónaband né fjölskylda eru kirkjulegar einingar heldur borgaralegar og heyra því undir hið félagslega. Ef fólk kýs að tengja sína "fjölskyldustofnun" við kirkjuna getur það vitaskuld látið kirkjuna blessa yfir fjölskylduna sína hvenær sem er. Finnst þetta bara framfaraskref.

, 15.2.2009 kl. 12:36

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta getur orðið hættulegt mál í homosexúalískt-"rétttrúnaðarpólitískt" mótuðu þjóðfélagsumhverfi. Hætti lúthersku kirkjurnar að gefa saman fólk (og þó er einhver undarleg þversögn þarna í þessum pistli hans Baldurs), þá er hætt við, að herskátt, veraldlegt ríkisvald mótað af nefndri félagsmálapólitík vilji taka réttinn af öðrum trúfélögum til að gefa fólk saman í heilagt hjónaband. En hjónabandið er sakramenti hjá móðurkirkjunni kaþólsku og verður ekki tekið af henni nema með ofbeldi.

Ég þakka Baldri upplýsandi svörin, og þó skil ég ekki allt til hlítar.

Þetta með "flokkapólitískt" valin kirkjuráð (og safnaðarstjórnir) kann að koma flatt upp á suma Íslendinga, en í reynd hefur þetta einnig gerzt hér, að smalað sé á safnaðarfundi til þess að reyna að tryggja það fyrir fram, að þegar næst kemur að prestskosningu, verði jafnvel prestur með "réttan pólitískan lit" valinn fremur en annar!

Jón Valur Jensson, 15.2.2009 kl. 13:28

5 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk Dagný!  

Jón Valur: 

Ég skil að þetta geti orðið tilfinningamál hjá rómversk katólskum kristnum systkinum okkar. En í mínum hugleiðingum var EKKI verið að tala um að taka réttinn að "gifta" fólk frá neinum, það gera söfnuðir eftir sem áður fyrir þá sem þess óska. Það eina er að kirkjudeildirnar og hinir ýmsustu söfnuðir sem hafa þennan vígslurétt munu ekki vera umboðsmenn ríkisvaldsins lengur, heldur verður fólk sem giftir sig að skrá sig hjá yfirvöldum og síðan getur fólk ráðið hvort það vill fá hina kirkjulegu blessun. Fyrir trúaða mun sú athöfn verða hin eiginlega "vígsla" en fyrir þá sem standa utan trúfélaga eða vilja hafa sem minnst af trú og kirkju að segja, verður hin borgaralegi gjörningur hin "eiginlega" innsigling á sáttmálanum sem parið gerir.

Jú mörg dæmi þekkir maður til þar sem skítalykt flokkapólitíkur hefur haft sitt að segja við kosningar/val á prestum. Slíkt er ekki heillavænlegt fyrir kirkjuna.

Baldur Gautur Baldursson, 15.2.2009 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband