Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Vígsla samkynheigðra í Sænsku kirkjunni rædd í dag!

Í dag situr kirkjuþing Sænsku kirkjunnar og ræðir þau mál sem heitust hafa verið og mest um rædd síðastliðin ár: En það er spurningarnar um hvort Sænska kirkjan eigi að halda vígsluréttinum. Þ.e.a.s réttinum að gefa saman fólk að lögum og svo hinsvegar hvort kirkjan eigi að gefa saman pör av sama kyni, samkynhneigða.

Fyrri hluti spurningarinnar hefur skotið upp kollinum í áratugi, en aldrei fengið neina eðlilega umræðu, því síður ákvarðanatöku.  Litið hefur verið t.d. til landa eins og Þýskalands og Frakklands en þar hefur kirkjan ekki vígsluréttinn lengur.  Þar giftir fólk sig einfaldlega hjá opinberum fulltrúa ríkisins, t.d. í ráðhúsi, friðdómara eða öðrum þeim embættismanni öðrum sem hefur valdið til að framkvæma slíkan löggjörning.  Síðan og ekki fyrr en eftir þetta er um garð gengið getur fólk farið til kirkju sinnar og beðið um vígslu eða blessun á sambandinu.

Síðari hluti umræðunnar hefur verið harðari, tilfinningaþrungnari og afskaplega lifandi gegnum áratugina.  Margir samkynhneigðir hafa viljað fá Guðs blessun, rétt eins og aðrir, á sambandi sínu.  Kirkjan í Svíþjóð hefur blessað samband þessa fólks í áratugi, en slíkur gjörningur hefur ekki haft lagagildi. Verða samkynhneigðir fyrst að skrá sig í staðfesta samvist og síðan fara til prests sem hefur ekki á móti vígslu samkynhneigðra.  Þannig er það í Svíþjóð að aðeins lítill hluti presta i landinu setur sig með tilfinningalegum-, trúarlegum og samviskurökum mót vígslu samkynhneigðra. Þessir hafa verið háværir. Á sama tíma telur stór meirihluti presta meir en sjálfsagt að vígja saman samkynhneigða. 

Á morgun verður svo kosið um þessi mál bæði tvö á kirkjuþingi Sænsku kirkjunnar.  Þetta verður stór dagur í sögu kirkjunnar. Búist er við að umræðan um að gefa frá sér vígsluréttinn verði harðari en hin spurningin sem þó mun hafa meiri áhrif á stöðu kirkjunnar.  Hún mun færast nær fólkinu, en samtímis mun ekumenisk umræða (millikirkjuleg) verða erfiðari fyrir vikið.  Enn eitt bætist við sem þyngir róðurinn fyrir millikirkjulega umræðu, og það er að nú í nóvember mun vígð til biskps yfir Stokkhólms biskupsdæmi (sem telur um 1,2 milljónir íbúa) prestur að nafni Eva Brunne. Hún er lesbía, gift með lífsfélaga sínum til margra ára (sem einnig er prestur) og eiga þær eitt barn.  Þetta hefur mælst illa fyrir hjá mörgum kirkjudeildum, að nýjasti biskup Stokkhólms skuli vera samkynhneigð kona.

Þetta eru sannarlega spennandi tímar í kirkjulífi Svía.  Margt hér sem íslenska Þjóðkirkjan mætti taka sér til fyrirmyndar úr starfi Sænsku kirkjunnar. Meir um það síðar!


"Messíanismi"

Nýtt hugtak, sem tengt hefur verið stefnu Baracks Obama Bandaríkjaforseta hefur skotið upp kollinum. Þetta hugtak hefur verið tengt stefnu forsetans að Bandaríkin séu í sjálfgefnu hlutverki sem alheimsfrelsari mót órétti, kúgun, ófrið og misskiptingu. Það sem gleymist oft er að Bandaríkin hafa verið með alheimsafskiptum sínum (í krafti stærðar og styrks síns) upphaf alls þessa síðan nýlenduveldin glötuðu valdastöðu sinni á tíma Heimstyrjaldanna eitt og tvö.

Þessi svokallaði "messíanismi" skírskotar til guðfræðilegra hugtaka um "frelsarann". Þann sem koma skal til að frelsa, leysa þjóðirnar undar oki óréttis og misskiptingar, lagleysu og mannréttindabrota. Nú hefur Barack Obama verið úthlutað Friðarverðlaunum Nóbels. Það eru þau verðlaun sem Norðmenn fá að afhenda (örlæti af hendi Svía) og núna í fyrsta skipti er aðila sýndur þessi heiður, sem ekki hefur "gert neitt" heldur aðeins fyrir nýframsetta stefnu eða viljaákvörðun.  Þetta er fáheyrt.  Hversu margir hafa ekki leitt till lykta friðarsamninga sem hafa haldið, hversu margir hafa ekki barist allt sitt líf fyrir rétti sínum og annarra?   Hversu margir hafa ekki látið lífið fyrir rétt eða til bjargar öðrum?  Nú fær bjartasta "barnastjarnan" lífsferilsverðlaun þegar á fyrsta starfsári. Hverju sætir?   Nægir að skrifa fínar ræður og forma fallega stefnu?   Þarf ekki að sýna árangur?

Good luck to you Mr President!


Bankaleynd - til hvers?

Ég tek undir orð Katrínar ráðherra Jakobsdóttur og endurtek þar með mín orð um að nú sé þörf fyrir gagnsæja umfjöllun um bankamál. Réttur bankanna til svonefndar "bankaleyndar" er ekki fyrir hendi lengur. Eins og dæmin sanna hafa bankarnir farið svo illa að ráði sínu, misnotað þessi forréttindi sem felast í bankaleyndinni að ástæðulaust er að tala frekar um bankaleynd. Streita og ringulreið ríkir nú í bankaheiminum, því bankarnir óttast að óreiðan komi nú fram og allt verði gersamlega vitlaust í samfélaginu þegar viðbjóðurinn komi fram. 

Mér finnst ástæða að styðja því orð Katrínar menntamálaráðherra og hvetja til algerrar opnunar á ÖLLU sem hefur með íslenska bankastarfsemi að gera. Bankarnir brugðust okkur og réttur þjóðarinnar er að vita ALLT. Það sem reynt er nú að hylma yfir með lögbannsúrskurðum, er bara toppurinn á ísjakanum, óttast ég að muni gera þjóðina afskaplega reiða. Enginn mun þola að sjá hvernig hundruðum milljóna ef ekki þúsundum var ráðstafað til "kennitölufyrirtækja" og einkaaðila rétt fyrir efnahagshrunið. Þessir aðilar vissu í hvað stefndi sem og ríkisstjórn Geirs H Haarde. Hver reyndi að hrifsa til sín fjármuni, troða vasana fulla þegar hlaupið var út úr brennandi húsinu.


mbl.is Leyndin víki fyrir almannahag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksagi æðri samvisku þingmanna

Svo virðist að "agavandamál" sé komið upp í herbúðum Vinstri-Grænna. Svipan er reidd til höggs og þingmenn minntir á flokksagann. Flokksaginn hefur einatt verið eitt af höfuðmerkjum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar hafa menn selt samvisku sína flokksaganum fyrir föst þingsæti (eða þingsætaloforð) og er trúnaðurinn vel þeginn þegar erfiðum siðlausum og eiginhagsmunapotsmálum er velt yfir þingið.  Nú er komið að Vinstri-Grænum að binda hendur þingmanna sinna.  Vitið bara, að þegar kemur að atkvæðagreiðslu um ICESAVE sjálfdæmisskjöl Breta og ESB, munu allir stjórnarþingmenn styðja fingri á réttan flokkshollan grænan "já"knappinn.  
mbl.is Tjáir sig ekki um ummæli Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan á villigötum

Fyrir hvað hefur biskupsstofa og kirkjuráð beðist afsökunar?  Það eru vissulega hlutir sem biskupsstofa mætti biðjast afsökunar á, það má ég vita. En að sverta svo minningu látins manns; að taka undir gömul ósönnuð kærumál á hendur hinum sáluga herra Ólafi biskupi Skúlasyni, er svívirða. Minning góðs og mæts manns er svert um ókomin ár. Nornaveiðar hafa verið settar í gang eftir alda hlé.

Þetta var ljótt, mjög ljótt!  Ég votta minningu biskups míns, herra Ólafi virðingu mína og bið góðan Guð minn að stýra svo málum í kirkju sinni, að látnir fái frið.

 


mbl.is Nær sáttum við Þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söfnuðir kirkjunnar og skuldasöfnun þeirra

Hvar er kirkjustjórnin?  Hver er ábyrgur fyrir að svona skuldasöfnun eigi sér ekki stað?   Er það kirkjustjórnin?  Eru það sóknarnefndir einstakra sókna?  Er það ríkisvaldið?  

Farið hefur verið út í nýbyggingar monúmentala kirkjubygginga sem hafa gersamlega kaffært söfnuði og sett þá í fjárhagslega fjötra. Þetta hefur bitnað á öðrum söfnuðum Þjóðkirkjunnar, sérstaklega þeim sem staðið hafa sig í fjármálapólitík sinni og gætt sín í fjárútlátum vegna framkvæmda, viðhalds og nýbygginga. Þessir söfnuðir greiða í svokallaðan jöfnunarsjóð kirkna og úr þessum sjóði er ausið til nýbygginga þeirra sem farið hafa fram úr allri skynsemi hvað varðar nýbyggingar. Grafarvogskirkja er gott dæmi um svona. Lengi vel mátti ekki skipta þessu gríðarlega fjölmennu sókn í fleiri þjónustuumdæmi (sóknir) vegna þess að sóknargjöld alls fjöldans varð að ná í til að mögulega mætti láta enda ná saman.  Grafarvogssókn er ekki neitt einsdæmi. Fjármál kirkjunnar ættu sannarlega að vera skoðuð af gagnrýnum aðilum. Fjárausturinn er gengdarlegur í steinsteypu, skuldir og vexti af skuldunum.  Allt frá yfirstjórn kirkjunnar og út til dreifðustu sókna sem standa í stórbyggingum, er ljóst að margt má betur fara. 

Kirkjan myndi aldrei fara svo með fjármuni ef hún væri sjálfstæð, en ekki undir verndarvæng ríkisins. Beiðnir safnaða um styrki til lausnar skuldasöfnunar kirkjunnar (vegna nýbygginga) ætti að skoðast með sparnað í huga og endurumhugsun á framtíð kirkjunnar, þ.e.a.s. forgangsröðun.


mbl.is Gagnrýna styrki vegna skulda kirkna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþófsflokkur eða Sjálftökuflokkur

Mikið afskaplega verða eftirmæli Sjálfstæðisflokks dapurleg. Skömmin ríður ekki við einteyming. Að standa í vegi fyrir lýðræðisþróun Íslands, endurbótum eftir skammarlega setu við stjórnvölinn í yfir 18 ár.  Ég segi nú bara eins og Sænskurinn: Fy fan! 

Ég vona helst að þessar tölur sem ræddar hafa verið og settar fram úr skoðanakönnunum séu réttar og að fylgi "D" eða Sjálfstæðisflokksins sé að þurrkast út.  Ég er dauðleiður á þessum villtu spillingarsögum og síðan framhaldssögum sem eru svo jafnt og þétt rökstuddar ljótum dæmum. Allir vita í dag að Sjálfstæðisflokkurinn er allur sem heiðvirt stjórnmálaafl.

Enginn getur haft trú á málefnaframsetningu flokksins og því síður lært af dæmunum. Mér verður hugsað til konunnar sem sr. Svavar á Akureyri minntist á í blogginu sínu. Eftir henni hafði verið haft að hún skyldi kjósa Sjálfstæðisflokkinn, jafnvel þótt andskotinn væri þar á lista.  Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur oft verið líkt við fylgni við trúarhóp.  Viss gagnrýnisleysi hrjáir oft fólk sem binst öfgakenndum flokkshugmyndum.  Þannig hefur því lengi verið farið. Ég vona innilega að fólk sjái að sér og hoppi fyrir borð áður en skipið sekkur og dregur alla niður með sér í hyldýpis rökkurdjúpin.


mbl.is Stefnir í sigur „málþófsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitið, og þér munuð finna!

Einhvern veginn leggst sá grunur að mér að Sigurður Einarsson muni aldrei greiða skuldir sínar til VÍS. Sú var tíðin að heiðarleiki var metinn öðru fremur í viðskiptum. Nú er annað uppi á teningnum.  Sveitasetrið við Veiðilæk er kannski gott dæmi um hversu veruleikafirrtir þeir aðilar eru, sem stýrðu fjármála"heimi" Íslands (og grófu undan fjármálaveldum annarra landa) á útrásarárunum. Líklega trúði Sigurður Einarsson að hann gæti lifað í hamingjusamri spillingu lífið út, án þess að þurfa greiða krónu fyrir. Líklega hugsaði hann sér að vel mætti yfirláta okkur þúsund hlutabréf fyrir byggingarframkvæmdirnar við Veiðilæk, þótt peningar kæmu þar aldrei nærri. Enda hlutabréfin ekki verðmeiri en pappírinn sem þau voru prentuð á. 

Ég bíð spenntur eftir að skattrannsóknarkvestorar og tilkallað fólk annað með sérþekkingu í leit ástæðna efnahagshrunsins og þeirra sem ábyrgir eru - finni það sem þeir eru að leita að [til frekari glöggvunar: Matt. 7:7a].


mbl.is 200 milljóna veð í sveitasetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tinni í Tíbet

Tinni og félagar komust aldrei til Tíbet vegna stjórnmálaástandsins í landinu. Í fréttum undanfarið hefur komið skýrar og skýrar fram hverjir eru að taka völdin í heiminum og hverjir eru að glata þeim. Stóru máttugu nýlenduþjóðirnar hurfu af sjónarsviðinu þegar við lok Fyrri heimstyrjaldarinnar, eða á öðrum tug 20. aldarinnar. Breska heimsveldið, ljónið ógurlega varð tannlaust og tapaði klónum. Nýlenduþjóðirnar sem plagað höfðu lönd Afríku s.s Belgía, Þýskaland, Frakkland og Ítalía glötuðu sínum áhrifum og urðu síðar, eða eftir lok Síðari heimstyrjaldarinnar að gefa eftir tilkall sitt til mikilla landflæma.  Lokahnykkurinn reið svo yfir hjá Bretum þegar nýlendum þeirra var gefið nómínelt sjálfstæði og Hollendingar töpuðu nýlendum sínum samtímis og Portúgalar. Spor finnast hér og hvar eftir þennan tíma, tungumál og ritmál, blóðugur svörður og staðbundin menningareyðing.

tinniBandaríki réðu svo fyrir málum frá lokum Kalda stríðsins eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur og mölur komst í Járntjaldið.  Eftir stendur stórveldið Bandaríkin og Kína í dag. Kína er land sem með stærð og fjölda landsmanna hefur sannarlega stækkað hraðar en nokkurn óraði fyrir. Kína og útþenslustefna þess er farin að láta á sér bera svo um munar. Sjálftakan í formi valdaráns i Tíbet er augljós þeim sem bara horfir þangað.

Í ótta sínum að lönd heimsins muni um síðir opna augu sín fyrir mannréttindabrotum Kínverja í landi Tíbeta, reyna þeir að stöðva ánna við ós. Já, með því að setja nokkrum þjóðum fótinn fyrir dyrnar svo sem Suður-Afríku.  Viðskiptatengsl eru mikilvægari mannréttindi og þannig hefur það lengi verið í Suður-Afríku.  Miklar framfarir hafa verið í því landi, en betur má ef duga skal. Milljónir íbúa stórborga búa í pappakössum og hafa hvorki aðgang að hreinu vatni, frárennsliskerfi (klóak), heilsugæslu eða menntun. 

Þetta land, sem nú á að halda stórmót í íþróttum á komandi árum og vera í heimspressunni, styður nú mannréttindabrot og framfarir Kínverja í Tíbet með að hafna Dalaí Lama þátttöku á alþjóðaráðstefnu um frið.   Viðbrögðin hafa verið sterk.  Friðarverðlaunanefnd Nóbels hætti við þátttöku, og slíkt hafa fjöldi annarra þátttakenda gert í mótmælum við framgöngu gestgjafanna.  Þessi friðarráðstefna sem skipulögð var til að kalla eftir jákvæðri mynd af Suður-Afríku nú fyrir Heimsmeistarakeppnina í fótbolta fór því út um þúfur vegna hagsmunaárekstra og stórveldistilburða Kínverja.  Ég tel að þjóðir heimsins eigi að skíta hreint í Heimsmeistarakeppnina í fótbolta þar til Suður-Afríka hefur náð sönsum.


mbl.is Friðarráðstefnu aflýst vegna Dalaí Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fóstureyðingar

Það er skrýtið hvað við einatt reynum að gera okkar skoðanir að annara.  Lífsýn og veraldarsýn okkar er að því leyti þröngt afmörkuð að við leyfum ekki skoðunum annarra og þeirra sýn á hluti að fá maklega umfjöllun, heldur rífum niður og skömmumst.

Í téðu tilfelli ungu stúlkunnar í Brazilíu, sem níu ára gömul varð fyrir því að vera nauðgað, verða barnshafandi eftir það og síðan að hafna upp á kant við rómversk katólsku kirkjuna. Nú hafa læknarnir sem framkvæmdu fóstureyðingu að ósk fjölskyldu stúlkunnar (og hennar sjálfrar sjálfsagt) fengið yfir sig heiftúðuga kirkjuna.

Af hverju, getur maður spurt sig, gat ekki katólska kirkjan bara gert eins og þjóðkirkjan; staðið hjá aðgerðalaus og hlúð að sárum?  Sannarlega hefði það vera farsælast fyrir alla, en einföld eru bara ekki málin. Lífsvirðing rómversk katólsku kirkjunnar er "yfirgripsmeiri" en okkar. Til að forðast misskilning, virðum við ekki lífið minna en katólsk systkin okkar. Fréttin fjallar um lífssýn, og hvernig trú og lífssýn saman með beitingu trúarlegs valds getur lent í árekstri með því sem við í okkar afhelgaða heimi teljum rétt og algilt.

Þeir sem fylgja rómversk katólsku kirkjunni og trúarsetningum hennar, gangast undir vissan kirkjuaga og taka inn vissa sýn á lífsgildi. Vernd lífs er ein þeirra ásteytingarsteina sem við "lúteranar" og trúlausir kjósum ekki að velta svo mikið fyrir okkur.  Fóstureyðingar á Íslandi samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu eru skuggalega margar. Margar konur hafa farið í margar fóstureyðingar á lífsleiðinni. Hefur möguleikinn til fóstureyðingar verið misnotaður og hefur dregið úr ábyrgu kynlífi?  Er fóstureyðing notuð af mörgum sem síðbúin getnaðarvörn? Af því að dæma hve margar konur fara og láta eyða fóstri í þriðja, fjórða og fimmta sinn má styðja þá hugsun með einhverjum rökum.

Við tölum hálf niðrandi um faststefnu rómversk katólsku kirkjunnar í fóstureyðingarmálum. Að fara bil beggja væri kannski ekki svo óvitlaust. Auka virðingu fyrir lífi, því lífi sem er lifað (móðirin) og því lífi sem getur mögulega fengist lifað (barnið).  Þetta eru erfiðar ákvarðanir í mörgum tilfellum og íblöndun trúarhreyfinga og hópa ekki til að gera málið minna flókið.  En lífsgildin, siðfræðin, leikreglur lífs og lífsvirðingar eru margar afsprengi trúarinnar.  Kristin trú er lífstrú. Því ber að fara varlega og með mikill íhugun þegar svo djúpstæðar spurningar vakna s.s. um líf, varðveislu og viðgang lífs.  Enginn einn hefur rétt, enginn hefur rangt. Lífið er hið jákvæða í veröldinni, gneisti vonar og kærleika. Öllu lífi fylgir ábyrgð og sú ábyrgð er vandmeðfarin.


mbl.is Vatíkanið tekur undir fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband