Færsluflokkur: Mannréttindi

Svört jörð: nauðyrkja

Stórar alþjóðlegar verslunarkeðjur hafa um árabil staðið í kaupum/legutöku á jarðnæði út um allan heim. Þetta virðist kannski ekki vera neitt til að taka upp hér, en einhvern veginn hafa hugsanir mínar bundist þessum uppkaupum og leigu verslanakeðjanna.

Mig langar að skýra út hér hvað býr að baki vangaveltum mínum. Fyrir nokkru heyrði í útvarpi hér ytra samtal sérfræðings í þróunaraðstoð og þróunaraðstoðaráætlanagerð og umsjónar manns þáttarins. Það reyndar var nokkru síðar að ég áttaði mig á alvarleika þess sem rætt var um í útvarpsþættinum.

Í fjölda ára hafa stórfyrirtæki í matvælaiðnaði staðið í fjárfestingum á landnæði í Suður-Ameríku, Rússlandi, Asíu og sér í lagi Afríku.  Ástæða þessara fjárfestinga og leigutöku jarðnæðis (oft í fátækustu löndunum í hverri álfu) er fyrirsjáanlegur skortur á mat í framtíðinni. Nú hafa t.d. Kínverjar hafið kaup á landnæði í fátækum löndum Afríku. Fyrirsjáanlegur skortur á heppilegu landnæði í Kína fyrir rækt matvæla er þegar fyrir löngu orðinn ljós. Hér eru gerðir ýmist leigusamningar til 90 ára eða land hreinlega keypt á hófsamlegu verði. Ekkert lát er heldur á því að stóru matvælakeðjurnar í Evrópu og Bandaríkjunum standi í svipuðum viðskiptum. Sum þessara fyrirtækja hafa hátæknibúnað til að stýra sáningu og uppskeru sem stýra má með gervihnattabúnaði.

Þessi þróun er skelfileg. Sjálfsþurftarbúskapur sem oft er byggður á aldalangri þekkingu á getu jarðar til að framleiða og endurnýjast hverfur fyrir nauðyrkju og framið er bókstaflega arðrán á gjöfum jarðar. Aukin notkun efna og næringar sem auka á framleiðni breytir jafnvægi náttúrunnar og efnasamsetningar grunnvatns. Vítahringurinn er hafinn. Vatnsból mengast, vatn "drepst" og þegar þessi spilliefni berast til hafs deyr hafið. Fullkomin röskun verður á jafnvægi náttúrunnar og skaðinn er skeður.

Iðnríkin, gróðrarstía velferðarsjúkdóma og spilavítishagkerfis munu í krafti efnahagslegra yfirburða sinna setja ríki þessara landa í ánauð. Í dag þurfa þessi ríki fjármagn og það fljótt.  Skotfenginn gróði án framtíðarsýnar verður reipið um háls sumra Afríkuríkja, Asíulanda og Suður-Ameríkulanda.

Ég hvet Íslendinga að skipa sér í flokk andstæðinga kaupa á svartri jörð. Svo hefur það jarðnæði verið kallað sem keypt eða leigt er til nauðyrkju.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband