11.4.2008 | 06:15
Predikun um lífið - Vitnisburður um kærleika - Quasimodo
Enn einn morgun með blessaðri sól og yndislegri blíðu. Hversu þakklátur verður maður ekki og hversu hýrist maður ekki á brún þegar hitastigstalan skríður hærra með hverjum deginum. Skammdegisþunglyndi margra hverfur, veröldin fær á sig liti og mýkt. Drungi lífisins breytist í vonfulla hversdagsgleði. Gróðurinn kappfullur leitast við að ná eins miklu af geislum sólar og sprengir af sér litlu brumin og sennilega hlær Guð innra með sér af hreinni sköpunargleði. Allt gott gefur hann...
Flestir þekkja söguna af hringjaranum í Notre Dame eða Notre-Dame de Paris eins og hún nefnist á frummálinu, sögu skrifaðri af Victor Hugo [1802-1885], hinum stórmerkilega franska rithöfundi. Saga þessi hefur gefið mörgum innblástur, von og trú á að hinn sanna kærleik. Ég prédikaði núna á fyrsta sunnudegi eftir páska í kirkju hér í mið Stokkhólmi og datt í hug að þar sem ég er búinn að snúa prédikuninni yfir á íslensku að best væri að leyfa einhverjum að njóta hugleiðinga minna.
_____________________________
__________________________
1. sd.e.páska ( quasimodogeniti )
Jóh. 20:24-31Predikun flutt í StokkhólmiVitnisburður um kærleika
Fyrir nokkrum árum las ég bók hins þekkta franska rithöfundar Victors Hugo um Hringjarann í Frúarkirkjunni. Þessi bók hefur svo lengi sem ég man verið meðal minna uppáhalds bóka. Bókin sjálf hefur aldrei eignast sinn fasta stað í bókahyllunum, aldrei verið studd af öðrum bókum, heldur fengið að liggja ofan á öðrum bókum. Afi sagði oft að þær bækur sem manni væru kærastar, lægju oftast ofan á, í seilingarfjarlægð og þessar næðu aldrei að rykfalla. Sama heyrði ég gamla konu segja einusinni Biblían á engan stað í bókahyllum, hún á að liggja ofan á og aldrei ná að rykfalla. Sannarlega náði Biblía þessarar öldruðu konu aldrei að safna ryki, því hún var lífandi ferðafélagi hennar gengum lífið. Lesin til gleði, hvatningar, leiðbeiningar, liðveislu og trúarauka.Ég held að flest börn í dag hafi nú séð teiknimyndina um Quasimodo, Hringjarann í Frúarkirkjunni, í útgáfu Walt Disney kvikmyndaframleiðandans. Sú saga sem sögð er þar á breiðtjaldinu eða heima í stofu á sjónvarpsskjánum er harla breytt útgáfa af ritsnilld Victors Hugo og útvötnuð svo ekki verði meira sagt. Ágætis afþreying engu að síður og ef til vill vegur fyrir margan barnshugan inn í stórbrotinn tíma miðaldanna. Sjálfur var Quasimodo það sem flokkað yrði í dag sem mjög vanskapaður, bæði fyrir þau lýti sem han bar á kroppi sínum og þá margvíslegu fötlun aðra sem hann hrjáði, samkvæmt litríkri frásögn höfundar. Hans fötlun gerði það að verkum að honum var ekki hugað líf í ys og þys hversdags miðalda. Eftir því sem við lesum í bókinni um Hringjarann i Frúarkirkjunni var hann skilinn eftir af móður sinni á kirkjutröppunum við glæstar dyr dómkirkjunnar. Þetta var sunnudaginn eftir páskadag. Klerkar kirkjunnar fundu svo litla drenginn innvafinn og lagðan litla körfu. Þeir taka hann inn, annast um hann og búa honum þann heim sem dómkirkjan varð honum. Sunnudagurinn eftir páska kallast eftir gamalli kirkjunnar hefð quasi modo geniti eða hálfgerður og var þá hugsunin að vegna nálægrar stöðu sinnar i dagatalinu sem sunnudagur næst páskum, að þessi dagur væri hálfgildingur þess. Litla afmyndada barnið fannst einmitt að morgni sunnudagsins eftir páska og frýnilegur var hann ekki, afmyndaður frá fæðingu, óskapnaður. Svo málamiðlun var gerð og var nafn hans dregið af nafni dagsins og var kallaður hálfgerður. Flestir vita hvað gerist næst í lífi litla Quasimodo. Hann lifir og þrífst meðal klerkanna í kirkjunni, lærir að skrifa og lesa og er falið það mikilvæga hlutverk að vera hringjari dómkirkjunnar. Vegna vetrarkulda og hins takmarkada skjóls sem hinir háu turnar Frúarkirkjunnar gáfu, afmyndast hann enn frekar og fötlun hans verður enn meira áberandi. Hringingar hinna stóru og hljómmiklu klukkna svifta han þeirri takmörkuðu heyrn sem hann hafði og algjör einangrum verður hlutskipti hans. Klukkunum gaf hann nöfn og persónugerir þær með ýmsum þeim eiginleikum sem prýða máttu góða vini. Þetta gaf þeim í senn líf um leið og þær verða rödd hans, rödd hins innilokada, rödd tilfinninga hans, rödd hins mállausa til Parísar miðalda. Einkum og sér í lagi eru það fyrstu síður bókarinnar sem hafa gert það að verkum að manni finnst maður vera lítill. Lítill frammi fyrir stóra heilaga, lítill frammi fyrir hinu smáa heilaga. Lítill fyrir vitnisburðinum um hið heilaga sem finnst meðal okkar og í okkur. Það er hugsunin um kærleikann sem hefur vaknað svo oft við lestur sögurnnar. Á fyrstu síðum frásögunnar um Quasimodo segir höfundurinn frá uppgreftri sem gerður var í París, þegar gamalt hverfi hafði fengið að víkja fyrir áformum um nýbyggingar. Staðurinn var legstaður þeirra sem látist höfðu í pestinni, hvílustaður þeirra ósýnilegu í samfélaginu, brotamanna og þeirra sem ekki höfðu haft ráð á að kaupa sér legstað. Þetta var ruslahaugur samfélagsins, fjöldagröf hinna ósýnilegu. Ekkert sögulega mikilvægt fannst meðal þessara jarðnesku leifa hins svokallada úrgangs samfélagsins, þetta var jú fátækrafólk miðaldanna og tæpast að búast við neinu stórbrotnu þar. En meðal þessa líkamsleifa fannst þó eitt sem vakti áhuga, sem ef til vill hefur slegið streng í hjörtum viðstaddra fræðimanna. Þetta var beinagrind af fullvöxnum karlmanni sem var svo vansköpuð að furðu vakti. I faðmi beinagrindarinnar fundust bein ungrar smávaxinnar konu, med brotinn háls og leyfar einhvers sem virtist hafa verið leifar stuttra trjágreina. Victor Hugo segir í inngangsorðum sínum að hugmyndin að bók sinni um Hringjarann í Frúarkirkjunni í París, hafi sprottið af þessum beinafundi og svo grísku orði sem hann i öðrum klukkuturni Frúarkirkjunnar í París. Orðið var örlög. Það hafði verið klappað viðvaningslega í steininn. Svo skrýtið sem það er, en eftir að bókinni hafði verið lokið aftur, eftir að hún hafði verið lesin spjaldanna á milli, stóð eftir hið góða, hið sanna og sjálfur vitnisburður kærleikans. Eftir að hafa lesið um hatur, blóðbað, morð, vonsku, öfund var eins og þrátt fyrir þetta allt tókst dauðanum ekki að taka það sem eilíft er. Kærleikurinn hafði sigrað. Dauðinn varð skyndilega aukaatriði, meðan við minnumst kærleikans. Dauðinn, illskan og öfl öfundar náðu ekki að taka Esmeröldu frá Quasimodo. Hann fylgdi sjálfur Esmeröldu sinni í dauðann. Þannig fékk kærleikur hans til hennar mætti lifa. Hann fann líkama hennar, fól hann í faðmi sér, lagði blóm kvisti í milli og fylgdi eftir þeim kærleika sem hann fékk svo stutta stund njóta í sínu lifanda lífi. Kærleikur Quasimodos er upprisinn, þótt aðeins fyrir sögupersónu í skáldsögu Victors Hugo, þá er sagan vitnisburður, helgisögn um þann kærleika sem aldrei deyr að eilífu, heldur rís á ný tvíefldur. Quasimodo segir á örðuvísi hátt söguna um elsku Guðs, sagan bet vitni kærleikanum hinum skilyrðislausa kærleika.
Vitnisburður Jesú Krists um kærleika Guðs til handa sköpun hans á sér margar birtingarmyndir. Sá er þeirra fremstur sem sjálfur Drottinn Jesús Kristur hefur sýnt með lífi og dauða sínum og uppstigningu. Kristur hefur sigrað heiminn, ekki með vopnum, ekki með hrellingum eða gegnum þjáningu annara, heldur með kærleika Guðs.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 06:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.