14.4.2008 | 20:37
Byzans - Mikligarður - Konstantinopel - Istanbul
Í síðustu viku stóð mér til boða að ferðast til Istanbul. Þarna er sænskt menningarsetur þar sem námsmenn og lengra komnir fræðimenn og svo menningarspírur aðrar hafa möguleika á að taka þátt í menningarverkefnum sem lúta að sögu kristni, kirkju, sögu Væringja í þjónustu Miklagarðskeisara og listasögu. Mér buðust meðmæli kirkjunnar sem ég hef verið að starfa í til fararinnar og svo svo lítill fararstyrkur (sýndarstyrkur) frá stofnun í Uppsölum. Þetta hljómaði allt svo vel. Ég var næstum því farinn að búa mig undir að hringja í foreldra mína í Reykjavík, þegar ljóst var að ég varð að hætta við öll áform.
En grunnurinn að þessum ferðahugleiðingum mínum var ljósmynd sem ég sá í myndaalbúmi kunningja míns sem hafði verið í heimsókn hjá föðurömmu sinni. Hún hafði sent hann í "menningarsögugöngu" og svo vildi heppilega til að hann hafði símann (með innbyggðri myndavél) með sér. Varð honum svo hugsað til mín þegar hann var staddur í kirkju einni á Gotlandi; Garde-kirkju. Myndin er afskaplega óskýr en samt nógu góð til að gefa smá hugmynd um hvað er á henni. Þeir sem eru kunnugir býsantiskri list, þekkja stílbragðið. Þessi veggmynd úr Garde-kirkju frá því um 1100 kveikti áhuga á að kanna sambandið milli tengsla Norðurlandanna og svo Miklagarðsríkis, eða Konstantinópel eins og það kallaðist þá. Nafnið Istanbul kom ekki fyrr en síðar og er afbökun á grískunni "eis-tan-polin" eða "inn í borgina". Hljómar það nafn reyndar svolítið eins og heróp... nóg um það.
Þessi tengsl urðu reyndar ljós fyrir löngu síðan. Hver man ekki eftir doktorsritgerð dr. Selmu Jónsdóttur listfræðings sem kallast Byzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu? Þá bók á ég einhverstaðar og hef haft gaman að glugga í hana af og til. Svo keypti ég bókina Från Bysans till Norden - Östliga kyrkoinfluenser under vikingatid och tidig medeltid - góð kaup og mjög fróðleg lesning.
Myndskreytingar í Gotlenskum kirkjum, byggingarlag og sögur, allt staðfestir þessi miklu áhrif. Síðan gerðist það að ég tók námskeið fyrir um einu og hálfu ári síðan, námskeiði sem fjallaði um byzönsk áhrif á norðurlöndum. Mér verður hugsað til litla bagalhúnsins "tábagalsins" sem fannst á Þingvallasvæðinu á síðustu öld (held ég). Hann er jú af sömu tegund og þeir sem biskupar grísku rétttrúnaðarkirkjunnar nota enn í dag.
Það er rigning úti. Regnið lemur hérna á gluggunum á íbúðinni og það er svarta myrkur. Fyrir 3 tímum gat maður séð niður til Lappkärret og Stóra skuggans. Núna sé ég bara glampa á dropana sem renna niður glerið. Mér verður hugsað til þessara tíma, þegar forfeður margra Svía (og jafnvel Íslendinga) komu frá Miklagarði með listamenn með sér, kunnuga menn sem fengu þann starfa að færa menninguna frá sínu heimalandi, þekkingu og verklag, liti og trúfræði. Auðgun menningar, víðsýnni hversdagur og mystík. Allt sem gaf lífinu dýpt og fegurð, spennu og heilagleika.
Regnið er farið að verka svæfandi á mig. Líklega best að leggja sig í bælið og "leggja augun aftur". Leitt að ég komist ekki til Istanbúl á námskeiðið, hefði orðið fyrsti Íslendingurinn að fá þetta tækifæri. En þeir taki skuld sem eiga. Góða nótt!
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.