Hvernig var veturinn? Nú verður aftur hlýtt!

Snemma í morgun var ég kominn niður í kirkju til að taka á móti viðgerðarmanni frá Norrköping. Það þurfti að sleppa honum upp í turn. Það er nefnilega svo að ein klukkanna í turninum hafði þagnað. Hún er stór [4,2 tonn], hljómmikil og falleg og búin að hanga þarna síðan um 1724. Nú hafði hún í síðustu viku þagnað. Vélbúnaðurinn sem notast hefur verið við síðan 1908 hafði gefist upp. Á sunnudag á hún aftur að geta hljómað með sínum þunga tón, kalla fólk til kirkju, og minna fólk á að kirkjan finnst mitt meðal þeirra í Kungsträdgården og í hjörtum þeirra.

Það var gaman að sjá aðfarir viðgerðamannsins. Hann talaði við klukkuna eins og hún væri persóna og klappaði henni. Það var eins og hann væri að "peppa" hana að halda áfram.  Eina sem ég heyrði hann segja var: "Hvernig var veturinn?" Hann klappar henni og segir svo: "Nú fer aftur að hlýna!"  Ég sagði eitthvað um að mér þætti vænt um að sjá hversu það virkaði sem honum væri ekki sama um klukkuna. Hann tjáði mér þá að pabbi hans, sem hefði haft sama starfa og hann hefði alltaf sagt að þegar við hringjum kirkjuklukkum opnum við himininn. Með það í huga gæti maður ekki annað en fyllst lotningu og vináttu til þeirra, persónugert klukkurnar og þótt vænt um þær. Þessi hefði langa sögu og hefði tekið þátt í mörgum af stóru stundum fólksins í borginni, og að oft hefði hún opnað himininn fyrir bænum fólksins og augliti Guðs á himnum. 

040601-10a

Hann skipti út slitnum mótornum og sagðist síðan koma í vikunni og heilsa upp á hinar þrjár klukkurnar. Hann hefði eittlítið ósagt við eina frá síðustu heimsókn. Hann hefði einhverja aukahluti með sér handa henni.

Núna er ég kominn aftur heim og mér líður eins og eftir trúarupplifun. Ég var glaður að hitta þennan fullorðna mann sem var eins umhyggjusamur fyrir klukkunum sem og fyrir góðum vini eða barni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband