29.4.2008 | 07:09
Málþing um kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi
Í dag stendur Reykjavíkurprófastsdæmið hið eystra fyrir málþingi um mannréttindi; "Mannréttindi í heimi trúarinnar". Kirkjan hefur löngum gengið undir merki hins kristna frelsis einstaklingsins. Með "kristna frelsi einstaklingsins" á ég við að það að höndla mikið frelsi er jafn erfitt og að hafa fullt málfrelsi. Því fylgir ábyrgð. Mikil ábyrgð, eins og nokkrir bloggarar hafa fengið að reyna. Málfrelsinu eru settar skorður. Einmitt þessar skorður gera okkur það kleift að vera frjáls að því að tjá okkur. Þessar skorður kallast mannvirðing. Frelsið í hinum kristna heimi er komið fyrir Krist. Segir ekki postulinn Páll: "Til frelsis frelsaði Kristur oss" [Gal. 5:1]. Svo einfallt er það fyrir okkur þessi sem hafa trú í hjarta. Kristur frelsaði ekki bara heiminn frá eilífum dauða að veraldarlíf loknu, heldur kenndi hann okkur hvernig við gætum upplifað forgarða himnaríkis þegar í jarðnesku lífi okkar. Með því að vera kristinn, lifa sem sá sem hefur verið mikið fyrirgefið, fyrirgefa, vera umburðarlyndur, ei þrætugjarn og gefa kærleika án skilyrða. Jafnvel til þeirra sem eiga erfitt og eiga ekkert sameiginlegt með okkur - fyrir utan að vera Guðs börn.
"Berið hvers annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists" [Gal. 6:1]
Mannréttindi eru því miður ekki allra. En lítum okkur nær. Í hverju felast mannréttindi í dag í nútímasamfélagi okkar? Öll höfum við heilbrigðisþjónustu, hreint vatn, mat og menntun. Spyrji þú einhvern á götunni í hverju mannréttindi felist verða svörin mörg, en upp úr munu þó vissir málaflokkar standa. Ég held að sá stærsti snerti helst "mannvirðingu". Að geta ekki notið virðingar, þrátt fyrir allt. Að manngildið skolist ekki niður við að einhver hafi misstígið sig, að einhver hafi tapað tökunum á drykkju, hafi lagst í læknadópið, tapað burt allri sýn á fjármál sín og fjölskyldunnar og sólundað peningum foreldra eða vina o.frv. Er þetta spurningin að fullkomnunarþörf nútímans, hvítþvegnu meðborgarar okkar og eftirsóknarverðir staðlar í sambandi við frómheit og frelsi verða okkur ásteytingarsteinar.
Málþing Eystra prófastsdæmisins í dag er þarft. Vonandi leiðist það af ávöxtum Andans heilaga sem eru kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi - og síðan að niðurstöður málþingsins verði til að auka vægi þessara göfugu eiginleika í sýslu og framkvæmd þeirra sem áhrif hafa og hafa haft á líf fólks nær og fjær.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 07:48 | Facebook
Athugasemdir
Rak augun í þessa grein og þykir þetta athyglivert. Það mætti nefnilega alveg hamra á þessum kristnu gildum í heiminum í dag.
Bryndís Böðvarsdóttir, 30.4.2008 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.