"Kom, og tak þér allt vald á jörð"

Dagbókarfærsla hvítasunnu: 

Í gær vaknaði ég mjög tímanlega fyrir langan starfsdag. Ég skyldi vinna í kirkjunni minni og hafði ekki náð að undirbúa allt áður en ég fór heim daginn innan. Í neðanjarðarlestinni var allt á hvolfi, rusl, bjórflöskur, dósir, pappírsrusl og æla út um allt. Ekki beint skemmtileg sýn. Rakinn og kuldinn þarna niðri gerði það þegar að ég þráði að lestin kæmi sem fyrst og ég kæmist fljótlega upp á yfirborð jarðar og nokkrum kílómetrum sunnar í borginni.

Þetta gekk framar óskum. Betlarar að éta "big mac-meny" og eftirlegukindur næturinnar voru að skjögra um á Sergelstorgi og ég setti upp íhuga minn spaugilega mynd af því hvernig það væri ef maður gæti fleygt þessu liði öllu saman í gosbrunninn og séð þetta hyski vakna til lífs...  Hitinn var að aukast og andvarinn ljúfi gerði knappast meira en að strjúka vanga minn.

Blístrandi geng ég mót Jakobsgötunni blístra lagstúfinn við "Guðs kirkja er byggð á bjargi", einn af mínum uppáhalds sálmum. Þann sálm sem ég tel "hinn eina rétta" fyrir hvítasunnudag.  Ég horfi niður mót Jakobskirkjunni og sé hana tignarlega í sínum andans rauða lit, reisa sig upp yfir blómstrandi trén með sinn fallega barokk/rokokkó turn. Víða á kirkjunni sér maður kyndla, höggna í kalkstein, gyllta bak og fyrir....   "Logar andans" hugsaði ég!  Kirkjan, vitnisburður um nærveru heilags anda í 364 ár.

jakobsklitil

Ég opna kirkjuna og fer inn. Einhver í næturgleðinni hefur þó haft sig til kirkjunnar og pissað í eitt hornið á henni. Ég gruna freklega að hann hafi ekki verið einn á ferð aðfararnótt hvítasunnudagsins.

Ég kveiki ljósin í kirkjunni. Geng inn að miðju heilsa, signi mig og byrja eins og venjulega, þegar ég er einn í kirkjunni að humma "Guð, lát þér þóknast að frelsa mig". Í dag finnst mér eins og ég sé ekki einn að svara. Kirkjan, gengnar kynslóðir svara með mér. Ræstitæknirinn hefur verið þarna fyrr um nóttina/morguninn, því gólfin eru skýjuð af raka. Legsteinar með djúpu mynstri halda eftir rakanum betur en þeir flötu og í augntóttum hauskúpu einnar eru tveir pollar sem ræstitækninum hefur sést yfir. Ég kveiki á litla ljósinu á altarinu og byrja að dreifa ljósinu um kirkjuna. Þegar ég er búinn að þessu lýsa um 40 kerti/olíuljós í kirkjunni. Ég næ mér í handska, set þá á mig og tek niður hvítu altarbrúnina og altarisklæðið. Í skúffunni í vesturenda kirkjunnar liggur rautt altarisklæði og einn hvítur altarisdúkur. Ég skipti og þetta lítur svo fínt út. Á laugardaginn höfðum við haft smáfugla í kirkjunni, sem flogið höfðu inn og byrjað að þyrla upp ryki og sóti, sov skipta varð um altarisdúk, eitthvað sem ég ekki vil gera einn, þar sem það er erfitt að gera það sómasamlega á þess að krumpa dúkinn og koma honum rétt fyrir. Dúkarnir undir; neðsti altarisdúkurinn og "svitadúkurinn" eru alltaf á hreyfingu svo þetta er erfitt. Þetta lukkas mér með, og þegar sex stórir silfurstjakar eru komnir á sinn stað kveiki ég olíuljósunum sem í þeim eru. Þetta er fallegt. Humma áfram "Metta oss að morgni með miskunn þínni og náð". 

Ég kann svo vel við að pýssla með þetta á morgnanna, einn og óáreittur. Eftir að hafa gert allt sem gera skal, oppna ég kirkjuna hleypi inn ferskum andvaranum og túristum sem vappað og vafrað hafa um bæinn í von um oppnar dyr einhversstaðar. Þeir verða glaðir og koma inn. Ég fer inn í sakristíuna (skrúðhús) og kveiki á tölvunni. Sæki póstinn sem ég hafði sent mér sjálfum og prenta út stutta hugleiðingu. Ég hafði verið beðinn að hafa morgunandakt og ég tek að undirbúa hana. Tek fram höfuðlín, ölbu, rauða stólu og hökul, linda og skó.  Kaleikurinn, karafla og patína allt á sínum stað.  Hálf flaska af gömlu Madeira. Michael organisti kemur, glaður eins og venjulega...  hann hefur alltaf eitthvað skemmtilegt að segja.  Tíminn líður, klukka 3 hringir stutta stund. Við gerum okkur klára og förum yfir sálmanna.  Það er gaman að vinna með þessum organista. Klukka 2 hringir og við förum fram hann hverfur einhversstaðar inn í orgelið og ég fer og heilsa upp á fólk. Það er ekki venja hér að óska gleðilegrar hvítasunnu, en ég geri það af gömlum vana. Fólki finnst þetta soldið fyndið en viðkunnanlegt.  Ég heyri að mótorinn við klukku 1 byrjar að erfiða við að mjaka 4,2 tonna klukkunni á hreyfingu - eftir um 20 sekúndur heyri ég klíng-klog-klíng ört og títt en svo kemst klukkan á hægari og jafnari hringingu. Messan tekur sinn tíma í tímalausu rýminu. Sálmar og bænir, textar og útlegging. Við sækjum styrk, lausn og endurnýjaðan anda og göngum mót austri. Stutt markviss pílagrímsganga að borði Drottins.

Loks tekur messan sinn sýnilega enda og og kirkjufólkið kveður.  Ég legg rauða hökulinn yfir gráðurnar og geng mót dyrunum. Út í brennheitan sumardaginn fer fólkið og sumir halda hönd fyrir augu. Sólin er stingandi og mollan sem á miðjarðarhafssumardegi.  "Andann þinn helga, sem allt gjörir nýtt,/ ómælt þú sendir og gefur. / Opna þú hjörtun og auk oss trú,/ eilífi frelsari, bænheyr þú."  Stuttu síðar fara að koma að kirkjunni kirkjugestir til eistneskrar guðsþjónustu.  Dagurinn silast áfram, kyrkjurýmið fyllist af röddum fólks, tónlist og lykt af brennandi kertum og olíu.  Ég sit smá stund og íhuga daginn, hvað gerst hefur, hvað ég hef verið að gera á hvítasunnu svo lengi sem ég minnist. Ég horfi á gamalt olíuljós, einskonar "Alladín lampa" sem brennur í skírnarkapellunni. Hann sótar talsvert og ég hugsa mér að kanski þyrlast upp bænir okkar og stíga til himins eins og sótið og hitamistrið frá þessum lampa. Skugginn af sóti og hita endurkastast á vegg kirkjunnar og mér finnst andrúmsloftið fyllast heilagleika, hinu ósýnilega heilaga, hinu virka heilaga og hinu starfandi heilaga. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband