Góðir dagar í Stokkhólmi

Mikill ágætis yndisdagur!  Nú er sól, bara smá bómullarhnoðrar á lofti, meinlausir með öllu og andvari sem skutlar þeim til eftir himinhvelfingunni. Þetta er falleg sýn, skógurinn undir og vatnið neðst myndar eins og rómantískt landslagsmálverk. Ramminn er jú gluggapóstarnir mínir en annars er þessi skjámynd takmarkalaus.   Í gær var þvílíkt þrumuveður sem gekk inn yfir Stokkhólm - eldingu til og með sló niður í næsta hús hérna hliðiná mínu og fann ég hvernig allt titraði eftir sjálfan blossan. Þetta var ævintýri líkast og fjarska spennandi. Ekkert sá á hinu húsinu en ég held að húsvörðurinn hafi þó eitthvað haft að sýsla uppi á þaki eftir að veðrinu slotaði, því hann og einn húsvörður álpuðust upp á þak í rigningunni og fóru að bardúsa eitthvað þar.

Ég kann svo vel við mikil veður. Allt verður svo dramatískt og stórbrotið, og ég á enga sök að máli.  :)   Jamm, það eru margir sem upplifa jákvæðni í stórvirðrum.

Ég er um þessar mundir einn aðal styrktaraðili LdB snyrtivara. Ég sem er ekki mikill kremakall eða skipti mér mikið af slíkum kosmetískum dýrlegheitum varð núna í síðustu viku að kaupa aloha vera-krem. Nágranni minn benti mér á þetta því er er svo svakalega sár allt frá hælum og upp á kálfa af skordýrabiti. Ég veit ekki hvaða skrípildi þetta eru sem eru að bíta mig, en líklega þýkir þeim blóðið gott. Ég sem gangandi veitingstaður blóðsjúgandi sænskra skordýra hef ákveðið að loka veitingastaðnum. Þetta borgar sig ekki. Ég er sárfættur, í hættu að fá blóðeitrun og ekkert um þessa gesti. Svo mér var sagt að kaupa þessa kremtegund í gulri túpu og smyrja fæturna með þessu. Þetta ber með sér viðkunnalega lykt, en lykt sem skorrarnir vilja ekkert hafa með að gera. Svo virðist sem ég hafi, um stundar sakir, losnað við þessi skrípi. Sárin geta farið að gróa og ég orðið glaður aftur.

Eftir að maður er búinn að drekka kaffi eða borða hádegismat útí í bæ, verður stefnan sett á gymmið. Það er ætlunin að svitna og taka á því í um það bil einn tíma og síðan slappa af í gufubaðinu og trítla síðan heim.  Líklega verð ég svo latur og dasaður eftir gymmið að ég tek túnnelbanan (neðanjarðarlestina) frá Odenplan til T-Centralen og svo þaðan með rauðu til Universitetet þaðan sem ég verð vegna verkfalls strætóbílstjóra að labba 2 km km heim í íbúð.

Líklega bíður mín þá Daniel Easterman bókin mín á vísum stað og græna teið sömuleiðis. Annars þarf ég að sökkva mér í hinn ýmsasta fróðleik um Barcelona, því nú er farið að styttast í að stefnan verði sett á þann sögufræga staðinn. Bók Ildefonso Falcones um kirkjuna við hafið... var sannarlega skemmtilegt preludium fyrir þá ferðina. Núna verða það ferðamannabækur og slíkt sem gildir. Reyndar hef ég fengið ferðaráð frá vinum og kunningjum svo þetta ætti að vera tíma vel varið.  :)

Jæja, best að fara gera sig kláran, snyrta lítið eitt til í eldhúsinu og á baðinu. Vil ekki að þetta líti út eins og Beirut eftir 15 ára borgarastyrjöld.   Ajö...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Notaleg lesning. Sammála þér með óveður, það er gaman að fara út í"óveðrið" og fíla sig. Sat einu sinni úti,  þegar við vorum nýkomin til köben niðri í garði, bara á stuttbuxum og í 66g norður í regngalla með bjór að mig minnir í grenjandi rigningu og æðislegu ljósasjóvi með meiru. Núna skutlast maður út í gróðurhús þegar svoleiðis liggur á og nýtur veðursins.

Svo góða ferð til Barcelona, geggjuð borg. Var þar síðast þegar Eiður var tæklaður eftir svakalega flott mark. Við bjuggum í blokk (túristar) og sáum leikinn. Það ætlaði allt um koll að keyra og nágrannarnir streymdu út á svalir og sumir voru með  rakettur sem þeir kveiktu í og hentu þeim bara út í bláinn, voða gaman maður.

Kveðjur til Stokkhólms.

Gunni Palli kokkur. 

Gunnar Páll Gunnarsson, 15.7.2008 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband