Álftir á Lappkerinu - vangaveltur um líf

svanir

Lífið er eins og spírall, spírall sem vefst eins og vera ber um sig sjálfan, gormur sem verður eins og tákn fyrir hið síendurtekna í lífinu og samtímis framvindu lífsins um leið.  Aftur og aftur er maður minntur á það sem liðið er, gott og slæmt.  Líf mitt kemur að vera svona – rétt eins og annara og við því er lítið að gera. Maður getur lært af endurteknum svipmyndum frá hinu liðna og hugsað fram í ókunna myrkrið sem bíður okkar allra að stíga inn í. Myrkrið er ekki endilega neikvætt. Heldur tákn fyrir hið ókunna, óvissu og hið hulda. Um helgina annaðist ég sem fulltrúi dómkirkjusafnaðarins hér í Stokkhólmi hjónavígslu í kirkjunni minni. Þarna var fallegt par á ferð sem á sér bjarta framtíð. Með fyrirbæn, handyfirlagningu og blessun Drottins sendum við þau út í lífið. Mér varð óneitanlega hugsað til þeirra hjónavígslna sem ég hef annast og svo til þess tíma þá er ég stóð í sömu fótsporum. Allt virtist vera svo bjart og framtíðin falleg og heillandi, sem hún var.  En svo skiptast veður og áttir og það sem ekki á að gerast gerist. Það sem ekki var til í myndinni í upphafi skýtur upp kollinum.  Mismunandi áherslur, langanir, líf – tveir ólíkir vegir skilja sundur hinn þegar venjulega veg.  Á sunnudag átti ég frí úr vinnunni. Ég var mest heima og hugsaði um lífið og tilveruna. Ég setti upp forrit í tölvunni minni sem ég þarf til að geta verið í fjarnáminu í Falun í Dölunum og pantaði mikilvægustu skólabókina sem ég svo fékk með pósti í gær.  Vangaveltur mínar fjölluðu þann daginn um „stríð og frið“.  Hér á ég ekki við hið fræga rit Leó greifa Tolstoy, en mínir þankar fjölluðu engu minna um líf, æsku, kærleika, ást, hrörnun, öldrun lífið og dauðann.  Lifandi gekk ég um litla skóginn umhverfis Stóra Skuggan, sunnan Lappkersins. Ungviði álftanna, móbrúnir ungar þeirra, ófleygir svömluðu milli foreldra sinna þarna úti á litla Lappkerinu. Fannhvítir foreldrarnir höfðu auga með að enginn kæmi of nærri ungunum. Þetta spennuspil á litla Lappkerinu er sannarlega sjónarspil.  Ungar andanna sem syntu allt umkring létu lítið á sér bera og voru í skjóli af foreldrum sínum. Svanirnir svo stórir sem þeir eru gátu hæglega bitið í sundur eða slegið ungana niður dauða með þungum vængjaslögum sínum.  Allir vissu sinn stað og sinn sess í samfélagi litla Lappkersins. Barátta lifsins mót dauða og ögrun umhverfisins.  Ég á líka litla unga sem synt hafa nú í 4 ár á sínu óaðgengilega vatni. Þeir vaxa og dafna og þekkja umhverfi sitt. Þeir eru ungar viljasterkra foreldra. Foreldra sem myndu gefa líf sitt væri það þeim til lífs steðjaði ógn að. Álftirnar á Lappkerinu virðast stundum vera farnar að æfa flugtök á vatninu eftir að þær hafa verið í sárum. Farið er að bera á nýjum flugfjöðrum, þær snurfusa sig og plokka í dúninn. Þær eru farnar að hugsa sér til brottfarar. Ungarnir læra sig eitthvað nýtt á hverjum degi.  Pabba- og mömmu-álftin synda sjaldan saman lengur á vatninu. Það verður að koma vetur og vor til að þau leggi hugi saman. Þannig er lífsins gangur. Þau hverfa á braut í haust og skilja ungviðið eftir í lífsins ólgusjó. 

Ungarnir velja oft að synda með einu foreldranna. Hvort þetta er gangur lífsins veit ég ekki, en svona er þetta – eða er þetta val foreldranna að svona sé þetta?  Enn ein spurningin sem ég kann ekki svar við. Því lengra ég geng í skóginum og nálgast „heim“ – veit ég meira hvað ég veit lítið.  Þetta er skrýtið líf.

Mann langar oft að segja svo mikið, segja frá lífinu. Segja frá þeim dimmu stöðum þar sem ég hef getað kveikt ljós og séð nýja heima, skilið myrkrið og varpað leyndardómi þess í ljóssins skyn. Af hverju, spyr ég mig, eigum við svo erfitt með að lifa með lífinu, lifa með lífinu í allri þeirri ljóssins og litanna dýrð sme þar er að finna?   Af hverju steytum við alltaf um smásteina og látum þá fella okkur?   Ég vona að gráum álftarungarnir sjái lífið eins og það er, ekki bara með augum þess sem þeir elta, enda myndu þeir aðeins verða fleygir, en ekki vita hvert þeir ættu að fljúga.  Guð gefi að þeir læri að fljúga og vita hvert þeir eiga að fljúga.  Ungarnir mínir, lærið að fljúga – leitið ljóssins og fegurðar lífsins víða og skapið tilgang með lífinu og lærið af reynslu annara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband