Áunnið ástand! Fall án fararheillar

Þjóðarskútan hefur lengi verið á leið að feigðarósi sínum. Þetta hefur hver manneskja getað sagt sér, en svo dagljóst að komist hefur ekki verið hjá því að sjá að hverju stefndi. Nú þykjast stjórnmálamenn vera furðu lostnir yfir ástandinu og skömmustulegir trítla alþingismenn til hússins við Austurvöll til að reyna takast á við áskapað ástandið.  Í fréttum hér í Svíþjóð hafa stjórnmálamenn sagt að engin stærri hætta sér sænska banka- og efnahagskerfinu búin, þar sem lengi vel hafi verið lagt til hliðar í góðærinu og síðan að kerfið hafi bara verið hugsað svo að það færist ekki þótt á móti blési litla stund. Líklega hafa Svíar lært bitri reynslu að ef kjölfestan er léttari en yfirbyggingin, ferst skútan. Allir þekkja söguna af byggingu Vasa-skipsins. Fyrir þá sem ekki þekkja þá sorgarsögu skal ég rifja hana upp núna í fáum orðum.

Í Þrettánárastríðinu sem Svíþjóð drógst inn í, vildi Gústaf II Adolf sýna hernaðarmátt sinn og byggja stórt og stæðilegt skip. Skipið var byggt 1626-1628 og var ekkert sparað til byggingar þess.  Þó var ekki byggt samkvæmt reglum um jafnvægi skipsins, burðargetur (staðsetningu lestar) og yfirbyggingu (skreytinga og seglabúnaðar).  Skipið var hlaðið með auka fallbyssudekki en á kostnað kjölfestu skipsins. Skipið var of háreist, aukaþungi var settur of hátt á skipið (fallbyssudekk) og kjölfesta skipsins var ekki nægileg. Þegar skipið var sjósett varð vart við óstöðugleika. Við jómfrúreisu sína þann 10. ágúst 1628, að viðstöddum konungi, hirð, helstu frammámönnum, þúsundum Stokkhólmsbúa og sendiherrum vinveittra og óvinveittra ríkja sigldi Vasa skipið út mót hafi. En knappast hafði skipið sveigt framhjá höfuðstaðnum að það lagðist á hliðna og sökk á fáeinum mínútum. Engu varð bjargað. Fjöldi áhafnarmanna fórst. 

Þetta stolt Svíakonungs var dæmi um það sem enn gerist í dag. Nú er það þjóðarskútan okkar, Ísland, sem tekin er að hallast illskyggilega. Það er ekki nóg að byggja háreist möstur og fylla með seglum og vilja hratt með öðrum, ef búið er að selja kjölfestuna.

Hvað er það sem fólk skilur ekki?

Í Fyrstu Mósebók er hægt að lesa um draum faraós, hvern faraó fékk síðan Jósef til að túlka. Draumurinn byrjaði með að faraó sá sýn:  "Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits og fóru að bíta sefgresið. Og á eftir þeim komu upp aðrar sjö kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold...  [1.Mós. 40:17]  

Jósef túlkaði drauminn svo að fyrst kæmu sjö góð ár, síðan sjö slæm ár. Faraó gerði ráðstafanir og sparaði hvert ár hluta uppskerunnar þegar það gaf góðæri. Þannig átti hann mat þegar illa áraði.  Þessi saga hefur verið þekkt í minnst 3 000 ár.  Hvað er það sem fólk skilur ekki? 

Vissulega hafa ráðherrar og bakastjórar og eigendur hálfhruninna fjármálafyrirtækja mokað undir sig, en hvað með þjóðina sem treysti þeim?


mbl.is Óttast að spilaborgin hrynji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég er hrædd um að það hafi orðið nein verðmætasköpun í góðærinu. Ofurfjárfestingar voru sennilega að mestu leiti fjármagnaðar með lánum og skyndigróðinn fór beint í einkaneyslu stærstu hluthafanna í stað þess að borga lánin. Svo voru hlutabréfin seld, ýmist á fullu verði á markaði og gróðinn hirtur í stað þess að borga lánin eða þá að fráfarandi stjórnarmenn sem þegar áttu hluti fengu að kaupa fleiri bréf undir markaðsvirði og greiðslan fyrir það fór ekki í að borga lánin heldur beint aftur í vasa þeirra sjálfra.

Ég er farin að sauma! 

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 3.10.2008 kl. 12:31

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Það vantaði "ekki" : "Ég er hrædd um að það hafi ekki orðið nein verðmætasköpun..."

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 3.10.2008 kl. 12:32

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

"Ein ég sig og sauma.... "  

Baldur Gautur Baldursson, 3.10.2008 kl. 17:21

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ha ha ha ... "ein ég SIT og sauma" heitir það!

Baldur Gautur Baldursson, 4.10.2008 kl. 10:30

5 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Púkinn samur við sig!  

Baldur Gautur Baldursson, 4.10.2008 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband