5.12.2008 | 20:38
Annar sunnudagur í aðventu - hugleiðing
"Kom þú, kom, vor Immanúel!"
Ótti er einn af streituvöldum mannkyns. Það er skrýtið hvað óttinn er oft ógrundaður. Óvissa getur valdið ótta. Óvissa um hvort við stöndum okkur í starfinu, hjónabandinu, félagsskapnum, vinahópnum, lífsgæðakapphlaupinu eða því öðru sem okkur er mikilvægt - veldur streitu.
Einu sinni var lítil mús. Hún þjáðist af ofsahræðslu vegna katta almennt. Einn dag sat hún og bað til Guðs. "Kæri herra Guð, gerð mig að ketti svo ég þurfi aldrei að óttast þá meir!" Og bæn músarinnar var svarað, hún var nú orðin að gulbröndóttum ketti. Kötturinn var sjálfur logandi hræddur við hunda. Einn dag bað músin: "Kæri herra Guð, gerðu mig að stórum hundi, svo ég þurfi aldrei að óttast hunda" og þegar í stað breyttist kötturinn í stóran grimmúðlegan hund. Hundurinn vappaði um glaður þar til hann hitti ljón. Hann varð ofsahræddur og bað hátt og í hljóði til Guðs: "Guð, ger mig að stóru grimmu ljóni, svo ég aldrei þurfi að óttast annað ljón." Í sömu svipan breyttist hundurinn stóri í ljón, grimmúðlegt og hættulegt. "Nú er ég laus við allar áhyggjur" hugsaði ljónið. Á svipuðum slóðum var veiðimaður á ferð og hafði hann komið auga á ljónið og hafði riffil með sér. Þá er ljónið sá að hann hlóð riffilinn, bað það innilega til Guðs: "Guð, ger mig að manneskju, allir óttast þær. Þá mun ég loksins finnast ég trygg." Á sömu stund breyttist ljónið í manneskju. Manneskjan fór trygg í lun og full af sjálfsöryggi heim. Þetta hefur verið stór dagur, líklega best að fara heim og hvíla sig, hugsaði manneskjan. Rétt í því þegar manneskjan hafði opnað dyrnar að húsinu sínu og stigið inn í eldhúsið, skaust lítil mús yfir gólfið. Manneskjan æpti, hoppaði upp á stól í ofsahræðslu og hristist af skelfingu.
Trúðu á Guð, treystu þeim sem kemur. Brjóttu vítahringinn, brjóttu af þér upphugsaðar hindranir. Treystu Guði og þú hefur ekkert að óttast frekar. Hann er, var og verður uppspretta sannleika, friðar, kærleika, jafnréttis, fyrirgefningar og umburðarlyndis. Fylktu þér að baki honum og þú munt aldrei óttast meir!
Flokkur: Trú og hugleiðingar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Facebook
Athugasemdir
Amen
Sigrún Jónsdóttir, 5.12.2008 kl. 22:06
Já - þú hefur alltaf verið predikari góður Það er nefnilega ekki sjálfgefið að finna prest sem hefur sanna Guðstrú eins og þú. Sakna oft stundanna í kapellunni. Það var eitthvað sérstaklega gott við að vera þar.
Vona að annar sunnudagur í aðventu verði þér góður og gleðiríkur.
, 6.12.2008 kl. 00:31
Það er gott að eiga góða Guðsmenn.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.12.2008 kl. 01:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.