19.12.2008 | 11:48
Umhverfismál á míkrómælikvarða
Ég var í gær að bera saman í huganum umferðarmenningu Svíans hér í Stokkhólmi og umferðarómenningu Íslendingsins í Reykjavík. Ég vil taka fram að ég hef ekki oft ekið bíl hér í Stokkhólmi. Ég leigði bíl þegar staðið var í flutningum hér innanborgar og svo ók ég líkbíl fyrir Fonus útfarastofuna hér í Stokkhólmi fyrir tveimur árum.
Í Stokkhólmi búa um það bil 1,2 milljónir og ökutækjaeign er mikil, en ekki nándarmikil og miðað við höfðatölu í Reykjavík. Þetta hefur verið skýrt á þann máta að Íslendingar eru meiri einstaklingshyggjumenn en frændurnir í austri. Ég verð að játa að stundum finnst mér lífsstíll Íslendinga vera svolítið brjálaður. Ég hef átt þess kost að bera saman svolítið lífsverðmætamat þessara þjóða. Ég hef komist að því að líklega er best að tala um hvað sér "heilbrigðara"; líf Íslendingsins eða Svíans. Nú á ég ekki við mataræði. Ég á við lífsgæðamat, hvað þjóðirnar meta mest. Mér hafa þótt Svíar vera nægjusamari, skipulagðari, tillitsamari, séðari, latari, þolinmóðari og haldnir sterkari réttlætistilfinningu en Íslendingar. Mér finnst eins og Svíarnir skilji betur heildarmyndina. Að sé lífið okkar ekki "fair play" gengur samfélagið alls ekki upp. Allt riðlast sundur og allir munu líða ef svo fer. Íslendingar eru hins vegar miklu duglegri, úthaldsbetri, einstaklingssinnaðri, alveg lausir við skynsama réttlætistilfinningu og þeir eru óðir í umferðinni.
Ég tek þetta með umferðina sérstaklega. Ég hugsaði einu sinni þegar ég gekk í skólann, en þá gekk ég næstum hvern morgun úr Fossvoginum og niður í Menntaskólann við Sund. Ég horfði á mengunarmistrið ofan af Réttarholtshálsinum og hugsaði oft af hverju þetta þyrfti að vera svona. Esjan stundum fékk að kenna á þessu, svo að vart sást upp upp í hálfar hlíðar hennar fyrir mengunarslæðunni sem hékk sem hálsklútur um hana miðja. Svo gekk ég niður í mengunardalinn og niður í skólann í Sundin. Ég, með hliðsjón að þeim tíma sem ég hefi búið í bæði Stokkhólmi (2004- )og í Kaupmannahöfn (1996-1997) spyr ég mig: Eru Íslendingar virkilega svo grunnhyggnir að halda að þeir muni geta lifað svona lífi; að allir aki á sínum einkabílum til vinnu, skóla, í líkamsræktina, í saumaklúbbinn?
Ungt fólk, námsmenn hafa ekkert, almennt séð, með bíl að gera, fólk sem fer oftast bara milli a og b í sínum dagserindum hefur ekkert með bíl að gera. Til að mæta þessu má auka notkun á strætisvagnakerfi, öllum til fjárhagslegs ávinnings og náttúrunni til verndar. Þetta virðist vera umhverfismál á míkrómælikvarða, en í raun og sann er þetta stórmál. Talið er að mengun frá nagladekkjanotkun í Stokkhólmi leiði til hundraða ótímabærra dauðsfalla og langveikinda hjá fólki hér í borg. Hvernig er það þá á Íslandi í samanburðinum?
Aukin notkun strætisvagna leiðir til bættrar þjónustu Strætó.
Aukin notkun strætó leiðir til bætts fjárhags einstaklinga og heimila. Mánaðakort í strætó kostar minna en bensínið, tryggingarnar, viðhaldið, olíuskiptin og tvenn dekkjaskipti á ári (ásamt fleirum kostnaðarliðum), að ekki sé talað um leiðindin að sitja fastur í umferðarhnút hvern gefinn dag. :)
Notum almenningssamgöngur, skipuleggjum ferðir okkar betur og spörum peninga og náttúruna.
Athugasemdir
Ég held að veðráttan hérna á skerinu hafi talsvert með einkabílaaksturinn að gera. Fólk sem er að fara í vinnu og skóla langar ekki að koma rassblautt og skjálfandi til starfans og eiga eftir að sitja þannig allan daginn. Almenningssamgöngur eru ekki nógu öflugar eða skipulaðar til að þjóna hinum almenna borgara. Að mínu mati ætti strætó að halda úti smærri og fleiri bílum á fleiri leiðum. Tel að það gæti verið góð byrjun.
Ég tók strætó í mörg ár þegar ég bjó í Gerðunum og vann á Lansanum. Svo breyttu þeir leiðakerfinu þannig að strætó fór ekki lengur fram hjá Lansanum heldur þurfti ég að ganga frá Hlemmi eða taka annan vagn þaðan sem ekki skaraðist beint við strætóinn sem ég gat tekið. Að auki fækkaði ferðum í gegn um hverfið, lengra varð að sækja vagninn og það sem áður var tuttugu mínútna ferð varð að klukkutíma og 10 mínútum. Þá gafst ég upp á strætó. Annað dæmi er að felldar voru niður allar strætóferðir fram hjá MH. Er þetta gáfulegt? Fyrirhyggjuleysi og skortur á þjónustulund er það sem einkennir almenningssamgöngur í Reykjavík.
Afsakaðu langlokuna - mér verður alltaf soldið heitt í hamsi þegar þessi mál ber á góma
, 19.12.2008 kl. 20:28
Satt er það, Strætó hefur gert afdrifarík mistök með að búa til strætókerfi sem enginn getur nýtt sér nema með mestu afbrigðum. Það er eins og aðalmennirnir, hugsuðurnir séu einbeittir um að reka allt með mesta halla og setja svo allt á hvínandi kollinn.
Baldur Gautur Baldursson, 19.12.2008 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.