Páskavikan

Lengi hef ég orðið þess misskilnings var að fólk kallar vikuna fyrir páska eða dymbilviku/kyrruviku fyrir páskaviku. Þetta er náttúrulega alrangt. Hið rétta er að vikan eftir páska er sjálf páskavikan.

Síðustu dagar hafa verið allsnúnir. Mikil vinna og ég nær aldrei heima nema fyrir það eitt að ná einhverjum svefni og næringu í mig.  Svona vill þetta vera kringum jól og páska fyrir þá sem starfa í eða fyrir kirkjuna.  Nóg um það!  Ég er annars á leið heim!  Heim til Íslands. Ég hefi ekki verið á Íslandi síðan í október sl.  Þetta er skelfilegt, ég sakna fjölskyldunnar minnar svo mikið. Þetta verður stutt stopp og því harla lítið hægt að hliðra til, enda hverri mínútu ráðstafað og þar af leiðandi lítið svigrúm til breytinga eða afslappelsis. Ég hefði svo sem alveg viljað koma heim til Íslands og bara hvíla mig. Álagið er búið að vera gríðarlegt núna síðustu mánuði og skrokkurinn farinn að segja til sín. Ég er kominn með það sem Svíarnir kalla hälsporre (plantarfasciit á latínu), en það eru særindi í og kringum hælinn og oft ákaflega sársaukafullt að stíga í hælinn. Þetta gerir að allur kroppurinn merkir af því þegar ég reyni að hlífa fætinum og við þetta skekkist allt og álagið verður óvenjulegt á allan búkinn.   Eina sem hægt er að gera er að nota góða mjúka skó og hvíla fótinn. 

Annars eru eins og ég sagði búnar að vera miklar annir og var því kærkomið að skreppa í stutta ferð til Ångermanlands í Norður Svíþjóð núna fyrir páska.  Auðvitað var þetta ekki 100% frí, því ég hafði verið fenginn að skíra barn á laugardeginum fyrir pálmasunnudag. Skírnin fór fram í 14. aldar Anundsjökirkjunni í litla bænum Bredbyn. Þetta var rosalega gaman og fannst mér gaman að ég hefði verið beðinn að annast skírnina.

DSCF2081

Ég utan við Anundsjö kyrka í Bredbyn 04.04.2009, kl. 15:05. Slatti af snjó ennþá kringum kirkjuna, en samt vor í lofti og fuglarnir farnir að skrækja þarna allt um kring í birkitrjánum.

Á skírdag fór ég svo til Stokkhólms aftur og hafði messu um kvöldið. Óskaplega þykir mér lítið koma til þess ósiðar að plokka allt af ölturum kirkna við þessar svokölluðu Getsemane stundir.  Ég sé ekki tilganginn. Búa til leikrit um eitthvað sem mér finnst ógrundað guðfræðilega. Eitt er að fækka hlutum á yfirfylltum ölturum kirkna, en að berstrípa þau, gef ég ekkert fyrir.

Nóg um það. Á föstudaginn langa vann ég svo aftur um eftirmiðdaginn. Þetta var stysti föstudagurinn langi sem ég hef upplifað. Mikið var af fólki og dagurinn varð alls ekki eins langur og hann á vana til að verða. Á laugardag vann ég svo frá níu að morgni til tvö að nóttu. Miðnæturmessa var í kirkjunni.  Að hafa miðnæturmessu er ekki síður en Getsemanestundin hálfþunnur þrettándi.  Ég tel guðfræðilegra sterkara að hinkra til morguns, eða þar til sólin rís í austri, en að taka út gleðina í svarta myrkri.  Á páskadaginn var ég svo enn á ný mættur í kirkjuna klukkan níu og vann til klukkan sex. Í dag, á annan dag páska var ég svo þreyttur að ég hálfsofnaði í kirkjunni. Það er gott að vera kominn heim núna, geta slappað af og hugsað til Íslandsferðarinnar, pabba og mömmu, systkina minna, barnanna minna og fjölskyldna sem ég kem til með að hitta. Þetta er næstum því sælutilfinning.  :)    Sannarlega í takt við enduróm páskanna!  :)

Þetta verða góðir dagar og notalegir.  Gaman að geta glaðst og hlakkað til einhvers svo fíns sem endurfunda við fjölskyldu og vini.   Best að slengja sér í bælið - maður er hálf dasaður!  Góða nótt heimur, nattí nattí!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband