Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

And there he glows

Gærdagurinn var langur og strembinn. Ekki beinlínis neinn hvíldardagur þótt hann eigi að kallast það sunnudagurinn. Ég var að vinna frá 08:00 til 20:00 og var orðinn hálfdasaður þegar ég er á leið út frá kirkjunni. Ég tvílæsi dyrunum, kanna hvort ég sjái bæði öryggiskerfisljósin kvikna og sný mér svo frá kirkjudyrunum og held af stað út í rökkrið.  Ég hafði ekki gengið nema nokkur spor þegar mér verður litið niður á litla þúst sem er sjálflýsandi í rökkrinu. Ég skoða þetta nánar og tek upp. Þetta var nýþung lítil stytta, sem ég held að sé úr gipsi. Það merkilega var að hún var máluð með sjálflýsandi hálfglæru efni. Svona leit hún út í myrkrinu:

DSCF1630

Eins gott að ég hafði digitalmyndavélina með mér.  Síðan hugsaði ég að styttan eyðilegðist ef það byrjaði að rigna, svo ég stakk henni í pokann hjá mér og hélt áleiðis heim.  Þegar heim var komið sá ég að undir hana var skrifað veffang www.stillalive.eu .  Fór ég á netið í forvitni minni og komst þar að raun um að vegfarendum hefði verið ætlað að taka þessar styttu til handagagns og aðrar styttur (29stk) sem komið hafði verið fyrir víðsvegar um Stokkhólm. Svo nú er ég alsæll eigandi "Glóa" sem er sjálflýsandi stytta úr gipsi, málaður með sjálflýsandi lakki. Voðalega "kitsch"!

DSCF1632

(svona lítur "Glói" út að degi til)


Talið aftur í Florida

Já, mr. McCain, verðum við ekki bara að telja allt aftur í Florida? 


mbl.is McCain sagður sá hatursfræjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð! Geir! Þið gerðuð okkur að ölmusufólki!

Davíð!  Geir!  Bankastjórar og fjármagns"eigendur". Þið hafið gert okkur að ölmusufólki!  Þessi verða eftirmæli ykkar í sögubókum barna okkar og barnabarna (ef þau lifa af hungrið, kuldann og eymdina) 

Þetta eru hin nýju móðuharðindi. Ofannefndir eru okkar Lakagígar!

http://ekstrabladet.tv/nyheder/indland/article1067129.ece


Hverju var búið að koma undan til á erlenda reikninga?

Já, af hverju er fólk svona hissa?  Auðvitað veit hinn meðalgreindi einstaklingur að þessar fjárhæðir sem nefndar hafa verið í fyrirtækjaviðskiptum í tengslum við verðmæti eigna og fyrirtækja áttu við engan raunveruleika að styðjast.  Mér finnst gaman að spila spilið Monopol. Mér hefur fundist ég vera í jafn raunverulegum leik og litlu jakkafatapabbastrákarnir með skjalatöskurnar á 10 milljónkróna jeppunum sínum.  Ég tel mig í dag, hafa meira vit á fjármálum en þeir, þótt þeir hafi viðskiptamenntun á bakinu, en ég enga.

Fólk hlýtur að hafa séð að þessi hlutabréfamarkaður sem teygir sig út um allan heim hefur sannarlega ekkert bakland. Þetta hef ég sagt og jafnvel skrifað um á blogginu mínu sl. árið. Þessu hef ég og margir aðrir haldið fram í fleiri ár.  Þetta hefur verið leikur með fjármagn fólksins í landinu, með fjármagn sem ekki hefur heldur verið til og ríkið hefur verið með í þessum skuggaleik.

Það sem ég furða mig mest á, er þrælslundin íslenska. Að láta trampa á sér, niðurlægja og svifta sig réttmætum eigum sínum - en gera ekkert í þessu:  Hérna í Svíþjóð myndi fólk ekki þegja og hukrast lúpulegt undir súð bíðandi eftir einhverju kraftaverki á fjármálamarkaðinum.  Gleymið því, það gerist ekki.  Íslendinganna er að sækja sinn rétt. Kalla fólk til ábyrgðar og selja allar eigur stórfyrirtækjanna, bankastofnananna, hringanna og kanna hvað þessir aðilar eiga í útlöndum.


mbl.is Reiðir viðskiptavinir Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og svo til að hressa upp á fólkið!

Hlustið á þetta: 

http://www.stacken.kth.se/~vladi/orebros_kommunala_musikskola_2008.mp3

Sem er útgáfa af þessu:

http://www.youtube.com/watch?v=ENl4JK6LJ0Y&feature=related


Skilaboð frá Alþingi

Þetta er svo sætt!  Fanna systir skrifaði þetta á msn' ið mitt rétt áðan:

Nú eiga allir að standa saman... verst að menn deildu ekki öllu þegar vel gekk!

 

 

ps. Sat og var að lesa yfir færsluflokkana. Einn heitir "Landsbankadeildin"!!! Soldið kaldhæðið!Hvað verður um þá deildina?


Axlaðu nú ábyrgð á görðum þínum Geir

Það er ljótt að heyra um það talað að Ísland sé gjaldþrota hér í útlöndum. Fólki er ráðlagt að halda sínum fjármálum aðskildum frá öllu sem íslenskt er og fjármálaspekúlantar segja ráðamenn á Íslandi hafa farið á svo svakalegt fyllerí að timburmennirnir séu alls ráðandi og fyllibyttan hafi týnt skónum sínum og seðlaveski.  Hér hafi verið sólundað og það á mjög áberandi máta, þjóðartekjum góðærisáranna og nú sé ekkert til að bregðast við ólánsástandinu.  Þetta sé afar hryggilegt því Íslendingar séu duglegt og vinnusamt fólk - að svo hafi óviturlega verið spilað með opinbert fjármagn!

Óstjórn ríkisstjórna síðustu 13 ára er að þakka. 

Geir Haarde, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson. Við, börnin okkar og barnabörn skulu minnast ykkar fyrir óstjórnina alla og fyrir að hafa kafsiglt þjóðarskútuna. Hvílík pólitísk eftirmæli!


mbl.is Geir: Staðan mjög alvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glópagull stjórnmálamanna

Það væri synd að segja að núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn bæru hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Það væri líklega kallað að fara með ósannindi. Fáar þjóðir hafa haft sambærilega ólukku í sambandi við stjórn sinna mála lengi vel. Líklega væri hægt að taka dæmi úr nútímanum, en mörg þessara eru af svo viðkvæmum toga að maður veigrar við að setja slíkt fram í rituðu máli.  Málfrelsi hefur löngum verið eitt af hornsteinum þeirra réttinda sem við höfum. En oft er best að segja ekki það sem í huganum býr, einfaldlega vegna verðmæta þeirra upplýsinga sem maður býr yfir og þess skaða sem slíkar upplýsingar geta valdið, viljandi eða óviljandi.  "Aðgát skal höfð í nærveru sálar" og "oft má satt kjurrt liggja", fleyg orð sem oft hefur verið haldið á lofti. En því miður skapa aðstæður í daglega lífinu oft forsendur þess að maður verður að hrópa út sannleikann eins og hann er, beittur og særandi.

Ég leyfi mér að hrópa í dag!  Ég vil í dag minnast þeirra manna og kvenna sem staðið hafa að fjármálum íslensku þjóðarinnar á síðustu árum, eru ábyrgir vegna eigin reiði, persónulegrar óvildar, leiða og skorts á óeigingirni, óeigingjörnum kærleika fyrir því hlutverki sem þeir/þær hafa boðið sig fram í.  Þetta fólk er "blindsker [...] vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré sem bera ekki ávöxt að hausti [...] eru ofsalegar hafsbylgjur sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur...". Þetta er fólkið sem lofaði með drengskaðareiði að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar sem sinna eigin. Þetta er fólkið sem þorir ekki einu sinni að segja frá sannleikanum um eignastöðu sína í íslensku fyrirtækjum.

Og á þetta horfir íslenska þjóðin og lætur trampa á sér.  Líklega hefðum við betur verið sett undir dönsku einveldi en þessum skollaleik!


Áunnið ástand! Fall án fararheillar

Þjóðarskútan hefur lengi verið á leið að feigðarósi sínum. Þetta hefur hver manneskja getað sagt sér, en svo dagljóst að komist hefur ekki verið hjá því að sjá að hverju stefndi. Nú þykjast stjórnmálamenn vera furðu lostnir yfir ástandinu og skömmustulegir trítla alþingismenn til hússins við Austurvöll til að reyna takast á við áskapað ástandið.  Í fréttum hér í Svíþjóð hafa stjórnmálamenn sagt að engin stærri hætta sér sænska banka- og efnahagskerfinu búin, þar sem lengi vel hafi verið lagt til hliðar í góðærinu og síðan að kerfið hafi bara verið hugsað svo að það færist ekki þótt á móti blési litla stund. Líklega hafa Svíar lært bitri reynslu að ef kjölfestan er léttari en yfirbyggingin, ferst skútan. Allir þekkja söguna af byggingu Vasa-skipsins. Fyrir þá sem ekki þekkja þá sorgarsögu skal ég rifja hana upp núna í fáum orðum.

Í Þrettánárastríðinu sem Svíþjóð drógst inn í, vildi Gústaf II Adolf sýna hernaðarmátt sinn og byggja stórt og stæðilegt skip. Skipið var byggt 1626-1628 og var ekkert sparað til byggingar þess.  Þó var ekki byggt samkvæmt reglum um jafnvægi skipsins, burðargetur (staðsetningu lestar) og yfirbyggingu (skreytinga og seglabúnaðar).  Skipið var hlaðið með auka fallbyssudekki en á kostnað kjölfestu skipsins. Skipið var of háreist, aukaþungi var settur of hátt á skipið (fallbyssudekk) og kjölfesta skipsins var ekki nægileg. Þegar skipið var sjósett varð vart við óstöðugleika. Við jómfrúreisu sína þann 10. ágúst 1628, að viðstöddum konungi, hirð, helstu frammámönnum, þúsundum Stokkhólmsbúa og sendiherrum vinveittra og óvinveittra ríkja sigldi Vasa skipið út mót hafi. En knappast hafði skipið sveigt framhjá höfuðstaðnum að það lagðist á hliðna og sökk á fáeinum mínútum. Engu varð bjargað. Fjöldi áhafnarmanna fórst. 

Þetta stolt Svíakonungs var dæmi um það sem enn gerist í dag. Nú er það þjóðarskútan okkar, Ísland, sem tekin er að hallast illskyggilega. Það er ekki nóg að byggja háreist möstur og fylla með seglum og vilja hratt með öðrum, ef búið er að selja kjölfestuna.

Hvað er það sem fólk skilur ekki?

Í Fyrstu Mósebók er hægt að lesa um draum faraós, hvern faraó fékk síðan Jósef til að túlka. Draumurinn byrjaði með að faraó sá sýn:  "Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits og fóru að bíta sefgresið. Og á eftir þeim komu upp aðrar sjö kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold...  [1.Mós. 40:17]  

Jósef túlkaði drauminn svo að fyrst kæmu sjö góð ár, síðan sjö slæm ár. Faraó gerði ráðstafanir og sparaði hvert ár hluta uppskerunnar þegar það gaf góðæri. Þannig átti hann mat þegar illa áraði.  Þessi saga hefur verið þekkt í minnst 3 000 ár.  Hvað er það sem fólk skilur ekki? 

Vissulega hafa ráðherrar og bakastjórar og eigendur hálfhruninna fjármálafyrirtækja mokað undir sig, en hvað með þjóðina sem treysti þeim?


mbl.is Óttast að spilaborgin hrynji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkja og kannabis

 (mynd)

Hedlundakirkjan í Luleåstifti hér í Svíþjóð sendi um daginn frá sér safnaðarblað. Undir mynd af fallegu laufblaði stóð: ".. opið fyrir þá sem eru opnir og áhugasamir fyrir að purfa nýja hluti". Já sannarlega er kirkjan farin að reyna fyrir sér með mismunandi form auglýsingamennsku. Einhvern veginn efast ég þó um að "opnum og áhugasömum" hafi verið boðið til hassreykinga í safnaðarheimilinu eða fólki boðið til hringreykinga með hinum himnesku friðarpípu. Auðvitað myndi kirkjan fyllast af fólki, það er ekki spurning um það. Líklega myndi þá eitthvað svífa yfir vötnunum annað en orðið og andinn.

Nei svo sannarlega var það ekki með vilja að hassblaðið fékk að skreyta síður safnaðarblaðsins. Ætlunin var að notast við hin fallegu blöð japanska hlynsins, sem er snarlíkur hinum áhrifagefandi græna ættingja sínum af ættinni Cannabis  :)

En eftirspurn eftir fréttablaði Hedlundasafnaðarins hefur aukist og blaðið góðkunna verið söfnuðinum til mestu hjálpar.   :)  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband