Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Helför og hugsanafrelsi

Oft er tönglast á því hversu víðsýn við erum á Vesturlöndum, að dómskerfið okkar sé gott og réttlátt og að frelsið sé varðveitt í stjórnarskrám og lagatextum. En er þetta virkilega svo. Ég var í Tyrklandi núna á dögunum. Umræðan um aðild Tyrklands að ESB er hávær þar og vilja margir með, svona til að hleypa Tyrklandi inn í Evrópu. Ottómanska ríkið náði næstum því að taka Vínarborg fyrir þremur öldum, en urðu frá að hverfa.  Núna vilja þeir komast lengra inn í Evrópu - með klókindum í stað vopnavalds. Ef Tyrkjum yrði hleypt með í ESB yrðu þeir annað fjölmennasta land bandalagsins og eftir um 10 ár líklega það stærsta. 

En það er þetta með Tyrkina. Enginn vill hafa þá með af því að þeir eru sagðir brjóta á mannréttindum fólks, stýra hugsunum og bæla niður ný þjóðfélagsöfl. Stjórnmálaflokkar sem eru með aðra stefnu en var mörkuð 1923 þegar Kemal Atatürk stofnaði lýðveldið og sekúlariseraði (hafnaði þátttöku trúarhreyfinga í stjórnmálum) samfélagið er hafnað, þeir bannaðir því þeir stríði gegn meginhugmyndafræði þeirra sem liggur að baki hins nútíma Tyrklands.

Það er bannað að tala illa um Kemal Atatürk, það sem hann gerði og sagði og liggur þar við fangelsissvipting.  Tyrkir hafa löngum sömuleiðis hafnað að nokkurt þjóðarmorð hafi átt sér stað í 1915 á Armenum. Það eru svona hlutir sem ég vil draga fram í ljósið. Nú þegar fólk á vesturlöndum er á sama hátt beitt órétti fyrir hugsanir sínar.

Prentfrelsi og hugsanafrelsi er ekki til á Vesturlöndum, ekki frekar en í Kína, Tyrklandi, Spáni eða í Bandaríkjunum. Í Þýskalandi er bannað að vera nasisti og víða er sömuleiðis bannað að eiga eða bera fána nasista. Við vitum öll hvaða hörmungum sú stefna er kölluð er nasismi olli á stríðsárunum á fyrri hluta síðustu aldar.  Því má aldrei gleyma eða reyna að hjúpa í umbúðir sögufölsunar.  Nasistar beittu ritskoðunum, þeir bönnuðu vissa skoðanir og stjórnmálaöfl. Þeir sögðu fólki hvernig það ætti að hugsa. Erum við nokkuð betri þegar við í dag bönnum og til og með refsum fólki fyrir hugsanir sínar.  Að hafna að helförin, þar sem milljónir Gyðinga, Sígauna, Tatara og annarra kynþátta og þjóðarbrota voru myrtar, segir meira um lélega söguþekkingu og gáfnafar en að þessi manneskja sé hættuleg.  Svo lengi við gleymum ekki ódæðisverkum fyrri tíma munum við ekki endurtaka slíkar hörmungar. Réttlátt samfélag, þar sem jöfnuður, víðsýni, þekking og almennt hátt menntunarstig prýðir samfélagið, minnkar áhættan á því að fólk komi fram með skrýtnar hugmyndir sem afhjúpa grunnhyggni þeirra og vankunnáttu.

Bönnum ekki hugsanir. Bönnum ekki fólki að hugsa, menntum það heldur. 


mbl.is Árásarmaðurinn sagður afneita helförinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly hrakin úr landi?

Hverjir bera mest úr býtum ef Eva Joly er hrakin úr landi? Maður veltir því fyrir sér hvort stjórnvöld séu virkilega að vinna úr vanda þjóðarinnar? Hvort stjórnvöld vilji losna við spillinguna? Hvort spillingin nái ekki svo víða um kerfið með rætur sínar að ENGINN þori að velta við steinum lengur? Það er umhugsunarvert að henni hafi ekki verið sköpuð vinnuaðstaða né heldur hafi verið farið að tillögum hennar. Eru stjórnmálamenn svo forhertir að þeir leyfi ekki þjóðinni að þvo hendur sínar og draga rétta aðila til ábyrgðar. 

Þjóðarbúið er svo skuldsatt og möguleikar þjóðarinnar svo litlir til að geta rétt úr kútnum næstu áratugina að réttlætanlegt er að fara í enn harðari innheimtu og saksóknaraarf gegn þeim sem sannast sekir og ábyrgir fyrir efnahagsástandi þjóðarinnar.

Stórfelldar eignaupptökur hjá fyrrum útrásarmönnum og konum er ein leið sem ég vil að farin sé.  Hraðferð í dómskerfi og síðan verði eignir þessara aðila og tengdra fyrirtækja hreinlega gerðar upptækar. Stórsparnaður í ríkiskerfinu sem á næstu 5 árum verði svo algerlega sparað í ríkisgeiranum að t.d. engar opinberar heimsóknir verði gerðar til útlanda eða tekið á móti gestum hingað, engir Íslendingar verði styrktir til utanlandsferða á íþróttamót, tónlistarferðir, ekki verði keypt listaverk eða greitt úr starfslaunasjóði til listamanna, einungis einfaldasta dagskrá verði leyfð í ríkisstyrktum leikhúsum, kvikmyndasjóður verði settur á ís í 5 ár sem og nýstofnun framhaldsskóla. Hagrætt verði í æðri menntastofnunum svo að einungis 2 háskólar verði í landinu. Ríkið leggi niður allar banka og fjármálastofnanir í landinu þannig að einungis ein verði eftir sem taki á sig alla slíka þjónustu í landinu. Gengið verði til samninga við hin norðurlöndin um sameiginlega sendiráðsþjónustu erlendis. Kvótakerfið verið aflagt og fiskveiðar þjóðnýttar í þágu þjóðarinnar, ekki einstaklinga eða fyrirtækja.  Þingmönnum verið fækkað í 40. Sýsluumdæmum verið fækkað í 8.  OG SKULDIR VERÐI GREIDDAR NIÐUR!

 


mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð skulu standa, skuldbindingar eru orð!

Orð skulu standa. Það er skrýtið að rísa upp á afturlappirnar og reyna að slá sig til riddara nú þegar samningaviðræður eru svo til um garð gengnar.  Sumir, og þá meðtalinn Þór Saari, reyna að sækja styrk og vinsældir til óánægðra Íslendinga. Það er nóg af þeim og ljóst að fólk á erfitt með að sætta sig við orðinn hlut.  Málið er bara ekki svo einfalt. Skoðum hvað gerðist:

Stjórnarsamstarf það sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn stóðu lengst að setti sér reglur í því bankakerfi og því fjármálaumhverfi sem ríkti á uppgangsárum íslenskra útrásarmanna. Öllum fannst ástæðulaust að mála skrattann á vegginn, allt gekk svo vel og grunnhyggni sem hönd í hönd með fullkomu ábyrgðarleysi leiddi íslensku stjórnvöldin til skrifa upp á óúfylltar ávísanir fyrir einkaaðila.  Fullkomið ábyrgðarleysi fyrri ríkisstjórna er upphafið á vanda Íslands þjóðar í dag.  Að íslensk stjórnvöld skyldu ganga í svo stórar ábyrgðir fyrir bankanna vara banabitinn.

Ef við viljum að Ísland og Íslendingar séu teknir alvarlega í alþjóðsamhengi, verðum við að vera gerendur orða okkar, standa við sögð orð og axa ábyrgð á þeim skuldbindingum sem við höfum gengist fyrir. Þetta er sárt!  Mjög sárt!   En það sem stjórnvöld eru að reyna að gera nú er að borga brúsann, borga reikninginn fyrir fyllerí fyrri ríkisstjórnar, "fjármagnseigenda" og spilavítisskuldir þeirra. Ef ekki verða handrukkarar ESB, IMF og alþjóðasamfélagsins gerðir út af örkinni. Viljum við það og verða lúta afarkostum og gerð "tilboð sem við getum ekki hafnað" svo ég vitni í The Godfather I. kvikmyndina - því í slíkum félagsskap myndum við finna okkur innan skamms. 

Slappið af og refsið þeim sem refsinguna eiga skilið.  Núverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er bara að reyna moka skítinn eftir ríkisstjórnir Geirs Haarde, Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar.


mbl.is Samið af sér með skammarlegum hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlaupastrákur framrásarmanna viðurkennir

Það er skrýtið að sjá þessa frétt, þar sem Vilhjálmur Egilsson biður þjóðina að hjálpa til að greiða spilaskuldir hans flokksbræðra.  Ljótt en satt!   Staða ríkisfjármála er hugtak. Ekkert meir. Ríkisfjármál krefjast þess að peningar séu til til að hægt sé að tala um "ríkisfjármál" - en peningarnir eru ekki til. Þeim var spilað út af m.a. flokkbræðrum Vilhjálms. 

Nú skjótast greyin fram með skottið milli fótanna og biðja um hjálp vegna þess að þeir eru ráðalausir, peningalausir og ærulausir! 

Skömm að!


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF og ESB

Þegar ég skrifaði um að ég vildi að íslensk stjórnvöld sæktu rétt sinn fyrir alþjóðlegum dómstólum og kærðu bresk stjórnvöld fyrir óhemjugang þann sem olli óbætanlegu tjóni á íslensku hagkerfi, meiru en orðið var, var hugsunin sú að fyrir utan að fá uppreisn æru gætum við átt von á miklum skaðabótum. Þannig hefðum við getað greitt ICESAVE reikninginn - eða þann hluta sem réttilega átti að greiðast af okkur, sem of losnað við að leita á náðir IMF eða Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn IMF er það versta sem gat gerst fyrir íslenska þjóð og hagkerfi. Ég varaði við þessum óvætti með dæmum frá Afríku, Suður-Ameríku og Asíuríkjum. Land tapar sjálfstæði sínu þegar IMF kemst inn í hagkerfi þess.  Fljótræðishátturinn og skammtímalausnavandi ríkisstjórna Íslands er sögulegt vandamál. Þetta er ekkert nýtt, en virðist erfast frá ríkisstjórn til ríkisstjórnar, sama hvar sú stendur á stjórnmálalitasviðinu.  Icesave var slæmt, en IMF er það sem er að kollkeyra þjóðir um allan heim. Næsta skammtímalausn og óígrundaða aðgerð stjórnmálamanna á Íslandi verður að reyna að komast inn í ESB.  Hryggilegt sem það verður manni litið til t.d. Lettlands núna. Þar er allt á vonarvöl. Forsætisráðherra Lettlands sem er næstum því eins skuldsatt og Ísland, sagði að ef ekki bærist hjálp einhversstaðar frá myndi Lettland verða gjaldþrota nú í haust.

Athugið að Lettland er meðlimsríki í ESB. Enginn kemur því til aðstoðar, allir halda að sér höndum.  Hvers virði er ESB nú þegar það getur ekki einu sinni hjálpað sínum eigin.

IMF og ESB er fyrirbæri sem boða yfirtökur og sjálfstæðisskerðingu.


mbl.is Gengið frá samkomulaginu í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór orð...

Það er svo hryggilegt að Íslendingar, sem staðið hafa í sjálfstæðisbaráttu á ný núna á sl. ári og krafist hafa nýs lýðræðis skuli vera svo viljugir að gefa frá sér ávinning þessar baráttu. Eftir nokkra daga kjósa Svíar til Evrópuþingsins. Þetta eru nokkrir fulltrúar sænsku þjóðarinnar sem kosnir eru af þjóðinni til setu á þinginu og sem síðan eiga að sjá um verndun lýðræðis innan bandalagsins.

Það er búist við að tæplega 40% af þjóðinni kjósi í þessum kosningum.  Þjóðinni er sama. Þjóðinni veit að það er ekki verið að kjósa um áhrif í ESB, þjóð veit að hvernig sem kosningarnar fari muni áhrif Svía (9,5 milljónir) ekki skipta neinu og hafa sáralítil áhrif.  Því er búist við að tæplega 40% atkvæðisbærra mæti á kjörstað. 

Það er skilyrði lýðræðis að það sé virkt og með þátttöku stórs hlut þjóðarinnar.  Staðan er því svo nú, að lýðræðiselskandi Svíar vita að atkvæði þeirra munu ekki hafa nein áhrif á stefnu og stjórnun ESB.   Geta má þess að búist er við 11% þátttöku í Póllandi í sambærilegum kosningum. 

Er þetta ólýðræðislega fyrirbæri, ESB virkilega það sem þjóðin vill ganga til liðs við?   Vilja þingmenn og ráðherrar VIRKILEGA selja íslenskt sjálfstæði og lýðræði í hendur erlends valds?   Þess valds þar sem aðildarþjóðir hafa barist á banaspjótum og startað heimstyrjöldum vegna ólíkra skoðana og lífssýnar?   Ég segi NEI TAKK!


mbl.is ESB-tillagan birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Berin eru súr"!

Svo flokkum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna finnst lítið til koma um stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna!  Ég segi nú bara "Jasså"!  Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði átján ár, ég endurtek 18 ár, til að skapa velferð og hagvöxt, bætt mannlíf og betri líðan með þjóðinni. Og Framsóknarflokkurinn hékk með í einu og öllu lengst af.  Hvað gerðist?  Nú ríkir örvænting meðal stærri hluta þjóðarinnar, unga fólkið er að missa eignir sínar, námsmenn erlendis hafa duglega tekið sinn skerf af fáránleika stjórnleysisins, gjaldeyrishöft ríkja, allir bankarnir fóru á hausinn og jakkafata- og bindisklæddu smákrakkarnir hafa tapað trúverðugleika sínum og eru farin í felur.

Barnaskapur stjórnarandstöðuflokkanna er algjör!  Þeir telja aðgerðir stjórnarflokkanna "ekki nógu róttækar". Formaður Framsóknarflokks reynir að sá fræjum óeiningar og illsku með því að reyna kveikja elda hér og þar í stjórnarsamstarfinu um leið og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að segir að stjórnarsáttmálinn sakni greinilegra markmiða í ríkisfjármálum.  Vitið - ég er bara orðinn hundleiður á Bjarna Ben og hann er bara búinn að sitja í nokkrar vikur í stóli formanns síns flokks. Það er sami vællinn, fyrirprógramerada snakkið sem áður og biturðin í tóni hans sem allra annarra sem talað hafa fyrir munn síns flokks allt síðan þjóðin fleygði flokknum í ruslatunnuna.  Það hlýtur að vera sárt að komast að því að lífsstefnan sem flokkurinn hefur lengi lifað og staðið fyrir sé handónýt og einskis verð.  Þetta gildir sömuleiðis um Framsóknarflokkinn, sem notaður hefur verið sem bót fyrir það sem vantar í vitleysunni hjá Sjálfstæðisflokki í gengum árin.  Flokkurinn sem gefið hefur Sjálfstæðisflokki brautargengi og blessað samstarfið með "já" atkvæðum sínum. Já sá hinn sami á fyllilega sömu ábyrgð á því hvernig málum er komið í samfélaginu.

Þeim ferst að gagnrýna!


mbl.is Ætla að treysta á andstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söfnuðir kirkjunnar og skuldasöfnun þeirra

Hvar er kirkjustjórnin?  Hver er ábyrgur fyrir að svona skuldasöfnun eigi sér ekki stað?   Er það kirkjustjórnin?  Eru það sóknarnefndir einstakra sókna?  Er það ríkisvaldið?  

Farið hefur verið út í nýbyggingar monúmentala kirkjubygginga sem hafa gersamlega kaffært söfnuði og sett þá í fjárhagslega fjötra. Þetta hefur bitnað á öðrum söfnuðum Þjóðkirkjunnar, sérstaklega þeim sem staðið hafa sig í fjármálapólitík sinni og gætt sín í fjárútlátum vegna framkvæmda, viðhalds og nýbygginga. Þessir söfnuðir greiða í svokallaðan jöfnunarsjóð kirkna og úr þessum sjóði er ausið til nýbygginga þeirra sem farið hafa fram úr allri skynsemi hvað varðar nýbyggingar. Grafarvogskirkja er gott dæmi um svona. Lengi vel mátti ekki skipta þessu gríðarlega fjölmennu sókn í fleiri þjónustuumdæmi (sóknir) vegna þess að sóknargjöld alls fjöldans varð að ná í til að mögulega mætti láta enda ná saman.  Grafarvogssókn er ekki neitt einsdæmi. Fjármál kirkjunnar ættu sannarlega að vera skoðuð af gagnrýnum aðilum. Fjárausturinn er gengdarlegur í steinsteypu, skuldir og vexti af skuldunum.  Allt frá yfirstjórn kirkjunnar og út til dreifðustu sókna sem standa í stórbyggingum, er ljóst að margt má betur fara. 

Kirkjan myndi aldrei fara svo með fjármuni ef hún væri sjálfstæð, en ekki undir verndarvæng ríkisins. Beiðnir safnaða um styrki til lausnar skuldasöfnunar kirkjunnar (vegna nýbygginga) ætti að skoðast með sparnað í huga og endurumhugsun á framtíð kirkjunnar, þ.e.a.s. forgangsröðun.


mbl.is Gagnrýna styrki vegna skulda kirkna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Já, er það? Er til spilling í samfélaginu. Þú segir fréttir!"

Voðalega var þetta vandlega orðuð fullyrðing!  En eins og tölurnar sýna er ekki um að villast að Íslendingar vita af spillingunni og hafa tekið þátt í henni. Gallup-könnunin gaf til kynna að ríflega 70% landsmanna telja stjórnmálaflokkana spillta og 50% telja að spillingin nái djúpt inn í fjölmiðlana.  Hins vegar telja 80% að viðskiptalífið sé spillt.

Mínar eigin tölur er í sömu átt:  Ég tel að 95% af viðskiptalífinu sé spillt, ég tel 90% Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks spillta og að lokum tel ég, eins og dæmin sýna, fjölmiðlana ver um 75% spillta.

Þetta voru tölur mínar!   Byggðar á yfir 37 ára reynslu og löngu fengnum viðbjóði á spillingu á almannafé, stjórnmálasiðferði og stýrðri umfjöllun fjölmiðla.  


mbl.is Margir telja spillingu ríkja í þjóðfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið vill ekki Guðlaug Þór niður um eitt sæti, það vill hann út!

Útstrikanir af lista Sjálfstæðismanna koma mér ekki á óvart. Ljóst er að embættisfærsla Guðlaugs Þórs og spillingin innan Sjálfstæðisflokks hefur sært stolt hinna auðsveipnu og auðtrúu flokksmeðlima. Flokksaginn minnir oft á Norður-Kóreu eða Rúmeníu fyrri tíma. En núna hafa flokkmennn getað sagt það sem þeim býr í brjósti, gert það á þann hógværa máta að strika út efsta nafn af listanum, nafn Guðlaugs Þórs fyrrum heilbrigðismálaráðherra.   Skilaboðin verða ekki skýrari hjá þessum flokki og ljóst að Guðlaugur Þór verður að finna sér eitthvað nýtt að gera.  Það nægir ekki að hann færi sig niður um eitt sæti. Fólkið vill hann ekki.  Því svíður að sjá "milljónasnáðann" á lista og strikar hann því út, ekki til að færa hann niður um eitt sæti, heldur til að strika hann út.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur í RS með yfir 2000 útstrikanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband