Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hvað er kirkja?

Kirkjan á afmæli á morgun, ekki íslenska þjóðkirkjan, heldur heimskristnin sjálf. Á morgun minnumst við þess að heilagur andi kom yfir lærisveina Krists og þeir töluðu tungum - atburður sem markar upphaf kirkjulegs starfs. Kirkjan byrjar, upp frá þessum atburði, að skipuleggja sig í starfseiningar og ólíkir söfnuður taka að starfa í mismunandi löndum. Hver söfnuður tekur sér það verkefni að hittast á helgidögum, útdeila sakramentunum, boða kristna trú innan sem utan safnaðar og vera boðberendur kærleika Guðs, í verki.

Þetta er stórtséð það sem við erum að fagna á morgun. ENn kirkjuskilningur nutímafólks er afskaplega einhæfur. Í fyrstu voru djáknar, prestar, biskupar kallaðir til þjónustu í söfnuðunum. Þeir voru jafningjar fólksins, en höfðu hlutverki að gegna innan safnaðarins, rétt eins og í stórum fyrirtækjum. Þessir voru virtir og upphafðir vegna þess að þeir/þær störfuðu í nafni kærleikans, í nafni Guðs. Hver og einn hafði ákveðið hlutverk; kærleiksþjónustu, prédikunar/trúboðsþjónustu og tilsjónarþjónustu. Allir voru þau jafnir fyrir Guði.

Sýnin á hvað var kirkja breyttist svo þegar fram leið og þrjár "kirkjur" urðu veruleiki í daglegu tali: 

1) Kirkjan sem samfélag skírðra, samfélag hinna heilögu Guðs, kirkja hinna lifandi steina. Guðfræðilegt hugtak um lifandi steina sem við byggjum kirkjuna sem hugmynd af. Hornsteinnin er Kristur, og hver og einn einstaklingur er steinn í kirkjubyggingunni, hver og einn kristinn einstaklingur.

2) Kirkjan sem hús af forgengilegu efni, kirkja sem hús, hús sem stendur mitt í bænum okkar, eða á góðum stað í sveitinni okkar. Húsið sem við sem heilagt samfélag förum til og eigum sameiginlegar stundir í trúnni.

3) Kirkjan sem stofnun. Kirkjan (1) hefur alltaf þurft á leiðbeiningu að halda. Kirkjan er lifandi, hreyfanleg og byggð upp af fólki. Hún er lifandi á öllum tímum og hið prédikaða orð er predikað af lifandi fólki á hverjum tíma, þannig að kirkjan er  og á að vera "up to date". Kirkjan sem stofunum er fyrirbæri sem oft hefur misbeitt valdi sínu og gerir víða enn í dag. Stjórnmálalega og mót einstaklingum. Kirkjunni er stýrt af fólki og þess vegna má oft búast við að hún geti farið af kúrs sínum og tapað stefnunni. Þetta hefur gerst oft í veraldarsögunni og gerist enn.

Orð sálmaskáldsins Friðriks Friðrikssonar eiga við í dag, aðfangadag hvítasunnu: "Þú, kirkja Guðs, í stofmi stödd,/ ó, stýrðu beint í lífsins höfn,/ og hræðslu' ei manna meinráð köld/ né mótbyr þann, er blæs um dröfn." (Ísl.sálmb. 290:1)

Koma menn og koma dagar, en allt er fallvaltleikanum háð um leið og Guðs orð stendur ævinlega. Það er hryggilegt að sjá, kirkjuna í dag. Heimskirkjurnar lifa í ósátt við hvora aðra. Deilur og ósætti ríkir innra með hverri og einni og víða hafa "kirkjur" feysknað svo að aðeins ytra byrðið stendur af sjálfu sér án stuðnings innviðanna.

Ég fékk hugmynd í fyrradag eftir að hafa verið í mikilvægu samtali með trúarleiðtoga einum í Svíþjóð. Hugmyndin er svona:  Að prestar kirkjunnar, starfsfólk allra kirkna og safnaðarfólk komi saman við sóknarkirkju sína og biðji. Biðji um kærleika, biðji um fyrirgefningu, biðji um mannréttindi, biðji um leiðréttingu á því sem miður hefur farið, biðji fyrir hvort öðru, biðji um umburðarlyndi. Þetta yrði sannleikans stund. Enginn verður dreginn fyrir dómstól, enginn smáður, enginn lítillækkaður. Hér verði Heilagur andi beðinn að stíga niður og umvefja allt í kærleika Guðs. Hér er stund fyrirgefningarinnar. Fyrirgefi maður einhverjum eitthvað, þá er honum fyrirgefið það.

Við þurfum að byrja upp á nýtt!  Kirkjan, söfnuðirnir, fólkið sem á einhvern hátt hefur orðið ósátt....  Fólkið sem lent hefur í skilningslausum presti, fólk sem hefur verið skilningslaust fyrir aðstæðum og orðum presta. Hér við svona stund sem ég nefndi, á við að koma saman undir merkjum kærleika og fyrirgefningar. Reiðin er til þess fallin að sleppa inn óhamingju og vanlíðan.  Treysti einhver sér til að fyrirgefa og taka það stóra skref, þá geri hann/hún það og njóti léttis og þeirrar andlegu hvíldar sem slíkt veitir. Þetta á við um alla, háa sem lága, gamla sem unga, í starfi eða án starfs, í embætti sem án embættis. Eftir þessa stund göngum við svo með hinum til messu og tökum á móti fyrirgefningu Guðs.

Jæja, hugleiðingar á laugardagsmorgni. Ég er bara búinn að upplifa svo andstyggilega hluti núna síðustu vikurnar, andstyggileg viðbrögð "aðila" sem ég hélt að tryði á líf og fyrirgefningu. Aðila sem leitast hefur ákveðið í krafti styrks síns og áhrifa að bregða fæti fyrir mig.  Ég fyrirgef, ég bið og ég bíð.   Veni, sancte spiritus!

 


Bregðu bara fæti fyrir náunga þinn, það er allt í lagi, hann getur hvort eð er ekki slegið til baka

Á einum stað í Jóhannesarguðspjalli standa þessi nú sönnuðu orð sem vakið hafa ónot, kvíða, flökurleika og hræðslu innra með mér. Því oftar ég les þau, þeim mun sannari upplifi ég þau og sorgin brýst fram. Þessi orð eru hluti guðspjallstexta 6. sunnudags eftir páska:

Þeir munu gera yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.  [Jóh. 16:2-3]

Fyrst setur mig orðlausan. Ég stari á orðin og er að velta því fyrir mér, hvernig í ósköpunum getur nokkur orðað tilfinningar, reynslu og ótta með þvílíku innsæi. Það liggur við að maður líti umhverfis sig og sjái til hvort einhver sé að kíkja, hvort einhver sé að fylgjast með. Besservisserar heimsins virðast alltaf vera syndlausastir, hróðugir yfir afburðum sínum, lærdómi og samfélagsstöðu. Hinsvegar gerir blinda þeirra þeim ókleyft að sjá neitt í myrkri síns heims, myrkri tilfinningalegs doða og skorts á tilfinningu fyrir hinu mannlega. Orðum guðspjallsins er snúið til þeirra sem eiga að leiða, þeirra sem hafa komið sér í efstu þrep samfélagsins, hin efstu þrep hins andlega og siðprúða mælikvarða. Blindan sem þessir aðilar líða af gerir þá að sorglegum merkisberum hins göfugasta, hryggðarmerkjum hins upplýstasta og hræddum og ráðalausum fulltrúum hinnar dýpstu visku.

Hvað er að?  Já, hvað segir guðspjallið? Orð þess eru skír og lifandi og án alls vafa. Þau eru í senn áminning, aðvörum og hróp á viðbrögð.  Hver reisir fallna reyrinn? Hver beygir sig og annast hinn minnimáttar?  Hver á skilyrðislausan kærleika og fer ekki í manngreinarálit?  Hver getur fyrirgefið? 

Sá sem ekki á fyrirgefningu í hjarta sínu, umburðarlyndi og skilyrðislausan kærleika. Þann sem skortir trú á hið góða og er langrækinn, hatar og er fullur ótta - hann hvorki þekkir Guð eða óttast hann. Sú manneskja, hversu háttupphafinn hún er ekki Guðs, hún hefur dæmt sig út í ystu myrkur óvinarins og er ætluð þarvist um allan aldur. Iðrun, fyrirgefning, óttaleysi og kærleiki er hinsvegar gjafir Drottins, gjafir sem gefa djörfung og elsku á því sem er gott.

Bregðum ekki fæti fyrir bróður eða systur sem haltrar, bara vegna þess að það er svo létt að fella þann einstaklinginn. Styðjum heldur og liðsinnum.


Málþing um kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi

Í dag stendur Reykjavíkurprófastsdæmið hið eystra fyrir málþingi um mannréttindi; "Mannréttindi í heimi trúarinnar". Kirkjan hefur löngum gengið undir merki hins kristna frelsis einstaklingsins. Með "kristna frelsi einstaklingsins" á ég við að það að höndla mikið frelsi er jafn erfitt og að hafa fullt málfrelsi. Því fylgir ábyrgð. Mikil ábyrgð, eins og nokkrir bloggarar hafa fengið að reyna. Málfrelsinu eru settar skorður. Einmitt þessar skorður gera okkur það kleift að vera frjáls að því að tjá okkur. Þessar skorður kallast mannvirðing. Frelsið í hinum kristna heimi er komið fyrir Krist. Segir ekki postulinn Páll: "Til frelsis frelsaði Kristur oss" [Gal. 5:1].  Svo einfallt er það fyrir okkur þessi sem hafa trú í hjarta. Kristur frelsaði ekki bara heiminn frá eilífum dauða að veraldarlíf loknu, heldur kenndi hann okkur hvernig við gætum upplifað forgarða himnaríkis þegar í jarðnesku lífi okkar. Með því að vera kristinn, lifa sem sá sem hefur verið mikið fyrirgefið, fyrirgefa, vera umburðarlyndur, ei þrætugjarn og gefa kærleika án skilyrða. Jafnvel til þeirra sem eiga erfitt og eiga ekkert sameiginlegt með okkur - fyrir utan að vera Guðs börn.

"Berið hvers annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists" [Gal. 6:1]

Mannréttindi eru því miður ekki allra. En lítum okkur nær. Í hverju felast mannréttindi í dag í nútímasamfélagi okkar? Öll höfum við heilbrigðisþjónustu, hreint vatn, mat og menntun. Spyrji þú einhvern á götunni í hverju mannréttindi felist verða svörin mörg, en upp úr munu þó vissir málaflokkar standa. Ég held að sá stærsti snerti helst "mannvirðingu". Að geta ekki notið virðingar, þrátt fyrir allt. Að manngildið skolist ekki niður við að einhver hafi misstígið sig, að einhver hafi tapað tökunum á drykkju, hafi lagst í læknadópið, tapað burt allri sýn á fjármál sín og fjölskyldunnar og sólundað peningum foreldra eða vina o.frv.  Er þetta spurningin að fullkomnunarþörf nútímans, hvítþvegnu meðborgarar okkar og eftirsóknarverðir staðlar í sambandi við frómheit og frelsi verða okkur ásteytingarsteinar.

Málþing Eystra prófastsdæmisins í dag er þarft. Vonandi leiðist það af ávöxtum Andans heilaga sem eru kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi - og síðan að niðurstöður málþingsins verði til að auka vægi þessara göfugu eiginleika í sýslu og framkvæmd þeirra sem áhrif hafa og hafa haft á líf fólks nær og fjær.


Hvernig var veturinn? Nú verður aftur hlýtt!

Snemma í morgun var ég kominn niður í kirkju til að taka á móti viðgerðarmanni frá Norrköping. Það þurfti að sleppa honum upp í turn. Það er nefnilega svo að ein klukkanna í turninum hafði þagnað. Hún er stór [4,2 tonn], hljómmikil og falleg og búin að hanga þarna síðan um 1724. Nú hafði hún í síðustu viku þagnað. Vélbúnaðurinn sem notast hefur verið við síðan 1908 hafði gefist upp. Á sunnudag á hún aftur að geta hljómað með sínum þunga tón, kalla fólk til kirkju, og minna fólk á að kirkjan finnst mitt meðal þeirra í Kungsträdgården og í hjörtum þeirra.

Það var gaman að sjá aðfarir viðgerðamannsins. Hann talaði við klukkuna eins og hún væri persóna og klappaði henni. Það var eins og hann væri að "peppa" hana að halda áfram.  Eina sem ég heyrði hann segja var: "Hvernig var veturinn?" Hann klappar henni og segir svo: "Nú fer aftur að hlýna!"  Ég sagði eitthvað um að mér þætti vænt um að sjá hversu það virkaði sem honum væri ekki sama um klukkuna. Hann tjáði mér þá að pabbi hans, sem hefði haft sama starfa og hann hefði alltaf sagt að þegar við hringjum kirkjuklukkum opnum við himininn. Með það í huga gæti maður ekki annað en fyllst lotningu og vináttu til þeirra, persónugert klukkurnar og þótt vænt um þær. Þessi hefði langa sögu og hefði tekið þátt í mörgum af stóru stundum fólksins í borginni, og að oft hefði hún opnað himininn fyrir bænum fólksins og augliti Guðs á himnum. 

040601-10a

Hann skipti út slitnum mótornum og sagðist síðan koma í vikunni og heilsa upp á hinar þrjár klukkurnar. Hann hefði eittlítið ósagt við eina frá síðustu heimsókn. Hann hefði einhverja aukahluti með sér handa henni.

Núna er ég kominn aftur heim og mér líður eins og eftir trúarupplifun. Ég var glaður að hitta þennan fullorðna mann sem var eins umhyggjusamur fyrir klukkunum sem og fyrir góðum vini eða barni.


Predikun um lífið - Vitnisburður um kærleika - Quasimodo

Enn einn morgun með blessaðri sól og yndislegri blíðu. Hversu þakklátur verður maður ekki og hversu hýrist maður ekki á brún þegar hitastigstalan skríður hærra með hverjum deginum. Skammdegisþunglyndi margra hverfur, veröldin fær á sig liti og mýkt. Drungi lífisins breytist í vonfulla hversdagsgleði. Gróðurinn kappfullur leitast við að ná eins miklu af geislum sólar og sprengir af sér litlu brumin og sennilega hlær Guð innra með sér af hreinni sköpunargleði. Allt gott gefur hann...  

Flestir þekkja söguna af hringjaranum í Notre Dame eða Notre-Dame de Paris eins og hún nefnist á frummálinu, sögu skrifaðri af Victor Hugo [1802-1885], hinum stórmerkilega franska rithöfundi. Saga þessi hefur gefið mörgum innblástur, von og trú á að hinn sanna kærleik. Ég prédikaði núna á fyrsta sunnudegi eftir páska í kirkju hér í mið Stokkhólmi og datt í hug að þar sem ég er búinn að snúa prédikuninni yfir á íslensku að best væri að leyfa einhverjum að njóta hugleiðinga minna.

_____________________________

Quasimodo geniti

__________________________

1. sd.e.páska ( quasimodogeniti )

Jóh. 20:24-31Predikun flutt í Stokkhólmi 

Vitnisburður um kærleika

 

Fyrir nokkrum árum las ég bók hins þekkta franska rithöfundar Victors Hugo um Hringjarann í Frúarkirkjunni. Þessi bók hefur svo lengi sem ég man verið meðal minna uppáhalds bóka. Bókin sjálf hefur aldrei eignast sinn fasta stað í bókahyllunum, aldrei verið studd af öðrum bókum, heldur fengið að liggja ofan á öðrum bókum. Afi sagði oft að þær bækur sem manni væru kærastar, lægju oftast ofan á, í seilingarfjarlægð og þessar næðu aldrei að rykfalla. Sama heyrði ég gamla konu segja einusinni – Biblían á engan stað í bókahyllum, hún á að liggja ofan á og aldrei ná að rykfalla. Sannarlega náði Biblía þessarar öldruðu konu aldrei að safna ryki, því hún var lífandi ferðafélagi hennar gengum lífið. Lesin til gleði, hvatningar, leiðbeiningar, liðveislu og trúarauka.Ég held að flest börn í dag hafi nú séð teiknimyndina um Quasimodo, Hringjarann í Frúarkirkjunni, í útgáfu Walt Disney kvikmyndaframleiðandans. Sú saga sem sögð er þar á breiðtjaldinu eða heima í stofu á sjónvarpsskjánum er harla breytt útgáfa af ritsnilld Victors Hugo og útvötnuð svo ekki verði meira sagt.  Ágætis afþreying engu að síður og ef til vill vegur fyrir margan barnshugan inn í stórbrotinn tíma miðaldanna.  Sjálfur var Quasimodo það sem flokkað yrði í dag sem mjög vanskapaður, bæði fyrir þau lýti sem han bar á kroppi sínum og þá margvíslegu fötlun aðra sem hann hrjáði, samkvæmt litríkri frásögn höfundar. Hans fötlun gerði það að verkum að honum var ekki hugað líf í ys og þys hversdags miðalda. Eftir því sem við lesum í bókinni um Hringjarann i Frúarkirkjunni var hann skilinn eftir af móður sinni á kirkjutröppunum við glæstar dyr dómkirkjunnar. Þetta var sunnudaginn eftir páskadag. Klerkar kirkjunnar fundu svo litla drenginn innvafinn og lagðan litla körfu. Þeir taka hann inn, annast um hann og búa honum þann heim sem dómkirkjan varð honum. Sunnudagurinn eftir páska kallast eftir gamalli kirkjunnar hefð quasi modo geniti eða „hálfgerður“ og var þá hugsunin að vegna nálægrar stöðu sinnar i dagatalinu sem sunnudagur næst páskum, að þessi dagur væri hálfgildingur þess.  Litla afmyndada barnið fannst einmitt að morgni sunnudagsins eftir páska og frýnilegur var hann ekki, afmyndaður frá fæðingu, óskapnaður. Svo málamiðlun var gerð og var nafn hans dregið af nafni dagsins og var kallaður „hálfgerður“.  Flestir vita hvað gerist næst í lífi litla Quasimodo. Hann lifir og þrífst meðal klerkanna í kirkjunni, lærir að skrifa og lesa og er falið það mikilvæga hlutverk að vera hringjari dómkirkjunnar. Vegna vetrarkulda og hins takmarkada skjóls sem hinir háu turnar Frúarkirkjunnar gáfu, afmyndast hann enn frekar og fötlun hans verður enn meira áberandi. Hringingar hinna stóru og hljómmiklu klukkna svifta han þeirri takmörkuðu heyrn sem hann hafði og algjör einangrum verður hlutskipti hans. Klukkunum gaf hann nöfn og persónugerir þær með ýmsum þeim eiginleikum sem prýða máttu góða vini. Þetta gaf þeim í senn líf um leið og þær verða rödd hans, rödd hins innilokada, rödd tilfinninga hans, rödd hins mállausa til Parísar miðalda.  Einkum og sér í lagi eru það fyrstu síður bókarinnar sem hafa gert það að verkum að manni finnst maður vera lítill. Lítill frammi fyrir stóra heilaga, lítill frammi fyrir hinu smáa heilaga.  Lítill fyrir vitnisburðinum um hið heilaga sem finnst meðal okkar og í okkur. Það er hugsunin um kærleikann sem hefur vaknað svo oft við lestur sögurnnar. Á fyrstu síðum frásögunnar um Quasimodo segir höfundurinn frá uppgreftri sem gerður var í París, þegar gamalt hverfi hafði fengið að víkja fyrir áformum um nýbyggingar. Staðurinn var legstaður þeirra sem látist höfðu í pestinni, hvílustaður þeirra ósýnilegu í samfélaginu, brotamanna og þeirra sem ekki höfðu haft ráð á að kaupa sér legstað. Þetta var ruslahaugur samfélagsins, fjöldagröf hinna ósýnilegu. Ekkert sögulega „mikilvægt“ fannst meðal þessara jarðnesku leifa hins svokallada „úrgangs samfélagsins“, þetta var jú fátækrafólk miðaldanna og tæpast að búast við neinu stórbrotnu þar.  En meðal þessa líkamsleifa fannst þó eitt sem vakti áhuga, sem ef til vill hefur slegið streng í hjörtum viðstaddra fræðimanna. Þetta var beinagrind af fullvöxnum karlmanni sem var svo vansköpuð að furðu vakti. I faðmi beinagrindarinnar fundust bein ungrar smávaxinnar konu, med brotinn háls og leyfar einhvers sem virtist hafa verið leifar stuttra trjágreina.  Victor Hugo segir í inngangsorðum sínum að hugmyndin að bók sinni um Hringjarann í Frúarkirkjunni í París, hafi sprottið af þessum beinafundi og svo grísku orði sem hann i öðrum klukkuturni Frúarkirkjunnar í París.  Orðið var „örlög“. Það hafði verið klappað viðvaningslega í steininn. Svo skrýtið sem það er, en eftir að bókinni hafði verið lokið aftur, eftir að hún hafði verið lesin spjaldanna á milli, stóð eftir hið góða, hið sanna og sjálfur vitnisburður kærleikans. Eftir að hafa lesið um hatur, blóðbað, morð, vonsku, öfund var eins og þrátt fyrir þetta allt tókst dauðanum ekki að taka það sem eilíft er. Kærleikurinn hafði sigrað. Dauðinn varð skyndilega aukaatriði, meðan við minnumst kærleikans. Dauðinn, illskan og öfl öfundar náðu ekki að taka Esmeröldu frá Quasimodo. Hann fylgdi sjálfur Esmeröldu sinni í dauðann. Þannig fékk kærleikur hans til hennar mætti lifa. Hann fann líkama hennar, fól hann í faðmi sér, lagði blóm kvisti í milli og fylgdi eftir þeim kærleika sem hann fékk svo stutta stund njóta í sínu lifanda lífi. Kærleikur Quasimodos er upprisinn, þótt aðeins fyrir sögupersónu í skáldsögu Victors Hugo, þá er sagan vitnisburður, helgisögn um þann kærleika sem aldrei deyr að eilífu, heldur rís á ný tvíefldur. Quasimodo segir á örðuvísi hátt söguna um elsku Guðs, sagan bet vitni kærleikanum – hinum skilyrðislausa kærleika.

Vitnisburður Jesú Krists um kærleika Guðs til handa sköpun hans á sér margar birtingarmyndir. Sá er þeirra fremstur sem sjálfur Drottinn Jesús Kristur hefur sýnt með lífi og dauða sínum og uppstigningu. Kristur hefur sigrað heiminn, ekki með vopnum, ekki með hrellingum eða gegnum þjáningu annara, heldur með kærleika Guðs.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband