Bregðu bara fæti fyrir náunga þinn, það er allt í lagi, hann getur hvort eð er ekki slegið til baka

Á einum stað í Jóhannesarguðspjalli standa þessi nú sönnuðu orð sem vakið hafa ónot, kvíða, flökurleika og hræðslu innra með mér. Því oftar ég les þau, þeim mun sannari upplifi ég þau og sorgin brýst fram. Þessi orð eru hluti guðspjallstexta 6. sunnudags eftir páska:

Þeir munu gera yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.  [Jóh. 16:2-3]

Fyrst setur mig orðlausan. Ég stari á orðin og er að velta því fyrir mér, hvernig í ósköpunum getur nokkur orðað tilfinningar, reynslu og ótta með þvílíku innsæi. Það liggur við að maður líti umhverfis sig og sjái til hvort einhver sé að kíkja, hvort einhver sé að fylgjast með. Besservisserar heimsins virðast alltaf vera syndlausastir, hróðugir yfir afburðum sínum, lærdómi og samfélagsstöðu. Hinsvegar gerir blinda þeirra þeim ókleyft að sjá neitt í myrkri síns heims, myrkri tilfinningalegs doða og skorts á tilfinningu fyrir hinu mannlega. Orðum guðspjallsins er snúið til þeirra sem eiga að leiða, þeirra sem hafa komið sér í efstu þrep samfélagsins, hin efstu þrep hins andlega og siðprúða mælikvarða. Blindan sem þessir aðilar líða af gerir þá að sorglegum merkisberum hins göfugasta, hryggðarmerkjum hins upplýstasta og hræddum og ráðalausum fulltrúum hinnar dýpstu visku.

Hvað er að?  Já, hvað segir guðspjallið? Orð þess eru skír og lifandi og án alls vafa. Þau eru í senn áminning, aðvörum og hróp á viðbrögð.  Hver reisir fallna reyrinn? Hver beygir sig og annast hinn minnimáttar?  Hver á skilyrðislausan kærleika og fer ekki í manngreinarálit?  Hver getur fyrirgefið? 

Sá sem ekki á fyrirgefningu í hjarta sínu, umburðarlyndi og skilyrðislausan kærleika. Þann sem skortir trú á hið góða og er langrækinn, hatar og er fullur ótta - hann hvorki þekkir Guð eða óttast hann. Sú manneskja, hversu háttupphafinn hún er ekki Guðs, hún hefur dæmt sig út í ystu myrkur óvinarins og er ætluð þarvist um allan aldur. Iðrun, fyrirgefning, óttaleysi og kærleiki er hinsvegar gjafir Drottins, gjafir sem gefa djörfung og elsku á því sem er gott.

Bregðum ekki fæti fyrir bróður eða systur sem haltrar, bara vegna þess að það er svo létt að fella þann einstaklinginn. Styðjum heldur og liðsinnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband