Farið í bankann og takið út peningana ykkar meðan enn er tími

Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.

[...]


Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!

Þegar mann setur orðlausan, er best að þegja ellegar notast við orð þeirra sem ekki höfðu ástæðu til að verða orðlausir. Jónas Hallgrímsson, eitt þjóðskáldanna gaf tilfinníngum mínum orð og þakka ég honum þau. Drápan Ísland ort sennilega eitthvað kringum árið 1835. Orðin fá nýtt líf og mér verður hugsað til síðustu ferðar minnar til Íslands núna á dögunum. Jónas hafði verið á Þingvöllum og séð sjálfur, með eigin augum fornaldararfinn. Samangrónar þóftir og mosavaxnar breiður á fornum götum þingmanna liðinna tíma. Hugur hans leiddi tilbaka til þess tíma sem söguskrif miðalda greina frá; glæsilegum mönnum og konum, nýsigldum frá löndum aðeins af nöfnunum þekkt, hlaðnir frásögum, fréttum og afrekslaunum hið ytra. Á völlunum gaf að líta þverskurð hinnar hreyfanlegu þjóðar á Íslandi, þeirra sem áttu heimangengt, þeirra sem áttu erindi, voru erindi eða vildu efna til erinda. Hér voru lokadómar kvaðnir upp, hér mættust heiðnir og kristnir. Hér mættust menningarheimar.   Það er skrýtið að hugsa til þess að Þingvellir séu komnir á heimsmenningarverðmætalista UNESCO.  Verndun og viðgangur staðarins er í brennidepli, nýtt klósett hefur verið reist síðan ég var á Þingvöllum síðast. Jú og einn stuttur útsýnispallur hefur skotið upp kollinum.  Þingvellir, þessi margmerkilegi staður hefur verið settur undir vernd heimssamtaka. Einhvernveginn finnst mér það gott - en samtímist hryggilegt. Staðurinn er í öndunarvél að nauðsynjalausu. Þingvellir mega ekki ofverndast, heldur ekki troðast niður.  Þangar sækir íslenskt lýðræði sinn styrk, ekki á Austurvöll. Þangað ætti fólk að streyma og dvelja, staldra við og spyrja sig: Bíddu - erum við á réttri leið?

Það laukst upp fyrir mér hversu mikið allt hefur í raun breyst á Íslandi. Ekki bara þau rétt fjögur ár sem ég hef búið í Svíþjóð, heldur líka þau ár innan ég fluttist sem ég kannski var blindur á breytingarnar. Ég hugsa oft til Íslands. Mér virðist sem Íslendingar séu allir á fjárhagslegum og andlegum sjálfsmorðshugleiðingum. Mig langaði mest að æpa: VAKNIÐ!  Hvað er að Íslendingum í umferðinni, hvað er að því að standa í röð, hvað er að því að geta ekki keypt neitt fyrir 10kr pening?  Ég man þegar ég var að læra sund í Breiðagerðisskólasundlauginni, að ég tók oft með mér kannski 2kr.  Fyrir 10aura fékk ég litla súkkulaðikúlu/súkkulaðismáegg í litfjörugum álpappír í Grímsbæ. Ég keypti kannski 10 smáegg og hélt eftir hinni krónunni til seinni tíma.

Lehman Brothers er eitt dæmi þess sem er að gerast. Fólk skilur ekki fjármál lengur. Fólk líður af ónæmi fyrir tölum. Enginn er á varðbergi lengur fyrir því sem er í raun að gerast. Á laugardagskvöld sem var vorum við nokkur hérna heima og eftir að hafa borðað góðan mat sátum við og spiluðum Matador (eða það sem oft hefur líka verið nefnt: Monopol).  Mér fannst eins og ég væri hreinlega að spila með alvöru peninga. Þangað til einhver sagði við mig; "Baldur vertu djarfur, kauptu götu, betra að kaupa hana en missa af henni næst".  Mig vantaði ekkert umrædda götu, átti ekki neitt í þessum lit og ver á höttunum eftir einhverju annari.  "Kaupi ég hana, á ég ekki næga peninga til að brugðist við áhættuspilum og leigugjöldum" sagði ég og ætlaði að gefa teningana til næsta spilafélaga.  "Veðsettu bara eitthvað" var svarið.   Ég hugsaði með mér: WOW, er þetta svona sem efnahagsspekúlantar hins "vestræna" heims hugsa?  Er þetta jafn alvörugefið allt? Getur verið að það sé jafn mikið fjárhagslegt fastland að baki gjörða þeirra og þess sem ég átti að gera í spilinu?

Innistæður eiga bankarnir engar á Íslandi. Allir ættu að fara á morgun og taka lausafé sitt út og reyna að koma þeim í erlenda valútu. Íslenska krónan er að verða einskis virði og bankarnir tómir að innan eins dæmin munu sanna. Stórar tölur og orð háttsettra manna í efnahagslífi og "fjármálafyrirtækjum" eru orðin tóm. Þessi leikur með prósentur, vaxtatölur, hlutabréf, lánskostnað, efnahagsspár, ríkisfjármál, afkomutölur eru orðin tóm. Því miður! 

Ekkert fyrirtæki er eins mikils virði og það er skrásett á hlutabréfaþingi. Þetta eru allt: Óraunverulegar tölur, peningar sem ekki eru til og leikur með fólk og eiginfé þess.

Mér verður enn og aftur hugsað til frásagnanna af efnahagshruninu í Bandaríkjum Norður Ameríku á þriðja áratugnum. Þetta er að verða staðreynd aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Auðuns

Gaman að rifja upp ferðirnar í Grímsbæ þegar maður gat fengið nammi fyrir krónu. Nú duga valla 10 krónur fyrir einni kúlu. Peningamarkaðurinn er í verulegum vandræðum og ekki veit maður hvernig þetta endar.

Eigðu yndislegt kvöld Baldur minn. Knús Vibba

Vilborg Auðuns, 16.9.2008 kl. 18:15

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Líklega endar með ósköpum. Eins og sagt var í Skaftártungunni: "Þér er alveg óhætt að gleðjast ekki, því tilhneigingin er að þetta fari alltaf á verri veg".  Bjartsýnin alltaf í fyrirrúmi!   :)

Baldur Gautur Baldursson, 16.9.2008 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband