Meðvirkni af verstu tegund

Ég hef fylgst með fréttum af bardögum, fólskulegum árásum, hryðjuverkum og viðbjóði í þessu stríðshrjáðasta landi heima, Landinu Helga.  Hver ber ábyrgð er ekki áhugaverð spurning lengur. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu fá að skilgreina ástandið; orsakir og afleiðingar.  En núna er greinilega allt farið enn eina ferðina úr böndunum.

Vesturlönd og grannlöndin hafa verið meðvirk of lengi.  Þau er þau lönd sem bera ábyrgð á að allt er farið til fjandans í Landinu Helga.

Mín tillaga (þið megið senda mig sem sérlegan sáttasemjara): Settur verður punktur við það sem gerst hefur hingað til. Allt verður sett til hliðar. Ísrael og Palestínu verður ekki skipt upp. Þjóðarbrotin munu ALDREI fá sitthvort landið.  Það er einfaldlega ekki nægilega stórt og gjöfult til að 2 ríki nái að framfleyta sér án styrkja annarra landa. Meðan styrkir koma frá öðrum löndum og bandalögum verður aldrei friður.  Þetta verður eitt land þar sem tvítyngi verður bundið lögum, menningin verði í fjölbreytninni falin og út á við sem inn á við munu þjóðirnar 2 deila öllu.  Þetta verði afarkostir alþjóðasamfélagsins.


mbl.is Báðir ábyrgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mikið ertu ofurbjartsýnn, Baldur minn.

Jón Valur Jensson, 28.12.2008 kl. 20:51

2 Smámynd: Soll-ann

Þetta er nokkuð góð lausn en held að þú sért ca 200 árum of snemma á ferðinni. En hver veit.

Soll-ann, 28.12.2008 kl. 21:44

3 Smámynd: Snorri Óskarsson

Séra minn!

Lestu bók bókanna, Biblíuna. Þá sérðu að þú ert langt frá niðurstöðunni. "Alþjóðasamfélagið" hefur enga björg veitt gyðingum eða stutt þá. Ekki á miðöldum, eða ofsóknum Rússa á nítjánduöld, ekki í tíð Nazista eða við stofnun ríkisins, aldrei í ályktunum SÞ og ekki í dag. 

Hvar eru ályktanir SÞ vaðrandi eldflaugaskotin frá Gaza yfir á Ísrael? Hvaða viðbrögð eru frá Evrópu, SÞ eða Íslandi varðandi fjárhagslegan stuðning við t.d. Hamas? Hefur þeim nokkurntíman verið settir úrslitakostir þegar þeir hóta útrýmingastríði gegn gyðingum?

Svo má líka spyrja hvaða stríð í Mið-Austurlöndum sem Arabar hafa háð við Ísraela var ekki útrýmingarstríð?

Gyðingum veitir ekki af stuðningi klerka og Biblíumenntaðra manna. Breytum rétt og lýsum stuðningi við gyðingana!

Blessum Ísrael!

Kær kveðja

Snorri í Betel

Snorri Óskarsson, 28.12.2008 kl. 22:00

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góð lausn, ég tilnefni þig hér með til friðarfarar

Sigrún Jónsdóttir, 29.12.2008 kl. 00:28

5 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Jón Valur:  Jú ég hef fengið orð fyrir að vera bjartsýnn þegar aðrir sjá ekki möguleika í stöðunni.  Ég held að við megum ekki gefa upp von, gerum við það, getum við alveg eins múrað þetta fólk inni og síðan slökkt ljósið og látið þá myrða hvora aðra.  Ég bara er ekki þannig hugsandi, ég sé von að þrátt fyrir allt geti þetta fólk séð að það er hægt að lifa í sátt séu grundvallarreglur fyrir hendi og farið eftir þeim. Einfaldar umgengisreglur.

Soll-Ann:  Nei ég held ekki. Ef sáttahugur þessa fólks er í takt við hin þekktu stef Laga Hamúrabís; "auga fyrir auga, tönn fyrir tönn"  ætti mín tillaga að hljóma nokkuð nútímaleg.  :)

Snorri Óskarsson: Ég hef alltaf verið fylgismaður góðra Gyðinga. Ég er fylgismaður allra góðra einstaklinga, hvort sem þeir eru Gyðingar, Arabar, Íslendingar eða hvað annað.  Við sem höfum lesið svolítið í heimslitteratúrnum, vitum og þekkjum að Gyðingum hefur vart verið líft neinstaðar í heiminum. Hefur vart skipt máli hvar þeir hafa sett niður fótinn. Þeir hafa verið hataðir og fyrirlitnir. Mín sýn á stöðu Gyðinga er sú af meiði samúðar og vilja til að þeir geti lifað í sátt við granna sína. Stærstu mistök sem gerð hafa verið var að gefa þeim þjóðarheimilið í Palestínu, nú: Ísrael. Ef til vill var það hugsun einhverra að gott væri að hafa vinveitta vin í Mið-Austurlöndum, en það voru mistök.  Allir sem hafa IQ yfir 15 skilja að þetta myndi aldrei ganga.  Ég sé ekki hvers vegna Gyðingum var gefið þetta land, sem var ekki að gefa, því önnur þjóð hafði búið þarna í yfir þúsund ár. Gyðingum vegnar vel í Bandaríkjunum, þeim vegnar vel í Evrópu. Þeim vegna yfirleitt vel þar sem þeir eru. Af hverju geta þeir ekki rétt eins og Rómar, Kúrdar og aðrar þjóðlandslausar þjóðir búið meðal annara. Ég skil biblíuleg rök fyrir þjóðarheimili og í kringum Jerúsalem. EN - en þetta er of dýru verði keypt. Fyrir þá bæði friðelskandi Gyðinga sem búa þar og palestínumenn.

Tillaga mín er því með þeim huga að í fyrstu tilraun reynir maður að sætta fólk sem BÝR þarna.  Seinni tillögur fjalla um að önnur hvor þjóðin fær landið, ekki báðar. Því vil ég REYNA - og ykkur finnst þetta kannski einfeldningslegt eða barnalegt, en ég vil reyna eftir grundvallaratriðum að ALLIR geti lifað saman á ytri afskipta.

Sigrún Jónsdóttir:  I travel light, svo það er bara senda flugmiðann og ég hoppa af stað.

Baldur Gautur Baldursson, 29.12.2008 kl. 10:03

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú hefur valið þá "sáttaleið", Baldur, að reka Gyðinga aftur í hafið (segi ég í líkingarmynd) – þú neitar þeim um áunnin (hvað þá forn) þjóðarréttindi, sem viðurkennd voru af hinum sameinuðu þjóðum fyrir 60 árum. Þú áttar þig ekki á því, að Arabar eiga um 200 sinnum stærra landsvæði og geta vel komið þessum löndum sínum fyrir þar. Palestínumenn voru ekki orðnir sérstök þjóð, þegar Gyðingar voru að koma aftur til landsins helga, heldur voru þeir einfaldlega partur af Aröbunum og ýmsum þjóðabrotum í nágrannalöndunum. Sanngjarnasta lausnin væri að koma þessu fólki fyrir meðal nágrannaþjóðanna í stað þess að útiloka það þaðan, eins og bæði Jórdanir og Egyptar hafa gert. Þetta væri um leið friðsamlegasta lausnin, að alþjóðasamfélagið, Ísrael og Arabaríkin önnuðust kostnað af þessu, en í þeim tilgangi að integrera þetta fólk í nýju löndunum, (starfs)mennta það og útvega því vinnu. Þetta væri um leið friðsamlegasta lausnin: tekinn burt hvatinn til eilífrar óánægju og árása, vegna þess að fólk færi einfaldlega að byggja upp eðlilegt líf í kringum sig, um leið og hættunni yrði bægt frá Ísrael.

Jón Valur Jensson, 29.12.2008 kl. 14:25

7 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Reyndar höfðu Palestínumenn (Arabar) áunnið sér rétt til landsins í yfir eittþúsund ár!

Baldur Gautur Baldursson, 29.12.2008 kl. 20:05

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvaða Palestínumenn, Baldur? Þeir, sem höfðu aldrei stigið þar niður fæti? Áttarðu þig ekki á því, að (1) mikill meirihluti Araba og annarra ekki-gyðinglegra var þangað kominn sem innflytjendur á 19. og 20. öld frá öðrum löndum, ekki sízt vegna umsvifa Gyðinga þar, sem juku vinnu og hagvöxt á svæðinu, og (2) að landið var orðið ófrjósamt, gaf lítið af sér og hélt ekki uppi miklum mannfjölda á seinni öldum, þ.e.a.s. ekki fyrr en Gyðingar fóru að byggja það upp?

Og hvaða "rétt" áttu þarna við? Þjóðréttarlegan rétt til ríkis þar? En þú viðurkennir engan rétt Kúrda til slíks á sínu svæði – hvers vegna ekki þar, en bara hér? Er það af því, að þú haldir að Palestínu-Arabar hafi átt sitt haglendi? En þeir áttu það ekki, heldur auðugir Tyrkir mestan part. Eða heldurðu, að land þetta hafi verið tekið af einhverju Arabaríki? Það var það ekki, heldur tóku Bretar landið af Tyrkjaveldi og létu það svo eftir skv. ákvörðun Sameinuðu þjóðanna eftir að hafa áður veitt Gyðingum heimfararleyfi (þó ekki mjög rausnarlega), og einnig byggðist þessi stefna og þessar valdheimildir á umboði frá Þjóðabandalaginu.

Palestínu-Arabar hafa aldrei átt sér sitt eigið þjóðríki í landinu helga, en Gyðingar hafa það svo sannarlega, bæði fyrr og síðar. Palestínu-Arabar eru líka slappir vörzlumenn kristinna og gyðinglegra helgistaða, svo að ekki sé meira sagt.

Ég ræð þér í einlægni til að kynna þér betur sögu landsins, en þakka þér annars umræðuna og óska þér og þínum árs og friðar.

Jón Valur Jensson, 29.12.2008 kl. 21:30

9 Smámynd: Snorri Óskarsson

Baldur þú hugsar líkt og aðrir friðelskandi menn, hvers vegna geta menn ekki búið saman?

Ég skoða málin einnig út frá viðbrögðum og sögunni. Lítum á.

1918 sagði Hússein faðir Faisals Sádí-Arabíukonungs um Palestínumenn að  landið hefði engin tök i þeim og þeir fara frá landinu til að gyðingar fái að erfa það . Upplástur og erfið ræktun voru til staðar. Árum áður höfðu þau lög gilt að  eyðimörkin væri eign þess sem ræktaði hana. (Þetta er enn í tyrkneskum lögum) þess vegna keyptu gyðingar ræktanlegt land (af Tyrkjum) en hófu landnám í eyðimörkinni (og enginn gerði athugasemdir við það).

Annar verður að ráða! Hvor? Ég tel þann sem opnar landið og heldur aðgangi opnum fyrir mig o.fl. að helgistöðum sé betur til þess fallinn að ráða en sá sem lokar aðgangi og meinar ferðamanninum að koma til helgra- og/eða sögulegra staða.

ég tel þann sem ræktar landið og byggir upp, varðveitir sögulegar menjar betur til þess fallinn að varðveita helga- og/eða sögulega staði.

Ég tel þann sem veitir mönnum meiri lífsgæði (vinnu, heilsugæslu, málfrelsi og trúfrelsi o.fl mannréttindi) betur fallinn til að ráða og stjórna en hinn sem heftir, fjötrar og spillir lífinu.

Af þessu framagreindu er gyðingurinn mun betri stjórnandi en Arabinn og það er einvörðungu vegna þess hugarfar sem gyðingar hafa ræktað með sér í gegnum kynslóðirnar. Auðvitað eru þeir eins og við, misgóðir. Auðvitað eru til frábærir Arabar og þá viljum við fá í forystu. Þeir hafa lykilinn að sáttargjörð. En  með þá er farið eins og gert var við Hariri í Líbanon. Þeir skynsömu eða friðelskandi fá ekki að lifa.Og sérðu virðinguna sem Hamas-liðar sýna kristnu Aröbunum á Gasa, þeir eru afsóttir og aðþrengdir. Þeirra helgidagur (jóladagur) var notaður til að skjóta 80 eldflaugum og efna til ófriðarins.

Það er sorgarstaðan. Það voru Arabar sem komu til landsins (Palestínu) sem farandverkamenn. Settust að í landinu og áður en varði voru þeir orðnir afkomendur frumbyggja. Á því er nefnilega klifað í dag.

Svo er hin hliðin, sú trúarlega. Um hana má lesa t.d. í Jóel spádómsbók þar sem sagt er að þjóðirnar verða leiddar upp í Jósafatsdal. Vert er fyrir klerkinn að skoða það mál. Svo við gætum tekið umræðu um það við góðan tíma og sama vettvang, ef Guð lofar!

kær kveðja

snorri í betel

Snorri Óskarsson, 29.12.2008 kl. 23:58

10 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Snorri og Jón Valur!  Gleðilegt nýtt ár! Ég hlýt að aðhyllast frekar málflutning þinn Snorri. Hann virðist skrifaður af meiri kærleika en sá hernaðarhyggjutónn sem Jón Valur kynnir. Ég er svo þenkjandi að ég vil frið ofar öllu. Friður leiðir til virðingar, gagnkvæmni og samskipta. Blöndum verður því alltaf ófrávíkjanlegur hluti af menningu þjóða. Annars væru allir næpuhvítir á Íslandi eins og við vorum fyrir 1800, þekktum ekki matargerðarlist annara landa og menningarheima, klæddumst vaðmáli og skinnum og þekktum ekki tækniundur sem gera okkur mögulegt að lifa lengur og líða betur.  Við værum "heimsk" í sinni og sál. Hefðum við lokað á öll afskipti þegar skjótt eftir landnámstímann værum við að öllum líkindum heiðin í þokkabót.

Samskipti, virðing og gagnkvæmni eru burðarstoðir nútíma samfélags sem á að "virka".

Ég hlýt því að vilja sjá slíka framvindu, byggða á téðum burðarstoðum. Ég hef alltaf séð Gyðinganna vera í hálfgerðri "díasporu" eða "á dreifingu". Kýrus konungur gaf þeim um árið vissulega heimfararleyfi, en allt síðan hafa þeir stórt séð verið á dreifingu. Það finnst mér vissulega vera svolítið í takt við það sem messíasarvonir þeirra bera vitni um.   Nóg um það!   En þar er önnur saga. Í heimi nútímans þegar lönd og landasamfélög, þjóðabandalög eru að reyna taka burt tálma og höft finnst mér þetta vera tímaskekkja að verða hugsa Ísrael sem þjóðarheimili einnar þjóðar. Hér eiga bræður að geta búið í bróðerni. 

Ófriður í þessum hluta heims er hreinlega bara of hættulegur til að alþjóðasamfélagið láti slíkt viðgangast. Skæruhernaður, hryðjuverk, árásir á báða bóga og ófriður þótt kannski sé í litlum skala miðað við ástandið í t.d. Afganistan eða Búrúndi/Rúanda, þá verð ég að segja að hver lítill neisti; hver sjálfsmorðsárás eða eldflaugaárás getur startað einhverju svo óstjórnlegu og ljótu, andstyggilegu og illu að við munum ekki eiga lýsingarorð nógu sterk til að geta gert kvölum og vanlíðan fólksins skil.

Geti þessar þjóðir sem búa í Ísrael ekki friðmælst og búið saman, verður alþjóðasamfélagið að taka völdin rétt eins og það gaf þau.

Baldur Gautur Baldursson, 2.1.2009 kl. 15:49

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband