25.1.2009 | 08:17
Ísland á barmi taugaáfalls
Það er svo skrýtið að þegar ég hugsa til baka til stjórnmálasögunnar, eins og ég man hana, að hún hefur einkennst af lygum, leynimakki, hinu þekkta minnisleysi og gleymsku stjórnmálamanna, týndum minnisblöðum, kaupum á hlutabréfum í fyrirtækjum sem síðan má ekki tala um, eiginhagsmunapoti, nepótisma (frændsemishyggju í embættaveitingum), þekkingarleysi á "þjóðarsálinni" og almennum hroka. Þetta eru þær hugsanir sem veltast um í kollinum á mér þegar mér verður hugsað til stjórnmálamanna.
Það er oft eins og lygarnar myndi gaddavírsgirðingu milli fólksins og þingmanna/ráðherra. Þessi gaddavírsgirðing fær á sig mynd rósarunna og verður mér hugsað til þyrnigerðisins í ævintýrinu af Þyrnirós, nema bak við þyrnigerðið íslenska liggur ljótur svangur dreki.
Þreyta fólksins í landinu hefur náð hættumörkum. Í dag fer minna fyrir samúð fólksins, í dag fer meira fyrir hræðslu stjórnmálamanna og ótta. Þeir eiga á hættu að missa stólanna sína, hið ljúfa líf er á enda og ljóst að núna óttast þeir það eitt að fara á biðlaun og síðan að þurfa leita sér að störfum. Hver vill ráða þingmann sem hefur verið frá upphafi þingmennsku sinnar viljalaust verkfæri flokksagans? Hver vill ráða þingmann sem hefur tapað minninu og veit ekki hvað gerðist á síðasta fundið í fjárlaganefnd, sem týnt hefur "minnisblöðunum" sínum og man ekki hvort hann hefur farið á þá fundi með seðlabankastjórum sem skyldan býður honum? Ekki ég. Líklega best að setja slíka einstaklinga í starfsnám einhversstaðar en ekki í ábyrgðarfullar stöður neins staðar.
Mér finnst að tillagan sem ég heyrði einhversstaðar um að kjósa ætti í maí, væri slæm. Í raun á bara að setja utanþingsstjórn. Sem síðan mun veita okkur tíma til að endurskapa lýðræðið og fá inn nýtt fólk og ný skírara pólitískt afl.
Rof milli þings og þjóðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála öllu nema ég set spurningarmerki við utanþingsstjórnir og einhverjar starfs- eða bráðabirgðastjórnir því þaðan er stutt í einræði og fasisma, sem ég óttast að Íslendingar þurfi nú að fara að skoða sem raunverulega hættu þegar búið er að rústa ríkiskerfinu og stjórnmálaflokkunum með spillingu og græðgi. Ég held hins vegar að þetta ónýta fólk sem hefur valist til að stjórna landinu sé búið að eyðileggja gjörsamlega stjórnmálaflokkana og þeim verði ekki bjargað og fari allir ásamt bönkunum á ruslahaug sögunnar. Síðan þarf að hreinsa alla flokksdindla út úr ríkisstofnunum, setja 100% skatt á tekjur umfram 750.000 kr. og hækka skattleysismörk í 375.000 kr.
Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 08:47
Þetta er eins og með fíkilinn, hann þarf að ná botninum til þess að það sé hægt að reisa hann upp aftur. Svo er annað vandamál að hann verður sjálfur að vilja, til að eitthvað fari að gerast.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.1.2009 kl. 08:50
Takk baldur. Þú talar "eins og út úr mínu hjarta"! Sendi þér slóð sem bregður ljósi á einn vandann sem þagga á nú, eins og tíðkast hefur: http://www.smugan.is/skyringar/vidtol/nr/710
Hlédís, 25.1.2009 kl. 09:12
Takk Baldur var það
Hlédís, 25.1.2009 kl. 09:13
Það sem þessir menn óttast mest af öllu er að flett sé ofan af öllu því vafasama og óheiðarlega sem þeir hafa tekið þátt í. Annars er ég sammála því að fá utanþingsstjórn strax! Það þarf að gera stjórhreingerningu í stjórnkerfinu.
Sigurður Hrellir, 25.1.2009 kl. 09:21
Takk fyrir greinina Baldur Tek undir orð Hlédísar "eins og útúr mínu hjarta" Lifðu heill
Máni Ragnar Svansson, 25.1.2009 kl. 09:57
Ég las þennan pistil þinn vandlega Baldur. Og ég samþykki allt sem þú segir án athugasemda. Ég hef átt samfylgd stjórnvalda okkar frá fyrsta degi lýðræðis og ég hef lengi haft ótta af þeirri þróun sem leitt hefur til þeirrar raunalegu stöðu sem nú blasir við þjóðinni. Valdhroki jókst ógnvænlega á valdatíð Davíðs Oddssonar og það vekur mér óhug að sjá það ástand vera orðið að einskonar stjórnsýslusjúkdómi á Íslandi.
Ég þekki ekki aðdraganda uppreisnar af eigin reynslu, en ég hef áhyggjur af því að nú sé tekið að styttast í þann voða ef ekki verður brugðist við skjótt. Ef forystumenn ríkisstjórnarinnar trúa því að kosningar í vor nægi til að lægja öldurnar þá er það bara ekki svo einfalt. Þjóðstjórn væri flónska. Hér þarf neyðarstjórn og hún á að fá að starfa þann tíma sem til þarf.
Árni Gunnarsson, 25.1.2009 kl. 10:01
Fullkomlega sammála þér. Utanþingsstjórn strax og borgum þeim frekar en spilltum stjórnmálamönnum eftir afköstum og vönduðum vinnubrögðum! Skrítið að í nóvember og desember var of snemmt að ræða hver væri sekur og í janúar segir Geir að of seint sé að ræða einstök atriði sem gerðust í október, fyrir þremur mánuðum RÁÐAMENN ERU RAGNAR REYKÁS í öðruveldi.
Hansína Hafsteinsdóttir, 25.1.2009 kl. 10:17
Kæri blogghöfundur, það er óskaplega létt að ganga breiða veginn og láta berast með straumnum. Eflaust hefur það gerst hér á landi. Ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur okkur öllum. Ég hef alla tíð haft áhuga á fólki og hegðun, það hefur sýnt sig að ef þú þarft að herða að sultarólinni þá ert tilbúinn að berjast, sá sem ekki finnur til svengdar hann er ekki tilbúinn í neitt.
Sagt hefur verið að Íslendingar fari 30 ár aftur í tímann með kreppunni í dag, veistu mér leið rosalega vel fyrir 30 árum.
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 25.1.2009 kl. 10:59
Sammála þér í einu og öllu Baldur.
Sigrún Jónsdóttir, 25.1.2009 kl. 11:27
Takk kæru baráttuvinir! Gaman að heyra að svona margar ágætismanneskjur séu a sama hugsanabáti og ég. Það styrkir okkur að standa saman gegn spillingunni. Það verður að fletta ofan af þessu og hreinsa borðið. Ég býð krafta mína til endurreisnar lýðræðis með hreinum og beinum stjórnmálum þar sem allt er fyrir opnum tjöldum.
Baldur Gautur Baldursson, 25.1.2009 kl. 13:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.