14.7.2009 | 07:18
Löglegt og siðlaust
Ekkert mun koma fólki á óvart, ekki mun steinn yfir steini standa og allt mun líða undir lok sem var! Þessi orð hljóma svolítið heimsendislega og kannski of sterk í samhenginu, en mér finnast þau vera viðeigandi. Á engu sem var er byggjandi. Gömlu sterku bankarnir, sem fólk hafði trú á, voru gerðir að nýjum hlutafélögum. Sameiningar voru gerðar, lógói eða merkjum bankanna var breytt, allt átti að vera nýtt, módernt og í "framrásarstíl". Allir áttu að fá á tilfinninguna að þeir/þær væru að taka þátt í stórfjármálamarkaðsbraski. Við áttum að finna svitalyktina frá helstu og stærstu fjármálamörkuðum heims. Við áttum að vera með. Sú þjónusta sem áður hafði verið aðalþjónustuberandi starfsemi bankanna, gjaldkeraþjónustan - var orðin fyrir í hinu nýja samhengi. Gjaldkerastúkum var fækkað, fólki beint að nota internetið þar sem næstum illmögulegt var að framkvæma vissar færslur án þess að rekast í verðbréfamarkaðsábendingar, tilboð og þjónustu tengda téðum verðbréfamörkuðum.
Ástandið varð snemma slæmt í öðrum löndum. Til dæmis er það svo í dag hér í Svíþjóð, að ekki er hægt að taka poka með mynt í bankann sinn og biðja um að talið sé í talningarvél. Slíkar vélar eru ekki lengur til. Maður fær pappírsrör sem maður verður að fylla heima, og síðan að taka með sér í bankann, þar sem fólki er bent á að það verði að "leggja inn peningana á einhvern ráðstöfunarreikning" til að peningarnir komist inn í kerfið. Seðla getur maður ekki lengur tekið út nema að upphæð 100 000 kr pr dag. Bankarnir hafa ekki svo mikla peninga lengur. Aðeins einn gjaldkeri starfar að jafnaði, en þessi hverfur ekki í kaffipásu.
Nú kvartar fólk á Íslandi yfir því að bankarnir, sér í lagi Kaupþing geti ekki gefið lántakendum haldbærar upplýsingar um lánafyrirgreiðslu eða hvernig fólkið almennt eigi að geta borðið enn aukna greiðslubyrði. Þjónustufulltrúar vísa málum til "nefnda" og öll vitum við hvað það merkir.
Í Landsbanka hafa þeir sem önnuðust eignastýringu fyrir lífeyrissjóði gert sig seka um að nota fé skjólstæðinga sinna til að hygla að eigin stofnun, Landsbankanum og að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu (FME) rangar upplýsingar um það. Í sjálfu sér skiptir þetta með FME minna máli, þar sem það er vita getulaus stofnun, svo sem dæmin hafa sýnt okkur. En hitt er siðleysið sem nú bitnar stórlega á eftirlaunasjóðum landsmanna. Stórar fjárhæðir hafa glatast í hyldýpi spilaskulda framrásarmanna. Þetta var bæði ólöglegt og siðlaust.
Of miklar fjárfestingar í tengdum bréfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Á engu sem var er byggjandi", þetta eru því miður mikil sannindi.
það er skelfilegt hvernig þetta fólk hefur ekki bara sólundað arði genginna kynslóða heldur einnig veðsett komandi kynslóðir. Og engin hefur enn verið dreginn fyrir dómstóla.
Við þurfum að fara aftur minnst 30 til 40 ár til að sækja gildi sem hægt er að notast við og horfa til okkar kristilegu siðfræði sem grunn að byggja á.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.7.2009 kl. 00:47
Ísland hefur byggt á sandi. Svo kom flóð! Sagan sögð.
Baldur Gautur Baldursson, 15.7.2009 kl. 13:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.