Verndun lifandi lands

Það er skrýtið að sitja hérna í fjarska og hugsa heim, heim til ástkæra landsins míns Íslands. Það er jafn skrýtið að lesa hvernig stjórnvöld á Íslandi virðast aðeins á tillidögum minnast fagurra fjarða, himinhárra heiða og ferska fjallavatnsins. Sautjándi júní er þjóðhátíðardagur Íslands. Það er reyndar sá dagur sem ég held að í raun enginn sé neitt hrifinn af. Það er dagur sem stjórnmálamenn fundu upp til að blinda þjóðina með einhverskonar helgislepju á þjóðarmælikvarða. Það er dagurinn þá er allt er eiginlega snúið úr samhengi sínu. Það er dagurinn sem búinn var til í skyndingu, tækifærissinnuðu andrúmslofti stríðsárana þá er Danir voru hersettnir og með öllu óbúnir að bregðast við og leiða okkur hönd í hönd fram til lýðræðis. Við spörkuðum í liggjandi herra okkar. Sómi Íslands, sverð og skjöldur!  Sóminn var víðsfjarri, sverð og skjöldur landsins var hernuminn. Það er ekki skrýtið að maður hafi blendnar tilfinningar til þessa "þjóðhátíðardags". Það er sem það gjalli í tómri tunnu í hátalarakerfi Austurvallar þegar ræður eru haldnar og fjölyrt um fegurð lands, hreinleika lofts og vatns, dýpt blárra fjarða og fuglasöng á lyngvöxnum heiðum.  Maður hugsar til þeirra verksmiðja sem byggðar hafa verið, álvera, tals um olíuhreinsunarstöð, vegalagninga um hálendið þvert og endilangt. Línulagningar virðast ekki lúta neinum reglum, ruslahaugar og mengun setuliðsins sáluga hér og þar. Námagröftur og efnistaka virðist heldur ekki lúta neinum verndunarhumyndum.  Þetta er sárgrætilegt. Allt þetta innantóma tal um fegurð lands og varðveislu, en hvað gerist?  Raunin er allt önnur og verkin sem tala hin raunarlegustu. Gerir fólk sér ekki grein fyrir því sem er að gerast. Íslandi er verið að breyta í ruslageymslu fyrir önnur lönd.  Verðmæti Íslands liggur ekki í olíu, gimsteinanámum, skógum eða málmgreftri. Nei, verðmætið liggur í hinu sjónræna, upplifuninni sem er einstæð á heimsmælikvarða. 

Þjóðhátíðadagurinn er tilbúningur. Að við minnumst Jóns heitins Sigurðssonar er jú sjálfssagt. Allar þjóðir verða að hafa sinn "Símon Bólívar". Gleymum ekki hinum "hetjum" íslandssögunnar Rasmusi Christian Rask, Jóni biskupi Arasyni, Fjölnismönnum, unga fólkinu sem fór erlendis og menntaði sig og færði Íslandi heim heimsfræðin. Gleymum ekki þeim sem hafa látið sér annt um land og viðgang þess þegar horft er til framtíðar. Stjórnmálaumræðan í dag er skammsýn. Skammtímagróði og sorglegar afleiðingar eru hinn viðbúni fylgifiskur ákvarðanatöku stjórnmálamanna.

Í Fjallræðu Krists segir: "Biðjið, og yður mun gefast".  Nú er bara að hafa vit til að biðja um það sem okkur er fyrir bestu, landi og framtíðarþjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband