Safnastuldur á þjóðminjasafni

Sit hérna og er að spá hvað hafi orðið af mörgum þeim merkilegu, fallegu lykilgripum sem hurfu af Þjóðminjasafninu í Bagdad við upphaf innrásar Bandaríkjamanna (og þeirra stríðsvina) inn í Írak og þar með Bagdad?  Þetta er ekki spurning um nokkrar smádollur eða krukkur, heldur er hér um að ræða skipulagt rán. Stuldur á mörg þúsund gripum af ýmsum stærðum og gerðum, flestir af stórmenningarsögulegu gildi fékk næsta litla umfjöllun. Safnstjórar víða um heim hafa leitast við að taka saman höndum og leita uppi þessa gripi, en því miður virðist hið mesta hafa horfið á svartamarkað list- og forngripasala. Alltaf er til fólk sem vill kaupa þýfi og illa fengna hluti. En afrakstur þessa samstarfs hefur verið lítið. Reyndar hefur verið bannað að kaupa og selja þýfið frá þjóðminjasafninu í Bagdad, vöggu vesturevrópskar menningar. En raunin er þó sú að mikið af því sem stolið hefur verið hefur liðið hefur verið skemmt, breytt, eyðilagt og sumt er illþekkjanlegt aftur. Stöku sinnum skýtur lítil stytta eða lítill baukur úr silfri upp kollinum á ebay.com eða einhverjum slíkum netmarkaði. Það er ekki erfitt að verða sér út um svona gripi. En það er ólöglegt. Það er siðlaust og hreint út sagt fávitalegt. Gripir á söfunum, s.s. þjóðminjasöfnum eru þar af sérstakri ástæðu. Þeir hafa skíra skírskotun til þess lands, þeirra menningar og sögu sem þjóðin á sína sjálfsmynd að þakka. Það er sagan þeirra og heimsins. Það getur verið listasaga, mannkynssaga, efnahagssaga, saga tungumáls, þjóðflutningasaga, saga veðurfars, trúar og jarðfræði.  Sumir hlutir eru svo menningarsögulega mikilvægir að þeir eiga heima á þjóðminjasafni. Safni sem fræðimenn og almenningur á aðgengi að og allir geta fengið að umgangast þessa muni, sem þá eru í tryggri vörslu.

73-sumer_gold

Grunur hefur verið allt frá upphafi stríðsins í Írak að árásarherir hafi átt stóran hluta að máli þegar rætt er um þjófnað einstakra muna af þjóðminjasafninu í Bagdad.  Um það ætla ég ekkert að segja. Vissulega hafa margir gerst fingralangir þegar ringulreiðin var sem mest í þessari gömlu höfuðborg kalífanna. Það er ljóst að aukið alþjóðaframtak er engin hugmynd, heldur skylda. Hér þarf að gera eitthvað til að stöðva ólöglega listaverkasölu. Hvernig liði okkur ef til dæmis kápa Jóns Arasonar, eitthvert af altarisklæðunum frægu, litla fræga þórslíkneskið eða kaleikurinn góði væri boðinn upp á ebay.com eða dúkkaði upp á skrifstofu einhvers japansks viðskiptajöfurs. Eða sjá einhvert handrita okkar á uppboði hjá Christie's, Bukowskis eða Sotheby's?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband