Barcelona

 Barcelona!  Hola!

DSCF1377

(mynd: Ég í Barcelona, við þurran gosbrunn rétt við Av. Diagonal)   Smile

Það er í senn gott og fróðlegt að vera kominn heim frá þessari langþráðu ferð til Barcelona og síðan lítið tregabundið og umvafið vissum söknuði að þurfa sjá á bakið á þessari heillandi og margslungnu borg.  Ferðalög gefa mér svo mikið. Ég þrái að ferðast. Ég endurnærist og fyllist von og trú á það sem býr handa allra drauma, en síðast en ekki síst líka upplifi ég hversdaginn á annan og meira lifandi og gefandi máta. Hversdagurinn fær líf og verður sérstakur þegar hann er settur til samanburðar við vel heppnaða ferð.  Þannig að Barcelónaferðin var gefandi bæði á heimavelli sem ytra.  Ferðin var eins og fyrr segir langþráð. Jafnvel áður en ég fluttist til Svíþjóðar hafði ég dáðst af hinni sérspænsku Nýlistar, eða Jugendlistar. Antoní Gaudí, hinn frægi arkitekt og höfundur hins spánska modernisma i byggingarlist á stóran heiður af því að ég hef svo lengi dregist að !Barcelona. Hver þekkir ekki hin stóru verk hans, Parc Güell, La sagrada familía, Casa Batlló, Casa Milá og fleiri verka. Hugmyndirnar taka engan endi og leikurinn er síðan bundinn í föst og endingargóð form (og kostnaðarsöm).

DSCF1374 (mynd: Fánar á húsi Banco de Espana: fh. Catalunya, Spánn, Barcelona)

Ferðalag fyrir mig er pílagrímsferð í óeiginlegri merkingu. Þegar landað var á flugvellinum utan Barcelona var eins og maður gengi á vegg. Hitinn var 33°C og rakinn svakalegur. Það var ekki þurr þráður á manni þegar á hótelið var komið og prógrammið yfirfarið. Í stuttu máli var ferðalagið hafið með að kaupa kort í neðanjarðarlestar- og strætókerfið. Það var notað mikið í ferðinni og létt að læra á kerfið sem var afskaplega umsvifamikið, en þó byggt á greinilega mörgum misjöfnum útþennslustigum. Oft þurfti maður að ganga um löng göng, þröng og loftlaus til að skipta frá einni línu til annarar. Ég er 184cm langur. Við flesta uppganga og tröppur varð ég að beygja mig til að reka ekki höfuðið upp undir. Soldið skondið, greinilega er ég með þeim lengri þarna.

 DSCF1313 - Kopia

Annars er best að skoða borgir með því að ganga um götur og torg. Því miður voru allir gosbrunnar borgarinnar án vatns vegna hins þurra sumars og vatnsskortsins þar af leiðandi. Fannst mörgum þetta (mér líka) afskaplega fúlt þar sem margir gosbrunnarnir leika stórt hlutverk í listaverkum og því að skapa hið fjölbreytta umhverfi sem einkennir svo borg og list hennar.  Vegna hitans hefði alveg verið hugsandi að fara í fótabað í einhverjum þessara.

(mynd: Ég í La Sagrada Familía. Lofthæð upp undir hvelfingu er 60 metrar í hliðarskipinu)

Eftirminnilegar eru ferðir á slóðir fyrrnefnds Gaudís.  La Sagrada Familía var ógleymanleg. Hvlílík bygging, bákn og listaverk. Kirkjan sem annars stendur í fátæklegu hverfi borgarinnar hefur lengi reist sig yfir niðurnýdd húsin og þannig skapað framtíð fyrir hverfið í heild. Þegar hefur kirkjan verið takmark ferðamanna í yfir eitthundrað ár. Byrjað var að byggja hana fyrir 1882 en síðan hefur byggingin tekið sinn tíma vegna misjafns pólitísks áhuga, stöðu kirkjunnar, fráfalli Gaudís og svo peningaskorts. Búist er við að hún verði fullbyggð með sínum 170 metra háa miðjuturni  (Hallgrímskirkja 74 metrar) 2026-8.  Aðrar byggingar Gaudís voru margar skoðaðar og söfnin í Barcelona fóri ekki varhluta af athygli okkar ferðamanna.

Mikilfenglegar byggingar geta verið litlar. Ekki bara stórar hallir, leikvangar og dómkirkjur eru stórfenglegar. Stórfengleiki getur verið bundinn tilfinningu fyrir hinu heilaga. Í hinni litlu kirkju Santa Maria del Mar upplifði ég hana í smæð sinni sem einhverja hina stærstu andlegu musterum sem ég hef komið inn í. Stórleiki hennar var nærvera hins heilaga, hins eftirsótta og þess sem var svo nærri. Hins ósýnilega, heilaga og máttuga. Þessi látlausa kirkja stendur í Gotneska hverfinu (gamla bænum) í Barcelona ber allt með sér sem prýða skal helgidóm... Löngum hefur fólk leitast við að lýsa hinu heilaga - ég mun ekki reyna það. Orð mín verða alltaf fátæklegri en reynslan.  

DSCF1344 (mynd: Parc Güell í Barcelona)

Breytileiki og líf borgarinnar í Barca, borginni sem nefnd er eftir föður Hannibals frá Karþagó; Hamilkars Barca, kemur stanslaust á óvart. Opnunartími verslana, matvenjur, trúarlíf, næturlíf, hræðsla eða kunnáttuleysi heimamanna í tungumálum, opinbert og óopinbert viðhorf til ferðamanna - allt er hið sérstakasta að reyna og upplifa. Lyktin sem einkennir borgina, byggingar frá mismunandi tímum og skeiðum sem saman mynda lifandi, skemmtilega og heillandi borg þar sem fólki úir og grúir saman.  Þar sem katalónsku og kastíllísku er jafnt blandað saman ómeðvitað og málverndunarstefna stendur á gömlum grunni, bundin pólitískri ójafnvægissögu þjóðar og þjóðarbrots.  Yndisleg borg sem ég vil gjarnan heimsækja aftur.

Parc Güell: http://sv.wikipedia.org/wiki/Parc_G%C3%BCell 

La Sagrada Famílía: http://en.wikipedia.org/wiki/Sagrada_Fam%C3%ADlia

Barcelona (turistinfo): http://www.bcn.cat/english/ihome.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband