Sól, sumar og 31°C undir heiðskírum himni

Það er búið að vera að mörgu að hyggja og dagurinn búinn að vera nokkuð annasamur. Þó hefur maður nú leyft sér að puðrast niður í bæ, skoða skrílinn og borða ís.  Svækjan magnast upp á svörtu malbikinu og dökkum flötum húsa og stétta og allt virðist vera gersamlega að tapa andanum. Gamla fólkið flest heldur sig heima.  Neðanjarðarlestirnar eru notaðar svo lengi sem það er hægt, enda svalara neðanjarðar. Síðasta spölinn heim að dyrum var notast við strætó og ég er handviss að hitinn í honum hefur verið nálægt 40°C.  Gluggar voru oppnir og kæling í gangi, en samt virðist það ekki hafa haft svo mikið að segja. Lítill krakka byrjaði að smáæla og batnaði þá ekki lyktin sem þegar var þung af svitalykt og hundaskít.  Það er spáð sama veðri nokkra daga áfram, en síðan á þessari hitabylgju að ljúka.  Reyndar heyrði ég í dag að spáð væri hitameti í Stokkhólmi, en ég á nú bágt með að trúa að því verði náð, svo fjandi heitt er nú ekki enn.

Í kvöld er hugmyndin að fara út og svala sér á nokkrum bjórum, eitthvað verður það nú í minna lagi enda stutt í að maður fari að sötra framleiðslu þeirra Spánverja og njóta av þeirra góðu vínum. Á mánudaginn er ætlunin að hverfa til suðlægri landa. Barcelona er ferðatakmarkið. Í þeirri vögu lista og menningar er ætlunin að dveljast í nokkra daga, drekka í sig fjölbreytileika menningar og andrúmslofts borgar og þjóðar. Ég hlakka mikið til enda mikið að sjá og upplifa.  Í gær keypti ég svo ferðalagsbókina "The Last Gospel" eftir David Gibbins. Ágætt að hafa reyfara við hendina þegar sólin er búinn að baka mann og skugginn dregur meira og ölið.  Þá er yndislegt að geta lesið góðan heilalausan reyfara   :) 

Annars var ég að snúast í því að verða mér út um "Intyg om synprövning" sem er staðfesting á að sjón mín sé í fullkomnu lagi og að ég þurfi ekki gleraugu við akstur ökutækis.  Þetta þarf skv. íslenskum og sænskum reglum að skaffa sér þegar endurnýja á ökuskírteini. Ég gerði þetta og fékk að borga 100 SEK fyrir þetta bréf/staðfestingu.  Þetta verður síðan sent til Íslands eða ég tek það með mér þegar ég fer þangað núna í september.  Það sem hefur vakið forvitni mína í þessum undirbúningsprósess er að þar sem á gamla skírteininu mínu segir að útgefandi kortsins og eigandi sé: Ríkislögreglustjórinn.  Þegar ég skrifaði til embættisins vegna spurninga ég hafði um hvernig fara ætti að þegar maður væri búsettur erlendis, fékk ég ekkert svar.  Ég skrifaði tvisvar sinnum, en embætti ríkisslögreglustjóra svaraði ekki fyrirspurnum mínum. Þetta er bæði óvirðing og sýnir hvað þessi ofvaxna og sjálfrisérversta stofnun er innihaldslaus og stendur sig ekki í upplýsingahlutverki sínu.  Léleg þjónusta - eða réttara sagt: Engin þjónusta. 

Jæja annars kvarta ég ekki. Sakna minna og íslenskrar náttúru. Kem nú samt bráðlega til Íslands og mun þá reyna að vera svolítið ræktarsamur við mína nánu og kæru. Síðan daginn eftir að ég kem til landsins, munu vinir mínir frá Adolf Fredrik Musikgymnasium koma til landsins á skólaslitaútskriftarferð. Ég ætla að reyna að vera þeim lítið eitt innan handar.  Þetta er hópur af mikilhæfum ungmennum sem verða að teljast með þeim allra fremstu í minnst Norður-Evrópu í hljóðfæraleik og söng.     :)  

Jæja, best að fara gera eitthvað gagnlegt.   Heyrumst heimur!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Blessaður. Það er sama svækjan hérna í DK en svo á að "kólna " aðeins á næstunni. Ég man frá kaupmannaárunum okkar Steinu hversu hitinn gat verið þrúgandi og tropenætterne að gera mann .......   Þeir hafa þó hafgoluna í Barcelona til að svala sér. Góða ferð þangað og skemmtu þér vel. Barcelona er borg borganna.

Gunnar Páll Gunnarsson, 2.8.2008 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband