Dagur reiði, dagur hryggðar, dagur eftirþanka

Í miðaldakveðskap má finna orðin frægu Dies irae, dies illa.Föstudagurinn langi í gær og laugardagur tónleikans í dag. Eftir að hafa hlýtt á guðspjallstexta píslarsögunnar í kirkjunni í gær fór ég að hugsa hvað það hefði verið sem leiddi Gyðingana út í að biðja um aftöku Krists. Ég leyfi mér að segja að það hafi ekki verið guðsótti og trúarleg frómheit sem stjórnuðu orðum þeirra þegar þeir æptu: "Krossfestu hann, krossfestu".  Nei, það var veraldarvonskan, það var illskan, það var reiðin sem gerir hvern mann að fífli, gerir hvern mann andstæðan Guðs vilja. Fíflaskapur þá?  Líklega er vonskan mis svört, mis þungbær og mis áhrifamikil.

Á föstudaginn langa, vill Guð vísa okkur að tökum við í hans útréttu hönd, fylgjum honum, eru við á veginum frá veraldavonskunni, þeirri vonsku sem byggir sér skot í hjörtum fólks, í hugsunum, í næringarberandi blóði fólks og jafnvel í lungunum öndum við þessu að og frá okkur. Krossfestingin var ekki bara einstök vegna þess að þar var Guð og maður krossfestur, heldur synd okkar mannanna. Þannig getum við notið alls þess besta, BARA ef við horfum á spegilmynd okkar og spyrjum okkur sjálf: Er þetta hann/hún sem ég vil vera?

Ljótleiki heimsins birtist best þar sem andstæðurnar mætast; svart mót hvítu, góðsemi mót illsku, gleði mót hryggð. Síðan Páfastóll hóf að fylgja Benedikti páfa XVI á www.youtube.comhef ég tekið mér fyrir hendur að fylgja eftir því sem hann hefur sagt og af hverju hann er að tjá sig um hin ýmsu málefni.  Karlinn greyið skrifar líklega ekki helming þeirra ræðna sem hann heldur, en við það að hann lesi skrif annarra fá þau apostólíkskt gildi. Hann er hirðir hirðanna í kirkjudeild sinni, hinni rómversk katólsku kirkju. Í nýlegu ávarpi hans til biskupa kirkju sinnar, hvetur hann þá að sinna prestunum betur, ekki bara biðja fyrir þeim, heldur tala við þá, setja sig í samband við þá þegar þörf ber til og jafnvel þegar ekkert heyrist frá þeim.  Hann talaði um mikilvægi hinnar biðjandi kirkju, mikilvægi andlegrar þjónustu á öllum stigum, allt frá sunnudagaskólum til erkidjákna og biskupa.

Nú er ég ekki alltaf sammála Benedikt páfa, en hann hefur á svo réttu að standa. Hann er að gera það sem allir biskupar áttu og eiga að gera:  Hann er að láta sig varða hag prestanna sinna. Hann er að sýna að verðandi prestar, þeir sem þegar eru vígðir og svo þeir sem hafa dregið sig í hlé - að allir eru kirkjunni mikilvægir. 

Þarna sýnir rómversk katólska kirkjan að prestar hennar eru henni dýrmætir - og ekki bara þeir sem eru starfandi eða þeir sem eru nafnfrægir; nei heldur allir.   Þegar þjóðkirkjuprestur lætur af embætti (fellur út af launalista), snýr sér tímabundið til annarra starfa eða fer í þjónustu utanþjóðkirkju stofnunar eða safnaðar - virðist sem þessi sé dauður og gleymdur kirkjunni sem í upphafi vígði hann/hana til þjónustunnar.   Að þessu er skömm sem er smánarblettur á kirkjustjórninni á Íslandi.

Lifandi trú er trú sem er lifuð, trú sem fær á sig brotsjó í lífsins ólgu sjó, trú sem fær að vaxa með einstaklingnum, trú sem leyfir þér að efast, trú sem spyr spurninga og trú sem leyfir afturhvarf.  Ég er harður í orðum og hugsunum gagnvart kirkjunni minni, kannski vegna þess að hún er mér kær, fólkið er mér kært og dýrmætt. Börnin sem ég hef skírt dýrmæt og þau eiga skilið kirkju sem lætur sig varða þau og hvernig þau vaxa úr grasi og hvaða vegarnesti þau fá. 

Dagur reiði, dagur hryggðar!  Föstudagurinn langi er dagur uppgjörs við illskuna. Uppgjörs við það sem verst er kristnum einstaklingum: Sinnuleysið.  Að láta sig ekki verða neitt, bara fljóta með, fljóta með öllu að feigðarósi. Gefa skít í allt og skipta sér ekki að neinu. Að rjátla bara með í rokinu og um síðir hreint puðrast út í veður og vind. Síðan má kenna um að þessi eða hinn hafi ekki vitað að hverju stefndi. Ég blæs á slíkt. 

Ég hugsa aftur til kirkjunnar, orða Benedikts páfa og til kirkjunnar minnar á Íslandi, þjóðkirkjunnar sem mér finnst hafa dansað sama ókunnuglega dansinn án athugasemda. Orð páfa um að kirkjan verði að láta sig varða prestana sína, djáknana sína, starfsfólkið í kirkjunum. Að fólki finnist það ekki standa eitt og oft illa statt í ómögulegum aðstæðum. Finnist það ekki geta hreyft sig aftur á bak eða áfram og geta ekki leitað til neins sem hafi myndugleika að takast á við málefnin sem eru svo knýjandi.

Í komandi biskupskjöri hér í Stokkhólmi, hefur margt verið rætt um hvaða eiginleika næsti biskup skuli hafa. Hvernig biskup í stórborginni Stokkhólmi með fjölþjóðlegu ívafi sínu og fjölmenningarlegu yfirbragði.  Það sem fólk óskar sér einna helst að einn biskup skuli prýða, er 21. aldar manneskja, menningarlega sinnuð, biskup sem hikar ekki við að hrófla við sóknarskipan ef það má verða kristninni til framdráttar, hlustandi biskup (sem hlustar á raddir fólksins og prestanna sinna), biskup sem styður réttindabaráttu samkynhneigðra, biskup sem þorir að standa gegn stjórnvöldum ef kristin trú og gjörðir stjórnvalda fara ekki saman, biskup sem er góð fjölmiðlamanneskja en umfram allt: biskup sem er hirðir hirðanna, hirðir ALLRA presta.  Það er erfitt að finna þetta allt í einni manneskju, en mörgum góðum kandídötum er uppstillt og framstillt núna um þessar mundir.  

Þetta voru smá þankar á aðfarardegi páskadags.

Gleðilega páskahátíð og heilaga páskaviku!

Það verður gott og gaman að koma til Íslands núna í páskavikunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband