"Kom, og tak þér allt vald á jörð"

Dagbókarfærsla hvítasunnu: 

Í gær vaknaði ég mjög tímanlega fyrir langan starfsdag. Ég skyldi vinna í kirkjunni minni og hafði ekki náð að undirbúa allt áður en ég fór heim daginn innan. Í neðanjarðarlestinni var allt á hvolfi, rusl, bjórflöskur, dósir, pappírsrusl og æla út um allt. Ekki beint skemmtileg sýn. Rakinn og kuldinn þarna niðri gerði það þegar að ég þráði að lestin kæmi sem fyrst og ég kæmist fljótlega upp á yfirborð jarðar og nokkrum kílómetrum sunnar í borginni.

Þetta gekk framar óskum. Betlarar að éta "big mac-meny" og eftirlegukindur næturinnar voru að skjögra um á Sergelstorgi og ég setti upp íhuga minn spaugilega mynd af því hvernig það væri ef maður gæti fleygt þessu liði öllu saman í gosbrunninn og séð þetta hyski vakna til lífs...  Hitinn var að aukast og andvarinn ljúfi gerði knappast meira en að strjúka vanga minn.

Blístrandi geng ég mót Jakobsgötunni blístra lagstúfinn við "Guðs kirkja er byggð á bjargi", einn af mínum uppáhalds sálmum. Þann sálm sem ég tel "hinn eina rétta" fyrir hvítasunnudag.  Ég horfi niður mót Jakobskirkjunni og sé hana tignarlega í sínum andans rauða lit, reisa sig upp yfir blómstrandi trén með sinn fallega barokk/rokokkó turn. Víða á kirkjunni sér maður kyndla, höggna í kalkstein, gyllta bak og fyrir....   "Logar andans" hugsaði ég!  Kirkjan, vitnisburður um nærveru heilags anda í 364 ár.

jakobsklitil

Ég opna kirkjuna og fer inn. Einhver í næturgleðinni hefur þó haft sig til kirkjunnar og pissað í eitt hornið á henni. Ég gruna freklega að hann hafi ekki verið einn á ferð aðfararnótt hvítasunnudagsins.

Ég kveiki ljósin í kirkjunni. Geng inn að miðju heilsa, signi mig og byrja eins og venjulega, þegar ég er einn í kirkjunni að humma "Guð, lát þér þóknast að frelsa mig". Í dag finnst mér eins og ég sé ekki einn að svara. Kirkjan, gengnar kynslóðir svara með mér. Ræstitæknirinn hefur verið þarna fyrr um nóttina/morguninn, því gólfin eru skýjuð af raka. Legsteinar með djúpu mynstri halda eftir rakanum betur en þeir flötu og í augntóttum hauskúpu einnar eru tveir pollar sem ræstitækninum hefur sést yfir. Ég kveiki á litla ljósinu á altarinu og byrja að dreifa ljósinu um kirkjuna. Þegar ég er búinn að þessu lýsa um 40 kerti/olíuljós í kirkjunni. Ég næ mér í handska, set þá á mig og tek niður hvítu altarbrúnina og altarisklæðið. Í skúffunni í vesturenda kirkjunnar liggur rautt altarisklæði og einn hvítur altarisdúkur. Ég skipti og þetta lítur svo fínt út. Á laugardaginn höfðum við haft smáfugla í kirkjunni, sem flogið höfðu inn og byrjað að þyrla upp ryki og sóti, sov skipta varð um altarisdúk, eitthvað sem ég ekki vil gera einn, þar sem það er erfitt að gera það sómasamlega á þess að krumpa dúkinn og koma honum rétt fyrir. Dúkarnir undir; neðsti altarisdúkurinn og "svitadúkurinn" eru alltaf á hreyfingu svo þetta er erfitt. Þetta lukkas mér með, og þegar sex stórir silfurstjakar eru komnir á sinn stað kveiki ég olíuljósunum sem í þeim eru. Þetta er fallegt. Humma áfram "Metta oss að morgni með miskunn þínni og náð". 

Ég kann svo vel við að pýssla með þetta á morgnanna, einn og óáreittur. Eftir að hafa gert allt sem gera skal, oppna ég kirkjuna hleypi inn ferskum andvaranum og túristum sem vappað og vafrað hafa um bæinn í von um oppnar dyr einhversstaðar. Þeir verða glaðir og koma inn. Ég fer inn í sakristíuna (skrúðhús) og kveiki á tölvunni. Sæki póstinn sem ég hafði sent mér sjálfum og prenta út stutta hugleiðingu. Ég hafði verið beðinn að hafa morgunandakt og ég tek að undirbúa hana. Tek fram höfuðlín, ölbu, rauða stólu og hökul, linda og skó.  Kaleikurinn, karafla og patína allt á sínum stað.  Hálf flaska af gömlu Madeira. Michael organisti kemur, glaður eins og venjulega...  hann hefur alltaf eitthvað skemmtilegt að segja.  Tíminn líður, klukka 3 hringir stutta stund. Við gerum okkur klára og förum yfir sálmanna.  Það er gaman að vinna með þessum organista. Klukka 2 hringir og við förum fram hann hverfur einhversstaðar inn í orgelið og ég fer og heilsa upp á fólk. Það er ekki venja hér að óska gleðilegrar hvítasunnu, en ég geri það af gömlum vana. Fólki finnst þetta soldið fyndið en viðkunnanlegt.  Ég heyri að mótorinn við klukku 1 byrjar að erfiða við að mjaka 4,2 tonna klukkunni á hreyfingu - eftir um 20 sekúndur heyri ég klíng-klog-klíng ört og títt en svo kemst klukkan á hægari og jafnari hringingu. Messan tekur sinn tíma í tímalausu rýminu. Sálmar og bænir, textar og útlegging. Við sækjum styrk, lausn og endurnýjaðan anda og göngum mót austri. Stutt markviss pílagrímsganga að borði Drottins.

Loks tekur messan sinn sýnilega enda og og kirkjufólkið kveður.  Ég legg rauða hökulinn yfir gráðurnar og geng mót dyrunum. Út í brennheitan sumardaginn fer fólkið og sumir halda hönd fyrir augu. Sólin er stingandi og mollan sem á miðjarðarhafssumardegi.  "Andann þinn helga, sem allt gjörir nýtt,/ ómælt þú sendir og gefur. / Opna þú hjörtun og auk oss trú,/ eilífi frelsari, bænheyr þú."  Stuttu síðar fara að koma að kirkjunni kirkjugestir til eistneskrar guðsþjónustu.  Dagurinn silast áfram, kyrkjurýmið fyllist af röddum fólks, tónlist og lykt af brennandi kertum og olíu.  Ég sit smá stund og íhuga daginn, hvað gerst hefur, hvað ég hef verið að gera á hvítasunnu svo lengi sem ég minnist. Ég horfi á gamalt olíuljós, einskonar "Alladín lampa" sem brennur í skírnarkapellunni. Hann sótar talsvert og ég hugsa mér að kanski þyrlast upp bænir okkar og stíga til himins eins og sótið og hitamistrið frá þessum lampa. Skugginn af sóti og hita endurkastast á vegg kirkjunnar og mér finnst andrúmsloftið fyllast heilagleika, hinu ósýnilega heilaga, hinu virka heilaga og hinu starfandi heilaga. 

 


Hvað er kirkja?

Kirkjan á afmæli á morgun, ekki íslenska þjóðkirkjan, heldur heimskristnin sjálf. Á morgun minnumst við þess að heilagur andi kom yfir lærisveina Krists og þeir töluðu tungum - atburður sem markar upphaf kirkjulegs starfs. Kirkjan byrjar, upp frá þessum atburði, að skipuleggja sig í starfseiningar og ólíkir söfnuður taka að starfa í mismunandi löndum. Hver söfnuður tekur sér það verkefni að hittast á helgidögum, útdeila sakramentunum, boða kristna trú innan sem utan safnaðar og vera boðberendur kærleika Guðs, í verki.

Þetta er stórtséð það sem við erum að fagna á morgun. ENn kirkjuskilningur nutímafólks er afskaplega einhæfur. Í fyrstu voru djáknar, prestar, biskupar kallaðir til þjónustu í söfnuðunum. Þeir voru jafningjar fólksins, en höfðu hlutverki að gegna innan safnaðarins, rétt eins og í stórum fyrirtækjum. Þessir voru virtir og upphafðir vegna þess að þeir/þær störfuðu í nafni kærleikans, í nafni Guðs. Hver og einn hafði ákveðið hlutverk; kærleiksþjónustu, prédikunar/trúboðsþjónustu og tilsjónarþjónustu. Allir voru þau jafnir fyrir Guði.

Sýnin á hvað var kirkja breyttist svo þegar fram leið og þrjár "kirkjur" urðu veruleiki í daglegu tali: 

1) Kirkjan sem samfélag skírðra, samfélag hinna heilögu Guðs, kirkja hinna lifandi steina. Guðfræðilegt hugtak um lifandi steina sem við byggjum kirkjuna sem hugmynd af. Hornsteinnin er Kristur, og hver og einn einstaklingur er steinn í kirkjubyggingunni, hver og einn kristinn einstaklingur.

2) Kirkjan sem hús af forgengilegu efni, kirkja sem hús, hús sem stendur mitt í bænum okkar, eða á góðum stað í sveitinni okkar. Húsið sem við sem heilagt samfélag förum til og eigum sameiginlegar stundir í trúnni.

3) Kirkjan sem stofnun. Kirkjan (1) hefur alltaf þurft á leiðbeiningu að halda. Kirkjan er lifandi, hreyfanleg og byggð upp af fólki. Hún er lifandi á öllum tímum og hið prédikaða orð er predikað af lifandi fólki á hverjum tíma, þannig að kirkjan er  og á að vera "up to date". Kirkjan sem stofunum er fyrirbæri sem oft hefur misbeitt valdi sínu og gerir víða enn í dag. Stjórnmálalega og mót einstaklingum. Kirkjunni er stýrt af fólki og þess vegna má oft búast við að hún geti farið af kúrs sínum og tapað stefnunni. Þetta hefur gerst oft í veraldarsögunni og gerist enn.

Orð sálmaskáldsins Friðriks Friðrikssonar eiga við í dag, aðfangadag hvítasunnu: "Þú, kirkja Guðs, í stofmi stödd,/ ó, stýrðu beint í lífsins höfn,/ og hræðslu' ei manna meinráð köld/ né mótbyr þann, er blæs um dröfn." (Ísl.sálmb. 290:1)

Koma menn og koma dagar, en allt er fallvaltleikanum háð um leið og Guðs orð stendur ævinlega. Það er hryggilegt að sjá, kirkjuna í dag. Heimskirkjurnar lifa í ósátt við hvora aðra. Deilur og ósætti ríkir innra með hverri og einni og víða hafa "kirkjur" feysknað svo að aðeins ytra byrðið stendur af sjálfu sér án stuðnings innviðanna.

Ég fékk hugmynd í fyrradag eftir að hafa verið í mikilvægu samtali með trúarleiðtoga einum í Svíþjóð. Hugmyndin er svona:  Að prestar kirkjunnar, starfsfólk allra kirkna og safnaðarfólk komi saman við sóknarkirkju sína og biðji. Biðji um kærleika, biðji um fyrirgefningu, biðji um mannréttindi, biðji um leiðréttingu á því sem miður hefur farið, biðji fyrir hvort öðru, biðji um umburðarlyndi. Þetta yrði sannleikans stund. Enginn verður dreginn fyrir dómstól, enginn smáður, enginn lítillækkaður. Hér verði Heilagur andi beðinn að stíga niður og umvefja allt í kærleika Guðs. Hér er stund fyrirgefningarinnar. Fyrirgefi maður einhverjum eitthvað, þá er honum fyrirgefið það.

Við þurfum að byrja upp á nýtt!  Kirkjan, söfnuðirnir, fólkið sem á einhvern hátt hefur orðið ósátt....  Fólkið sem lent hefur í skilningslausum presti, fólk sem hefur verið skilningslaust fyrir aðstæðum og orðum presta. Hér við svona stund sem ég nefndi, á við að koma saman undir merkjum kærleika og fyrirgefningar. Reiðin er til þess fallin að sleppa inn óhamingju og vanlíðan.  Treysti einhver sér til að fyrirgefa og taka það stóra skref, þá geri hann/hún það og njóti léttis og þeirrar andlegu hvíldar sem slíkt veitir. Þetta á við um alla, háa sem lága, gamla sem unga, í starfi eða án starfs, í embætti sem án embættis. Eftir þessa stund göngum við svo með hinum til messu og tökum á móti fyrirgefningu Guðs.

Jæja, hugleiðingar á laugardagsmorgni. Ég er bara búinn að upplifa svo andstyggilega hluti núna síðustu vikurnar, andstyggileg viðbrögð "aðila" sem ég hélt að tryði á líf og fyrirgefningu. Aðila sem leitast hefur ákveðið í krafti styrks síns og áhrifa að bregða fæti fyrir mig.  Ég fyrirgef, ég bið og ég bíð.   Veni, sancte spiritus!

 


Hættum að nota íslensku krónuna - námslán verða að engu á leiðinni milli landa

Það er þetta hérna með krónuna. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég megi fá greitt í vörum, en ekki peningum þegar ég fæ námslánin mín?  Íslenska krónan er gersamlega að verða einskis virði. Það er skelfilegt að sjá hvernig námslánin mín verða að engu bara við það að flytja peningana frá íslenska bankareikningnum mínum yfir á þann sænska. Þetta er skelfilegt. Nýhækkuð þjónustugjöld "Kaupthing bank" eru heldur ekki til að hrópa húrra fyrir. Hversvegna er verið að blóðmjólka okkur námsmenn með þjónustugjöldum. Eru bankarnir ekki bara ánægðir að hafa pengingana okkar liggjandi þarna hjá sér?  

Ég skil ekki Íslendinga lengur.  Er öllum sama?  Eru Íslendingar bara svona vanir að vera barðir að okkur fer að þykja barsmíðarnar góðar og þægilegar?  

 NEI - þetta er illur leikur!  Ég VONA að einhver fari nú að gera eitthvað í þessu heima á Íslandi.


mbl.is Krónan veikist um 2,21%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlegið að Íslandi erlendis

Ég hélt heim glaður í bragði úr vinnunni í gær. Hafði fengið góðar fréttir og fannst miklu fargi af mér létt. Svo til að fagna, fékk ég mér ís. Svíar, elska að standa í röðum. Standi einhver einstaklingur kyrr, má við því búast að snarlega sé kominn einhver kyrrstæður fyrir aftan þennan einstakling og áður en varir, er komin röð. Enginn veit af hverju, en fólk hér er ekki haldið raðarfælni eins og á Íslandi. 

Nú nú í röðina við ísbarinn var ég kominn og um leið einhver aftan við mig. Á tali þess einstaklings fannst mér Ísland verða afskaplega kjánalegt. Maður sér landið og það sem gerist þar í allt öðru ljósi en þegar maður er á staðnum.  Hvernig þessi jakkafataklæddi bissnissmaður með svörtu Prada leðurtöskuna sína og milljónkróna úrið sitt talaði um málin á Íslandi var upplýsandi, þótt orðin hans vektu skrýtnar tilfinningar. Mér fannst ég sem Íslendingur ekki niðurlægður, heldur var skrýtið að heyra einhvern sænskumælandi, sem nýlega var kominn frá Íslandi tala svo fjálglega og af slíkri innlifun um efnahags og stjórnmálaástandið á Íslandi.

Hann hló mikið þegar hann talaði um borgarstjórnarfarsann í Reykjavík. Varla gat haldið á símanum fyrir hláturkviðunum. Hann sagði að Ísland hefði yfirborðskendustu fjármálastefnu heims. Sagði að greinilega væru Íslendingar stærstu Monopol-leikendur heims, eða að þeir væru svo auðblekktir að það væri ekki satt!

Brosti út í annað. Hvað getur maður annað þegar maður heyrir "stuttu útgáfuna" af "brandaranum um Ísland".


Kjötskandall - gamalt kjöt í stað nýs

Svíar hafa fengið að kenna á því hvað getur gerst þegar ein verslunarkeðja verður of stór, valdamikil á markaðinum og siðlaus.

Fyrir jólin 2007, kom í ljós að í fjölda verslana ICA í Svíþjóð hafði gömlu kjöti, sem runnið var út skv. síðasta neysludegi, endurpakkað og sett fram í verslanir á ný.  Þetta gerðist aftur og aftur, jafnvel þótt ICA hefði haldið rekistefnu um þetta og rætt opinberlega um að þetta náttúrulega gengi ekki. Einhverjum var til og með gefið rauða spjaldið og skipt var út kaupfélagsstjórum í einstaka verslunum. En allt kom þó fyrir ekki. Gamalt kjöt fór að skríða fram í hyllurnar og enginn tók á sig ábyrgð fyrir einu eða  neinu.  Nú velti ég því fyrir mér hvort þetta gæti verið upp á teningnum í verslunum á Íslandi. 

Núna hefur verið ákveðið af yfirvöldum að eftir að gamalt kjöt hefur sannanlega verið sett fram í verslanir hér í Svíþjóð, megi taka verslunarleyfið af viðkomandi verslun.  BRAVÓ!  Nóg að þurfa borga hátt verð fyrir matvöru en að drepast ekki úr einhverri eitrun af því líka að eta vöruna.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=3130&a=767531


C

Gratúlerar  :)


mbl.is Tvær íslenskar konur fagna aldarafmæli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðislegt gjaldþrot

Það tíðkast enn í dag í mörgum löndum, að taka fólk af lífi sem dómskerfislega lausn á óhugnalegri brotaflokkum hegningarlaganna. Það tíðkast jafnvel á Vestulöndum og meðal helstu viðskiptalanda okkar Íslendinga. Af hverju er fólk dæmt til dauða?  Ég ætla ekki að fara út í sögulegar skýringar af einu eða neinu tagi, enda nægir ekki bloggrýmið til þess. Heldur langar mig að velta því svolítið fyrir mér hvaða réttlæti er náð fram með aftöku.  Það er vitað og sannað að oft hefur saklaust fólk verið tekið af lífi. Í Bandaríkjunum er heimilt að taka t.d. vangefna og geðsjúka af lífi. Fólk sem vegna fötlunar eða greindarskorts hefur hafnað utan við samfélagið og orðið öðrum að skaða eða leitt till dauða annara.  Saklaust fólk hefur oft verið tekið af lífi og hinn seki þar með sloppið. Líf er ekki aftukræft. Dómsmorð hafa verið svo tíð í Bandaríkjunum að fólk hefur tekið að efast um dómskerfið. Góður veltalandi og rökfastur lögmaður getur svo afsannað sekt síns skjólstæðings að jafnvel annar verður settur í grjótið og gálgann í stað þess sem í raun er sekur. Kviðdómendur eru ekki sérfræðingar í dómsvenjum og aðferðafræði dómskerfisins - og oft er hægt að blekkja, leiða og blinda þessa völdu fulltrúa samfélagsins svo að sekir einstaklingar sleppa við sekt og oft rangir saklausir einstaklingar lenda inni í þeirra stað. 

Að taka einhvern af lífi, og þá skiptir engu máli hvað hann hefur brotið af sér, er skelfilegt. Hvaða samfélag er svo tílfinningalaust, kærleikslaust, siðferðislaust að vilja bæta fyrir dauða með annars lífi. Slíkur hugsunarháttur snýst um hatur. Hatur er slæmt. Hatur er afskaplega lágt skrifað á siðferðislistanum í siðferðisþjóuðum ríkjum. Ég vil meina að aftaka sé afleiðing haturs og afskaplega tilfinningalega brenglaðs hugsunarháttar.  Vilji maður refsa fyrir brot, er ekki besta leiðin að drepa. Er ekki betra að manneskjan sem brotið framdi fái að sitja inni, læra af mistökunum, sjá fyrir sér hvað gerðist og hvernig hlutir hefðu getað orðið öðruvísi hefði hann ekki gert það sem hann gerði. Við bætum ekki fyrir morð með morði. Við erum ekki steinaldarmenn. Lög Hammúarbís frá því um 1760 f.Kr. eru dæmi um þetta. "Auga fyrir auga, tön fyrir tönn".   Þessi tími er liðinn. Við verðum að trúa að við höfum komist lengra í siðferðislegu tilliti. Manneskjan er söm við sig. Hún kemur að brjóta samfélagsreglur og skaða hvora aðra, en viðmið samfélagsins eru ekki þau sem voru í gildi hja Hammúrabí í Babýlóníu forðum. I dag virðum við manngildið.  Með því að myrða fólk með hengingum, rafmagni eða eitri rýrum við manngildi þess sem drepinn - þar sem við erum ekkert betri. 

Við tökum fólk af lífi (og virðum ekki rétt þess að lífa sem brotið framdi) = líf þess sem myrtur var verður minna virði.

Við tökum fólk ekki af lífi (og sýnum að líf er mikils virði jafnvel brotamannsins) = Líf þess sem myrtur var er mikils virði.

Hættum aftökum!


mbl.is Maður tekinn af lífi í Georgíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biblían mín datt í sundur

Já, biblían mín datt í sundur núna í morgun. Ég er búinn að reyna tjasla henni saman, en hér er annað hvort þörf á nýju bandi um lúna bókina eða kraftaverki.

Ég keypti þessar biblíu sumarið 1991. Síðan hefur hún fylgt mér æ síðan. Bandið greinilega var mjög lélegt, því ég hef einatt gætt að því að fara vel með bókina. Manni finnst að bandið ætti að halda 17 ár, en svo var ekki.  

Núna er ég sem sagt, biblíulaus. Sænska biblían mín er svo illa þýdd að ég forðast að nota hana.  :(

Málið er að ég vil ekki, eftir að hafa kynnt mér nýju bibíuþýðinguna, fá mér nýju biblíuna sem kom út núna nýlega enda sú þýðing hálfdrættingur þeirrar sænsku sem þó er vart nothæf. 


Ellilífeyrisþegar - stofni stjórnmálaflokk

Íslendingar, rétt eins og aðrar þjóðir vesturlanda eru að eldast. Þetta segir tölfræðin. Færri börn fæðast og við lifum lengur.  Sá hópur sem gengur að kjörborði er þar með að eldast. Áhrif eldri borgara \ gamla fólksins er ekki að sama skapi að aukast.  Hvers vegna? 

Það sem mig langar að segja með þessum fáu orðum mínum í dag er að ég hvet og skora á fólk 60 ára og eldra að stofna stjórnmálaflokk.  Þetta yrði pólitískt breiður flokkur allt frá hárauða vinstri litarins til dökkbláa hægri litarins. Fólk sem er að detta inn á eftirlaunaaldur á að hafa samfélagsleg áhrif í samræmi við reynslu sína, framlag og fjölda.  Það er bara svo!

Ég sakna radda fullorðna fólksins í samfélagsumræðunni. Hvar eruði?   Lát heyra í ykkur. Látið ekki reynslulitla pabbastráka og buxnastelpur ákveða fyrir ykkur. Ákveðið sjálf. Hættið ekki að byggja samfélag þegar eftirlaunaumslagið berst fyrsta daginn með lágkúrulegu eftirlaununum ykkar.  Pouty

Gaman væri að sjá þetta afl við næstu kosningar rúlla upp atvinnustjórmálamönnunum.


Ást

Om mig...

Att älska är allas realitet

- att bli älskat är allas dröm


Att älska är att vara rädd om
- att älska är att skydda

Att älska är att vara blind på sig själv
- att älska är att se vad man vill se

Att älska gör mig inte alltid till bästa domaren
- att älska sätter mig ganska ofta på domarplatsen

Att älska är att känna sig levande
- att älska gör oss sårbar


Bregðu bara fæti fyrir náunga þinn, það er allt í lagi, hann getur hvort eð er ekki slegið til baka

Á einum stað í Jóhannesarguðspjalli standa þessi nú sönnuðu orð sem vakið hafa ónot, kvíða, flökurleika og hræðslu innra með mér. Því oftar ég les þau, þeim mun sannari upplifi ég þau og sorgin brýst fram. Þessi orð eru hluti guðspjallstexta 6. sunnudags eftir páska:

Þeir munu gera yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.  [Jóh. 16:2-3]

Fyrst setur mig orðlausan. Ég stari á orðin og er að velta því fyrir mér, hvernig í ósköpunum getur nokkur orðað tilfinningar, reynslu og ótta með þvílíku innsæi. Það liggur við að maður líti umhverfis sig og sjái til hvort einhver sé að kíkja, hvort einhver sé að fylgjast með. Besservisserar heimsins virðast alltaf vera syndlausastir, hróðugir yfir afburðum sínum, lærdómi og samfélagsstöðu. Hinsvegar gerir blinda þeirra þeim ókleyft að sjá neitt í myrkri síns heims, myrkri tilfinningalegs doða og skorts á tilfinningu fyrir hinu mannlega. Orðum guðspjallsins er snúið til þeirra sem eiga að leiða, þeirra sem hafa komið sér í efstu þrep samfélagsins, hin efstu þrep hins andlega og siðprúða mælikvarða. Blindan sem þessir aðilar líða af gerir þá að sorglegum merkisberum hins göfugasta, hryggðarmerkjum hins upplýstasta og hræddum og ráðalausum fulltrúum hinnar dýpstu visku.

Hvað er að?  Já, hvað segir guðspjallið? Orð þess eru skír og lifandi og án alls vafa. Þau eru í senn áminning, aðvörum og hróp á viðbrögð.  Hver reisir fallna reyrinn? Hver beygir sig og annast hinn minnimáttar?  Hver á skilyrðislausan kærleika og fer ekki í manngreinarálit?  Hver getur fyrirgefið? 

Sá sem ekki á fyrirgefningu í hjarta sínu, umburðarlyndi og skilyrðislausan kærleika. Þann sem skortir trú á hið góða og er langrækinn, hatar og er fullur ótta - hann hvorki þekkir Guð eða óttast hann. Sú manneskja, hversu háttupphafinn hún er ekki Guðs, hún hefur dæmt sig út í ystu myrkur óvinarins og er ætluð þarvist um allan aldur. Iðrun, fyrirgefning, óttaleysi og kærleiki er hinsvegar gjafir Drottins, gjafir sem gefa djörfung og elsku á því sem er gott.

Bregðum ekki fæti fyrir bróður eða systur sem haltrar, bara vegna þess að það er svo létt að fella þann einstaklinginn. Styðjum heldur og liðsinnum.


Flottur forsetabíll

Mér finnst mikill sómi af þessum "nýja" forsetabíl og að herra Ólafur Ragnar forseti skuli hafa fengið hann til afnota á embættisvegum.  Þetta er fjarska fínn bíll og glæsilegur. Synd að gamli bíllin frá Roosevelt forseta Bandaríkjanna komst aldrei til landsins, en þessi bíll er ekki síður glæsilegur. Þjóðhöfðingjar Dana og Svía notast, svo að mér sé kunnugt, við svona gamla virðulega kerrur Rollsar í Danmörku og svo gamlir þýskir og bandarískir bílar hérna í Svíþjóð.  Það er stíll yfir þessu!

Vonandi fáum við að sjá þennan bíl í notkun af og til.  En eins og ég segi: Það er sómi að þessu. Krónum er fleygt í svo mikla þarfaleysu af stjórnvöldum, að ég held að kostnaður við endurbyggingu bílsins sé smámunir og þar að auki vel varið. Bravó!

 


mbl.is Fyrsti forsetabíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stutt falleg saga á degi aldraðra (Uppstigningardegi)

Ásta er 81 árs. Hún á afmæli í dag. Enginn veit um það, en í dag hefur hún gert sérstaklega fínt. Með því að hún hefur sett lítinn dúk með ísaumuðum blómum í sumarlegum litum á matborðið sitt, hefur hún gert daginn lítið eitt örðuvísi. Hún hefur tekið fram frosna köku og kveikt á kaffivélinni. Græni stóllinn við stofugluggan bíður hennar eins og venjulega. Hún tekur með sér bolla með kaffi og hálffrosnu kökusneiðinni á disk og sest við gluggan. Úti leika börn í stórum hálftómum sandkössum af sandi. Ásta lokar augunum. Dagarnir hafa orðið svo margir. Hugsanir hennar bera hana hem til barndómsáranna. Litrík röð mynda, bjartra minningarbrota og henni finnst eins og hún þekki ylminn af nýsprottnu grasi, blómskrúði og hlýjan blæ á kinn. Ljósblár sumarkjóll, lágir skór, hvítir sokkar og band í hárinu. Nýtýndur túnfífill kítlar eyra hennar og safinn úr stilknum klístrar lítið eitt hárið. Hveru dýrðlegt er ekki að vera til. Hún kastar sér í grasið, á fagra foldina undir heiðum Guðs himni. Hún er svo undurlétt, létt eins og fjöður. Nei, ekki einusinni fjöður er svo létt. Hún hugsar til koddanna sinna, og hvernig dúnninn hefur stundum fest i hárinu hennar.

469-herbstaepfel

Það er hringt á dyrabjöllunni. Eða? Jú, hún er næstum því alveg viss, en hún á ekki von á neinum í veisluna sína, það komu engir lengur. Það var bara hún eftir, enginn kom lengur, það voru engir lengur til. Hún reisir sig og gengur fram til dyranna. Jú það var einhver þarna fyrir utan, hún heyrir raddir fólks. Hún oppnar dyrnar gætilega, vonarfull, hún finnur til beygs. Hún kíkir fram á ganginn. Um leið sér hún að dyr nágrannans lokast og raddirnar hverfa að baki dyranna.

Hún heyrir greinilega fólkið tala, þar sem það hafði komið sér fyrir í herberginu handan stofuveggsins hennar. "Þau komu ekki til mín" hugsar Ásta. "Ég heyri í þeim og sest bara aftur í græna stólinn". Hún sest í stólinn og drekkur smá kaffi og tekur smá köku. Henni finnst sem hún hafi félagsskap af fólkinu sem hún heyrir óminn af. "Ó, hvað þau tala!" hugsar hún glöð.  Svo verður Ásta þreytt, orðin frá gestunum byrja að verða fjarlægari og fjarlægari. Hún ákveður að draga sig í hlé, draga sig úr afmælisveislunni sinni. Það er gott að geta smogið svona burt án þess að eftir því sé tekið. Á náttborðinu standa túnfíflarnir hún týndi í garðinum í vatnsglasi.  Þeir hafa tekið að hengja haus, þei fá ekki rétta næringu, þeirra tíma er lokið. Á morgun hanga þeir örugglega niður frá barmi glasins. "Öllu er búinn einhverskonar endir" - segir Ásta og horfir á túnfíflana í glasinu áður en hún leggur sig á koddann. Hún lokar augunum og byrjar að upplifa friðinn...


Valborgarmessa (í Svíþjóð)

Núna í kvöld fagna Svíar afmæli Carls XVI Gustafs [Carl Gustaf Folke Hubertus] konungs. Hann er 62 ára í dag. Reyndar held ég að Svíarnir séu ekki að flippa hans vegna, því í dag er hin svokallaða Valborgarmessa. Kæmi mér ekki á óvart ef einhverjir grannar kæmu við og spurðu hvort við ættum blandþeir sem ég sá í lyftunni í dag höfðu bara keypt sprittið....  og ekkert bland. Eða kannski eru þei óheflaðri og reyndari í drykkjunni en ég!  Hver veit. Nóg hefur fólkið að minnsta kosti keypt af búsinu. Ástæða fyllerísins er sumarstemningin sem hlaupin er í Svíana, Valborgarmessa er "hálfur frídagur" hér og svo er 1. maí á morgun. Svo kemur helgin eftir "klämdagen" sem er föstudagur (og flestir hafa tekið sér frí á).  Svo þetta er ein heljarinnar sukkfest hérna.  Wink   Svíar eru að vakna til lífsins.

En:  Til hamingju með kónginn! hipp hipp húrra!Sweden-carl16gustaf


LSD

Albert Hofmann [11.01.1906-29.04.2008], faðir LSD-sins er allur, 102 ára að aldri. Hann hefur farið á síðasta trippið og er floginn handan alls hugsanlegs og óhugsanlegs. Hann er gersamlega "off", "gone with the winds", "blasted". Hann hefur sannarlega tekið "pokann" sinn og hafið sig upp á heimagerðum vængjum dauðans. 

Það er erfitt að hugsa til þessa manns með sérstöku þakklæti, en auðvitað var það ekki hann sem þvingaði fólk að taka þá ólyfjan sem hann fann upp, þó í verulega mildari formi en síðar varð.

Ítarlegar:  http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=765735

RIP


Málþing um kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi

Í dag stendur Reykjavíkurprófastsdæmið hið eystra fyrir málþingi um mannréttindi; "Mannréttindi í heimi trúarinnar". Kirkjan hefur löngum gengið undir merki hins kristna frelsis einstaklingsins. Með "kristna frelsi einstaklingsins" á ég við að það að höndla mikið frelsi er jafn erfitt og að hafa fullt málfrelsi. Því fylgir ábyrgð. Mikil ábyrgð, eins og nokkrir bloggarar hafa fengið að reyna. Málfrelsinu eru settar skorður. Einmitt þessar skorður gera okkur það kleift að vera frjáls að því að tjá okkur. Þessar skorður kallast mannvirðing. Frelsið í hinum kristna heimi er komið fyrir Krist. Segir ekki postulinn Páll: "Til frelsis frelsaði Kristur oss" [Gal. 5:1].  Svo einfallt er það fyrir okkur þessi sem hafa trú í hjarta. Kristur frelsaði ekki bara heiminn frá eilífum dauða að veraldarlíf loknu, heldur kenndi hann okkur hvernig við gætum upplifað forgarða himnaríkis þegar í jarðnesku lífi okkar. Með því að vera kristinn, lifa sem sá sem hefur verið mikið fyrirgefið, fyrirgefa, vera umburðarlyndur, ei þrætugjarn og gefa kærleika án skilyrða. Jafnvel til þeirra sem eiga erfitt og eiga ekkert sameiginlegt með okkur - fyrir utan að vera Guðs börn.

"Berið hvers annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists" [Gal. 6:1]

Mannréttindi eru því miður ekki allra. En lítum okkur nær. Í hverju felast mannréttindi í dag í nútímasamfélagi okkar? Öll höfum við heilbrigðisþjónustu, hreint vatn, mat og menntun. Spyrji þú einhvern á götunni í hverju mannréttindi felist verða svörin mörg, en upp úr munu þó vissir málaflokkar standa. Ég held að sá stærsti snerti helst "mannvirðingu". Að geta ekki notið virðingar, þrátt fyrir allt. Að manngildið skolist ekki niður við að einhver hafi misstígið sig, að einhver hafi tapað tökunum á drykkju, hafi lagst í læknadópið, tapað burt allri sýn á fjármál sín og fjölskyldunnar og sólundað peningum foreldra eða vina o.frv.  Er þetta spurningin að fullkomnunarþörf nútímans, hvítþvegnu meðborgarar okkar og eftirsóknarverðir staðlar í sambandi við frómheit og frelsi verða okkur ásteytingarsteinar.

Málþing Eystra prófastsdæmisins í dag er þarft. Vonandi leiðist það af ávöxtum Andans heilaga sem eru kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi - og síðan að niðurstöður málþingsins verði til að auka vægi þessara göfugu eiginleika í sýslu og framkvæmd þeirra sem áhrif hafa og hafa haft á líf fólks nær og fjær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband