Færsluflokkur: Menning og listir

Nekt - eftir kúnstarinnar reglum

Fyrir fjórum árum sat ég námskeið um list endurreisnarinnar við Stokkhólmsháskóla. Þetta var sérlega skemmtilegt og fróðlegt námskeið sem hafði fjöldann allan af broslegum nálgunum að listinni, fegurðarmati þess tíma sem var til umfjöllunar og síðan en ekki síst sýn og kröfu kirkjunnar sem eins helsta styrkveitanda og vinnuveitanda i listabransanum um frómheit (þegar það átti við). Spurningin um nekt og fegurð frjálslega vaxinna kvenna, nefstórra harðsoðinna manna eða fjarska metrósexuella einstaklinga, þar sem kyngreining myndefnisins var med eindæmum erfið. 

rubens58 

- Peter Paul Rubens (ca 1639) "Þrjár hefðardömur"

Skemmtileg umræða um kynfæri karla og kvenna var meginþema eins fyrirlestrarins - eða réttara sagt aðfara frómra einstaklinga í að mála yfir, hylja og eða hreint og beint skrapa burt kynfæri listasögunnar í endurreisnarlistinni. Greinilega sáu ekki allir listina og hið fagurfræðilega, heldur var hugur þeirra heltekinn af saurugum þönkum og því varð að hylja.  Þegar Michaelangelo hafði málað stærsta hluta þaks og gaflveggs Sixtínsku kapellunnar í Páfagarði, fannst mörgum nektin vera yfirdrifin, svo hann fékk víða skella fáránlegum dulum hér - og aðallega þar. Enginn sagði neitt um yfirmáta vöðvastæltu konurnar sem höfðu brjóstkassa eins og menn á sterum og framhandleggi á stærð við lærisvöðva á stæltum karlmanni, eða voru hárlausar með öllu "þarna niðri", nei öllum var sama um það. 

180px-David_von_Michelangelo 

Michaelangelo Buenorotti (1501-1504) "Davíð"

Fyrirlesarinn, gestaprófessor frá meginlandi Evrópu, benti okkur á margt áhugavert annað sem birtist við listsköpun endurreisnarinnar. Hún gaf dæmi t.d. um hina frægu styttu Michaelangelos Davíð (sem stendur á Ráðhústorginu framan við Palazzo Vecchio) í Flórens. Davíð þar sem hann stendur stoltur eftir að hafa slöngvað risann Goliat er, eins og hún sagði ekki umskorinn. Vissulega var Davíð ein aðalhetja Gyðinga og Gyðingur í "húð" og hár; en ekki forhúð.  Hann var umskorinn. Í því meðal annars lá sáttmáli Guðs og Ísraelsþjóðar Gamla testamentisins, að öll sveinbörn skyldu umskerast á áttunda degi.  Á styttu Michaelangelos er Davíð ekki umskorinn.  Var þetta fúsk hjá Michaelangelo eða með ráðum gert? Hver voru fegurðarídeölin? Það sem er ennþá fyndnara er: Að á þakmálverki Michaelangelos er Adam ( í sköpunarmyndinni í þaki Sixtínsku kapellunnar) með nafla.  Og þá getur maður spurt sig:  Hvers vegna í ósköpunum er hann með nafla?

adam

Michaelangelo Buenorotti (ca 1509) "Sköpun Adams"


Geðveiki og listamenn

Í "listaheiminum" í Stokkhólmi fer nú fram hálfskrýtin umræða. Hvað er list og hvað telst ekki vera list?  Kannski þörf umræða, svo lítið seint á ferðinni í þessu tilfelli, en ágætis hressing í vetrarskammdeginu. Lífleg skoðanaskipti hafa átt sér stað meðal listamanna og þeirra sem styrkja listaskóla og einstaklinga til listsköpunar og listnáms. Síðast en ekki síst hefur Stokkhólmsborg komið að málum þar eð afleiðingar þær er listaverkið hafði, urðu til ónauðsynlegs útgjaldaauka og settu sjúkrafluttningamenn í hættu þar sem ekið var með bláum ljósum í gegnum erfiða umferð borgarinnar. 

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=1298&a=877532

liljeholm 

Þetta gerðist: Á miðvikudag í síðustu viku gekk Anna Odell nemandi á þriðja ári við Konstfack listaháskólann út á Liljeholmsbrúnna. Þar lét hún eins og brjáluð væri, reif af sér klæðin og fleygði yfir brúarhandriðið og gerði sig líklega til að fylgja á eftir. Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir á staðinn. Hún barðist um á hæ og hnakka mót lögreglu, en að lokum tókst að handsama listaskólanemandann og var hún flutt til Sankti Görans sjúkrahúsið. Þar barðist hún enn frekar um og varð loks að gefa henni róandi lyf.  Síðar gerði hún læknaliðinu grein fyrir að hún hefði verið að framkvæma "gjörning" á Liljeholmsbrúnni og þetta væri hluti af "listagjörningi" sem hún stæði fyrir sem nemandi við Konstfack.

Þannig var það. Núna brenna línur Konstfackskólans því fólk sem starfar með geðsjúka, eða berjast við slíka sjúkdóma hafa látið heyra í sér. Þetta athæfi Önnu Odell hefur vægast sagt mælst ILLA fyrir og hafa borgarfulltrúar verið kallaðir í umræðuna. Kostnaður við "handtöku" och "meðferð" Önnu Odell er talinn hafa kostað næstum því 12 000 sænskar krónur eða um 170 000 íslenskar krónur (á genginu eins og það er í dag kl. 11:03).  Lögreglan hyggst kæra Önnu Odell fyrir ofbeldi mót lögreglu. Deildarstjóri geðdeildar Sankti Görans sjúkrahússins, David Eberhard, hefur sagt sitt álit á gjörning Önnu Odell og gagnrýnt að þetta geti gengið inn í nám nemenda við listaháskóla. Hann sagði athæfið vera skammarlegt mót þeim sem virkilega eru veikir og niðurlægjandi. Hann sagði athæfið ennfremur sóun á almannafé og gagnrýndi stúlkuna fyrir að reyna að bíta starfsfólk, slá og hrækja á það. http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=1298&a=877532

Olof Glemme, sem er í forsvari fyrir þá deild Konstfack sem Anna Odell er í námi við ver "gjörninginn" og segir að hún hafi ekki gert neitt rangt!

Skólinn sjálfur hefur gefið frá sér fréttatilkynningu: http://www.newsdesk.se/pressroom/konstfack/pressrelease/view/konstfack-paaboerjar-intern-utredning-kring-studentprojekt-268012

Þessi gjörningur og aðrir sem nemendur skólans hafa staðið fyrir, hafa reitt marga til reiði. Spurning er hvort hina látlausari listatúlkanir eigi betur við í næstu fjárlagagerð eða hvort listirnar eigi að fá að "spora úr" í taumleysi og bitna á þeim sem minna mega sín, í þessu tilfelli geðsjúkum?


Tímaskekkja = heiðurslaun listamanna

Niðurskurður í heilbrigðiskerfi, auknar gjaldaálögur og óbeinir skattar og margt fleira sem við finnum fyrir, en við áttum okkur ekki alltaf á. Þessir smáskattar hér og þar, þessi "opinberu gjöld" sem við höfum þegjandi tekið á okkur að greiða.  Nú þegar við, Íslendingar, eigum að greiða reikninginn fyrir leik hinna ríku, spilavítareikninginn er þörf á gagngerri skoðum á ÖLLU fjármagni sem rennur úr í og úr höndum ríkissjóðs.

Ég vil byrja á því að taka fram að röksemdafærsla mín snýst ekki að persónu neins listamanns. En ekki kemst maður hjá því að spyrja sig um fjárhag þessara listamanna og hvaða aðstöðu þetta fólk hefur áður en peningar eru teknir frá fátæka og skuldsattasta fólkinu í landinu, til þess að listamenn geti haft það enn betra. 

Ég á erfitt með að réttlæta greiðslu listamannalauna í ár. Þetta eru kölluð "heiðurslaun"!  Hvaða heiður er að því að taka á móti peningum fátæks fólks sem á hvorki til hnífs eða skeiða og er að missa íbúðirnar sínar, störfin sín og heilbrigði?  Hafa ekki flestir þessara listamanna sem nefndir eru til dæmis fengið Hina íslensku Fálkaorðu?  Er það ekki hæfilegur heiður? 

Flestir þessara listamanna þiggja eftirlaun rétt eins og aðrir Íslendingar. Margir þeirra taka stefgjöld af list sinni, afgreiðslur af sölu bóka og eða listsköpun. Í ofan álag tekur svo þetta fólk greiðslu fyrir ævistarf sitt.  Fékk Sigrún fiskvinnslukona Sigvaldadóttir greiðslu fyrir vel unnin störf á síldarárunum á Siglufirði sem færðu þjóðinni heim stórar fjárhæðir á sínum tíma, eða Þórarinn málmsuðumaður í Álverinu í Straumsvík, sem liggur sjúkur í lungum og illa skaðaður á húð eftir 30 ára starf?  Hvað fær Jóna Friðbjörns fyrir starf sitt í þágu barna og æskulýðs, en hún var kennari í 55 ár, þar af lengi sem leiðbeinandi launast vegna þess að hún bar hag heimabyggðar sinnar fyrir brjósti?  Hvað fær hún?

Listamannalaun eða "heiðurslaun" listamanna er tímaskekkja. Heiðrum fólk með lofi og með því að kaupa list þessara (ef ríkið hefur ekki þegar stutt listamennina með kaupum á listaverkum þeirra) og skrifum um þá í bækur og veitum orðu, en reynum að kunna okkur þegar illa stendur á fyrir ríkinu og sérstaklega fólkinu í landinu.


mbl.is 28 listamenn fá heiðurslaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Pang" og prestvígsluafmæli

Í dag hélt ég upp á 11 ára vígsluafmælið mitt.  Já, það eru 11 ár síðan ég prestvígðist af herra Ólafi Skúlasyni biskupi Íslands. Ég vann í kirkjunni frá 08:00-20:30 og er nýkominn heim.  Dasaður en ánægður. Það var gott að vinna í kirkjunni í dag og notalegt að fá að vera í Guðs húsi á þessum degi. 

Í kirkjunni er verið að sýna listaverk nokkurra nemenda listaskólans "Konstfack" hér í Stokkhólmi.  Sýningin er mjög umrædd og umdeild svo ekki verði meira sagt. Eru umræðurnar búnar að vera svo háværar að ákveðið var að bjóða fólki inn til samtals um listaverkin. Voru samankomnir listamennirnir, ég frá kirkjunni (sem prestur og listfræðingur) og svo góður hópur af gestkomandi sem vildi ræða sýninguna.

DSCF1650

Hluti listsýningar nemenda frá "Konstfack" í Stokkhólmi á St. Jakobskirkjunni.  "Umdeild list" eða list í umdeildu samhengi?

Niðurstaða fundarins varð að til er list sem verður að teljast innihaldsminni en önnur list. Listin er því (að mati flestra sem voru viðstaddir) óverðug fyrir kirkjuhúsið.  Þetta ræðst helst að skírskotunarþættinum og möguleikum listaverka til að setja sig í samband við kirkju og kristni. Fannst sumum listamönnunum að sköpunarfrelsinu vegið, um leið og aðrir viðstaddir töldu að þeim væri frjálst að skapa hvað sem þá lysti, bara ekki setja það i kirkjulegt samhengi.  

 Þetta var ekki lokaniðurstaða fundarins, en skemmtileg hugsun samt sem vekur enn frekari umræðu í framtíðinni.   :)


And there he glows

Gærdagurinn var langur og strembinn. Ekki beinlínis neinn hvíldardagur þótt hann eigi að kallast það sunnudagurinn. Ég var að vinna frá 08:00 til 20:00 og var orðinn hálfdasaður þegar ég er á leið út frá kirkjunni. Ég tvílæsi dyrunum, kanna hvort ég sjái bæði öryggiskerfisljósin kvikna og sný mér svo frá kirkjudyrunum og held af stað út í rökkrið.  Ég hafði ekki gengið nema nokkur spor þegar mér verður litið niður á litla þúst sem er sjálflýsandi í rökkrinu. Ég skoða þetta nánar og tek upp. Þetta var nýþung lítil stytta, sem ég held að sé úr gipsi. Það merkilega var að hún var máluð með sjálflýsandi hálfglæru efni. Svona leit hún út í myrkrinu:

DSCF1630

Eins gott að ég hafði digitalmyndavélina með mér.  Síðan hugsaði ég að styttan eyðilegðist ef það byrjaði að rigna, svo ég stakk henni í pokann hjá mér og hélt áleiðis heim.  Þegar heim var komið sá ég að undir hana var skrifað veffang www.stillalive.eu .  Fór ég á netið í forvitni minni og komst þar að raun um að vegfarendum hefði verið ætlað að taka þessar styttu til handagagns og aðrar styttur (29stk) sem komið hafði verið fyrir víðsvegar um Stokkhólm. Svo nú er ég alsæll eigandi "Glóa" sem er sjálflýsandi stytta úr gipsi, málaður með sjálflýsandi lakki. Voðalega "kitsch"!

DSCF1632

(svona lítur "Glói" út að degi til)


Pulchritudo contra dolorem

Ég rakst á stutta grein um tilraunir sem Marina de Tommaso prófessor i taugalækningum við háskólasjúkrahúsið í Bari á Ítalíu hefur verið að gera. Marina hefur verið að mæla taugaviðbrögð fólks sem hefur fengið sársaukaframkallandi straumboð í líkamann. Þegar fólkið hefur svo verið að ná sér eftir hina óþægilegu sársaukahrynu, hefur fólkinu verið sýndar myndir af listaverkum frá hinum ýmsu tímabilum listasögunnar. 

Niðurstaða Mariun Tommaso prófessors í Bari á Ítalíu er sú að þeir þátttakendur í tilraun hennar sem fengu að sjá "fallega" list voru fljótari að ná sér en þeir sem fengu að líta það sem af rannsóknarteyminu álitið var "ljót" eða "ekki falleg list".

Þá vaknar spurningin:  Hvað er falleg list. Mörg listaverkana sem töldust til hins síðarnefnda hóps listaverka "ljótleikans" eru meðal hinna frægari kúnstarinnar verka og flest öll skreyta sali hinna frægustu listasafna heimsins. Hvað er þá að!  Er verið að hengja ljóta list upp í sýningarsali um allt?  Nei, sannarlega ekki. En spurningin stendur þó ennþá: Hvað er "falleg list" og hvað ekki?  Getur verið að í hinni einföldu fegurðarskynjun séum við bundin því sem stendur okkur nærri í umhveri okkar, það sem auðskiljanlegt er? Getur verið að þá er við reynum að endurskapa á striga, í stein, málm eða vefnað það sem okkur finnst fallegt að niðurstaðan verði auðmelt og aðgengileg list sem krefst minna af skynjunarfærum okkar og heila en list sem er meira abstrakt og bundin ókunnuglegri fomum?  Ég held það reyndar.  Ég held að hér séum við að nota aðrar skynjunaraðferðir við nálgun listarinnar en þegar við til dæmis göngum gegnum salarkynni sem full eru af verkum Nicolas Poussin, Michaelangelo, Louis Le Vau eða okkar Bertels Thorvaldsen en þegar við þurfum að beita öðrum aðferðum við að njóta og nálgast verk Ólafs Elíassonar, Neo Rauch, Paul Klee eða Frida Kahlo.  Það er því ekkert óvenjulegt að viss tegund listar, veki notakennd meðan önnur list hrærir í okkur og vekur sterkar tilfinningar af annari tegund en sú fyrri.

Þessi umræða er eilíf, rétt eins og listin. Öll list er lofgjörð til sköpunarinnar, meðvitað eða ómeðvitað. Þetta er leikur, trúlkunarþrá, sköpunarþrá. Þetta er leikur með liti og form, dýpt och nálgun. Svo lengi listin talar til okkar, er hún lifandi, svo lengi hún er túlkandi, svo lengi hún hefur mál, er hún eftirsótt. Listin getur verið harmónísk í sér eða skapað þessa eftirsótta samhljóm sem við sækjum svo í. Sumir eru úti eftir ljúfleika, mildu umhverfi - vé í hversdeginum, meðan aðrir vilja þversagnir, sterkar andstæður og ákveðin form.  Þetta vekur tilfinningar og vellíðan. 

Flott hjá Marinu Tommaso að taka þetta upp og sýna enn fram á að umræðan fer í spíral, endurtekur sig en sækir þó fram.  


Þekkt andlit, gleymdir einstaklingar

Eftirmiðdaginn í dag fór ég á fyrirlestur í listfræði í Nationalmuseum hérna í Stokkhólmi. Það var prófessor Elizabeth Cropper sem fjallaði um Parmigianino´s Antea: A Perfect Beauty in context. Fyrirlestur hennar vakti spurningar hjá mér um hina þúsundir málverka, teikninga, höggmynda og síðast en ekki síst ljósmynda sem sýna fólk, andlit sem á sínum tíma voru þekkt, dáð og þurftu ekki kynningar við, en í dag eru gleymd. Þetta er kannski hlutskipti flestra, að falla í duftsins gleymsku. Mér varð hugsað til Parísar Hilton, Marilyns Monroe, Naomis Campell, Toms Cruise, Ingridar Bergman...   Þegar allar forgengilegar kvikmyndir og tímarit verða horfin gleymskunni að bráð. Munu þessi andlit standa sem vitnisburður fegurðar, helgi lífs, vits og þekkingar?  Standa þessi andlit sem vitnisburður hins góða, vitræna og sem horfnir holdgervingar liðinnar tíðar - eftirkomendum okkar til þekkingar?  Eða munu þessi andlit standa eftir sem draugar fortíðar nokkuð sem verður þekkingarlausri túlkun framtíðar að bráð?

Vert umhugsunar


Fánaborg hvað þá!

Fánaborg! 

fanaborg 

Þetta er nú bara einn fáni. Fánaborg er síðast þegar ég vissi þegar mörgum fánum er safnað saman í þéttri uppsetningu fánastanga - öðrum kosti að gerð sé svona "fánaborg" með því að hvirfla saman ca. 5 fána. 


mbl.is Íslensk fánaborg í Aþenu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðhúsbruni í nótt

Jamm og það brennur og brennur...  Slökkvuliðsmennirnir segja að logarnir hafi verið um 5 metra langir út um gluggana á þriðju hæð ráðhússins. Svo virðist sem vestri hluti hússins hafi skemmst mikið í eldinum sem herjaði á húsið frá því um tvö í nótt fram til að tókst að slökkva eldinn kl fimm í morgun. Húsið sem telst til einna af Stokkhólms merkari minnisvörðum um hin svokallaða "nationalrómanríska" stíl (eða sögurómantík) er byggt eftir teikningum og fyrirsögn Carls Westmans arkitekts. Bygging hússins hófst 1909 og var það svo til fullbúið árið 1915.

Radhuset

Húsið sem stendur á Kungshólmanum er fyrirmyndardæmi um velheppnada tilraun til endursköpunar á húsagerð stórveldistíma Svíþjóðar.  Skemmdir eru taldar miklar og þriðja hæð i vestra hluta hússins gjörónýt sem og þakið. Vatns- og sótskemmdir eru sömuleiðis umtalsverðar.  

Frown 


Upplandsgatan þrjátíuogeitthvað

Var á labbi með Raquel og Mikka núna í gær. Ég hafði lengi vitað af þessari dásamlegu "jugend" eða "art nouveau" hurð. Hún er listilega gerð í reisulegu húsi hérna við Upplandsgötuna í Stokkhólmi. Það að hún hafi fengið að standa óáreitt allt frá tíunda áratug 20. aldar, lifað af tvær heimstyrjaldir, offorsa og ómenningu, er alveg frábært. Hérna sést hún nýskröpuð og lökkuð með kristalskorna glerinu sínu sem virðulegur fulltrúi skreytiþ, ævintýra- og flúrstíls 20. aldarinnar.  Gjörið svo vel!

nazidörr


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband