Færsluflokkur: Menning og listir
29.4.2008 | 05:38
Henri de Toulouse-Lautrec
Ég hlakka svo til! Seinna í dag fer ég á Nationalmuseum og á nýopnaða sýningu a verkum franska expressiónistans Henri de Toulouse-Lautrec. Við erum nokkur stykki sem fáum leiðsögmann frá safninu og fáum einkaleiðsögn um sýninguna í næði - þetta verður svo spennandi. :) Hef bara séð stök verk eftir Toulouse-Lautrec i söfnum, en aldrei heila sýningu á yfir 40 málverkum.
Annars skín sólin hér í Stokkhólmi sem aldrei fyrr. Það er mistur eða hálfskýjað, erfitt að segja hvort er, en fallegt veður og 9°C núna (spáð 16°C í dag). Síðan fer mest af því sem eftir lifir af deginum í prófalestur - en nú fer að styttast í próf í kúrsinum um Pompeii. Best að vera vel undir það prófið búinn. Jæja, best að koma sér að skruddunum. Toodles...
28.4.2008 | 09:50
Mannræningjalist - listsköpun eða bilun?
"Alice im Wunderland" kallast þessi sýning eða "installation" eins og það er gjarnan kallað þegar listamenn hafa það ekki alveg á hreinu hvað þeir eru að sýsla með en vilja koma sínu á framfæri. Já, það er norski listamaðurinn Gorm Heens sem hefur endurskapað vistarverur Natascha Kampusch, þá er henni var haldið fanginni af manni rétt fyrir utan Vínarborg í Austurríki í 8,5 ár. Listamaðurinn vill reyna að endurskapa ekki bara vistarverurnar sem henni var haldið fanginni í, heldur þá "rómantík" sem "blómstraði" (skv. fjölmiðlum) milli þess sem hélt henni "fanginni" og svo Natöschu. (Það fylgir sögunni að hún hafi ekki litið á sig sem fórnarlamb þegar hún var frelsuð úr nauðunginni). Natascha mun hafa keypt húsið þar sem henni var haldið fanginni til að það yrði ekki notað í sambandi við ferðamannastrauminn og forvitið fólk.
Nú nú, hvað sem þessu líður þá er ég að velta því fyrir mér hvort við séum ekki komin illa langt frá því sem kalla má list. Hugtakið "list" á vissulega að vera svo opið sem listin sjálf, en hjálpi mér allir heilagir. Þetta er hreinlega alveg ga ga ga... Með í huga það sem heimsbyggðin hefur fengið að upplifa núna nýlega í heimspressunni varðandi þennan mann sem hélt konu fanginni í næstum 20 ár, gerði hana 7 sinnum ófríska og ættleiddi síðan nokkur börnin - nei, þetta hefur ekkert með list að gera. Fyrirgefið mér að ég segi það, en ég finn það ekki í hjarta mér að skíta út listhugtakið með því að kalla svona "gerning" list. Sorry, Gorm!
Hérna er hlekkurinn á netinu til heimasíðu Dagens nyheter: http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2206&a=764953
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2008 | 08:04
Óperuhús - tónlistarhús
Fyrir skemmstu var opnað í Osló nýtt óperuhús, eins og það er gjarnan nefnt - sem er með réttu fjölnota tónlistarhús. Mér var litið á teikningar og svo myndir af nýja húsinu. Hjálpi mér allir heilagir. Þetta líkist kofaskríflinu sem hýsi Hæstarétt Íslands. Langir þunglammalegir gangar, þröngar leiðir og kulda stafar af ópersónulegu yfirbragði hússins. Ef hugsunin er að listsköpun í útliti hússins hefur ekki átt að taka neitt frá tónlistinni, þá hefur þeim tekist lofsamlega, því húsið gefur ekkert af sér. Það verkar ískallt, þrúgandi og hverfst í hálfgerðri skotbyrgis- eða neðanjarðarsaggabyrgissköpunarmynd. Hátíðleiki sem ég hef alltaf tengt því að fara í óperuna eða á tónleika, sú stemning og virðing sem ég hef fyrir því að fara á listviðburð hverfur með öllu. Skoðið myndirnar:
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2206&a=761039
21.4.2008 | 08:14
Safnastuldur á þjóðminjasafni
Sit hérna og er að spá hvað hafi orðið af mörgum þeim merkilegu, fallegu lykilgripum sem hurfu af Þjóðminjasafninu í Bagdad við upphaf innrásar Bandaríkjamanna (og þeirra stríðsvina) inn í Írak og þar með Bagdad? Þetta er ekki spurning um nokkrar smádollur eða krukkur, heldur er hér um að ræða skipulagt rán. Stuldur á mörg þúsund gripum af ýmsum stærðum og gerðum, flestir af stórmenningarsögulegu gildi fékk næsta litla umfjöllun. Safnstjórar víða um heim hafa leitast við að taka saman höndum og leita uppi þessa gripi, en því miður virðist hið mesta hafa horfið á svartamarkað list- og forngripasala. Alltaf er til fólk sem vill kaupa þýfi og illa fengna hluti. En afrakstur þessa samstarfs hefur verið lítið. Reyndar hefur verið bannað að kaupa og selja þýfið frá þjóðminjasafninu í Bagdad, vöggu vesturevrópskar menningar. En raunin er þó sú að mikið af því sem stolið hefur verið hefur liðið hefur verið skemmt, breytt, eyðilagt og sumt er illþekkjanlegt aftur. Stöku sinnum skýtur lítil stytta eða lítill baukur úr silfri upp kollinum á ebay.com eða einhverjum slíkum netmarkaði. Það er ekki erfitt að verða sér út um svona gripi. En það er ólöglegt. Það er siðlaust og hreint út sagt fávitalegt. Gripir á söfunum, s.s. þjóðminjasöfnum eru þar af sérstakri ástæðu. Þeir hafa skíra skírskotun til þess lands, þeirra menningar og sögu sem þjóðin á sína sjálfsmynd að þakka. Það er sagan þeirra og heimsins. Það getur verið listasaga, mannkynssaga, efnahagssaga, saga tungumáls, þjóðflutningasaga, saga veðurfars, trúar og jarðfræði. Sumir hlutir eru svo menningarsögulega mikilvægir að þeir eiga heima á þjóðminjasafni. Safni sem fræðimenn og almenningur á aðgengi að og allir geta fengið að umgangast þessa muni, sem þá eru í tryggri vörslu.
Grunur hefur verið allt frá upphafi stríðsins í Írak að árásarherir hafi átt stóran hluta að máli þegar rætt er um þjófnað einstakra muna af þjóðminjasafninu í Bagdad. Um það ætla ég ekkert að segja. Vissulega hafa margir gerst fingralangir þegar ringulreiðin var sem mest í þessari gömlu höfuðborg kalífanna. Það er ljóst að aukið alþjóðaframtak er engin hugmynd, heldur skylda. Hér þarf að gera eitthvað til að stöðva ólöglega listaverkasölu. Hvernig liði okkur ef til dæmis kápa Jóns Arasonar, eitthvert af altarisklæðunum frægu, litla fræga þórslíkneskið eða kaleikurinn góði væri boðinn upp á ebay.com eða dúkkaði upp á skrifstofu einhvers japansks viðskiptajöfurs. Eða sjá einhvert handrita okkar á uppboði hjá Christie's, Bukowskis eða Sotheby's?
15.4.2008 | 19:41
Alexander vs. Darius
Mér bara datt svona í hug að skoða þessa litlu mynd sem ég hef hérna efst á blogginu mínu, sem sýnir Alexander mikla á hinni frægu mósaíkmynd úr "Húsi fánsins" í Pompeii [VI.12.2]. Sjálf frummyndin fannst í húsi í hinni frægu rómversku borg Pompeii sem liggur lítið eitt suð-austur af Napólí. Litla Pompeii hvarf undir ösku og vikur 24. ágúst árið 79 e.Kr. Ekki er vitað hvað margir fórust í þessu sögufræga eldgosi Vesuvíusar, hins tignarlega eldfjalls sem hefur svo oft í sögu Ítalíu látið kræla á sér. En það var þetta sama gos sem kaffærði borgina Herkulaneum. Ýmis smærri þorp urðu einnig Vesúvíusi að bráð. Erfitt er að áætla hvað margir fórust í þessu sögulega gosi, en af frásögnum Pliniusar hins yngri, virðist Vesuvíus hafa gefið fólk viðvararnir í formi skjalfta, uppþornun vatnsbóla og minniháttar óróleika í náttúrunni. Svo virðist sem margir hafi yfirgefið borgina en margir samt þraukað í von um betri tíma, vanir óróleika á svæðinu. Svo gerist hið hálfóvænta, toppur Vesuvíusar þeytist af í einum óskapar tryllingsham sem fjallið tekur á sig. Þetta gerðist rétt fyrir hádegi 24. ágúst 79 e.Kr. Plinius hinn eldri mun hafa lýst þessu gengdarlausa strók sem myndaðist eins og trjákrónu á furu. Létt aska tók að falla um allt og hurfu þá margir frá Pompeii. En einhverjir þráuðust við. Þessir fórust allir síðan í því jarðfræðifyrirbæri sem kallast pyroklastisk flóðbylgja. Það er þegar gosefni sem þeyst hefur upp í upphafi goss, tekur að falla með yfir 80km/klst hraða eins og flóðbylgja niður með hlíðum eldfjallsins. Hiti þessara agna er um 1000°C. Orðið pyrolastisk flóðbylgja kemur úr grískunni: [pyros] sem merkir eldur og [klastos] sem merkir sundraður, brotinn. Semsagt tætt yfirhituð eldfjallaaska þeyttist niður hlíðar Vesuvíusar og með ógnarhraða gereyðandi öllu lífi, trjám, dýrum og mannfólki. Sennilega má áætla að nokkur þúsund íbúar Pompeiar hafi látist með þessum hætti, annað hvort kafnað í öskufallinu, eða hreinlega brunnið upp. Á nokkrum á innan við tveimur dögum var Pompeii og grannborgin Herkulaneum gersamlega horfnar undir margra metra öskulag sem þó var mismunandi að gerð í þessum borgum og áttu sinn þátt í mismunandi varðveislu þeirra.
Ég byrjaði að segja frá mósaíkmyndinni sem einkennir bloggið mitt í dag (15. maí 2008). Hún var lögð í gólf húss þess sem kallast hefur Hús fánsins (House of the Faun). Talið er að mósaík-bitarnir séu um 1 til fjórar milljónir talsins og stærð upprunalegar myndar er 5,82 x 3,13 metrar. Myndin er byggð á málverki Philaoxenusar af Eretica (sennilega gerð um 300-310, meðan þessi mósaíkmynd er frá fyrstu öld f.Kr. Reyndar hefur orginalinn verið plokkaður upp og settur í ramma á safn, vegna þess hver ferðamenn sóttust eftir að taka með sér bita úr listaverkinu. Eftirmynd hefur verið komið fyrir í stað hennar á upprunalegum stað. Sjálft myndefnið skírskotar till orrustunnar við Issos þar sem Darius III Persakonungur og Alexander mikli Makedóníukonungur áttust við.
Þetta var þá útskýringin á "hausnum" á blogginu mínu.
Menning og listir | Breytt 16.4.2008 kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 20:37
Byzans - Mikligarður - Konstantinopel - Istanbul
Í síðustu viku stóð mér til boða að ferðast til Istanbul. Þarna er sænskt menningarsetur þar sem námsmenn og lengra komnir fræðimenn og svo menningarspírur aðrar hafa möguleika á að taka þátt í menningarverkefnum sem lúta að sögu kristni, kirkju, sögu Væringja í þjónustu Miklagarðskeisara og listasögu. Mér buðust meðmæli kirkjunnar sem ég hef verið að starfa í til fararinnar og svo svo lítill fararstyrkur (sýndarstyrkur) frá stofnun í Uppsölum. Þetta hljómaði allt svo vel. Ég var næstum því farinn að búa mig undir að hringja í foreldra mína í Reykjavík, þegar ljóst var að ég varð að hætta við öll áform.
En grunnurinn að þessum ferðahugleiðingum mínum var ljósmynd sem ég sá í myndaalbúmi kunningja míns sem hafði verið í heimsókn hjá föðurömmu sinni. Hún hafði sent hann í "menningarsögugöngu" og svo vildi heppilega til að hann hafði símann (með innbyggðri myndavél) með sér. Varð honum svo hugsað til mín þegar hann var staddur í kirkju einni á Gotlandi; Garde-kirkju. Myndin er afskaplega óskýr en samt nógu góð til að gefa smá hugmynd um hvað er á henni. Þeir sem eru kunnugir býsantiskri list, þekkja stílbragðið. Þessi veggmynd úr Garde-kirkju frá því um 1100 kveikti áhuga á að kanna sambandið milli tengsla Norðurlandanna og svo Miklagarðsríkis, eða Konstantinópel eins og það kallaðist þá. Nafnið Istanbul kom ekki fyrr en síðar og er afbökun á grískunni "eis-tan-polin" eða "inn í borgina". Hljómar það nafn reyndar svolítið eins og heróp... nóg um það.
Þessi tengsl urðu reyndar ljós fyrir löngu síðan. Hver man ekki eftir doktorsritgerð dr. Selmu Jónsdóttur listfræðings sem kallast Byzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu? Þá bók á ég einhverstaðar og hef haft gaman að glugga í hana af og til. Svo keypti ég bókina Från Bysans till Norden - Östliga kyrkoinfluenser under vikingatid och tidig medeltid - góð kaup og mjög fróðleg lesning.
Myndskreytingar í Gotlenskum kirkjum, byggingarlag og sögur, allt staðfestir þessi miklu áhrif. Síðan gerðist það að ég tók námskeið fyrir um einu og hálfu ári síðan, námskeiði sem fjallaði um byzönsk áhrif á norðurlöndum. Mér verður hugsað til litla bagalhúnsins "tábagalsins" sem fannst á Þingvallasvæðinu á síðustu öld (held ég). Hann er jú af sömu tegund og þeir sem biskupar grísku rétttrúnaðarkirkjunnar nota enn í dag.
Það er rigning úti. Regnið lemur hérna á gluggunum á íbúðinni og það er svarta myrkur. Fyrir 3 tímum gat maður séð niður til Lappkärret og Stóra skuggans. Núna sé ég bara glampa á dropana sem renna niður glerið. Mér verður hugsað til þessara tíma, þegar forfeður margra Svía (og jafnvel Íslendinga) komu frá Miklagarði með listamenn með sér, kunnuga menn sem fengu þann starfa að færa menninguna frá sínu heimalandi, þekkingu og verklag, liti og trúfræði. Auðgun menningar, víðsýnni hversdagur og mystík. Allt sem gaf lífinu dýpt og fegurð, spennu og heilagleika.
Regnið er farið að verka svæfandi á mig. Líklega best að leggja sig í bælið og "leggja augun aftur". Leitt að ég komist ekki til Istanbúl á námskeiðið, hefði orðið fyrsti Íslendingurinn að fá þetta tækifæri. En þeir taki skuld sem eiga. Góða nótt!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)