Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Emblems of mortality

Fann á fornsölu þessa litlu skemmtilegu bók um tákn fallvaltleikans. Bókin Emblems of Mortality - Representing by Numerious Engravings DEATH Seizing All Ranks and Conditions of People (1846) fjallar um eins og titillinn segir best sjálfur frá, hvernig dauðinn skerst inn í líf fólks á siðferðlegum ögurstundum í lífi þeirra - myndskreytt með myndristum gerðum eftir málverkum i domínikanaklaustri i Basel, Sviss.  Sú sem ég læt flakka hér heitir The Magistrate:

Death
"Og enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá."
[Préd. 4:1]
"Sá sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka, hann mun sjálfur kalla og eigi fá bænheyrslu"
[Orðskv. 21:13]
"Ræn eigi hinn lítilmótlega, af því að hann er lítilmótlegur og knosa eigi hinn volaða í borgarhliðinu, því að Drottinn mun flutja mál þeirra og ræna þá lífinu, er þá ræna"
[Orðskv. 22:22]

Eurovision: Framlag Svía, 2008

Svíar eru Eurovisíon proffsar. Það verður ekki frá þeim tekið. Hérna er framlag þeirra til Eurovision 2008 i Beograd (Belgrad) í Serbíu nú í maí næstkomandi.

Charlotte Perelli med Hero:


Ex libris 1

Att se och tänka med ritual - Kontraktrerande ritualer i de isländska släktsagorna (2005)

Áhugaverð bók fyrir þá sem eru áhugasamir um samfélagbundnar siðvenjur. Hér fjallar höfundur dr. Peter Habbe (f. 1964) sem starfar sem menntaskólakennari á sérlega greinargóðan og upplýsandi máta um hefðarhelgaðar siðvenjur svo sem þær hafa birst honum í gegnum fornsögur Íslendinga. Hann dregur fram fjölmörg dæmi um hvernig við getum þekkt þessar siðvenjur sögualdar og hvernig við í dag sjáum leifar þessara í útþynntu atferlismunstri dagsins í dag ár 2008. Skemmtilegt er að sjá hvernig hann tengir trúarstef í túlkun sína á þessu formi samningagerðar, þakkargjörðar, vináttuvísis, fóstbræðralags, gjafahefðar sem og kurteisi. Hin júridíska hlið þessara hefðarhelguðu siða tengir hann sögnum fornaldar, upphafi þjóðarinnar og svo hinum gömlu fjölskyldusögum íslendingasagnanna. Rit Peters Habbe ( 2005: ISBN 91-89116-79-8 ) er hluti af bókaflokknum Vägar till Midgård og telst vera 7. rit þess flokks. Áhugaverð bók fyrir fróðleiksfúsa um fornaldarsiðu og samningagerð. 


Barcelona

Ákvað í dag að ferðast til Barcelona í sumar.  Til hamingju ég.   Woundering

In God We Trust

  bene

Nú er hans heilagleiki kominn til Bandaríkjanna. Forsetinn George Bush og frú hans Laura tóku á móti Benedikti XVI á flugvellinum. Af hverju er páfinn að fara til Bandaríkjanna getur maður spurt sig?  Jú, sennilega er ástæðan sú að hvergi í heiminum eru trúmál rædd av eins miklum hita og innilega eins og í Bandaríkjunum. Kristnir teljast stærsti hópurinn meðal hinna ýmsu trúarbragða ríkjanna. Þar sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ekki grænustu glóru um hvað margir búa í landinu er erfitt að segja til um hversu margir tilheyra hvaða trúarbrögðum, því engin "hagstofa" hefur þessar tölur á hreinu. Fer það eftir ríkjum hversu vel er um svona statístíkk haldið. Í sumum ríkjum er ómöglegt að halda nokkurri fastri statístíkk um nokkurn skapaðan hlut þar sem flóttamenn og fólk í felum (jafnvel 2. og 3. kynslóð flóttamanna hefur aldrei skráð sig eða er "til") gefur síbreytilegar tölur.  En það sem "áætlað er" í þessu sambandi er að um það bil 224 milljónir séu "kristnar" í Bandaríkjunum. Um 25% af þessum eru rómversk katólskir. Maður skilur að páfinn skreppi nú yfir hafið og heilsi upp á sína, sérstaklega þar sem svo virðist sem fjöldi rómversk katólskra virðist vera sækja í sig veðrið. Rómversk katólska kirkjan (eða orðrétt: "hin almenna rómverska kirkja") á einnig mikilla hagsmuna að gæta í Bandaríkjunum. Fjárhagslegra hagsmuna sem og pólitískra.  Það má segja að á eftir hinum þremur risaveldum Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína - hefur Páfstóll einhver mest völd í heiminum. Katólska kirkjan þarf ekki einusinni að úttala sig um eitt eða neitt, það nægir að hún er þögul í afstöðu sinni gagnvart stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum (sbr. á Ítalíu eða Spáni).  Kristnir eru 2.1 milljarður af íbúatölu heimsbúa. Þar af er rómversk katólska kirkjan langstærst og kemur rétt á eftir fjölda þeirra sem tilheyra Islam (múslimarnir voru að skríða yfir tölu yfir fjölda rómversk katólskra fyrir stuttu).  Nú nú...  svo hefur páfinn sitthvað að spjalla við Bush forseta. Svo virðist sem rómversk katólska kirkjan hafi um þónokkuð skeið liðið af "kirkjusvimanum", það er að segja því að lifa utan hins raunverulega heims, heims okkar fólksins á götunni. Hún hefur sem og margar aðrar kirkjudeildir sem og autokefalískar (sjálfstýrandi þjóðbundnar kirkjur) svifið yfir hversdagsveruleikanum. Núna vill sennielga Benedikt XVI páfi endubæta tengingarnar og lyfta hversdeginum upp nær því er viðurkennt er í Páfagarði.  Í flestum öðrum kirkjum hafa kirkjudeildir "lækkað flugið" og mætt fólkinu á þeirra forsendum. Páfagarður fer þvert öfugt að. Gaman að sjá hvort 12.-14. aldar aðferðafræðin virkar enn í dag.   

Jæja, best að fara koma sér og vera ekki seinn á brautarstöðina...  endilega skoðið hvða þeir eru að bralla þarna suður í Róm; þeir hafa meir að segja útbúið okkur litla skjásýn inn í sinn heim: www.vatican.va


mbl.is Páfi kominn til Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alexander vs. Darius

Happy  Mér bara datt svona í hug að skoða þessa litlu mynd sem ég hef hérna efst á blogginu mínu, sem sýnir Alexander mikla á hinni frægu mósaíkmynd úr "Húsi fánsins" í Pompeii [VI.12.2]. Sjálf frummyndin fannst í húsi í hinni frægu rómversku borg Pompeii sem liggur lítið eitt suð-austur af Napólí. Litla Pompeii hvarf undir ösku og vikur 24. ágúst árið 79 e.Kr. Ekki er vitað hvað margir fórust í þessu sögufræga eldgosi Vesuvíusar, hins tignarlega eldfjalls sem hefur svo oft í sögu Ítalíu látið kræla á sér. En það var þetta sama gos sem kaffærði borgina Herkulaneum. Ýmis smærri þorp urðu einnig Vesúvíusi að bráð. Erfitt er að áætla hvað margir fórust í þessu sögulega gosi, en af frásögnum Pliniusar hins yngri, virðist Vesuvíus hafa gefið fólk viðvararnir í formi skjalfta, uppþornun vatnsbóla og minniháttar óróleika í náttúrunni.  Svo virðist sem margir hafi yfirgefið borgina en margir samt þraukað í von um betri tíma, vanir óróleika á svæðinu. Svo gerist hið hálfóvænta, toppur Vesuvíusar þeytist af í einum óskapar tryllingsham sem fjallið tekur á sig. Þetta gerðist rétt fyrir hádegi 24. ágúst 79 e.Kr. Plinius hinn eldri mun hafa lýst þessu gengdarlausa strók sem myndaðist eins og trjákrónu á furu. Létt aska tók að falla um allt og hurfu þá margir frá Pompeii. En einhverjir þráuðust við. Þessir fórust allir síðan í því jarðfræðifyrirbæri sem kallast pyroklastisk flóðbylgja. Það er þegar gosefni sem þeyst hefur upp í upphafi goss, tekur að falla með yfir 80km/klst hraða eins og flóðbylgja niður með hlíðum eldfjallsins. Hiti þessara agna er um 1000°C. Orðið pyrolastisk flóðbylgja kemur úr grískunni: [pyros] sem merkir eldur og [klastos] sem merkir sundraður, brotinn.  Semsagt tætt yfirhituð eldfjallaaska þeyttist niður hlíðar Vesuvíusar og með ógnarhraða gereyðandi öllu lífi, trjám, dýrum og mannfólki. Sennilega má áætla að nokkur þúsund íbúar Pompeiar hafi látist með þessum hætti, annað hvort kafnað í öskufallinu, eða hreinlega brunnið upp.  Á nokkrum á innan við tveimur dögum var Pompeii og grannborgin Herkulaneum gersamlega horfnar undir margra metra öskulag sem þó var mismunandi að gerð í þessum borgum og áttu sinn þátt í mismunandi varðveislu þeirra.   

9374 

Ég byrjaði að segja frá mósaíkmyndinni sem einkennir bloggið mitt í dag (15. maí 2008). Hún var lögð í gólf húss þess sem kallast hefur Hús fánsins (House of the Faun). Talið er að mósaík-bitarnir séu um 1 til fjórar milljónir talsins og stærð upprunalegar myndar er 5,82 x 3,13 metrar. Myndin er byggð á málverki Philaoxenusar af Eretica (sennilega gerð um 300-310, meðan þessi mósaíkmynd er frá fyrstu öld f.Kr.  Reyndar hefur orginalinn verið plokkaður upp og settur í ramma á safn, vegna þess hver ferðamenn sóttust eftir að taka með sér bita úr listaverkinu. Eftirmynd hefur verið komið fyrir í stað hennar á upprunalegum stað.  Sjálft myndefnið skírskotar till orrustunnar við Issos þar sem Darius III Persakonungur og Alexander mikli Makedóníukonungur áttust við.

Þetta var þá útskýringin á "hausnum" á blogginu mínu.


Helguvíkurver

Heldur hugvit en stóriðjuver. Hvernig kemur þetta út fyrir Íslendinga með hliðsjón af Kyoto-samkomulaginu um útslepp mengunar í heiminum?  Eru íslenskir sjórnmálamenn ennþá að tjalda til einnar nætur, byggja fjárhagsleg pappahús?  Er skammsýni íslenskra sjórnmálamanna svona mikil. Ætla þeir að koma Íslandi á alþjóðakortið sem ruslahaug annara landa (landa sem keppast við að losan við slíkan iðnað vegna skýrrar náttúruverndarstefnu, landa sem farin eru að meta grænu svæðin sín, baráttu mót mengun og sýn annara landa meir en skyndigróða)? 

Hvað gerist svo þegar (eins og gerist einatt um síðir) að álverð fellur og erlendir gjaldmiðlar verða okkur óhagstæðir í viðskiptum okkar? 

Ég bíð enn eftir þeim stjórnmálamanni sem segir einn góðan veðurdag: "Kæra þjóð. Við eru afskaplega skuldug. Við höfum farið illa að ráði okkar, tekið ráðum misvísra manna, gert landið að fórnarlambi kjördæmaskipanar, þingmanna sem ganga fram sér til frömunar og sínum æskustöðvum. Okkur þykir þetta leitt. Ég og forverar mínir á Alþingi höfum spilað illa úr spilum þjóðarinnar. Ég vil bæta fyrir þetta. Ég vil setja þjóðina meðal þeirra landa sem fremst eru í heiminum, viðurkennd fyrir áræðni, dugnað, hugvit um leið og þau eru umhverfisvæn. Þjóðarátakið sem við þurfum að takast á við snýst um samstöðu og traust. Við skerum niður óþarfa kostnað. Óþarfa yfirbygging er skorin burt. þeir sem setið hafa 15 ár á Alþingi eða lengur verða að leita sér að nýju starfi. Þeir geta ekki lengur gefið af sér, enda sennilega útbrunnir af áreynslu eftir svo mikið starf fyrir þjóðina.  Þeir fá eins og aðrir sem vinna við þjónustu, engin biðlaun, ekki frekar en kassadaman í Hagkaupum. Dómarar og fyrrverandi ráðherrar, ráðuneytisstjórar og yfirmenn ríkis og kirkju, fá eftirlaun til samræmist við meðal eftirlaun menntaskólakennara til dæmis.  Þeir hafa fengið góð laun og fríðindi embættistíð sína.  Kennarar og fræðarar skulu fá sumarfrí eins og aðrir starfsmenn vinnumarkaðarins. Skólaárið skal vera lengra fyrir alla. Menntaskólinn skal vera mest 3 ár, en hafa möguleika á að vera 2 ár (þegar snúið er til annars náms en háskólanáms).  Aðeins einn háskóli skal vera á Íslandi, Háskóli Íslands. Hans undirdeildir geta verið fjölmargar, en ein yfirstjórn. Vernda landið fyrir stóriðju og öllum framkvæmdum sem til langtíma litið verða til að eyðileggja og gera landið verðminna. Framtíðin mun borga fyrir náttúruauðlindir sem óbyggð og ómenguð svæði eins og fyrir gull."

Svona gætu orðin hljóðað, svona gæti einn þeirra fárra þingmanna sem Ísland þarf, alla vega ekki fleiri en 43 skulu sitja á Alþingi. Ekki verður súpan betri eftir því sem fleiri halda í sleifina og hræra í pottinum.

Verjum landið, notum hugvit, hvetjum fólk að hafa framtíðarsýn, skapa til framtíðar, notadrjúga hversdagsvöru.

 


mbl.is Reikna með Helguvíkurálveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byzans - Mikligarður - Konstantinopel - Istanbul

Í síðustu viku stóð mér til boða að ferðast til Istanbul. Þarna er sænskt menningarsetur þar sem námsmenn og lengra komnir fræðimenn og svo menningarspírur aðrar hafa möguleika á að taka þátt í menningarverkefnum sem lúta að sögu kristni, kirkju, sögu Væringja í þjónustu Miklagarðskeisara og listasögu.  Mér buðust meðmæli kirkjunnar sem ég hef verið að starfa í til fararinnar og svo svo lítill fararstyrkur (sýndarstyrkur) frá stofnun í Uppsölum. Þetta hljómaði allt svo vel. Ég var næstum því farinn að búa mig undir að hringja í foreldra mína í Reykjavík, þegar ljóst var að ég varð að hætta við öll áform.

Byzans

En grunnurinn að þessum ferðahugleiðingum mínum var ljósmynd sem ég sá í myndaalbúmi kunningja míns sem hafði verið í heimsókn hjá föðurömmu sinni. Hún hafði sent hann í "menningarsögugöngu" og svo vildi heppilega til að hann hafði símann (með innbyggðri myndavél) með sér. Varð honum svo hugsað til mín þegar hann var staddur í kirkju einni á Gotlandi; Garde-kirkju.  Myndin er afskaplega óskýr en samt nógu góð til að gefa smá hugmynd um hvað er á henni.  Þeir sem eru kunnugir býsantiskri list, þekkja stílbragðið.  Þessi veggmynd úr Garde-kirkju frá því um 1100 kveikti áhuga á að kanna sambandið milli tengsla Norðurlandanna og svo Miklagarðsríkis, eða Konstantinópel eins og það kallaðist þá.  Nafnið Istanbul kom ekki fyrr en síðar og er afbökun á grískunni "eis-tan-polin" eða "inn í borgina". Hljómar það nafn reyndar svolítið eins og heróp... nóg um það.

Þessi tengsl urðu reyndar ljós fyrir löngu síðan. Hver man ekki eftir doktorsritgerð dr. Selmu Jónsdóttur listfræðings sem kallast Byzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu?  Þá bók á ég einhverstaðar og hef haft gaman að glugga í hana af og til. Svo keypti ég bókina Från Bysans till Norden - Östliga kyrkoinfluenser under vikingatid och tidig medeltid  - góð kaup og mjög fróðleg lesning.

Myndskreytingar í Gotlenskum kirkjum, byggingarlag og sögur, allt staðfestir þessi miklu áhrif. Síðan gerðist það að ég tók námskeið fyrir um einu og hálfu ári síðan, námskeiði sem fjallaði um byzönsk áhrif á norðurlöndum. Mér verður hugsað til litla bagalhúnsins "tábagalsins" sem fannst á Þingvallasvæðinu á síðustu öld (held ég). Hann er jú af sömu tegund og þeir sem biskupar grísku rétttrúnaðarkirkjunnar nota enn í dag.

Það er rigning úti. Regnið lemur hérna á gluggunum á íbúðinni og það er svarta myrkur. Fyrir 3 tímum gat maður séð niður til Lappkärret og Stóra skuggans.  Núna sé ég bara glampa á dropana sem renna niður glerið.  Mér verður hugsað til þessara tíma, þegar forfeður margra Svía (og jafnvel Íslendinga) komu frá Miklagarði með listamenn með sér, kunnuga menn sem fengu þann starfa að færa menninguna frá sínu heimalandi, þekkingu og verklag, liti og trúfræði.  Auðgun menningar, víðsýnni hversdagur og mystík. Allt sem gaf lífinu dýpt og fegurð, spennu og heilagleika. 

Regnið er farið að verka svæfandi á mig. Líklega best að leggja sig í bælið og "leggja augun aftur". Leitt að ég komist ekki til Istanbúl á námskeiðið, hefði orðið fyrsti Íslendingurinn að fá þetta tækifæri. En þeir taki skuld sem eiga.  Góða nótt!

 

 


Lífsgleði njóttu...

Af gefnu tilefni, langar mig að segja litla sögu af manni sem hafði bara rétt eins og flestir ég þekki haft sinn hæfilega skerf af með og mótgangi í lífinu. Hann var eins og við flest átti fjölskyldu, var "milli starfa" og eftir því hamingjusamur. Svo gerðist það einusinni að hann var að fara milli fjarðarins og sveitarinnar handan hárra fjallanna. Hann verður fyrir því óhappi að eftir að hann hafði ekið svolítið glannalega á hlykkjóttum veginum ofan af heiðinni sem skildi af byggðina við fjörðinn og sveitina inni í landi missir hann stjórn á ökutækinu. Hann bíllinn snarsnýst á veginum og hendist út af veginum. Billinn skemmist mikið og hann klöngrast út úr honum með erfiðismunum. Hann er illa slasaður en kemst upp á þakið á bílnum sem hafði hafnað í drullu og hálfvegis út í lækjarsprænu sem skapast hafði í rigningu undanfarinna daga. Hann sér bílljós í fjarska og veifar með erfiðismunum. Bíllin nálgast, en fólkið bara horfir á hann í gegnun skítugar rúðurnar.  Bíllinn hægir á sér og rúðunni er rúllað niður, þau sem í bílnum sitja segja: "Við getum ekki hringt eftir hjálp, það er engin móttagning á gemsanum" og svo keyra þau áfram.  Eftir langan tíma ekur flottur jeppi framhjá! Maðurinn sem hægir þó á sér og horfir á manngreyið skítugt og blóðugt, er með prestakraga. Þessi hefur ekki fyrir því að stoppa og hala niður rúðuna, heldur ekur framhjá.   Síðan kemur vörubílstjóri. Sá stoppar, en segist ekki geta stoppað þarna, það sé hættulegt, en hann hafi samband við hjálparsveit eða lögreglu.  Það er orðið almyrkvað og enginn kemur að hjálpa. Enginn sér hann lengur og honum er helkallt.  Undir morgun, þegar sólargeislarnir verma hálffreðna kinnar hans, vaknar hann og sér að hann er verr meiddur en hann hafði grunað kvöldið áður.  Bílaleigubíll ekur framhjá honum. Sá snarstoppar og út kemur fólk, greinilega túristar.   Þessir stökkva niður að bílflakinu og hjálpa honum af bílþakinu og upp á veg.

Þetta fólk gefur honum matarbita og pakkar honum inn í teppi og hlý þurr föt. Hann lóðsar þau síðan niður í næsta þéttbýli og þar á slysadeild.  Hann hafði enga peninga, veskið hafði tapast burt upp á fjallinu.  Ferðalangarnir greiða fyrir hann komugjaldið og gefa honum fötin sem hann stóð í.  Túristarnir sögðust verða að halda áfram, en báðu hann hvílast og hugsa vel um sig.  Þau hefðu meðan hann var í bráðamóttökunni beðið lögreglu að annast bílflakið.

Þessi litla óhappasaga er í raun sagan af Miskunnsama Samverjanum [Lúk. 10:30-35].  Enginn kom honum til aðstoðar, flutningabílstjórinn laug að honum, sagðist hjálpa en gerði það ekki, fjölskyldan i bílnum vildi ekki blanda sér í óhamingju annara og presturinn vildi ekki óhreinka fötin sín. Hann var jú embættismaður, hann beygði sig ekki í drulluna til þess sem hafði hvort eð er komið sér í skítinn sjálfur.  Hvað skyldu aðrir prestar segja...  einhvern myndi hugsanlega gruna að ég þekkti þennan ólánsama misvitra mann. Sennilega fór presturinn á prestafundinn og sagði spennandi sögu af óhappi uppi á fjalli, sennilega var flutningabílstjórinn of þreyttur og búinn að aka of lengi til að geta ekið til baka; ökuritinn fullskrifaður fyrir daginn. Fjölskyldan i skítuga bílnum vildi kannski bara sjá hvort þau "þekktu hinn ólánssama" - en ekki blanda sér í óluku annara. 

Óskaplega getur heimurinn virst fátækur! Hvar var kærleiki fólksins, fyrirgefning þeirra, umburðarlyndi og samúð, hugsunin að hjálpa bágstöddum bróður sem farið hafði afvega? Allt þetta var fjarverandi. Útlendingar, fólkið sem í raun setti sig í "hættu í framandi landi". Tóku áhættu og voru hinum ólánssama og slasaða manni mesta hjástoð og til liðsinnis. Þau voru Kristur, þau voru kærleikurinn í verki, óskilyrðisbundinn og takmarkalaus.

 Kristur segir nokkrum versum síðar:  "Far þú og gjör hið sama" [Lúk. 10:37b].


Predikun um lífið - Vitnisburður um kærleika - Quasimodo

Enn einn morgun með blessaðri sól og yndislegri blíðu. Hversu þakklátur verður maður ekki og hversu hýrist maður ekki á brún þegar hitastigstalan skríður hærra með hverjum deginum. Skammdegisþunglyndi margra hverfur, veröldin fær á sig liti og mýkt. Drungi lífisins breytist í vonfulla hversdagsgleði. Gróðurinn kappfullur leitast við að ná eins miklu af geislum sólar og sprengir af sér litlu brumin og sennilega hlær Guð innra með sér af hreinni sköpunargleði. Allt gott gefur hann...  

Flestir þekkja söguna af hringjaranum í Notre Dame eða Notre-Dame de Paris eins og hún nefnist á frummálinu, sögu skrifaðri af Victor Hugo [1802-1885], hinum stórmerkilega franska rithöfundi. Saga þessi hefur gefið mörgum innblástur, von og trú á að hinn sanna kærleik. Ég prédikaði núna á fyrsta sunnudegi eftir páska í kirkju hér í mið Stokkhólmi og datt í hug að þar sem ég er búinn að snúa prédikuninni yfir á íslensku að best væri að leyfa einhverjum að njóta hugleiðinga minna.

_____________________________

Quasimodo geniti

__________________________

1. sd.e.páska ( quasimodogeniti )

Jóh. 20:24-31Predikun flutt í Stokkhólmi 

Vitnisburður um kærleika

 

Fyrir nokkrum árum las ég bók hins þekkta franska rithöfundar Victors Hugo um Hringjarann í Frúarkirkjunni. Þessi bók hefur svo lengi sem ég man verið meðal minna uppáhalds bóka. Bókin sjálf hefur aldrei eignast sinn fasta stað í bókahyllunum, aldrei verið studd af öðrum bókum, heldur fengið að liggja ofan á öðrum bókum. Afi sagði oft að þær bækur sem manni væru kærastar, lægju oftast ofan á, í seilingarfjarlægð og þessar næðu aldrei að rykfalla. Sama heyrði ég gamla konu segja einusinni – Biblían á engan stað í bókahyllum, hún á að liggja ofan á og aldrei ná að rykfalla. Sannarlega náði Biblía þessarar öldruðu konu aldrei að safna ryki, því hún var lífandi ferðafélagi hennar gengum lífið. Lesin til gleði, hvatningar, leiðbeiningar, liðveislu og trúarauka.Ég held að flest börn í dag hafi nú séð teiknimyndina um Quasimodo, Hringjarann í Frúarkirkjunni, í útgáfu Walt Disney kvikmyndaframleiðandans. Sú saga sem sögð er þar á breiðtjaldinu eða heima í stofu á sjónvarpsskjánum er harla breytt útgáfa af ritsnilld Victors Hugo og útvötnuð svo ekki verði meira sagt.  Ágætis afþreying engu að síður og ef til vill vegur fyrir margan barnshugan inn í stórbrotinn tíma miðaldanna.  Sjálfur var Quasimodo það sem flokkað yrði í dag sem mjög vanskapaður, bæði fyrir þau lýti sem han bar á kroppi sínum og þá margvíslegu fötlun aðra sem hann hrjáði, samkvæmt litríkri frásögn höfundar. Hans fötlun gerði það að verkum að honum var ekki hugað líf í ys og þys hversdags miðalda. Eftir því sem við lesum í bókinni um Hringjarann i Frúarkirkjunni var hann skilinn eftir af móður sinni á kirkjutröppunum við glæstar dyr dómkirkjunnar. Þetta var sunnudaginn eftir páskadag. Klerkar kirkjunnar fundu svo litla drenginn innvafinn og lagðan litla körfu. Þeir taka hann inn, annast um hann og búa honum þann heim sem dómkirkjan varð honum. Sunnudagurinn eftir páska kallast eftir gamalli kirkjunnar hefð quasi modo geniti eða „hálfgerður“ og var þá hugsunin að vegna nálægrar stöðu sinnar i dagatalinu sem sunnudagur næst páskum, að þessi dagur væri hálfgildingur þess.  Litla afmyndada barnið fannst einmitt að morgni sunnudagsins eftir páska og frýnilegur var hann ekki, afmyndaður frá fæðingu, óskapnaður. Svo málamiðlun var gerð og var nafn hans dregið af nafni dagsins og var kallaður „hálfgerður“.  Flestir vita hvað gerist næst í lífi litla Quasimodo. Hann lifir og þrífst meðal klerkanna í kirkjunni, lærir að skrifa og lesa og er falið það mikilvæga hlutverk að vera hringjari dómkirkjunnar. Vegna vetrarkulda og hins takmarkada skjóls sem hinir háu turnar Frúarkirkjunnar gáfu, afmyndast hann enn frekar og fötlun hans verður enn meira áberandi. Hringingar hinna stóru og hljómmiklu klukkna svifta han þeirri takmörkuðu heyrn sem hann hafði og algjör einangrum verður hlutskipti hans. Klukkunum gaf hann nöfn og persónugerir þær með ýmsum þeim eiginleikum sem prýða máttu góða vini. Þetta gaf þeim í senn líf um leið og þær verða rödd hans, rödd hins innilokada, rödd tilfinninga hans, rödd hins mállausa til Parísar miðalda.  Einkum og sér í lagi eru það fyrstu síður bókarinnar sem hafa gert það að verkum að manni finnst maður vera lítill. Lítill frammi fyrir stóra heilaga, lítill frammi fyrir hinu smáa heilaga.  Lítill fyrir vitnisburðinum um hið heilaga sem finnst meðal okkar og í okkur. Það er hugsunin um kærleikann sem hefur vaknað svo oft við lestur sögurnnar. Á fyrstu síðum frásögunnar um Quasimodo segir höfundurinn frá uppgreftri sem gerður var í París, þegar gamalt hverfi hafði fengið að víkja fyrir áformum um nýbyggingar. Staðurinn var legstaður þeirra sem látist höfðu í pestinni, hvílustaður þeirra ósýnilegu í samfélaginu, brotamanna og þeirra sem ekki höfðu haft ráð á að kaupa sér legstað. Þetta var ruslahaugur samfélagsins, fjöldagröf hinna ósýnilegu. Ekkert sögulega „mikilvægt“ fannst meðal þessara jarðnesku leifa hins svokallada „úrgangs samfélagsins“, þetta var jú fátækrafólk miðaldanna og tæpast að búast við neinu stórbrotnu þar.  En meðal þessa líkamsleifa fannst þó eitt sem vakti áhuga, sem ef til vill hefur slegið streng í hjörtum viðstaddra fræðimanna. Þetta var beinagrind af fullvöxnum karlmanni sem var svo vansköpuð að furðu vakti. I faðmi beinagrindarinnar fundust bein ungrar smávaxinnar konu, med brotinn háls og leyfar einhvers sem virtist hafa verið leifar stuttra trjágreina.  Victor Hugo segir í inngangsorðum sínum að hugmyndin að bók sinni um Hringjarann í Frúarkirkjunni í París, hafi sprottið af þessum beinafundi og svo grísku orði sem hann i öðrum klukkuturni Frúarkirkjunnar í París.  Orðið var „örlög“. Það hafði verið klappað viðvaningslega í steininn. Svo skrýtið sem það er, en eftir að bókinni hafði verið lokið aftur, eftir að hún hafði verið lesin spjaldanna á milli, stóð eftir hið góða, hið sanna og sjálfur vitnisburður kærleikans. Eftir að hafa lesið um hatur, blóðbað, morð, vonsku, öfund var eins og þrátt fyrir þetta allt tókst dauðanum ekki að taka það sem eilíft er. Kærleikurinn hafði sigrað. Dauðinn varð skyndilega aukaatriði, meðan við minnumst kærleikans. Dauðinn, illskan og öfl öfundar náðu ekki að taka Esmeröldu frá Quasimodo. Hann fylgdi sjálfur Esmeröldu sinni í dauðann. Þannig fékk kærleikur hans til hennar mætti lifa. Hann fann líkama hennar, fól hann í faðmi sér, lagði blóm kvisti í milli og fylgdi eftir þeim kærleika sem hann fékk svo stutta stund njóta í sínu lifanda lífi. Kærleikur Quasimodos er upprisinn, þótt aðeins fyrir sögupersónu í skáldsögu Victors Hugo, þá er sagan vitnisburður, helgisögn um þann kærleika sem aldrei deyr að eilífu, heldur rís á ný tvíefldur. Quasimodo segir á örðuvísi hátt söguna um elsku Guðs, sagan bet vitni kærleikanum – hinum skilyrðislausa kærleika.

Vitnisburður Jesú Krists um kærleika Guðs til handa sköpun hans á sér margar birtingarmyndir. Sá er þeirra fremstur sem sjálfur Drottinn Jesús Kristur hefur sýnt með lífi og dauða sínum og uppstigningu. Kristur hefur sigrað heiminn, ekki með vopnum, ekki með hrellingum eða gegnum þjáningu annara, heldur með kærleika Guðs.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband