Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
8.3.2009 | 10:35
Fóstureyðingar
Það er skrýtið hvað við einatt reynum að gera okkar skoðanir að annara. Lífsýn og veraldarsýn okkar er að því leyti þröngt afmörkuð að við leyfum ekki skoðunum annarra og þeirra sýn á hluti að fá maklega umfjöllun, heldur rífum niður og skömmumst.
Í téðu tilfelli ungu stúlkunnar í Brazilíu, sem níu ára gömul varð fyrir því að vera nauðgað, verða barnshafandi eftir það og síðan að hafna upp á kant við rómversk katólsku kirkjuna. Nú hafa læknarnir sem framkvæmdu fóstureyðingu að ósk fjölskyldu stúlkunnar (og hennar sjálfrar sjálfsagt) fengið yfir sig heiftúðuga kirkjuna.
Af hverju, getur maður spurt sig, gat ekki katólska kirkjan bara gert eins og þjóðkirkjan; staðið hjá aðgerðalaus og hlúð að sárum? Sannarlega hefði það vera farsælast fyrir alla, en einföld eru bara ekki málin. Lífsvirðing rómversk katólsku kirkjunnar er "yfirgripsmeiri" en okkar. Til að forðast misskilning, virðum við ekki lífið minna en katólsk systkin okkar. Fréttin fjallar um lífssýn, og hvernig trú og lífssýn saman með beitingu trúarlegs valds getur lent í árekstri með því sem við í okkar afhelgaða heimi teljum rétt og algilt.
Þeir sem fylgja rómversk katólsku kirkjunni og trúarsetningum hennar, gangast undir vissan kirkjuaga og taka inn vissa sýn á lífsgildi. Vernd lífs er ein þeirra ásteytingarsteina sem við "lúteranar" og trúlausir kjósum ekki að velta svo mikið fyrir okkur. Fóstureyðingar á Íslandi samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu eru skuggalega margar. Margar konur hafa farið í margar fóstureyðingar á lífsleiðinni. Hefur möguleikinn til fóstureyðingar verið misnotaður og hefur dregið úr ábyrgu kynlífi? Er fóstureyðing notuð af mörgum sem síðbúin getnaðarvörn? Af því að dæma hve margar konur fara og láta eyða fóstri í þriðja, fjórða og fimmta sinn má styðja þá hugsun með einhverjum rökum.
Við tölum hálf niðrandi um faststefnu rómversk katólsku kirkjunnar í fóstureyðingarmálum. Að fara bil beggja væri kannski ekki svo óvitlaust. Auka virðingu fyrir lífi, því lífi sem er lifað (móðirin) og því lífi sem getur mögulega fengist lifað (barnið). Þetta eru erfiðar ákvarðanir í mörgum tilfellum og íblöndun trúarhreyfinga og hópa ekki til að gera málið minna flókið. En lífsgildin, siðfræðin, leikreglur lífs og lífsvirðingar eru margar afsprengi trúarinnar. Kristin trú er lífstrú. Því ber að fara varlega og með mikill íhugun þegar svo djúpstæðar spurningar vakna s.s. um líf, varðveislu og viðgang lífs. Enginn einn hefur rétt, enginn hefur rangt. Lífið er hið jákvæða í veröldinni, gneisti vonar og kærleika. Öllu lífi fylgir ábyrgð og sú ábyrgð er vandmeðfarin.
Vatíkanið tekur undir fordæmingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.3.2009 | 11:30
New Deal og atvinnuatvinnuleysingjar
Hvernig má það vera að enn þann dag í dag er fiskur fluttur óunninn til útlanda? Í fyrsta lagi liggur kostnaður í því að sigla með fiskinn sem samtímis rýrnar í gæðum um borð í skipunum. Meðferð fisksins síðan í móttökulandi er með ýmsu og öllu móti. Allt er samt selt sem íslenskur fiskur og því orðstír okkar Íslendinga og vöru okkar í hættu.
Af hverju er varan ekki fullunnin, seld sem íslensk hrávara sem unnin er til lokastigs og síðan flutt út sem hágæða vara sem enginn nema Íslendingar hafa haft með að gera? Hér er ekki bara um metnaðarmál að ræða, heldur skapast við þetta þúsundir starfa sem Íslendingar eiga að sinna með sóma og stolti. Þetta er nauðsynlegt fyrir hagkerfið og mót atvinnuleysi. Atvinnuleysistryggingasjóður er sagður tæmast við áramótin ef ekkert er að gert. Hér er lausnin. Öll íslensk framleiðsla, hvort sem það er innan fiskiðnaðar, svepparæktar, tækniframleiðslu, kjötframleiðslu, ferðaþjónustu eða hátæknihugbúnaðar, þá er hér um möguleika til starfa og það Á ÍSLANDI.
Að leggja peninga í slíkt er næring fyrir framtíðina. Það er ljóst að Íslendingar neyðast nú að vera forsjálir og hugsa til framtíðar. Skyndigróðinn fór með okkur í ræsið. Nú er lag að hugsa til framtíðar og fá hjólin í samfélaginu að snúast eðlilega. Það er MIKILVÆGT að ekki vaxi úr grasi kynslóð sem sættir sig við atvinnuleysi og jafnvel þekkir ekki hvað er að vera úti á atvinnumarkaðinum. Slíkt þekkist á meginlandi Evrópu og mörg dæmin til þar sem þrjár kynslóðir hafa ekki komið nærri atvinnumarkaði og teljast atvinnuatvinnuleysingjar.
Vilja fiskinn heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2009 | 21:59
Skollaleikur Gordons Brown
Það er ljóst að það er sama ruglið í gangi í Bretlandi og sömu gömlu klisjurnar notaðar hjá Gordon Brown og hjá fyrri ríkisstjórn Íslands. Þeir eru fyrir löngu búnir að gera á sig, þeir vita það og lýðurinn finnur fnykinn. Lýðurinn horfir dáleiddur á og hugsar með sér; "það er eitthvað lyktarskyninu hjá mér og sjóninni - Gordon og Geir hafa alltaf verið svo góðir gæjar." En fólkið sá og sér rétt og ekkert er að lyktarskyninu.
Ljót lygin í gegnum árin hefur blindað þjóðina. Rausið og þunn en snúinn röksemdafærslan sýnir að hún stenst ekki. Fjármálamarkaðir Evrópu eru að krafsa í neyðarsjóði hagkerfa sinna landa. ESB ræður ekki við að skapa heildstæða aðgerðastefnu, stóru löndin Þýskaland, Bretland og Frakkland bjarga sínu eigin skinni og nýinngengnu löndin í austri eiga vart til hnífs eða skeiðar vona bara að einhver heildarstefna verði sett í framkvæmd til bjargar efnahagslífinu. Þeirra vonir verða að engu og hvern dag fækkar brauðbitunum sem falla af borði ríku ESB þjóðanna. Enginn verður saddur af því að sleikja mylsnu.
Innviðir ESB eru graut fúnir. Efnahagsstefnan var aldrei til, heldur var hún aðeins blek á pappír. Orðin "sameiginleg efnahagsstefna" voru sem gildra sem austur Evrópulöndin stigu í og sitja nú föst.
Í þessum lygavef stendur Gordon Brown upp og krefst "aukins siðferðis". Hvílík hræsni. Hann talar um að lok "ábyrgðarleysis og óhófs" væru nauðsynleg. Hann ætti að gera öllum hinum vitiborna heimi þann greiða að segja af sér og munstra sig á hjálpargagnaskip á leið til einhvers þess lands þar sem Alþjóðagjaldeyrisstjóðurinn hefur lagt allt í rúst. Þar er þörf fyrir brauð og vatn. Fátækar þjóðir eru siðprúðar og lifa ekki í óhófi. Óhóf og siðleysi sprettur upp þar sem allsnægtirnar eru sem mestar!
Brown neitar að hann beri ábyrgð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2009 | 21:43
Bíðið við: Kemur þetta ykkur á óvart?
Mér verður flökurt!
Ég vona að þessar fréttir komi ekki fólki gersamlega á óvart, því slíkt væri grunnhyggni. Ég held að frá því að efnahagshrunið var staðreynd á Mikjálsmessu (29. sept) hafi ég í raun búist við því að einhverjir kæmust að því hversu spillingin var algjör. Mér var sagt við upphaf málsins, þá er ég sagði að leita ætti fjármuna á erlendum reikningum á Jómfrúreyjum, Cayman Island, Liechtenstein og öðrum skattaparadísum, því eðli spillingar er jú alltaf það sama. Skiptir engu á hvaða tímum við lifum, spillingareðlið er hið sama: Reynt er að græða með óheilindum og siðleysi á tá og fingri þar til allt er að bresta. Þá er hlaupið í skjól og vanþekkingu kennt um. Síðan hverfa þessir bófar undir jörðina og lifa í hamingjusamri spillingu í fjarlægum löndum.
Nú vona ég að íslenska þjóðin sæki sitt réttlæti og svífist einskis.
Lánuðu sjálfum sér milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2009 | 07:37
Stjórnlagaþing = djörfung og lýðræði
Stjórnlagaþing kosið í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2009 | 22:47
Numismatik - fræðin um mynt
Um langt skeið hefur verið unnið að því í Sankti Jakobskirkjunni í Stokkhólmi að smíða sýningarskápa fyrir sautjándualdar kirkjusilfur. Leitast hefur verið við að velja fram það í eigu kirkjunnar sem er af gert er af mestu listfengi samtímis sem sögulega tengingin hefur fengið að vera meðráðandi þáttur. Tímabilið sem valið hefur verið eru fyrstu 57 ár kirkjunnar, eða frá vígsluárinu 1643 til aldamótaársins 1700. Mikill sómi er af framkvæmdinni og hefur "Lilla kyrkomuseet" notið athygli í fjölmiðlum og meðal listelskra. Nokkrir sýningarmunanna eru taldir með besta silfurhandverki/listmuna sem til eru komnir á 17. öldinni.
Í dag bættist við lítil skál sem gleymst hafið í bankahvelfingu kirkjuna, en hún hafði verið tímasett rangt og hafnað í vitlausum kassa. Svo eftir stimplalestur við stækknunargler og brennandi heitt ljós komst undirritaður að því að skálin væri frá 17. öldinni, smíðuð af Mikael Böcke (frá ca 1640) í Stokkhólmi. Kringlótta lágmyndin er af suður þýskum uppruna, sennilega frá því um árið 1550. Þó virðist hún hafa lítinn leyndardóm að geyma, en í botni skálarinnar er minnispeningur sem setur skálina í annað breiðara sögulegt samhengi.
Hér er líklega gullsmíðar/silfursmíðariðnin komin í samspil með því sem nefnt er numismatik, eða myntfræði. Upphleypta miðja skálarinnar hefur nefnilega minnismynt (sem aldrei var hugsuð sem eiginlegur gjaldmiðill) eða "kringlótta medallion" sem sýnileg er ofan og neðanfrá. Gaman væri ef einhver myntsérfræðingur myndi láta heyra frá sér og gefa nánari upplýsingar um hvaða uppruna þessi mynt eða minnispeningur eigi (samhengi og ár).
Að ofan gefur að líta (til vinstri) undir skálina og (til hægri) ofan í skálina. Fyrri myndin (sú sem maður sér ef skálinni er lyft upp og kíkt undir) sýnir þverskurðarmynd af kirkju með hvolfþaki, kúpli og gæti rétt eins verið úr Péturskirkjunni. Þarna gefur að líta hirðana sem komnir eru að veita Jesúbarninu lotningu. Á myndinni til hægri, eða þeirri sem maður sér þegar skálin stendur á borði, er mynd af Kristi með sigurfána umleikinn texta Biblíunnar "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig" eða eins og textinn á innlagða peningnum segir "Ego sum via et veritas; nemo venit ad patrem nisi per me." Jóh. 14:6.
Mér dettur í hug að kannski sögufróðir myntáhugamenn kunni að vita einhver deili á þessum minnispeningi og gætu kannski skrifað athugasemd eða sent mér þá beint tölvupóst. Það áhugaverða er að hvergi er getið hlutverks skálarinnar góðu í samhengi guðsþjónustulífsins í kirkjunni. Skírnarskál hefur hún líklega aldrei verið, þar sem þrjár aðrar skírnarskálar voru til á tilkomutíma skálarinnar til kirkjunnar.
Skálin góða hefur fengið sinn verðuga stað í sýningarglugga kirkjunnar og sómir sér þar vel meðal annarra listgripa sem aðeins sýna þó brotabrot af þeirri ríku listasögu og menningarsögu sem Sankti Jakobskirkjan hefur yfir að búa.
Jorma Isomettä, 1. vaktmeistari, i Sankti Jakobskirkjunni leggur skálina í sýningargluggann
3.3.2009 | 19:31
Um list
Hvaða aðstæður þarf listin í dag til að þrífast? Eru til einhverjir alþjóðastaðlar sem krefjast milljarðakróna húsa? Ef við byggjum ekki tónlistarhús (sem jú alltaf er happadrætti hvað varðar hljómburð) erum við þá ekki menningarþjóð með menningarþjóðum. Ég tel, að í of mikið hafi verið ráðist af þjóð sem telur 300 000 fátækar hræður.
Stolt yfir menningu á ekkert skylt við milljarðakróna húsbyggingar. Við reisum ekki minnisvarða um fræga menn áður en þeir hafa verið fæddir, við klöppum ekki upp söngkonuna frægu sem er enn að leika sér í sandkassa. Við 300 000 manna þjóð byggjum ekki margnota tónlistarhús þegar næstum 10 milljón manna þjóð eins og Danir varð að þiggja óperuhús sitt úr höndum auðjöfurs, þar sem þjóðin ekki hafði ráð á slíku mannvirki sjálf. Við byggjum ekki fjölnota tónleikahús samtímis og við drögum úr tónmennt, greiðum ekki kennurum sómasamleg laun, tryggjum faglærða kennara í öllum skólum og getum ekki boðið upp á háskólavist án rokdýrra "innritunargjalda". Hver á síðan að "fylla þessa flík" sem saumuð er of stór? Ætlum við að kaupa inn erlenda menningarstarfsemi? Höfum við gleymt grasrótinni? Ég held að Íslendinga og þó sérstaklega Reykvíkingar hafi hressilega farið fram úr sjálfum sér. Milljarðakróna tónlistarhús á litla skerinu hans Jón Múla, glerhýsi barið eðju, sand- og saltblásti? Ég held í alvöru að fólki sér ekki sjálfrátt!
Tekist á um Tónlistarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 08:05
Norðurlandabandalag
Ég verð að játa að þessi óslitni og sígjammandi áróður fyrir upptöku EURO er óttalega fátæklegur. Fréttin sjálf er leiðandi í skoðanamyndun einstaklinga og því pólitísk. Auðvitað myndi upptaka EURO hafa áhrif í Danmörku, það segir sig sjálft. Því fleiri lönd sem taka upp slíkan gjaldmiðil því erfiðara er að standa mót kröfum ESB sinna. Það sem þó verður æ augljósara í allir umræðunni og sérstaklega umræðunni um EURO eru hin eiginlegu reynsludæmi sem við sjáum og heyrum af nær hvern dag.
Austantjaldslönd eiga erfitt nú á tímum efnahagskreppunnar. Þau hafa flest gengið til liðs við ESB og þannig vonað á stöðugleika og að fá að njóta ávaxta hinna vestrænni Evrópuríkja hvað samstöðu, fyrrnefndan stöðugleika og opnari markaðshlutdeild snertir. En hvað gerist þegar skóinn tekur að kreppa? Gömlu ESB löndin storma út með viðbragðsáætlanir sínar og reyna að bjarga eigin skinni í krafti auðs síns og stórfyrirtækja og banka. Á meðan biðja nýju Austur-Evrópu ESB löndin um stöðugleika, ekki annað. Þau eru ekki með í áfallapakka Frakka eða Þjóðverja, þau eru ekki með! Sum þessara landa hafa tekið upp eða tengst EURO. Þessi lönd eru illa stödd í dag.
EURO er ekki bara stödd á hálu svelli, heldur og í ljótum dansi eigingirninnar og þar með tákngervingur ójöfnuðs og pólitískrar fyrirgreiðslustefnu stofnlandanna.
Það væri illur hlutur fyrir Dani að taka upp EURO. Það væri ENN VERRI hlutur fyrir Ísland að taka upp eða tengjast EURO.
Ég mæli fyrir sterku Norðurlandabandalagi sem myndi þýða náið samstarf í viðskiptum, stjórnkerfi, landhelgis og löggæslu, sama mynteining myndi vera nýtt og Norðurlandabandalagið mynd koma fram sem ein heil og sterk heild. Þetta er mögulegt. Hugsið ykkur stærð Norðurlandabandalagsins frá Svíþjóð/Finnlandi að Grænlandi, frá Norðurpól til miðs Atlantshafsins. Flugumsjón, fiskveiðiumsjón og landhelgisgæsla sameiginleg, sameiginleg tollastefna og viðskiptasamningar yrðu gerði fyrir 30 000 000 í stað 300 000. Það yrði hlustað á okkur.
Evruupptaka hefði áhrif í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)