Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Ptolemaios - elska þinn næsta

Sumar fjölskyldur segja sig eiga í innri vandræðum og stríði. Spurningin er hvort þessar fjölskyldur ættu ekki að hugsa málið svolítið betur og sjá að oft er um smáskeinur og minniháttar hagsmunaárekstra að ræða. Hér drep ég stutt á sögu einnar fjölskyldu sem virðist hafa átt erfitt með að tala saman og leysa innri ágreining (það er erfitt að greina frá öllu í krónólógískri röð því fólk kom og fór á veldisstóli faraóarna):

Ptolemearnir (hvílíkt lið!)

Ptólemaios XII  Faraó yfir Egyptalandi. Hann vissi aldrei hvort hann var að koma eða fara. Tvisvar er hann faraó. Hann vissi aldrei hver móðir hans hefði verið, hún var sennilega myrt. Hann var sérstakur á margan hátt. Spilaði á flautu og elskaði svallveislur og munað. Klæddi og málaði sig svo að erfitt var á stundum að vita hvort hann var karl eða kona, eða hver hann almennt væri. Þetta kallast víst að vera andrógyn í dag. Nú, hann átti ekki alla sjö dagana sæla. Þegar hann var löngum að heiman, greip dóttir hans, Berníke fram fyrir stjórnartaumana og gerði hann útlægan. Hundeltur af hermönnum dóttur sinnar náði hann þó að komast til Egyptalands aftur þar sem hann lét síðar myrða dóttur sína Berníke sem þá ríkti yfir Egyptalandi (sjá neðar).

Kleópatra V Var drottning Ptólemaíósar XII og meðstjórnandi. Hún tók þátt í uppreisn dóttur sinnar Berníke IV mót eiginmanni sínum og föður Berníkes IV. Berníke fannst hún erfið í stjórnarsamstarfinu svo hún lét myrða móður sína.

Berníke IV Faraó varð hún eftir að hafa rekið föður sinn Ptólemaíós XII frá völdum. Hún sat sem faraó frá árinu 58 til 55 þá er faðir hennar mútaði sér inn í ríkið (en hann hafði verið gerður útlagi)  og tók við valdataumum aftur með aðra dóttur sína Kleópötru VI sem meðstjórnanda. Í kjölfarið lét hann myrða Berníke IV.

Kleópatra VI Var elsta dóttir Ptólemaíósar XII. Faraó í tvö ár saman með litlu systur sinni Kleópötru VII sem síðan lét eitra fyrir henni.

Arsinóe IV Gerði uppreisn mót Kleópötru VII. Var síðan myrt af Antóníusi, að beiðni Kleópötru.  

Kleopatra VII  Faðir hennar dó þegar hún var 18 ára.  Hún átti barn með Júlíusi Sesari og Markúsi Antóníusi. Framdi sjálfsmorð.

Ptólemaios XIII  Faraó 51-47 f.Kr. við hlið Kleópötru VII.  Lenti upp á kant við Kleópötru hélt sig undan en lenti síðan í ófriði við Rómverkja og dó (drukkaði).

Ptólemaios XIV Var faraó í stuttan tíma við hlið Kleópötru (samstjórnandi) en var síðan byrlað eitur af hverju hann dó stuttu síðar.

Ptólemaios XV ”Caesarion” sonur Caesars og Kleópötru VII. Lifði til 17 ára aldurs eða fram til loka orrustunnar við Actium. Var myrtur eftir hana.

Ptolemaios XII [117-51] 66 ára                                   

Kleópatra V [?-?]                                          (eiginkona Ptolemaiosar XII) Byrlað eitur.
Berníke IV  [77-55] 22 ára                            (dóttir Ptolemaiosar XII) Sennilega skorin á háls.
Arsinoe IV [67-41] 26 ára                             (dóttir Ptólemaiosar XII) Stungin með hníf.

Kleópatra VII [79-30] 49 ára                         (dóttir Ptólemaiosar XII) Framdi sjálfsmorð, eitur.
Ptolemaios XIII [61-47] 14 ára                      (sonur Ptolemaiosar XII) Druknar.
Ptolemaios XIV [60-44] 16 ára                      (sonur Ptolemaiosar XII) Byrlað eitur.
Ptolemaios XV [47-30] 17 ára                       (sonur Kleópötru VII) Myrtur.


Pre-Rafaelítar

Eftir að hafa haft hádegismessu í Jakobskirkjunni og stuttan fyrirlestur um Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar á sama stað, átti ég stefnumót við góða vinkonu mína og vinnufélaga Elínu Elfström.  Hún er listnemi og framúrskarandi góður portrettmálari.  Við höfðum semsagt ákveðið í dag að hittast og fara í Ríkislistasafnið hérna úti á Blasieholmen, Nationalmuseum. Nýverið var sett upp ný og áhugaverð sýning á verkum hinna svokölluðu "Prerafaelíta". Líklega er best að setja strik milli Pre og Rafaelíta til glöggvunar á sjálfu heitinu. 

prerafaeliterna027Hér til hægri getur að líta eitt af höfuðverkum þessa stórmerka hóps breskra listamanna. Málverkið ber nafnið "Vanity" eða "Hégómi". Myndin er máluð af einum síðasta prerafaelítanum; Frank Cadogan Cowper[1877-1958] árið 1907. Myndin er í eigu Royal Academi of Arts, London.

Margir frægir listamenn stóðu framarlega í fylkingu pre-rafaelítarna. Nefna má Dante Gabriel Rosetti, Ford Madox Brown, John Brett, William Holman Hunt, John Everett Millais, Edward Burne-Jones og Henry Wallis.

 Hreyfing Pre-Rafaelítarna var stofnuð 1848 af Holman Hunt og John Everett Millais. Nafn hreyfingarinnar er dregið af þeirri tilraun (og í mörgum tilfellum tókst þeim vel upp) að endurskapa þá aðferðafræði sem lá að baki málverkum endurreisnarinnar sem tilkom fyrir tíma hins fræga endurreisnarmála Rafaels. Táknfræði, tungumál listarinnar fékk hér aðalhlutverkið og margslungnar myndir, sem ekki eru lausar við hið draumkennda og vissa munúð samtímis og frómheit upphefjast með riddaramennsku og nostalgíu. Riddarasögur, goðafræði, gullaldarritverk breskrar tungu og viktoríanskt líf skapar hér ramman um hreyfinguna. Hreyfingin átti sín bestu vaxtarskilyrði í Bretlandi, en breiðist út og nær fótfestu í hinum svokallaða júgend stíl eða art nouveau.Art and Crafts hreyfingin (með sínum iðnaðarinnslögum) tók víða vel í hið dekoratíva eða skreytilist Pre-Rafaelítanna. Svo þeir voru framarlega í listsköpun síns tíma og þess sem koma skyldi. Synd væri því að segja að módernisminn hefði einvörðungu átt upphaf sitt í Frakklandi í hverfunum kringum Sacre-Coeur kirkjuna.  :)

preMeðal listamanna Pre-Rafaelítanna voru nokkrar konur sem voru engir eftirbátar karlanna sem grundvallað höfðu hreyfinguna. Ein sú frægasta var Elizabeth Siddal. 

Hér til vinstri gefur að líta málverk Dante Gabriel Rosetti [1829-1862] "Venus Verticordia" frá 1864-1868.

Sem sagt:  Frábær sýning og metnaðarfull.  :)

 

 

 

 

 

Lykilorð: Pre Raphaelite Brotherhood / Pre-Raphaelites / Pre-Raphaelites / Rafaelítar


Vakna, Síons vörður kallar!

Þjóðkirkjan, stærsta kirkjudeild á Íslandi er að tapa meðlimum svo að það bara æpir á mann. Eru Íslendingar búnir að finna eitthvað betra eða eru þeir ekki eins andlegir og sækja ekki eins í þekkinguna um Guð og áður?   Af hverju flýr fólkið Þjóðkirkjuna?  "Biðjandi, boðandi, þjónandi" eru einkunnarorð Þjóðkirkjunnar í "lógói" hennar.  Hvað getum við gert til að bæta, laga og boða?   Tölfræðin talar fyrir sig sjálfa (tilv. Hagstofa Íslands):

Ár

Mannfjöldi alls á ÍslandiFjölgunSkráðir meðlimir ÞjóðkirkjunnarBreyting milli ára (einstaklingar)
1994265.064 244.925-397
1995266.978 245.049-653
1996267.958 244.060-2.237
1997269.874 244.684-912
1998272.381 246.012-617
1999275.712 247.245-882
2000279.049 248.411-931
2001283.361 249.256-765
2002286.575 249.456-686
2003288.471 250.051-843
2004290.570 250.661-953
2005293.577 251.728-851
2006299.891 252.234-1.212
2007307.672 252.461-1.484
2008313.376 252.948-1.230

Þetta vekur vissulega spurningar um hvar við getum bætt okkur.  Ég tel að eitthvað liggi að baki þessari tölfræði sem taka ber alvarlega.  


mbl.is Ekki sjálfgefið að trúin sé meðfædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju drepa ungir menn?

Spurningin vekur kannski óhug, en við verðum að spyrja hennar. Hvað hefur gleymst?  Hefur mannlegi þátturinn gleymst. Ég er ekki að ráðast á skólakerfið. Ég er ekki að beina orðum mínum að neinum sérstökum, heldur vil ég að orð mín skiljist sem áminning til samfélagsins. Eftir að hafa gert grein fyrir ætlunum sínum, ganga þessir ungu menn til verks. Þeir gerast böðlar, þeir taka sér fyrir hendur ódæði sem mætir engum skilningi. Það merkilega er að þegar þessir strákar hafa lagt út sín myndbönd og "manifestation" eru fyrstu viðbrögðin múgsefjun, aðdáun og jafnvel öfund.  Djarft útspil piltanna leiðir til að fleiri sjá sig í sporum þeirra og þegar "hápunktinum" er náð, þegar þeir hafa náð valdi á lífinu með því að valda dauða, angist, sorg, vanlíðan, örvæntingu...    er verkefninu lokið og fullnægt.

Dauðinn verður einskonar hreinsunarferli (kaþarsis), sætting - friðkaup. EN: Friðkaup sjúkra ungmenna. Og þetta uppgjör er dýrkeypt. Líf annarra og þeirra sjálfra.

Ljótleikinn er fullkominn. Eitthvað er illa komið af braut og sjálfsmyndin brengluð.  En það er einmitt það sem er hið sjúka. Hvað hefur gerst?  Ungi maðurinn í Kauhajoki í Finnlandi, sem drap 10 manns síðastliðið haust var afar sjúkur. Hann hafði komið grátandi til mömmu sinnar og spurt hana stuttu eftir 21. afmælisdaginn sinn "mamma, af hverju á ég enga vini?"  Að vera viðurkenndur, meðtekinn var allt hann þráði. Hann þarfnaðist vina, hann þarfnaðist meðbræðra, hann þarfnaðist að tekið væri eftir honum, hann þarfnaðist "hópsins".  Í stað þessa var hann utanveltu, sjaldan var yrt á hann, þá helst niðrandi eða í eins atkvæðis orðum.  Hann hafði verið lagður í þögult einelti.  Svipaða sögu virðast allir ógæfusömu piltarnir hafa reynt og fengið að líða.  

Voru þetta bara ódælir, óuppaldir guttar sem vildu fá athygli hvað sem það kostaði?  Nei flestir voru prúðir strákar sem aldrei sköpuðu vandræði. Komu þeir frá brotnum heimilum og stóðu sig illa í skóla? Nei allir voru í meðallagi í skóla eða yfir meðallagi. Einhverjir komu frá brotnum heimilisaðstæðum en þó ekki svo að það sé talin ástæðan eftir miklar rannsóknir. Flest heimilin gátu sýnt kærleika og hjástoð. 

Af hverju er ungt fólk að taka líf sítt umvörpum?  Af hverju eru ungmenni að berjast við anorexíu?  Af hverju eru ungar stelpur að skera sig um allan kroppinn og sumar að skera sig á púls?   Af hverju eru ungir menn í blóma lífsins að gasa sig, skjóta eða hengja?

Enginn veit öll svörin. Óhamingja, vanlíðan, sjúkdómar hafa alla tíð fylgt mannkyni. En hvað getum við gert til að spyrna við fótum. Mér blöskrar svo!  Sóunin er svo fullkomin þegar ung manneskja skaðar sig og jafnvel til ólífis.  Hvað vilja þau segja okkur hinum?   Hvað getum við gert?

Hefur samfélagið ekki gleymt þessum litlu sálum sem fela sig bak við merkjavörur, iPoda, tískuskart, snyrtivörur og tækjakaup?   Sjáum við samfylgdarfólk þeirra í gegnum skrápinn sem þau eru að byggja um sig. Sjáum við ekki að okkur er bara ætlað að horfa á skrápinn, skelina en ekki Á ÞAU!  Það eru ÞAU sálin, persónan sem við eigum að horfa á, sinna og vera vökul fyrir.  Er okkur lagið að dæma þau fyrir þetta og hitt í stað þess að hlusta á þau, gefa þeim tíma að segja frá og síðan ef til vill gefa ráð sprottin af kærleika og innsæi í þeirra líf.

Af hverju koma sjálfsvíg, og svo að maður tali nú ekki um svona fjöldamorð, á óvart?  Sá/sú sem tekur sitt líf er langt kominn í eigin vanlíðan, svo langt að engir útvegir eru lengur sýnilegir. Alsherjar blindu slær augun og "besta/eina lausnin" valin til að ljúka óhamingjunni. Í sumum tilfellum er um andleg veikindi að ræða, þar sem einstaklingurinn er ekki 100% við stjórnvölinn. Í öðrum tilfellum er um vangetu til að sjá lausn, útgönguleið og von á að framtíð geti mögulega fundist handan myrkursins. 

Í þeim heimi sem við lifum í dag, er ljóst að ytri kröfur á ungmenni í formi fyrirmynda, hópleiðtoga og krafna frá "hópnum", tíska og af þessu brenglaðar sjálfsmyndir eiga stóran þátt í því hvernig komið er.  Aðlögunarhæfni sumra er takmörk sett. Og sjálfstæð ungmenni eru ekki síður í hættu en þeir sem dragast með strauminum.  

Verum vakandi, hlustum!

 2009 Mars: Winnenden -16 dánir!

Listi yfir svipaða atburði:

September 2008:Finnskur 22 ára strákur skýtur 10 manns í Kauhajoki í vestra Finnlandi. Níu nemendur og einn kennari deyja. Hann skýtur sig síðan sjálfan eftir ódæðið.

Nóvember 2007:Finnskur 18 ára strákur skýtur 8 manns í Jokela, 50km norður um Helsinki. Átta deyja, en 13 særast. Hann skýtur sig síðan sjálfan eftir ódæðið.

Apríl 2007:Bandarískur 23 ára nemandi drepur 33 nemendur og starfsmenn Virginía Tech í Blacksburg i Virginíu. Hann fremur sjálfsmorð eftir ódæðið.

September 2006:Í ríkinu Wisconsin í Bandaríkjunum skýtur 15 ára strákur í bænum Cazenovia skólastjórann sinn.  

September 2006: Strákur, 25 ára skýtur til dauða eina manneskju og særir 20 áður en lögreglan skýtur hann í klessu, eða nær til ókennis.

Nóvember 2005:Staðgengill rektors er skotinn af 15 ára strák í skóla í Jacksboro í Tennessee í Bandaríkjunum.   

Mars 2005:Eftir að hafa myrt tvo ættingja, skýtur 16 ára nemandi í skóla í Red Lake í Minnesota 5 samnemendur sína og einn kennara.  Eftir morðin, skýtur hann sig í hausinn.

September 2003:Í Cold Spring í Minnesota, skýtur 15 ára strákur tvo jafnaldra sína. 

Apríl 2003: Skólastjóri í skóla í bænum Red Lion í Pennsylvania er skotinn til bana af 14 ára nemanda sem síðan tekur sitt eigið líf.

Apríl 2002:Í Gutenbergmenntaskólanum í Erfurt í Thüringen flippar 19 ára strákur. Hann banar 12 kennurum, 2 nemendum, skrifstofukonu og einum lögreglumanni. Eftir ódæðið skýtur hann sig sjálfan.

Mars 2001:Í Santee í Kaliforníu drepur 15 ára strákur 2 skólabræður sína og særir 13 aðra. 

Maí 2000: Flórída fær líka sinn skerf þegar 13 ára strákur skýtur kennarann sinn í skóla í Lake Worth.

Febrúar 2000:Krakki, 6 ára gamall skýtur annan sex ára strák í skóla í Mount Morris Township í Michigan í Bandaríkjunum. 

Nóvember 1999:Í Deming í ríkinu Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum skýtur 12 ára strákur 13 ára skólafélaga sinn og drepur hann þar með.

Apríl 1999:Í Columbine High School i Littleton í Colorado skjóta tveir nemendur 12 nemendur og 1 kennara áður en þeir taka sín eigin líf.


Bambar

Þegar ég vaknaði í morgun varð mér lítið út og sá ég þá þessi dádýr skoppandi um í skóginum sem skilur að götuna mína og litla stöðuvatnið Lappkärret (sem er á stærð við hálfa Tjörnina í Reykjavík).

DSCF2020

Litlu fallegu hirtirnir sem hafa verið að skoppa hér í skóginum eru kallaðir rovdjur hérna úti og eru til út um alla Svíðþjóð og mest alla Evrópu. Latneska heitið er (Capreolus capreolus) og eru dýrin lítil og létt eða um 20-30 kg.  Hérna fyrir utan húsið þar sem ég bý á Norra Djurgårdslandet hafa fjögur dýr verið að trítla þetta fram og til baka í fæðuleit í morgun.  Datt í hug að skella in mynd af tveimur þeirra. Eins og sjá má hefur snjóað hérna og verður ekkert lát á snjókomunni fyrr en eftir 2 daga. 

DSCF2022


Af hverju er þeim svona áfram um að selja Ísland?

Já spurningin hangir alltaf yfir allri ESB umræðunni og vekur í raun óhug hjá mér! Hvað er það sem Evrópubandalagssinnar sjá sem ég ekki sé?   Kannski eru það öll tækifærin.  Kannski eru það glampandi EURO smápeningarnir. Kannski eru það landamæralaus og tollalaus viðskipti við ESB löndin.  Íslendingar munu bara sjá cent og EURO mynt, því enginn Íslendingur mun hafa efni á að eiga EURO seðla. Tækifærin, jú fyrstu árin verða eflaust dýrðleg. Stjórnmálamenn verða boðnir í fjölda veislna og kampavínið mun fljóta - en bara fyrsta árið.  Eftir það fer róðurinn að þyngjast og íslenskir stjórnmálamenn munu sjá að þeir hafa lítið eða ekkert að segja um þróun mála í Evrópubandalaginu. Já, sennilega kemur að því einn daginn að stóru fjölmennu þjóðirnar krefjast lagabreytinga þess efnis að fjöldi íbúa í landi eigi að ráða atkvæðavægi einstakra landa. Þessi umræða fæddist fyrir nokkrum árum.  Henni vex fiskur um hrygg.  Hvar standa þá Íslendingar með sín sérmál, kröfur um að fá að stjórna fiskveiðimálum og landhelgi sinni?  Það er hlálegt að ætla að óreyndir íslenskir stjórnmálamenn ætli að eiga eitthvað í þá hákarla sem hafa verið aldir upp frá barnæsku til að gegna embættum í sínum löndum og stjórna nú í ESB.  Mér óar barnaskapurinn. 

Hið sorglega í öllu er afneitunin. Loforð um sjálfstæða stefnu Íslands i einstökum málaflokkum er eitthvað sem breytt yrði með reglugerð yfir nótt í Bruxelles. Þannig er það. Stærri þjóðir eins og Svíar t.d.  (næstum 9,5 milljónir) eru farnir að finna fyrir því hversu róðurinn mót bákninu er farinn að þyngjast.

Umræðan einkennist af fádæma hugmyndaleysi um aðrar mögulegar lausnir. Hvaða leikfélaga við eigum að velja okkur og hvort við viljum að leikfélagar okkar séu jafningjar okkar eða ei?

Síðan er líka vert að gleyma ekki að verði ekki dvölin okkur svo sælurík sem margir vilja spá, og við viljum úr bandalaginu; þá er það ekki hægt!  Dyrunum er lokað á eftir okkur og þær soðnar í falsinn.


mbl.is Ný ríkisstjórn um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óafturkræf óheillaþróun

Þessi skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar er gula spjaldið fyrir okkur hér í löndunum í norðri. Í köldu veðurfari norðurlandanna tekur það náttúruna mun lengri tíma að ná sér en í heitari löndum þar sem gróðurinn er fljótari að fylla í eyður sem skapast þegar við mennirnir tökum að breyta, eyða og "bæta". En minnkandi fljölbreytni í gróður- og dýraríki (flora og fauna) er hryggileg staðreynd sem við íbúar norðursins verðum að axla okkar ábyrgð á.

Finnur Jónsson

Beinin hennar Stjörnu [1934] eftir Finn Jónsson, olía á striga [90cm x 106cm]

Eyðilendur og lífríkisauður á undanhaldi er dæmi um hnignun. Stórar lendur hafa verið skaðaðar með lagningu háspennulína, vega, slóða, skála, virkjanna og uppistöðulóna.  Auðlendur Íslands liggja ekki bara í fisveiðum og virkjunar vatnsfalla og háhitasvæða, heldur í öræfum landsins, hinu ósnortna landi, þar sem fjölbreytni lággróðurs, skordýra, hins sanna villta landslags þar sem háspennulínur tjalda ekki sjóndeildarhringinn og landrof verður vegna yfirborðssveiflna uppistöðulóna. 

Við höfum fengið gula spjaldið. Þegar rauða spjaldið kemur er allt um seint!


mbl.is Líffræðilegur fjölbreytileiki minnkar á Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænir bílar. Hvað er nú það?

Þegar ég var að leggja inn athugasemd við áhugavert og að venju málefnalegt blogg Hjörleifs Guttormssonar, skaut upp kollinum samstæðu orðin "umhverfisvænir bílar".  "Jahá" hugsaði ég "eru til 'umhverfisvænir bílar'?"  

Nei, ég held nú aldeilis ekki. Þetta er þversögn í sjálfu sér og nokkuð sem við ættum að reyna umorða eða taka bara alveg út í tali okkar.  Bílar geta ekki verið umhverfisvænir. Þeir eru vegna sjálfra sín, gerðar sinnar og notkunar óumhverfisvænir.


Swedbank í erfiðleikum tekur á mót neyðaraðstoð Sænska seðlabankans

Helst í fréttum nú í Svíaríki er hrun eins stærsta banka Norðurlandanna; Swedbank (gamla Föreningssparbanken).  Ríkið hefur ekkert val. Annað hvort er að láta bankann fara á hausinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir milljónir manna eða koma bankanum til aðstoðar með fleiri milljarða sænskra króna hlutabréfakaupum. Um er að ræða 3,3% hlutabréfa í dag og svo síðar mun bætt við auknum eignarhluta. 

Fólk flýr bankann. Sparifjáreigendur standa í röð utan útibúa bankans og vilja tæma reikninga sína og flytja í aðra stöðugri banka.  Rætt er að að baki þessa hruns sé undirróðursstarfsemi kauphallarstarfsmanna sem vildu á sínum tíma hvetja fólk til hreyfinga á hlutabréfum.  Því hefði skipinu verið vaggað, en full mikill sjór hafi komið innbyrðis og því væri nú svo ástatt sem raun ber vitni um.

http://www.dn.se/ekonomi/staten-gar-in-som-agare-i-swedbank-1.816162

http://www.dn.se/ekonomi/swedbank-rusade-pa-svajig-bors-1.816755


mbl.is Svör við efnahagsvandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er blessuð blíðan, eða?

Óveður á Kjalarnesi, ófært á Fróðárheiði og Öxi lokuð. Hér í Stokkhólmi hefur snjórinn aldrei náð meir en 15cm þykkt og hér verður sjaldan verulegt rok.  Kuldinn hefur farið niður í -16°C, en þá hafa verið stillur og besta veður. Aðal vandamálið er að jafnvel þótt daginn sé farið að lengja er búið að vera þungskýjað hér yfir Svealandi mjög lengi.  Stokkhólmur hefur ekki séð sól í næstum því 9 daga.

Ekki sólarglennu!  Kannski að sólin hafi farið í "sólsemester". Það er nú farið að nálgast þann daginn að ég leggi mig í ljósabekk og safni svolítið lit á mig. Fólk er farið að labba á mig, líklega er ég gegnsær orðinn af ljósleysi, svona eins og kúpifiskur. Sá að kona í strætó var að reyna að lesa auglýsingu í gegnum mig í gær!  Skúmt!!!

 vegagerdin

Nú var ég að heyra í veðurfréttunum að það gæti farið að snjóa úr þessum grámuggulegu og þungu skýjum sem hanga hér yfir þessari fallegu borg. Vonandi fer svo vorið að koma. Finnst eins og maður sé að sofna þótt maður sé nývaknaður. Ég þarf bara á sól að halda, D-vítamín í kroppinn.


mbl.is Víða þæfingsfærð á heiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband