Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skollaleikur Gordons Brown

Það er ljóst að það er sama ruglið í gangi í Bretlandi og sömu gömlu klisjurnar notaðar hjá Gordon Brown og hjá fyrri ríkisstjórn Íslands. Þeir eru fyrir löngu búnir að gera á sig, þeir vita það og lýðurinn finnur fnykinn. Lýðurinn horfir dáleiddur á og hugsar með sér; "það er eitthvað lyktarskyninu hjá mér og sjóninni - Gordon og Geir hafa alltaf verið svo góðir gæjar."  En fólkið sá og sér rétt og ekkert er að lyktarskyninu.

Ljót lygin í gegnum árin hefur blindað þjóðina. Rausið og þunn en snúinn röksemdafærslan sýnir að hún stenst ekki. Fjármálamarkaðir Evrópu eru að krafsa í neyðarsjóði hagkerfa sinna landa. ESB ræður ekki við að skapa heildstæða aðgerðastefnu, stóru löndin Þýskaland, Bretland og Frakkland bjarga sínu eigin skinni og nýinngengnu löndin í austri eiga vart til hnífs eða skeiðar vona bara að einhver heildarstefna verði sett í framkvæmd til bjargar efnahagslífinu. Þeirra vonir verða að engu og hvern dag fækkar brauðbitunum sem falla af borði ríku ESB þjóðanna. Enginn verður saddur af því að sleikja mylsnu.  

Innviðir ESB eru graut fúnir. Efnahagsstefnan var aldrei til, heldur var hún aðeins blek á pappír. Orðin "sameiginleg efnahagsstefna" voru sem gildra sem austur Evrópulöndin stigu í og sitja nú föst.

Í þessum lygavef stendur Gordon Brown upp og krefst "aukins siðferðis". Hvílík hræsni. Hann talar um að lok "ábyrgðarleysis og óhófs" væru nauðsynleg.  Hann ætti að gera öllum hinum vitiborna heimi þann greiða að segja af sér og munstra sig á hjálpargagnaskip á leið til einhvers þess lands þar sem Alþjóðagjaldeyrisstjóðurinn hefur lagt allt í rúst.  Þar er þörf fyrir brauð og vatn. Fátækar þjóðir eru siðprúðar og lifa ekki í óhófi.  Óhóf og siðleysi sprettur upp þar sem allsnægtirnar eru sem mestar!


mbl.is Brown neitar að hann beri ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíðið við: Kemur þetta ykkur á óvart?

Mér verður flökurt! 

Ég vona að þessar fréttir komi ekki fólki gersamlega á óvart, því slíkt væri grunnhyggni. Ég held að frá því að efnahagshrunið var staðreynd á Mikjálsmessu (29. sept) hafi ég í raun búist við því að einhverjir kæmust að því hversu spillingin var algjör.  Mér var sagt við upphaf málsins, þá er ég sagði að leita ætti fjármuna á erlendum reikningum á Jómfrúreyjum, Cayman Island, Liechtenstein og öðrum skattaparadísum, því eðli spillingar er jú alltaf það sama. Skiptir engu á hvaða tímum við lifum, spillingareðlið er hið sama: Reynt er að græða með óheilindum og siðleysi á tá og fingri þar til allt er að bresta. Þá er hlaupið í skjól og vanþekkingu kennt um.  Síðan hverfa þessir bófar undir jörðina og lifa í hamingjusamri spillingu í fjarlægum löndum. 

Nú vona ég að íslenska þjóðin sæki sitt réttlæti og svífist einskis. 


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing = djörfung og lýðræði

Varð glaður í mínu hjarta þegar ég las fréttina um tillögu að stjórnlagaþingi. Nýtt lýðræði, viðreisn góðra lýðræðislegra stjórnarhátta og hugsjónar.  Þannig sé ég hlutverk stjórnlagaþings. Stjórnarskráin verði endurmetin og látin leiða okkur inn i 21. öldina - aukið "beint" lýðræði, þjóðarkosningar um stærri málefni, aðskilnaður ríkis og kirkju, mannréttindamál, jafnréttismál, aukið vald til forseta í vissum aðstæðum, utanríkisstefna og fullveldi landsins, umhverfisstefna og hlutleysi í hernaðarbrölti nágrannalanda.   Jú að mörgu fleiru er að hyggja.  Vonandi kemst þetta á án of mikilla mótbára Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Þessir flokkar mega og fá ekki að standa gegn lýðræðisbótum. Það er ekkert "viðbjóðslegt" við stjórnlagaþing, Birgir Ármannsson - jafnvel þótt það sé ekki "hefð fyrir því" og jafnvel þótt Davíð hafi ekki talað um það áður.   :)
mbl.is Stjórnlagaþing kosið í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Edgar Hoover

Í bloggi sínu lætur Haraldur Bjarnason að því leiða að framsóknarmenn óttist hugsanlegar uppljóstranir Davíðs Oddssonar, eins bankastjóra Seðlabanka Íslands, og vilji því fresta vinnslu frumvarps til laga um Seðlabankann. Það er sami aumingjaskapurinn hjá Framsóknarflokki. Kannski sátu þeir of lengi við fótaskemil Davíðs í forsætisráðherratíð hans, hver veit. Kannski voru bitlingarnir of margir til að hægt væri að fela þá með góðu móti og þetta veit Davíð kannski.

J E Hoover (mynd)  D Oddson (mynd)

Ég minnist þess sem sagt var um einn fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, einn John Edgar Hoover.  Um hann var sagt að hann væri sá Bandaríkjamaður sem ENGINN vildi atast í eða vekja illsku hjá, því hann ætti í sínum fórum leyniupplýsingar um alla helstu ráðamenn ríkisins, fyrrum ráðamenn og verðandi ráðamenn - og ekki nóg með það, heldur var í upplýsingasafni hans fjöldinn allur af útlendum ráðamönnum á öllum sviðum. John Edgar Hoover var semsagt "ósnertanlegur".   Hann vissi allt, ALLT um fjármál, stjórnarathafnir, átti meðal annars gott safn óbirtra ljósmynda og var þekkingarbrunnur um allt það sem ekki var almennt vitað. Hann mun ekki hafa hikað við að opna skjalaskápa sína þegar einhver tróð honum um tær.

Mér finnst þetta með "upplýsingarnar hans Davíðs" bera vissan keim af skjalaskápshótunum téðs forstjóra FBI, ef marka má orð Haraldar bloggara Bjarnasonar. Er þessu svo illa komið hjá okkur á Íslandi að þetta geti verið satt?   Að fyrrverandi stjórnmálamenn sem ekki geta endanlega slitið sig frá fyrri störfum haldi "skjalaskáp" heima?  Varla.  Eða...

_____________

Hér er bloggið hans Haraldar Bjarnasonar: http://hallibjarna.blog.is/blog/hallibjarna/entry/811412/


mbl.is Skynsamlegt að bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið eitt kjördæmi - fækkun þingmanna

Íslendingar eru ríflega 300 000 talsins. Nema beitt sé beinu lýðræði í kosningum verða landsmenn að treysta á fulltrúa sína, þingmennina, til að ráða fyrir sínum málum. Þetta kallast fulltrúalýðræði.

Landinu hefur löngum verið skipt upp í kjördæmi þar sem fjöldi atkvæða bak við kjördæmakjörna þingmenn hefur verið mismunandi.  Í þessu hefur falist öfugsnúin byggðastefna. Mín tillaga er sú að  að sameina ber allt landið í eitt kjördæmi. Gefa ber kost á persónukosningu.  Um leið ber að fækka þingmönnum á Alþingi úr 63 í 50 eða um 13 þingmenn. Nú er unnið að því að fækka fastanefndum þingsins. Ber um leið að fækka þingmönnum. Koma ber í veg fyrir að þingmenn sitji sem ráðherrar, heldur fái starfsfrið til að sinna þingmennskunni einni og þá þeirri nefndasetu sem þörf er á. Sérhæfir einstaklingar séu síðan kallaðir til ráðherrastarfa. Þeir hafi ekki kosningarrétt á Alþingi.

 


mbl.is Frumvarp um fækkun nefnda komið fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ryksugan á fullu, étur alla drullu...

Nú er komið að hreinsunum áratugarins ef ekki aldarinnar. Hin íslenska "nomenklautura" eða bestuvinafélagið, er með ríkisvaldi lagt niður.  Svangir úlfar auðvaldsins ráfa ekki lengur um stræti borgar og bæja leitandi að smápening almúgans. Börnin eru farin að þora aftur út á göturnar með vikupeninginn sinn upp á vasann og sólin er farin að skjóta einstaka geisla niður á kalinn svörð.  Pilsin fara að styttast og brosin að breikka.

Nú hafa Davíð og félagar hans í Seðlabankanum hafa fengið rauða spjaldið. Þeirra er að gera eins og maður sér í bíómyndunum; að taka pappakassa og stinga í hann myndum, persónulegum munum og litlu grænu plöntunni ofan á allt.  Jóhanna forsætisráðherra er að taka til. Nú er sungið:

Ryksugan á fullu étur alla drullu,
lalalala, lalalala, lalalala.
Skúra skúbb´ og bóna ríf´ af öllum skóna,
lalalala, lalalala, lalalala.

Og ef þú getur ekki sungið reyndu þá að klappa.
Og ef þú getur ekki klappað reyndu þá að stappa.
Svo söngflokkurinn haldi sínu lagi.
og syngi ekki sitt af hvoru tagi.       (Ólafur Haukur Símonarson)

 

rekinn 

Þetta ástand í íslenskum sérmálum átti ekki að koma neinum á óvart. Ég set í dag spurningarmerki við menntun háskólanna í viðskipta- og hagfræði.  Einn gamall kennari sem ég talaði við fyrir tveimur árum síðan sagði við mig um efnahagslífið á Íslandi ætti allt eftir að fara fjandans til. Að ef fólk gerði ekki eitthvað í því að stöðva taumlausa eyðsluna eða hvað hann nú kallaði fjármálapláguna myndi þetta allt keyra um koll. Þetta var tæpum 2 árum áður en allt hrundi á Mikjálsmessudag 2008. 

Þetta sannarlega hreyfir hugann í átt að sögu Hans Christian Andersens um Nýju fötin keisarans.  Auðtrúa almenningurinn keypti röksemdafærslu bankamanna og þeirra sem sýsluðu með hlutabréf. Allir dásömuðu þetta allt, fannst þetta frábært og fólkið skyldi ekki að það lifði á innihaldslausum peningabréfum, inistæðulausum tékkum ráðamanna banka og ríkis. Skjóti gróðinn var eins og glópagull. Blekkti það eins og alvöru gull og enginn vildi hætta á fylleríinu svo enginn sagði það sem ekki mátti segja. Svo voru það nokkrar svangar hjáróma raddir sem skyndilega sögðu eins og litli strákurinn í ævintýri H.C.Andersens: Já, enn hann er nakinn, Davíð er nakinn ... og .... og allir stjórnendurnir eru naktir.  Hí hí hí...  og loks skellti allt fólkið upp úr.  En skjótt kárnaði gamanið og veislunni var slitið.

Kennarinn sagði að allir hefðu vitað, bara enginn sagði neitt!  Meðvirknin var fullkomin. Núna situr ein biturðin eftir.  Sjálfstæðismenn leiðir yfir því að fólk vill ekki vera "memm" lengur.  Hinir krakkarnir svara núna: Nei þið eruð hrekkjusvín, stelið og ljúgið!  Við viljum ekki vera með ykkur lengur.  Farið! 

Já og núna er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að bretta upp ermarnar. Nú skal skúra skrúbba og bóna. Ryksugan er á fullu.  Fækkun, einföldun og skilvirkni eru mikilvæg orð nú. 

Góðar kveðjur til Íslands og til Jóhönnu forsætisráðherra. Sannarlega er hennar tími kominn!


mbl.is Jóhanna og Davíð ræddu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bravó Steingrímur!

Þetta fannst mér eitt það gáfulegasta sem ég hef heyrt frá stjórnmálamönnum í lengri tíma. Segjum upp IMF samstarfinu og setjum okkur í náið viðskipta og fjármálasamband við Noreg. Byggjum nýtt Norðurlandaráð og tengjust norsku krónunni.  Þetta hljómar mjög vel. Síðan bjóðum við Grænlendingum og Færeyingum að vera með, Danir og Svíar fá að vera með ef þeir vilja og gerum svo samninga við Kanadamenn og Bandaríkjamenn um tollabandalag.  :)   

Hljómar eins og nammi í eyrum mínum. Skítum í Evrópusambandið og sýnum og heil stjórnmálastefna og ekkert skítamakk á heima hjá okkur og innan okkar sambands.  Heiðarleg stjórnmál og sameiginlegir hagsmunir þessara þjóða norðurhafa geta verið styrkur okkar. 


mbl.is Hugnast norska krónan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir úr stjórnarmyndunarviðræðum

Mikið var ég glaður að fyrsta skrefið sé nú tekið í átt við það sem ég hef svo lengi þráð; að skilið verði milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þetta byrjar í smáum stíl, en brátt vona ég að fólk skilji hvað þetta er mikilvægt. Þetta varðar gerð heilbrigðrar löggjafar á þingi og starfsfriðar framkvæmda- og löggjafarvalds.  Ég vona innilega að stjórnlagaþing muni taka fyrir þessar hugmyndir og setja þær í réttan farveg. 

Óska ég stjórnarmyndunarviðræðufólki alls velfarnaðar í að taka fyrstu skrefin í átt að nýju lýðræði og auknu beinu lýðræði í landinu.  Gott framtak að velja einstaklinga sem ekki hafa þingsetu til ráðherrastarfa.  Fleiri takk!

Fjögur helstu málin sem ég vil að tekin verði fyrir í stjórnarskrá:

a) Aðskilnaður löggjafarvalds- og framkvæmdavalds.

b) Aðskilnaður ríkis og kirkju.

c) Þjóðaratkvæðagreiðslur í stærri málum.

d) Aukið vald forseta Íslands.


mbl.is Tveir ráðherrar utan þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að því hvernig best sé að reka bankastjóra Seðlabankans

Mér datt í hug eftir allt það tal um stórfelldar skaðabætur til Davíðs Oddsonar og hinna bankastjóranna í Seðlabankanum ef þeim yrði nú vikið frá að það sé til lausn á vandanum.

Sú lausn myndi einfaldlega felast í því að annað (a) hvort breyta starfshlutverki bankastjóranna svo að þeir fái nýtt starfsvið og einangrist áhrifalausir inni á skrifstofum sínum.   Eða (b) að ríkisstjórnin lýsi vantrausti á bankastjórunum og hætti einfaldlega að hafa samskipti við þá. Þannig verði þeir eylönd og án trausts þjóðar eða þings.   Hverjum er sætt í slíkri stöðu?   Þannig þarf ekki að greiða þeim neina "bætur" eða gera "starfslokasamning" við þá. 


mbl.is Óbreyttir stýrivextir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfur sigur unninn!

Nú er að vona að forseti Ísland, herra Ólafur Ragnar Grímsson ræði við formenn stjórnmálaflokkanna og geri þeim grein fyrir að hann hyggist kalla til utanþingsstjórn. Utanþingsstjórn setta sérfræðingum innlendum sem erlendum. Hér verði að ausa með öllum tiltækum ráðum og þekkingu og til slíks er utanþingsstjórn heppileg.

Reyndar sleppur Geir Haarde við að reka Davíð núna, enda aldrei maður í að takast á við Davíð Oddsson. En einhver annars tekur á því máli.  Þau eru mörg þjóðfélagssmálin sem eru farin að svekkja landann og ýldan illþolanleg.

Nú gildir að bretta upp ermar og taka á vandanum af dugnaði og víkja sér ekki undan að stinga höndum í fúlan pyttinn og kreista þjóðfélagskýlin. Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband