Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
2.10.2008 | 18:14
Ekki þjóðstjórn, heldur forsetaskipaða sjálfstæða utanþingsstjórn
Já það er gaman að sjá skelfingarglampa í augum þeirra sem kallast mega feður þeirrar óstjórnar sem nú ríkir í atvinnu- og efnahagsmálum á Íslandi. Kannski er þetta hin svokallaða þórðargleði sem nú hefur skotið upp kollinum hjá mér. Ekki gott það! En með fyllstu virðingu, eða það sem eftir er af henni hjá mér fyrir stórnvöldum á Íslandi, verð ég að segja að nú er tími til kominn að allir leggist á eitt til að bjarga því sem bjargað verður.
1) Enginn fær hærri mánaðarlaun en 600 000 í landinu í 2 ár.
2) Allur kostnaður sem greiða þarf til ríkisins verði frystur, svo engar breytingar verði þar á í 2 ár.
3) Kaup á nýjum atvinnutækjum s.s. bílum, traktorum, skipum eða flugvélum verði bannaður í 2 ár.
4) Bankar setji raunhæf gjöld fyrir þjónustu sína. Sama á við um vaxtaþróun í landinu.
5) Alþingi verði sent heim, launalaust (sama gildir um ráðherra).
6) Sett verður utanþingsstjórn, skipuð af forseta, sem kallar in ópólitíska ráðgjafa sem verða settir ráðherrar í fyrirfram ákveðinn tíma.
7) Krónan verði tengd norsku krónunni.
Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2008 | 10:10
Nú er þetta á allra viti
Svíarnir virðast hafa verið með á nótunum nokkuð snemma og núna halda nokkrir að sé höndunum með að skipta íslenskum krónum, en það gekk ekki í morgun hjá gjaldeyrisþjónustufyrirtæki einu til dæmis. Þeir hreinlega vissu ekki hvað íslenska krónan hafði minnkað í verðmæti. Eða eins og einn starfsmaður ónefnds gjaldeyrisþjónustufyrirtækis hér í borg sagði: "Við getum ekki verið að eltast við nýjar og nýjar tölur af falli þessa gjaldmiðils" - við verðum að hafa réttar upplýsingar þegar við verslum með mynt". Usss.....
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=3130&a=833949
Ríkið eignast 75% í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2008 | 12:58
Sæll dúði, viltu ekki starf á Íslandi?
Auðvitað hlýtur þessum "heimsku bankastarfsmönnum" að vera boðin vinna á Íslandi. Þó það nú væri. Þeir hljóta að vera með þeim bestu og passa fullkomlega inn í það starfsmynstur sem tíðkast á Íslandi í banka- og fjármálastjórn og standast allar kröfum um þekkingu í fjármála"heimi" Íslands. Þetta eru aular sem stæðu þeim öðrum sem stunda fjárstreymisstýringarstjórnun á Íslandi ekki aftar; hvorki í þekkingu né dugnaði.
Síðan er spurning hvort þessir bankaaular skuli ekki fá að spreyta sig í stjórnmálunum á Íslandi. Ferilsskráin myndi ekki vera lakari en þeirra sem standa í ráðuneytunum og stýra okkar málum.
Velkomnir!
Heimskustu bankamenn Þýskalands reknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 18:32
Öll egg í sömu körfu
Heildarkrafa íslensku bankanna á Lehman 25 milljarðar króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 08:59
Kauphallarsvik - eða bara að kunna spila út sínum spilum?
Nú hefur það gerst á ný innan "Kauphallar Íslands" að einhverjum hefur gleymst að lesa reglurnar. Æji, en leiðinlegt. En hvaða máli skiptir þar svo sem? Aurarnir sem þið eruð að velta fyrir ykkur eru hvort eð er bara ímyndaðir peningar. Það er ekkert raunverulegt með það sem þið eruð að gera. Ég hugsa oft til ævintýri Hans Christians Andersen um Nýju fötin keisarans. Þetta snýst bara um að enginn vill viðurkenna staðreyndir: Að pengingarnir sem þið spilið með eru ekki til. Fyrirtækin sem þið eruð að kaupa og selja eru knappast til, nema þá sem kennitölur eða skuggar þess sem þau eiga að vera, en annað ekki. Fyrirgefið mér ef ég segi óþægilega hluti, en hér æpir barnið: Hann er allsber, keisarinn er ekki í neinu!
Læt að gamni fylgja með ljóð Steins Steinarr:
Að sigra heiminn er eins og að spila á spilmeð spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði.)
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
Kauphöllin áminnir og beitir Nýsi févíti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 17:24
Farið í bankann og takið út peningana ykkar meðan enn er tími
Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
[...]
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Þegar mann setur orðlausan, er best að þegja ellegar notast við orð þeirra sem ekki höfðu ástæðu til að verða orðlausir. Jónas Hallgrímsson, eitt þjóðskáldanna gaf tilfinníngum mínum orð og þakka ég honum þau. Drápan Ísland ort sennilega eitthvað kringum árið 1835. Orðin fá nýtt líf og mér verður hugsað til síðustu ferðar minnar til Íslands núna á dögunum. Jónas hafði verið á Þingvöllum og séð sjálfur, með eigin augum fornaldararfinn. Samangrónar þóftir og mosavaxnar breiður á fornum götum þingmanna liðinna tíma. Hugur hans leiddi tilbaka til þess tíma sem söguskrif miðalda greina frá; glæsilegum mönnum og konum, nýsigldum frá löndum aðeins af nöfnunum þekkt, hlaðnir frásögum, fréttum og afrekslaunum hið ytra. Á völlunum gaf að líta þverskurð hinnar hreyfanlegu þjóðar á Íslandi, þeirra sem áttu heimangengt, þeirra sem áttu erindi, voru erindi eða vildu efna til erinda. Hér voru lokadómar kvaðnir upp, hér mættust heiðnir og kristnir. Hér mættust menningarheimar. Það er skrýtið að hugsa til þess að Þingvellir séu komnir á heimsmenningarverðmætalista UNESCO. Verndun og viðgangur staðarins er í brennidepli, nýtt klósett hefur verið reist síðan ég var á Þingvöllum síðast. Jú og einn stuttur útsýnispallur hefur skotið upp kollinum. Þingvellir, þessi margmerkilegi staður hefur verið settur undir vernd heimssamtaka. Einhvernveginn finnst mér það gott - en samtímist hryggilegt. Staðurinn er í öndunarvél að nauðsynjalausu. Þingvellir mega ekki ofverndast, heldur ekki troðast niður. Þangar sækir íslenskt lýðræði sinn styrk, ekki á Austurvöll. Þangað ætti fólk að streyma og dvelja, staldra við og spyrja sig: Bíddu - erum við á réttri leið?
Það laukst upp fyrir mér hversu mikið allt hefur í raun breyst á Íslandi. Ekki bara þau rétt fjögur ár sem ég hef búið í Svíþjóð, heldur líka þau ár innan ég fluttist sem ég kannski var blindur á breytingarnar. Ég hugsa oft til Íslands. Mér virðist sem Íslendingar séu allir á fjárhagslegum og andlegum sjálfsmorðshugleiðingum. Mig langaði mest að æpa: VAKNIÐ! Hvað er að Íslendingum í umferðinni, hvað er að því að standa í röð, hvað er að því að geta ekki keypt neitt fyrir 10kr pening? Ég man þegar ég var að læra sund í Breiðagerðisskólasundlauginni, að ég tók oft með mér kannski 2kr. Fyrir 10aura fékk ég litla súkkulaðikúlu/súkkulaðismáegg í litfjörugum álpappír í Grímsbæ. Ég keypti kannski 10 smáegg og hélt eftir hinni krónunni til seinni tíma.
Lehman Brothers er eitt dæmi þess sem er að gerast. Fólk skilur ekki fjármál lengur. Fólk líður af ónæmi fyrir tölum. Enginn er á varðbergi lengur fyrir því sem er í raun að gerast. Á laugardagskvöld sem var vorum við nokkur hérna heima og eftir að hafa borðað góðan mat sátum við og spiluðum Matador (eða það sem oft hefur líka verið nefnt: Monopol). Mér fannst eins og ég væri hreinlega að spila með alvöru peninga. Þangað til einhver sagði við mig; "Baldur vertu djarfur, kauptu götu, betra að kaupa hana en missa af henni næst". Mig vantaði ekkert umrædda götu, átti ekki neitt í þessum lit og ver á höttunum eftir einhverju annari. "Kaupi ég hana, á ég ekki næga peninga til að brugðist við áhættuspilum og leigugjöldum" sagði ég og ætlaði að gefa teningana til næsta spilafélaga. "Veðsettu bara eitthvað" var svarið. Ég hugsaði með mér: WOW, er þetta svona sem efnahagsspekúlantar hins "vestræna" heims hugsa? Er þetta jafn alvörugefið allt? Getur verið að það sé jafn mikið fjárhagslegt fastland að baki gjörða þeirra og þess sem ég átti að gera í spilinu?
Innistæður eiga bankarnir engar á Íslandi. Allir ættu að fara á morgun og taka lausafé sitt út og reyna að koma þeim í erlenda valútu. Íslenska krónan er að verða einskis virði og bankarnir tómir að innan eins dæmin munu sanna. Stórar tölur og orð háttsettra manna í efnahagslífi og "fjármálafyrirtækjum" eru orðin tóm. Þessi leikur með prósentur, vaxtatölur, hlutabréf, lánskostnað, efnahagsspár, ríkisfjármál, afkomutölur eru orðin tóm. Því miður!
Ekkert fyrirtæki er eins mikils virði og það er skrásett á hlutabréfaþingi. Þetta eru allt: Óraunverulegar tölur, peningar sem ekki eru til og leikur með fólk og eiginfé þess.
Mér verður enn og aftur hugsað til frásagnanna af efnahagshruninu í Bandaríkjum Norður Ameríku á þriðja áratugnum. Þetta er að verða staðreynd aftur.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2008 | 07:40
"Viðskipti er að selja eitthvað sem þú átt ekki til, til einhvers sem þarf það ekki"
Ég sat stutta stund við sjónvarpið hérna og horfði á spjallþátt um viðskipti. Nokkrir spekúlantar úr viðskiptalífinu sátu og ræddu forsendur viðskipta og ræddu fjálglega um merkingu "framboðs og eftirspurnar". Ég horfði stutta stund, en svo gleymdi ég alveg þættinum og fór að hugsa: Hvað ef maður gæfi sér nýjar forsendur. Ef þetta var ekki sem þeir spekingarnir sögðu, hvað ef þetta var allt lygi. Hvað ef bak við alla þessa fjármálamarkaði, viðskiptamarkaði með vörur og hráefni væri bara til á pappírum en ekki í veruleika. Raunar hef ég lengi vitað "með sjálfum mér" að slíkir fjármunir sem rætt er um í fjölmiðlum eru ekki í raun til. Einn ríkur maður í Svíþjóð var einusinni spurður af hverju hann væri ekki akandi um á fínum nýjum bíl og íklæddist fínum dýrindis fötum? Hann sagði við þann sem hann talaði við að í raun ætti hann ekki svo mikið af peningum, hans lifibrauð fengist af vöxtum af hlutabréfum og framgangi þeirra. Hlutabréfin væru ekki pappírsins virði, en vextir og framgangur hlutabréfanna gerðu að hann fengi öðru hverju penginga. Jafnvel þótt hlutabréfin hans væru metin á stórfjárhæðir, vildi hann ekki lifa um efni fram, þar sem að það væri bara gróðinn sem hann lifði á, en grundvöllurinn fyrir afgreiðslum af gróðanum væri svo veikur að hann þyrði ekki breyta um lífsstíl.
Spilaborgir! Flest þekkjum við til frásagna af verbréfamarkaðshruninu í Bandaríkjunum 1929. Slík staða hangir yfir okkur hvern einasta dag. Hlutabréf með stórum tölum og mörgum núllum eru gefin út á hverjum degi án minstu innistæðu. Með þessi hlutabréf er svo leikið sem þetta væru sannir fjármunir og fólk tekur vexti og fær jafnvel afgreiðslur af öllu síðan. Spilapeningar safna á sig trúverðugleika vegna þess að þeir fara um hendur á svokölluðum "ríkum" mönnum og "kunnáttusömum" og enda svo í skráningu banka og verðbréfafyrirtækja. Uss... að fólk sjái ekki gegnum þetta og hætti svona spilaborðsleik. Svo kemur þetta allt að hrynja. Þá verður vart úr öskustónni staðið og hver bjargi sér best hann getur.
Hér á vel við að benda fólki á að lesa bók Johns Steinbeck um "Þrúgur reiðinnar".
"Viðskipti er að selja eitthvað sem þú átt ekki til, til einhvers sem þarf það ekki."
14.7.2008 | 15:27
Evran... skuggalegar afleiðingar fyrir einkafjárhag
Með orðinu einkafjárhagur á ég við það fjárhagslega umhverfi og forsendur sem einstaklingar lifa við í sínum nærheimi. Þá er ég að tala um þær fjárhagslegu forsendur sem einstaklingar eða fjölskyldur hafa útfrá launum gagnvart vístölum, vöxtum banka, þjónustugjöldum þeirra sömu og svo áhrifþáttum öðrum (matvöruverð, hiti, rafmagn, sími, net, bensín, lækna og lyfjakostnaður ofl.) Með opinberum fjarhag á ég við það sem lítur að alheimsáhrifum á fjárlagagerð ríkisstjórna hvers tíma og svo hvernig þær ríkisstjórnir vinna sig í gegnum sveiflur og áhrifsþætti erlendis og heima.
Það er skoðun mín að með því að taka upp evruna, væri tekið óafturkræft hættuspor fram til óvissu og þrælbindingar þjóðarhags. Fastgengisstefna hefur kosti og galla. Erfitt er að segja að gallarnir séu fleiri en kostirnir, en lítum á staðreyndir málsins. Þau lönd sem tekið hafa mót evrunni hafa flest öll orðið fyrir hækkandi verðlagi. Með það í huga að vöruverð (matvara sérstaklega og eldsneyti) hefur hækkað í verði, hafa þau lönd sem staðið hafa utan evrusvæðisins komist lítið eitt betur frá þessum vöruverðshækkunum. Bretland, Noregur og Sviss. Að ferðast til suðrænna landa og halda að maður sé að spara pening í mat og gistingu t.d. á Spáni, í Portúgal, Ítalíu eða Grikklandi heldur ekki lengur. Vöruverð, matvara og slíkt kostar nákvæmlega jafn mikið og í Svíþjóð, Þýskalandi eða Danmörku.
Að taka upp evru er einnig tilfinningalegt mál. Að tengja íslensku krónuna evrunni, en halda samt áfram að slá íslenska mynt og prenta íslenska seðla er náttúrulega kjánalegur staðreyndarflótti. Ég held að eigum við að binda krónuna einhverri mynt, eigum við að binda hana einhverri tryggri mynt sem hefur ekki Evrópusambandstengingu. Mér dettur í hug norska krónan. Að 10 IKR = 1 NOK. Þetta gæti verið upphafið að nýj myntsambandi milli Noregs og Íslands; að Ísland fái eina hliðina á myntinni og Noregur hina. Af hverju ekki? Þetta er nú bara hugmynd. Ég tel ekki að Ísland eigi að tengjast myntbandalagi eða gengi myntar Evrópubandalagsins þar sem við erum ekki meðlimir. Normenn hafa afar tryggan fjárhag og eru skuldlaus þjóð. Þeir hafa tryggan fót fyrir mynt sinni og því ástæðulaust að hafa áhyggjur af fjárhagsörygginu í framtíðinni.
Kveðja frá einum sem er orðinn þreyttur á að nota íslenska krónur sem eru einskis virði.
Evruhugmynd ekki ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.7.2008 | 09:12
Grátandi börn og æpandi ungviði
Á baðherberginu er svona lofttúða fyrir ofan baðkarið. Svona loft/rakahreynsibúnaður finnst í öllum 34 íbúðum hússins. Í nótt skrapp ég á klósettið og "sat þar í hægðum mínum". Þá rann upp fyrir mér skelfilegur sannleikur þessa húss að líklega sé verið að þrælpína, limlesta eða meðhöndla lítil börn af ólýsanlegri vonsku og hatri. Nei, reyndar ekki. En hljóðið frá lofthreinsibúnaði hússins, er einmitt svo búið að einhversstaðar í stokkum eða rörum, ventlabúnaði eða hreyflum myndast hljóð sem minnir neyðar- og þjáningarhróp bortnumdu barnanna í Pankot Palace í kvikmyndinni um Indiana Jones and the Temple of Doom. Þetta eru hljóð sem minna á ungbarnagrát, sársaukaskræki og breim í köttum. Já, þetta er flott bakgrunnshljóð fyrir hvaða hryllings- eða serialmörderræmu sem helst.
Reyndar setur oft að manni óhug þegar maður villist inn á klósettið svona síðla nætur. Óneitanlega fer maður að skapa sögubakgrunn fyrir þessi ó-hljóð. Ég hef ímyndað mér að á fjórðu eða fimmtu hæðinni séu þrælabúðir með gámainnfluttum börnum, eða börnum sem rænt hefur verið þegar fjölskyldan hefur verið á ferðalagi. Þau sitja þarnar grátandi blessuð börnin og sauma fótbolta fyrir næstu EM keppni, eða spinna fín klæði úr kóngullóarvefjunum sem umlykja hraunkennt ytra byrði hússins. Hver veit. Vegna þess hversu tilraunir lyfja- og snyrtivöruiðnaðarins á dýrum hafa mælst illa fyrir, hafa þessir aðilar tekið að nota lítil börn. Það má vel ímynda sér að einhver þessara barna ólmist sem minkar eða refir í búrum í einhverri íbúðinni á fjórðu eða fimmtu hæðinni. Að grátur þeirra og gnístran tanna skeri sig upp í gegnum loftræstikerfi hússins, gegnum merg og bein allra þeirra sem leyfa sér í þögn Stokkhólmsnæturinnar að fara inn á klósett. úúúúúhhhhhaaaaa...
Það er þetta hérna með krónuna. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég megi fá greitt í vörum, en ekki peningum þegar ég fæ námslánin mín? Íslenska krónan er gersamlega að verða einskis virði. Það er skelfilegt að sjá hvernig námslánin mín verða að engu bara við það að flytja peningana frá íslenska bankareikningnum mínum yfir á þann sænska. Þetta er skelfilegt. Nýhækkuð þjónustugjöld "Kaupthing bank" eru heldur ekki til að hrópa húrra fyrir. Hversvegna er verið að blóðmjólka okkur námsmenn með þjónustugjöldum. Eru bankarnir ekki bara ánægðir að hafa pengingana okkar liggjandi þarna hjá sér?
Ég skil ekki Íslendinga lengur. Er öllum sama? Eru Íslendingar bara svona vanir að vera barðir að okkur fer að þykja barsmíðarnar góðar og þægilegar?
NEI - þetta er illur leikur! Ég VONA að einhver fari nú að gera eitthvað í þessu heima á Íslandi.
Krónan veikist um 2,21% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |